Víðförli - 15.12.1995, Page 3
Þankar um trú
Jólí skugga sorgar
Enn koma jólin, hátíð ljóss og friðar eins og þau eru
gjama nefnd, og aftur breytist samfélagið og fær nýja
mynd, skreytta marglitum ljósum og augnayndi ýmiss
konar. Hversdagurinn hverfur og svart-
nætti vetrarins þarf að hörfa um stund.
Allur umbúnaðurinn áréttar tilganginn,
nú skal ylja öllum um hjartaræturnar
og lífga hugskotið með gleði og kátínu,
eyrnamarki þessa stærsta félagslega
viðburðar íslensks þjóðlífs.
Þetta árið mun þó fleirum þykja erf-
iðara að gleðja og gleðjast en oft áður.
Sorgin, þessi systir lífsins sjálfs, hefur
verið kölluð til víðar á þessu ári en við
eigum að venjast. Mæður, feður, syst-
kini, börn og vinir hafa verið hrifin
burt úr hópi ástvina. Eftir sitja syrgj-
endur, einstaklingar með brostið hjarta
sem ekki geta fengið af sér að kætast
eins og vænst er við jólahald. Rofin
tengsl, brostnar vonir, óöryggi og með-
vitund um fallvaltleika lífsins varpa skugga sínum yfir
allt í umhverfi þess sem syrgir.
Hvað verður þá um jólin? Hvernig getum við fengist
við misræmið sem virðist svo augljóst á milli jóla og
sorgar? Hvers ber að gæta í nærveru sorgarinnar?
Ég ætla ekki að reyna að svara þessum spurningum til
hlítar heldur aðeins vekja lesendur til umhugsunar um
fáein atriði. Þeim skal síðan eftirlátið að heimfæra og út-
færa orð mín í Ijósi eigin reynslu.
Fyrst vil ég nefna þá einföldu staðreynd að við fáum
litlu ráðið þegar sorg er annars vegar. Það er ekki undir
okkur komið hvort eða hvar hún kveður dyra. Hún ein-
faldlega fylgir í kjölfar áfalla, hvort sem það er dauðs-
fall eða mikilsverð lífsreynsla sem við verðum fyrir. Að
sama skapi getum við ekki valið hvort við syrgjum þó
við getum haft mikið að segja urn hvernig ferill sorgar-
innar verður. I öðru lagi er sorg aldrei einskorðuð við
einstaklinga. Syrgi einhver hefur það áhrif á alla þá sem
eru í tengslum við viðkomandi. Syrgjandinn getur ekki
komið í veg fyrir að svo verði þó það sé hverjum og ein-
um í sjálfsvald sett hvenær og hversu mikið hann eða
hún velur að opna hjarta sitt. Sorg er ekki aðeins tjáð
með orðum. Hún krefst hins vegar viðurkenningar, ekki
eingöngu syrgjandans sjálfs, heldur allra þeirra sem
tengjast honum. Hér er það sem okkur verður oft áfátt.
Okkur hættir til að hlaupast undan og láta sem ekkert sé,
eða ofgera rétt eins og við vænturn þess að mega græða
sár sorgarinnar í einni svipan.
Sorgin krefst ekki alltaf rnikils af þeim sem hjá
standa. Viðurkenning tilvistar hennar er oft allt sem þarf
að því tilskildu að það sé gert af tilfinningalegri ein-
lægni. Syrgjendur hafa lítið umburðarlyndi gagnvart yf-
irdrepsskap eða látalátum gagnvart sorg þeirra. Reynsla
þeirra ristir of djúpt til að leyfa slíkt. Sorgin er óaðskilj-
anlegur förunautur þeirra. Hvar sem þeir fara þar fer hún
og hvar sem henni er haldið frá þar
mun sá sem syrgir finna sig óvelkom-
inn.
Hvað verður um jólin í ljósi alls
þessa? Ef gaumur er gefinn að trúar-
legu inntaki jólanna þá er þar að finna
boðskap sem flytur líkn til þeirra sem
þjást. Á jólum fögnum við holdtekn-
ingu Guðs. Við fögnurn því að Guð
lætur sig vai'ða og sinnir um allt það
sem mannlegt er. Endurlausnin, boðið
um samfélag við Guð, nær til allrar
reynslu okkar og virðir þjáningu og
sorg. Slíkt samfélag er heilsteypt og
óheft. Það krefst þess ekki að við lát-
umst eða að við bægjum frá depurð,
reiði eða angist. Allt þetta á heima í
samfélagi okkar við Guð. Guð skirrist
ekki við að eiga samfélag við þá sem þjást því Guð hef-
ur sjálfur þjáðst og reynt angistina sem er samfara því að
vera yfirgefinn.
I Matt. 27.46 sjáum við þjáningu Jesú er hann hrópar
af krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfir-
gefið mig?“
Þar er Jesús að vitna í 22. Davíðssálm, en allur sá
sálmur er angistarhróp til Guðs.
Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?
Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
„Guð minn!“ hrópa ég um daga, en þú svarar ekki
og um nætur en ég finn enga ró.
Og samt ert þú Hinn heilagi,
sá sem ríkir yfir lofsöngvum ísraels.
Þér treystu feður vorir,
þeir treystu þér og þú hjálpaðir þeim,
til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað,
þér treystu þeir og urðu ekki til
skammar."
Þegar jólin eru haldin í skugga sorgar fær boðskapur-
inn um þátttöku Guðs í mannlegum kjörurn nýja vídd,
þar sem Guð tekur þátt í sorginni. Guð sjálfur knýr dyra
og biður urn að fá að ganga veg sorgarinnar með þeim
sem syrgir. Hvatning jólanna til þeirra sem hjá standa er
að þeir reyni að fylgja þessu fordæmi Guðs. Það þarf
ekki að vera misræmi á milli sorgar og jóla. Hins vegar
þurfum við alltaf að gæta þess að umbúnaðurinn eða við
sjálf hindrum ekki að jólin nái hjörtum þeirra sem
syrgja.
Gunnar Rúnar Matthíasson
VÍÐFÖRLI 3