Tölvumál - 01.01.2019, Side 28
28
Það hefur sýnt sig að vélar vinna nú mörg verkefni sem maðurinn vann
áður og hefur sú þróun verið hröð undanfarið. Margir óttast þessa þróun
og telja jafnvel að vélar geti tekið yfir líf okkar og störf. Við þurfum að
skoða og skerpa okkar eiginleika, hvað höfum við framyfir vélar og hvernig
getum við hlúð að þeim eiginleikum í gegnum menntakerfið. Verður ekki
sköpunin, hönnunar hæfileikinn, ímyndunaraflið, forvitni, samkennd og
félagsleg samskipti áfram okkar styrkleiki? Við þurfum að vera lausnamiðuð
og starfa með vélum í framtíðinni frekar en að keppa við þær og við
þurfum einstaklinga sem geta unnið í mismunandi menningarheimum,
með ólíkum fagreinum, geta leitað lausna og nýtt sér ný tækifæri. Við
þurfum að skoða hver áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar verða á menntakerfið
og hvernig við tökumst á við það. Það er mikilvægt að leggja áherslu á
að þróa möguleika einstaklinga og fara frá menntakerfi sem leggur megin
áherslu á staðreyndir yfir í beitingu þekkingar og samvinnu við lausn
vandamála.
Það er miklu auðveldara að mennta nemendur miðað við okkar fortíð en
þeirra framtíð, það er einfaldlega þægilegt að kenna eins og okkur var
kennt. Það er miklu auðveldar að kenna hluti sem við skiljum og þekkjum
vel og sem voru mikilvægir í okkar æsku frekar en leggja áherslu á eitthvað
nýtt sem við erum ekki örugg um og þekkjum ekki eins vel. Þetta viðhorf
getur dregið úr aðlögun skólakerfisins að hröðum breytingum samfélagsins
með öllum sínum samfélagsmiðlum og aukinni sjálfvirkni og getur dregið
úr möguleikum á því að hafa áhrif á þróunina. Þetta viðhorf getur dregið
úr getu okkar til að undirbúa ungt fólk betur undir breytingar framtíðarinnar.
Það hefur verið mikil áhersla lögð á að mennta fólk fyrir ákveðin störf, að
nám leiði til ákveðinna réttinda að loknu námi og að nemendur geti kallað
sig ákveðnum starfsheitum eins og kennari, smiður, læknir eða hársnyrtir.
Það er enda mikilvægt að sá sem tekur að sér að lækningar eða
hásnyrtingu kunni vel til verka. Ekki hef ég áhuga á að fara til læknis sem
hefur ekki menntun á því sviði eða í klippingu hjá hársnyrti sem ekki hefur
lært að klippa. En gera þessar áherslur ekki námsframboð of einsleitt?
Við gætum þurft að bregðast við með því að auka framboð á fjölbreyttari
námsleiðum, þverfaglegum námsleiðum, þar sem verið er að mennta,
ekki bara fyrir eitthvert ákveðið starf, heldur fyrir margskonar störf. Það
gæti verið skynsamlegt að draga úr áherslu á að kenna ákveðin aðgreind
fög og efla samþættingu námgreina og bjóða verkefnamiðað nám sem
þroskar lausnaleit.
Það er alltaf spurning hvaða greinar skiptir mestu máli að kenna og fáir
efast um að móðurmál sé þar efst á blaði. Góð þekking á tæknigreinum
(e. STEM, science, tech, engineering, math) verður mikilvæg eins og
áður, en í skýrslu World Economic Forum, The Future of Jobs, er lögð
áhersla á að það sé ekki síður mikilvægt að þjálfa nemendur í gagnrýnni
hugsun og samvinnu. Við þurfum að þjálfa nemendur í nýrri tækni, að
nota hana, hanna og þróa, en það er margt annað sem þarf að þjálfa og
kenna, s.s. þau siðferðilegu álitamál sem tengjast nýjum og hröðum
breytingum.
Það hefur lengi verið talað um mikilvægi þess að geta lært, aflært og
endurlært, að vera tilbúinn til að læra ekki bara eitthvað nýtt heldur einnig
nýjar aðferðir til að gera það sem áður var gert með „gamla laginu“.
Þessar hugmyndir skipta sífellt meira máli og má rekja til Alvin Tofler sem
gaf út bókina Future shocks árið 1970. Við þurfum að geta fylgst með,
lært og þróast bæði í starfi og einkalífi. Hraðar breytinga á störfum kalla
á breytingar á áherslum í menntun með fjölbreyttu framboði fyrir alla
aldurshópa. Við megum ekki láta formfestu, prófsækni (e. credentialism)
og greiðslu- og kostnaðarmódel standa í veginum fyrir betri nýtingu á
þeirri menntun sem skólakerfið býður upp á.
Við höfum miðla eins og leitarvélar, mikið úrval af opnum námskeiðum á
netinu (MOOC) eins og Edx og Coursea, sívaxandi framboð af hlaðvörpum
(podcast) og mikla flóru af Youtube myndböndum þar sem er auðvelt að
nálgast þekkingu, komast í þekkingarsafn. Það vantar meira íslenskt
rafrænt efni og því ekki að nýta það sem nú þegar er verið að gera með
þeim aðferðum sem eru nú þegar til staðar? Hér má t.d. sjá fyrir sér að
háskólar opni meira námskeið fyrir öðrum en sínum nemendum, s.s. fólki
á vinnumarkaði, með því að nýta fjölbreyttari kennsluaðferðir, upptökur
á kennslustundum og sýndarveruleika.
Í stað þess að telja upp nær endalausa möguleika tækninnar til að bæta
gæði kennslu þá set ég hér inn mynd sem sýnir nokkra þá helstu sem
sumir hafa verið nefndir hér að framan. Það mætti síðan skrifa nokkrar
greinar um hvern og einn af þessum möguleikum og einnig um þá sem
ekki koma fram á myndinni, en hún sýnir þann fjölbreytileika sem við
höfum í hendi okkar.
Tæknin og menntun (mynd fengin af https://www.apogaeis.com/blog/how-
technology-is-changing-education-the-journey-from-whiteboard-to-keyboard/)
Þó að ég treysti mér ekki til þess að leggja til að hætt verði að bjóða upp
á sérhæft nám eins og í læknisfræði og hársnyrtingu þá get ég lagt til að
þverfagleiki verði aukinn, að framboð á námi sem leggur áherslu á beitingu
þekkingar og lausnarleit verið aukið.
Þá er ég ekki eingöngu að hugsa um búa nemendur undir vinnumarkað
í hröðum breytingarferli heldur að stuðla að fjölbreyttari lífsviðhorfum og
víðari lífssýn því ég hef þá skoðun að þekking leiði til betra lífs og því
auðugri sem lífsýn einstaklinga er því fjölskrúðugra verði lífið.
Fyrirsögnin er fengin frá John Dewey og ég ætla að enda á honum líka
„Hve margir tileinkuðu sér ekki sérstaka færni og kunnáttu með vélrænu
stagli svo að dómgreind þeirra og hæfni til að haga sér skynsamlega við
nýjar aðstæður var skert?“
Tilvísanir þýddar af https://www.goodreads.com/author/quotes/42738.
John_Dewey
„EF VIÐ KENNUM Í DAG EINS OG VIÐ
KENNDUM Í GÆR, ÞÁ RÆNUM VIÐ
BÖRNUNUM MORGUNDEGINUM“
JOHN DEWEY
Dr. Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík