Bæjarins besta


Bæjarins besta - 07.03.2001, Blaðsíða 7

Bæjarins besta - 07.03.2001, Blaðsíða 7
MIÐVIKUDAGUR 7. MARS 2001 7 Varð amma þrjátíu og þriggja ára og fór upp úr því að sækja böllin Sesselja Þórðardóttir er Ís- firðingum að góðu kunn. Hún hefur búið í bænum vel á ann- an áratug en er ekki langt að komin því að hún fluttist frá Súðavík. Hún er ein fárra kvenna sem hefur meirapróf og er fyrsti sérleyfishafinn á Vestfjörðum. Hún hefur rekið verslunina Krílið síðan 1994 og segir það vinnureglur í fyr- irtækinu að brosa alltaf móti öllum viðskiptavinum. Hún segir unglingana bestu við- skiptavinina. „Þegar unglingar eru að skemmta sér og koma til að versla í sjoppunni eru þeir mjög þægilegir í umgengni. Því miður er oft hægt að segja annað um fólk á mínum aldri, sem stundum lætur eins og kjánar þegar það er í glasi.“ Svaf í stígvélunum Sesselja er númer átta í röð- inni af ellefu systkinum. „Ég er dóttir Salóme Halldórsdótt- ur og Þórðar Sigurðssonar. Móðir mín lést fyrir nokkru en faðir minn er ennþá á lífi og verður 95 ára gamall í sum- ar. Hann er venjulega kallaður Tóti fiskimann og fær sér góð- an sopa af viskíi á hverjum degi. Hann þakkar viskí- drykkjunni langlífið en svo er hann byrjaður aftur að reykja vindla. Hvort hann gerir það til að lengja lífið enn frekar veit ég ekki. Ég fæddist á Ísafirði á fyrri hluta síðustu aldar. Ég var þar í skóla fyrsta árið mitt en flutti síðan með foreldrum mínum til Vatnsfjarðar við Ísafjarðar- djúp. Prestur í Vatnsfirði var þá séra Þorsteinn Jóhannes- son, afi Þorsteins yfirlæknis. Ég man eftir því þegar hann gaf mér fyrstu stígvélin mín. Þau voru rauð á lit og afskap- lega fögur. Ég var svo hrifin af stígvélunum að ég svaf í þeim fyrstu nóttina eftir að ég eignaðist þau.“ Aldrei of seint að byrja að læra „Þegar ég var tíu ára gömul byrjaði ég í skóla í Reykjanesi. Ég var reyndar ekki nema mánuð í skólanum. Ég þótti það vel læs að ég þurfti ekki að vera í skólanum lengur. Mér finnst Reykjanes mjög fallegur staður. Ég er þess vegna mjög ánægð með þær hugmyndir Stebba Dan að koma á fót heilsuræktarmið- stöð á Nesinu. Það er mikil- vægt að mannvirkin þar nýtist sem best. Þegar ég var tólf ára gömul, fluttum við til Súðavíkur og átti ég eftir að búa þar næstu þrjátíu árin. Ég kláraði grunn- skóla og langaði mikið til að fara í framhaldsnám. Hjúkrun- arfræði heillaði mig mikið en það var svo dýrt að fara í skóla á þessum tíma. Í stað þess að læra fagið fór ég að vinna á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Maður veit þó aldrei, það getur vel verið að ég setjist á skólabekk á næstunni og læri hjúkrunar- fræði. Það er aldrei of seint.“ Seint byrja sumir Sesselja kynntist ung manni sínum, Magnúsi Þorgilssyni vörubílstjóra. „Ég byrjaði mjög ung að búa. Við eigum núna fjögur yndisleg börn saman og það elsta fæddist þegar ég var átján ára gömul. Ég var svo orðin amma 33 ára gömul og langamma 53 ára gömul. Mér finnst ég ekki hafa neinn þroska í að vera lang- amma, ég er nú ekki það göm- ul. Ég byrjaði fyrst að verða unglingur þegar ég var orðin amma. Þá fór ég fyrst fyrir alvöru að sækja böllin. Ég var mikið á móti drykkju allt þangað til ég var orðin amma, 33 ára að aldri. Þá fór ég fyrst að smakka vín og sækja böll. Seint byrja sumir.