Dagfari - Oct 2017, Page 2
2
Stefna stjórnmálaflokkanna í
friðar- og afvopnunarmálum
Samtök hernaðarandstæðinga sendu öllum þeim
flokkum sem bjóða fram í Alþingiskosningunum
2017 eftirfarandi spurningalista. Þrátt fyrir ítrekaðar
áminningar og rýmkaðan skilafrest bárust ekki svör frá:
Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Flokki fólksins.
Þá komu heldur ekki svör frá Dögun, sem býður einungis
fram í einu kjördæmi. Svör flokkanna voru annars sem
hér segir:
Er stjórnmálahreyfingin hlynnt veru Íslands í
Atlantshafsbandalaginu?
Samfylkingin:
Samfylkingin hefur frá upphafi stutt aðild Íslands að
Atlantshafsbandalaginu og beitir sér þar fyrir friði og mannréttindum.
Utanríkisstefna Samfylkingarinnar byggir á góðri samvinnu við önnur
lýðræðisríki og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
Framsóknarflokkurinn:
Já. Framsóknarflokkurinn telur að aðild Íslands að
Atlantshafsbandalaginu, ásamt þátttöku í varnarsamstarfi við
aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli, sé sá valkostur sem helst tryggi
öryggi almennra borgara hér á landi og íslenska ríkisins. Enda séu
mannréttindi og lýðræði leiðarljós slíks varnarsamstarfs.