Dagfari - Oct 2017, Page 19
19
Við kaupum hjólastólalyftu!
- stórátak í söfnun hlutafjár
Eins og ítrekað hefur verið rakið á þessum vettvangi hafa Samtök
hernaðarandstæðinga lengi litið á það sem forgangsmál að bæta
aðgengismál í Friðarhúsi. Lengi vel strönduðu þó framkvæmdir á
því að talið var óframkvæmanlegt, nema með svimandi kostnaði og
gríðarlegum breytingum á húsnæðinu.
Í sumar dró hins vegar til tíðinda í þessum málum og var pöntuð
hjólastólalyfta sem vonir standa til að verði komin upp ekki síðar en í
nóvember. Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir alla aðstandendur Friðarhúss
enda voru aðgengismálin ekki boðleg áður.
Í tilefni af þessu var ákveðið að ráðast í átak til að safna nýju hlutafé í
Friðarhús. Bæði meðal friðarsinna sem ekki eru í hluthafahópnum nú
þegar og hinna sem fyrir eiga hlut eða hluti. Þegar þetta er ritað hafa
safnast yfir 600 þúsund krónur í nýju hlutafé og styrkjum, sem er meira
en þriðjungur af áætluðum kostnaði. Sjálfsagt er að hvetja þau sem
geta látið af hendi renna til að veita þessu góða verkefni lið og komast
jafnframt í skemmtilegan hóp í fjölmennasta einkahlutafélagi landsins:
Friðarhúsi SHA ehf.
Auk hlutafjársöfnunarinnar hafa Samtök hernaðarandstæðinga
eyrnamerkt tiltekna fjárhæð til lyftukaupanna en vonir standa þó til þess
að nýtt hlutafé fari langt með að standa undir framkvæmdinni. Lyftan
mun að sjálfsögðu auka verðmæti hússins og notkunarmöguleika sem
og sýna í verki ákveðin gildi.
Hver hlutur er 15.000 kr. kennitala Friðarhúss er 6004042530 og
reikningsnúmer er 130-26-2530. Unnt er að kaupa hlut með því að
greiða inn á reikninginn í netbanka og setja nafn hluthafa í skýringu.