“ Hafið gefur og hafið tekur Sesselja hefur komið víða við og unnið alls kyns vinnu á sinni ævi. „Þegar börnin okkar voru að alast upp var ég mest heimavinnandi. Þá prjónaði ég mikið og seldi afurðirnar. Þegar börnin uxu úr grasi gerðist ég útivinnandi, tók rútupróf og varð fyrsti kven- kyns sérleyfishafinn á Vest- fjörðum. Ég ók áætlunarbíl á milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Enn þann dag í dag fæ ég stundum að prófa stóru bílana. Barnabörnunum finnst mjög gaman að sjá ömmu keyra vörubíl og rútu. Ég og Magnús maðurinn minn komum líka við í útgerð. Við gerðum út bát til Djúp- rækjuveiða og gekk sá rekstur ágætlega. Mér fannst alveg yndislegt að fara á sjó, þó ég sé svolítið sjóhrædd. Sjórinn hefur gefið mér mikið, en hann hefur líka tekið mikið. Árið 1967 fórst Freyjan frá Súðavík og bróðir minn með henni. Það varð mér mjög mikið áfall. Ég tel mig hafa verið nokkuð unga þegar þetta gerðist. Tuttugu ára gömul þurfti ég að hringja í öll syst- kini mín og láta þau vita. Það fórust þrír bátar á stutt- um tíma í Súðavík. Tveimur árum eftir að bróðir minn lést fórst Svanurinn, bátur sem faðir minn var á. Sem betur fer lifði faðir minn af og lifir enn. Þó að erfitt sé að eiga við sorgina, þá þroskast maður mikið. Maður lærir að meta lífið miklu betur. Ég fékk styrk að handan sem hjálpaði mér mikið.“ Mikil er speki gamla fólksins „Við Magnús fluttum til Ísafjarðar árið 1987. Við þurft- um eiginlega að byrja upp á nýtt, því að á þeim tíma var svo mikill verðmunur á fast- eignum í Súðavík og á Ísafirði. Ég byrjaði fljótlega að vinna í Pólnum en fór svo upp á þjónustudeild á Hlíf. Það voru yndisleg ár. Ég lærði svo mikið af gamla fólkinu og vil meina að við þurfum að kunna að meta það betur. Við verðum að hlusta á það sem þau segja. Ég vildi að ég hefði skrifað niður allt það sem mér var sagt, því mikil er speki gamla fólksins.“ Vill koma Davíð frá völdum „Fyrir sjö árum keyptum við Krílið. Við seldum rækju- bátinn okkar með kvótanum og notuðum peninginn til að kaupa Krílið. Mér fannst alveg fáránlegt að við gætum selt kvótann. Mér fannst rækjan í Djúpinu ekkert frekar vera mín eign en annarra. Ég hef alla tíð verið mikið á móti kvótakerfinu og vona að því verði breytt. Mér finnst alveg með ólík- indum að þingmenn okkar Vestfirðinga geti ekki staðið saman og fengið þessum ólög- um breytt. Maður áttar sig ekki alveg á því hvers vegna maður er að kjósa þessa menn. Flokkshollustan er svo mikil, þessir þingmenn taka öllum skipunum sem koma frá for- ystunni í Reykjavík. Þessi eyðibýlastefna stjórnvalda er allt að drepa. Þessir menn fá mig samt aldrei til að fara, það er alveg á hreinu. Í það minnsta verð ég sú síðasta til að slökkva ljósin. Davíð kóngur virðist öllu ætla að eyða. Hann virðist hafa þvílíkt tangarhald á Sjálf- stæðisflokknum, þar á meðal þingmönnum okkar Vestfirð- inga. Mig langar svo að losna við Davíð frá völdum. Ég væri til í að fórna sjoppunni minni, selja hana og verja andvirðinu til þess að koma Davíð til Spánar.“ Keypti hús foreldra sinna „Rekstur Krílisins hefur gengið nokkuð vel. Að sjálf- sögðu gengur hann í bylgjum, stundum gengur vel og stund- um illa. Þessi sjö ár sem við höfum rekið sjoppuna hafa verið alveg yndisleg. Núna erum við að reyna að selja Krílið. Við viljum ekki standa í þessu lengur vegna heilsubrests en vonum að ein- hver annar sjái sér það fært. Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum, en mér sýnist að menn þori ekki að gera neitt. Menn eru svo hræddir við framtíðina og finnst svo mikil óvissa hérna. Mér finnst alveg yndislegt að vera á Vestfjörðum. Nú hef ég keypt sumarhús í Súðavík, hús foreldra minna. Það átti að rífa húsið en við keyptum það á 25 þúsund krónur. Magnús fór inn eftir og gerði það upp á einni viku. Ég ætla að vera þar eins mikið og ég get.“ – spjallað við Sesselju Þórðardóttur í Krílinu á Ísafirði 10.PM5 19.4.2017, 09:247

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.