Bæjarins besta


Bæjarins besta - 07.03.2001, Blaðsíða 10

Bæjarins besta - 07.03.2001, Blaðsíða 10
10 MIÐVIKUDAGUR 7. MARS 2001 Nemanda sem líður illa gengur illa í námi – rætt við Kristrúnu Lind Birgisdóttur, skólastjóra á Flateyri, sem hefur innleitt nýjar áherslur í skólastarfinu Kristrún Lind Birgisdóttir er kennaramenntuð en hefur aldrei unnið sem kennari. Að námi loknu fékk hún strax aðstoðarskólastjórastöðu í Grunnskólanum á Flateyri og er nú orðin skólastjóri. Hún er eyfirsk að uppruna en kom til Flateyrar fyrir þremur ár- um. Hún segist hafa orðið mjög undrandi á því hversu öflugt og stórborgarlegt menningarlífið er á Flateyri. Hún heldur mikið upp á veitingastaðinn Vagninn. Ekki er það samt vegna þess að hún sé drykkfelldari en gengur og gerist, heldur finnst henni menningarlífið merkilegt og undrast það hversu vel er mætt þegar eitthvað er um að vera. „Það er nokkurn veginn sama hvað er. Ef eitthvað er um að vera á Vagninum, þá mæta allir sem aldur og heilsu hafa til. Maður sér oft vel á annað hundrað manns sækja einhvern viðburð, sem er mjög mikið miðað við að á Flateyri búa ekki nema um 300 manns. Það má segja að hér sé mesta fjörið miðað við höfðatölu.“ Stuttmyndir á Akureyri Kristrún er fædd og uppalin á Árskógsströnd við Eyja- fjörð. „Pabbi minn var skóla- stjóri í Árskógsskóla. Svo fór hann á skak á sumrin þegar skólahald lá niðri. Slíka frí- stundarútgerð var hægt að stunda áður en kvótinn keyrði alla slíka frístundaútgerð í kaf. Ég náði einu góðu sumri með honum á skakinu það var erfitt en gaman. Þegar ég var að verða 13 ára flutti ég til Akureyrar og gekk þar í gagnfræðaskóla. Þegar honum lauk fór ég í Verkmenntaskólann á Akur- eyri og útskrifaðist þaðan 1993. Eins og svo oft vill verða, þá einbeitti ég mér ekkert sér- staklega vel að náminu á mín- um menntaskólaárum, mestur tími fór í að kenna fólki á skíði, búa til stuttmyndir og vinna að félagslífinu í skólan- um. Ég eyddi mestum tíman- um í VMA með strákunum í stuttmyndaklúbbnum Film- unni. Ég var fyrst formaður klúbbsins og síðar fram- kvæmdastjóri þegar mennta- skólaárunum lauk. Ég er þess fullviss að sá tími sem ég eyddi í félagsstörf og vinnu með skólanum skildi meira eftir sig en sjálft námið, það átti í það minnsta við í mínu tilfelli. Ég er ekki að segja að krakkar eigi að sleppa því að fara í skóla heldur segir þetta meira um skólana. Ég er alveg á því að auka eigi lífsleikni í framhaldsskólum verulega.“ Verður alltaf að vera umkringd fólki „Ég vann m.a. í Sjallanum á Akureyri með Verkmennta- skólanum. Dóttir mannsins sem rak skemmtistaðinn var og er heyrnarlaus og það vakti athygli mína á táknmálsfræð- inni sem var að fara af stað í Háskóla Íslands um það leyti sem ég var að útskrifast úr Verkmenntaskólanum. Meðal annars vegna kynna minna af þessari heyrnarlausu stelpu ákvað ég að prófa þetta nýja nám. Ég var ekki lengur en eitt ár í táknmálsfræðinni. Mér fannst námið mjög skemmti- legt og það var áhugavert að fá að gægjast aðeins inn í sam- félag heyrnarlausra. Ég sá hins vegar fljótt að þetta myndi ekki eiga við mig. Það eru tvær leiðir úr táknmáls- fræðinni, annars vegar að fara í táknmálstúlkinn og hins veg- ar að demba sér í rannsóknar- störf. Ég er alls ekki rétta týp- an í svoleiðis „maður á mann“ störf. Ég verð að vera um- kringd fólki.