Tölvumál - 01.01.2019, Qupperneq 18
18
Framtíð fjártækni er björt í opnu bankakerfi. Með samstarfi banka og
fyrirtækja getur fjármálaþjónusta orðið fjölbreyttari og aðgengilegri. Í
þessari grein fjallar Hermann Þór Snorrason, sérfræðingur hjá
Landsbankanum, m.a. um möguleikann á því að tengja ýmsar upplýsingar
af samfélagsmiðlum við fjármálaöpp og fá þannig sérsniðin tilboð um
vörur og lánafyrirgreiðslu.
Hugtakið fjártækni á við um ýmsar tæknilausnir er leysa venjulega
bankaþjónustu af hólmi, ekki síst þær sem gefa neytendum aukið svigrúm
til að nýta þjónustu sem þeir telja sér best henta hverju sinni. Þegar rætt
er um opið bankakerfi er átt við að bankar geri öðrum á fjártæknimarkaði
kleift að útbúa forrit (öpp og fleira) sem geta „talað við“ tölvukerfi bankanna.
Þannig geti fyrirtæki á fjártæknimarkaði boðið upp á fjármálaþjónustu
sem áður var eingöngu í höndum banka. Það merkir ekki að bankarnir
hætti að veita bankaþjónustu en á hinn bóginn má búast við að hún verði
fjölbreyttari og aðgengilegri. Bankaþjónusta muni ekki einskorðast við
öpp og netbanka eða aðrar lausnir sem bankarnir bjóða upp á. Vafalítið
munu bankar hérlendis engu að síður taka virkan þátt í þessari þróun og
bjóða viðskiptavinum til dæmis að framkvæma greiðslur í netbanka og
appi af reikningi sem viðkomandi á í öðrum banka.
Strangar reglur gilda um hvaða upplýsingar bankar mega nota í sinni
starfsemi. Önnur fyrirtæki sem munu hasla sér völl á fjártæknimarkaði
eru ekki endilega bundin af sömu reglum. Veiti neytandi leyfi sitt fyrir því
getur fyrirtæki til dæmis tengt saman ýmis gögn sem bankar hafa engan
aðgang að, s.s. samskiptasögu í tölvupósti og spjallþráðum eða
upplýsingar af samfélagsmiðlum. Fyrirtækið getur síðan notað þessar
upplýsingar, s.s. um vinatengsl og áhugamál, til að bjóða upp á sérsniðna
fjármálaþjónustu.
NÝJAR VÖRUR – NÝTT VIRÐI
Eitt dæmi um slíka sérsniðna fjármálaþjónustu gæti t.d. litið svona út: Ef
höfuðborgarbúi er í fríi á Vestfjörðum getur hann fengið sérsniðna
tilkynningu í fjármálaappið um að hann fái vildarkjör hjá tiltekinni verslun
á Ísafirði. Sé um dýra vöru að ræða er líklegt að tilboðinu fylgi lánatilboð
frá nokkrum bönkum sem neytandinn getur valið á milli.
Slíkt app hefur ekki enn litið dagsins ljós hér á landi en ljóst er að
bankaheimurinn stefnir hraðbyri í þessa átt. Nýjum reglum
Evrópusambandsins (PSD2) er m.a. ætlað að auka samkeppni og
neytendavernd á fjármálamarkaði, sem og að stuðla að vöruþróun og
nýsköpun í fjármálaheiminum. Með reglunum, sem verða senn að lögum
hérlendis, er öðrum bönkum og leyfisskyldum þjónustuveitendum, hvar
sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins, veittur aðgangur að
greiðslureikningum og greiðslum af þeim, að því gefnu að viðskiptavinir
hafi veitt til þess samþykki. Á sama tíma hafa persónuverndarlög í Evrópu
verið hert sem gera kröfu um ótvírætt samþykki fyrir vinnslu
persónuupplýsinga.
Þjónusta sem þessi byggir á getu bankanna til að bjóða upp á aðgang
að tölvukerfum sínum. Landsbankinn tekur fullan þátt í þessari þróun og
í sumar var bankinn t.d. fyrstur til að bjóða upp á aðgang að millifærslulausn
HVERT STEFNIR
BANKAHEIMURINN?
Hermann Snorrason, sérfræðingur á Fyrirtækjasviði Landsbankans
(A2A), en með henni geta fyrirtæki á fjártæknimarkaði útbúið
hugbúnaðarlausnir sem gera viðskiptavinum bankans kleift að greiða
beint út af reikningum sínum, veiti þeir samþykki sitt fyrir því. Boltinn er,
að þessu leyti, hjá fjártæknifyrirtækjunum.
API-markaðstorg Landsbankans opnaði í byrjun ársins.
Aðgangur að raunumhverfi fyrir A2A-greiðslulausnina er aðeins veittur
fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði bankans, s.s. um fjárhagslegt heilbrigði,
öryggi hugbúnaðarlausnar og orðsporsáhættu.
SKEMMTILEGRA AÐ BORGA
Í alþjóðlegri umræðu um opið bankakerfi hafa vissar áhyggjur skotið upp
kollinum, m.a. um öryggismál, persónuvernd og hvort nýjungarnar muni
ýta undir óæskilega neysluhegðun. Ljóst er að greiðslur og lántaka verða
aðgengilegri. Fyrirtæki geta til dæmis smíðað app sem nýtir síma til að
skanna strikamerki á vörum úti í búð. Þegar neytandinn smellir á kaupa-
hnapp í appinu skuldfærist fjárhæðin sjálfkrafa, af forskráðum
bankareikningi, og hann getur gengið út úr búðinni án frekari málalenginga.
Lántaka vegna kaupa á stærri hlutum verður líka mögulega fljótlegri.
Margar slíkar hugmyndir hafa verið ræddar undanfarin ár og skal engan
undra. Tæknin hefur jú opnað ný og spennandi tækifæri á mörgum
sviðum, ekki bara í fjármálaheiminum. Fólk gerir almennt meiri kröfur um
hærra þjónustustig, sjálfsafgreiðsla hefur aukist í daglegu lífi, fólk ætlast
til þess af þjónustufyrirtækjum að ferlar séu straumlínulagaðir og að hvers
konar afgreiðsla taki sem stystan tíma.
Þegar neytendur nota í ríkari mæli greiðslulausnir fjártæknifyrirtækis verður
bankinn ekki eins sýnilegur þátttakandi í daglegum viðskiptum og hann
er í dag. Neysla og lántaka verður mögulega ekki eins áþreifanleg eða
raunveruleg. Það eitt, kann að ýta undir breytta hegðun neytenda, að
neyslan aukist í daglega lífinu af því að það verður svo auðvelt og
„skemmtilegt“ að borga.