Dagfari - okt. 2017, Síða 16
16
hernaðarandstæðinga, SGI á Íslandi-friðarhópur búddista, Menningar
og friðarsamtök íslenskra kvenna, Friðarhópur leikskólakennara,
Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis og Friðar og
mannréttindahópur BSRB.
Samstarfshópurinn er opinn öllum hreyfingum sem vilja vinna að friði
og væri ánægjulegt ef fleiri samtök lýstu sig reiðubúin til að vinna með
okkur að þessu mikilvæga málefni.
Áður en Samstarfshópurinn var stofnaður höfðu herstöðvaandstæðingar
barist fyrir því að Ísland yrði hluti af kjarnorkuvopnalausu svæði
á Norðurlöndum, en sú barátta hófst um 1980 og einnig höfðu
samtökin staðið fyrir fjölmennum Keflavíkurgöngum með kröfum um
kjarnorkuafvopnun. Herstöðvaandstæðingar keyptu meðal annars
spurningu í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunnar í mars 1987
þar sem spurt var um afstöðu fólks til þess að Ísland yrði hluti af
kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum. Níu af hverjum tíu
lýsti sig fylgjandi því og var reyndar athyglisvert að 83% þeirra sem
ætluðu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn voru hlynntir því að Ísland yrði
lýst kjarnorkuvopnalaust. Sýnir þetta glögglega að stór hluti fólks
gerir sér enga grein fyrir því hvað felst í Nató-aðildinni og að Nató er
kjarnorkubandalag sem er gjörsamlega andsnúið öllum slíkum skrefum
í friðarátt.
Herstöðvaandstæðingar fleyttu kertum á Tjörninni í Reykjavík í
fyrsta sinn á Hírósímadaginn 6.ágúst 1985 og hefur Samstarfshópur
friðarhreyfinga skipulagt slíkar aðgerðir árlega síðan. Kertafleytingar
hafa einnig verið á fleiri stöðum á landinu (meðal annars á Akureyri,
Egilsstöðum og Seyðisfirði og núna í sumar líka á Ísafirði). Með
fleytingum er þeirra sem létu lífið í kjarnorkuárásunum á Hírósíma
og Nagasakí minnst en um leið er lögð áhersla á að slíkt megi aldrei
koma fyrir aftur og er krafan um kjarnorkuvopnalausan heim yfirskrift
aðgerðanna. Nýjar kynslóðir vaxa úr grasi og það er mjög mikilvægt að
vitneskjan um hættuna af kjarnorkuvopnum gleymist ekki og baráttan
gegn þeim haldi áfram.
Á þeim sjö áratugum sem liðnir eru frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma
og Nagasaki hafa margir samningar verið gerðir um takmarkanir eða
bann við kjarnorkuvopnum og tilraunum með þau þótt misjafnlega
hafi gengið að framfylgja þeim. Má þar sem dæmi nefna samning um
bann við kjarnorkutilraunum í gufuhvolfinu sem gerður var árið 1963,
samninga um takmarkanir á eldflaugum sem geta borið kjarnavopn árið
1972 og síðan um fækkun slíkra vopna árið1993.