“ Rósa veiddi Kristrúnu „Ég ákvað að skipta um nám og fór í Kennaraháskól- ann. Ég hafði reyndar verið búin að ákveða að streitast á móti kennarageninu og gera eitthvað allt annað, en ég lét undan. Árin mín í Kennarahá- skólanum voru nokkuð eðli- leg háskólaár, frekar lítið um peninga og þegar ég lít til baka finn ég bragðið af spaghetti með tómatsósu, cheeríósi og núðlum. Þegar árunum í Kennara- háskólanum var að ljúka var ég sannfærð um að kaup og kjör kennara væru ekki viðun- andi og ætlaði mér alls ekki í kennslu. Það vildi svo þannig til að haldinn var „veiðidagur“ í skólanum, þar sem skóla- stjórar frá svo til öllum skólum á landinu koma og reyna að tæla nýútskrifaða kennara til sín. Mönnum er lofað gulli og grænum skógum, ókeypis húsnæði og góðum launum. Það var ein kona sem vakti áhuga minn, það var Rósa Þor- steinsdóttir. Hún var þá skóla- stjóri Grunnskóla Önundar- fjarðar. Hún sat við borð með hárið allt út í loftið og var ekki með neitt á borðinu nema nokkrar lyklakippur og myndaalbúm. Af einhverjum ástæðum sat þessi kona í mér og ég hringdi í hana stuttu síðar og réði mig í vinnu.“ Lenti í kosningakaffi hjá Sjálfstæðisflokknum „Ég hafði aldrei komið til Önundarfjarðar þegar ég réð mig í vinnu þar. Ég hafði nokkrum sinnum farið til Ísa- fjarðar til þess að keppa á skíð- um en aldrei farið vestar á firðina. Ég plataði vinkonu mína til að kíkja með mér vestur til að kanna aðstæður. Við lögðum af stað í maí 1998, ókum Djúpið og fannst leiðin heldur óaðlaðandi, löng og leiðinleg. Að lokum kom- umst við til Flateyrar. Þetta var sama dag og bæjarstjórn- arkosningar voru í Ísafjarðar- bæ og við lentum fyrir algera tilviljun í kosningakaffi hjá Sjálfstæðisflokknum, fórum á kjörstað og gengum um bæ- inn. Þennan dag hitti ég flesta þá sem ég þekki enn í dag, þremur árum síðar, og báðar höfum við ílenst á Flateyri.“ Gerði samantekt um framtíð Holtsskóla Kristrún hefur aldrei unnið sem óbreyttur kennari. „Ég gekk beint inn í aðstoðar- skólastjórastöðu. Rósa Þor- steinsdóttir hætti um sumarið sem skólastjóri í Grunnskóla Önundarfjarðar. Við tók Sig- rún Sóley Jökulsdóttir og vann ég við hlið hennar í tvö ár. Á þessum tíma var mikið deilt um grunnskólamál í Önundar- firði. Menn voru ekki sam- mála um framtíðarskipan skólamála í firðinum og þessi tvö ár var töluvert deilt um hvað best væri að gera. Þetta tók töluvert á mann en var vissulega lærdómsríkt. Vorið 1999 fékk ég það hlut- verk að vinna samantekt og könnun um hvort hægt væri að reka skóla í Holti sem rek- inn væri með öðruvísi áhersl- um til að laða að nemendur víðar en bara úr sveitum Ön- undarfjarðar. Við þessa vinnu kynntist ég námsstefnu sem upprunin er á Indlandi og gengur undir nafninu Global education. Böðvar Jónsson, mannræktar- áhugamaður á Akureyri, lét mér í té mikið af efni um þessa stefnu og ég varð alveg hug- fangin af henni. Í mjög grófum dráttum ganga þessar hug- myndir út á að byggja þurfi nemendur fyrst upp sem manneskjur áður en hægt er að byrja að troða ofan í þá námsefni.“ Varð skólastjóri síðasta sumar „Þó að ég hafi hrifist af námsstefnunni á meðan ég var að vinna þessa samantekt, þá datt mér ekki í hug að ég myndi einhvern tímann reyna að innleiða hana í Grunnskól- ann á Flateyri. Á þeim tíma var ég ekkert viss um hvað ég myndi gera í framtíðinni, hvort ég yrði áfram á Flateyri eða hvað. Í vor varð ljóst að ég yrði skólastjóri Grunnskólans á Flateyri og þá var ýmislegt farið í gang, mest vegna áhrifa frá Böðvari. Í samstarfi við Hrafnagilsskóla í Eyjafirði og Smáraskóla í Kópavogi sótt- um við um styrk til þess að hanna verkefnabanka í lífs- leikni. Forsenda þess var að við myndum innleiða skóla- stefnu Global education. Við fengum styrkinn og fórum strax af stað. Ég var svo hepp- in að hafa frábært starfsfólk sem var einhuga um að breyta og bæta stefnu skólans. Án þessa fólks hefði þetta ekki orðið að veruleika. Morgunstundin getur varað lengi „Stefnan byggist á fjórum hornsteinum: Að gera allt framúrskarandi vel, mann- rækt, þjónustu við samfélagið og alheimsvitund. Í vetur höf- um við byggt á fyrstu tveimur hornsteinunum og en smám saman verið að taka hina inn og stefnum að því að undir- staðan í skólastarfinu í haust verði hornsteinarnir allir fjórir. Á hverjum morgni eru börn- in látin hittast á sal. Einn kennari sér um morgunstund- ina og fjallar um hugtak dagsins sem yfirleitt tengist dyggð mánaðarins. Við ræð- um einnig málefni líðandi stundar og það sem gengið hefur vel hjá okkur í skóla- starfinu. Þá kemur einn nem- andi úr yngri deild og annar úr eldri deild og fjalla um hug- tak vikunnar. Hugtakið getur verið jákvæðni, kurteisi, virð- ing eða eitthvað slíkt. Þegar fjallað hefur verið um hugtak vikunnar syngjum við saman þangað til allir eru komnir í gott skap og tilbúnir að takast á við daginn. Það tekur mis- langan tíma að koma öllum í gott skap og klára morgun- stundina, allt frá tuttugu mín- útum upp í klukkutíma. Þeim sem líður illa gengur illa „Margt annað er gert til að rækta nemendur sem mann- eskjur. Þeir eru látnir halda dagbók þar sem þeir skrifa til dæmis spakmæli dagsins og ýmsar vangaveltur um lífið og tilveruna. Nemendur sækja síðan tíma í lífsleikni tvisvar í viku. Þetta er gert svo að nem- endur verði sjálfstæðir ein- staklingar og líði betur. Þótt nýjar áherslur séu lagð- ar í skólastarfið á Flateyri gleymast hefðbundnar greinar ekki. Börnunum er að sjálf- sögðu kennt að lesa, skrifa og reikna eins og gert er í öðrum skólum. Ég hef hins vegar lengi verið þeirrar skoðunar, að nemenda sem líður illa og hefur lélega sjálfsmynd geng- ur illa í námi. Lausnin fellst ekki í því að láta hann sækja endalausa aukatíma. Það skiptir engu máli hversu marga tíma hann situr. Ef honum líður illa og hann þolir ekki skólann, þá gengur lær- dómurinn ekkert. Það eina sem hann lærir er að fyrirlíta skólann. Þá er betra að verja tíma í byggja einstaklinginn upp svo að hann fái sjálfur áhuga á að mennta sig.“ Góð viðbrögð foreldra Kristrún segir þessa nýju námsstefnu leggjast mjög vel í foreldra nemendanna. „Við vorum nýlega að fá niðurstöð- ur úr könnun sem við gerðum meðal foreldra. Þær niður- stöður eru mjög jákvæðar en einnig hafa foreldrar gefið það út í viðtölum að þeir séu ánægðir með þetta. Einn af augljósu kostunum við að búa á Flateyri er að maður fær strax viðbrögð við því sem maður er að gera, hvort sem það er gott eða slæmt. Fólk er ófeimið við að tjá sig. Ég hef fengið að heyra það þegar menn eru óánægðir en mér er líka hrósað þegar eitthvað gengur vel sem ég hef komið að. Ég hef reyndar fengið lítið annað en hrós fyrir að hafa innleitt þessar nýju áherslur í skólastarfið. Ég veit að menn myndu skamma mig ef þeir væru óánægðir en það hefur enginn gert hingað til. Á meðan svo er lít ég á það sem svo, að foreldrar og aðrir bæjarbúar séu ánægðir með þessa þróun.“ Króuð af á Vagninum Kristrún vill meina að veit- ingastaðurinn Vagninn á Flat- eyri sé mikill mannlífspottur. „Þar gerist svo ótrúlega margt. Ég var einmitt að tala um við- brögð Flateyringa við því sem ég geri en mörg af þeim við- brögðum hafa komið fram á Vagninum. Fyrstu tvö árin mín á Flateyri kom fyrir að maður var króaður af og hund- skammaður fyrir eitthvað sem mátti betur fara í skólastarfinu. Aftur á móti hef ég einungis verið króuð af til að þakka mér eftir að við fórum í þessa vinnu í skólanum. Þetta eru mjög einlæg viðbrögð og mikils virði þó að maður skrái þau ekki í skýrslur um árangur í þróunarstarfi.“ 10.PM5 19.4.2017, 09:2410

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.