Dagfari - okt. 2017, Síða 18
18
undirbúningsvinnuna og sannfæra nógu mörg lönd um ágæti þessarar
aðferðafræði. Árið 2015 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
að stofna undirbúningshóp og síðustu tvö árin fór samkomulagið að
taka á sig mynd.
Fyrr á þessu ári voru haldnar stórar ráðstefnur um málið á vegum
Sameinuðu þjóðanna. Og á fundi nú um mánaðarmótin júní/júlí
samþykktu 121 af 193 aðildarríkjum SÞ sáttmálann. Frá og með
20.september gefst ríkjum heims kostur á að undirrita samninginn
og um leið og 50 ríki hafa gert það, verður hann fullgildur sáttmáli
Sameinuðu þjóðanna og gildir fyrir viðkomandi lönd. Það verða
augljóslega í fyrstu lönd sem ekki eiga kjarnorkuvopn, en ef horft er til
sögunnar – eins og til dæmis samninginn gegn jarðsprengjum – þá mun
þetta setja mikinn þrýsting á kjarnorkuveldin að breyta kjarnorkustefnu
sinni.
Það segir sína sögu að á fundinum í sumar, neituðu öll NATO-ríkin
nema eitt að taka þátt. Hollendingar ákváðu að senda fulltrúa til
viðræðnanna, en voru húðskammaðir af Nató og kusu því einir þjóða
gegn samningnum. Það liggur fyrir að Nató gaf út þá línu að það ætti að
sniðganga samninginn og allar umræður um hann. Og nú á dögunum
birtu sænskir fjölmiðlar leyniskjöl um að bandaríkjastjórn hafi varað Svía
eindregið við að taka þátt í viðræðunum.
Nokkur Evrópulönd, s.s. Svíar, Írar, Austurríkismenn, Sviss, Malta og
Kýpur samþykktu sáttmálann. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera
ekki í Nató og þurfa því ekki að undirgangast kjarnorkustefnu þess.
Krafa okkar friðarsinna hlýtur að vera sú að íslensk stjórnvöld skipti
um stefnu og undirriti sáttmálann tafarlaust. Með því er hugsanlegt að
dregið verði úr þeirri kjarnorkuvá sem nú vofir yfir mannkyninu. -Takk
fyrir.
Ingibjörg Haraldsdóttir