Bæjarins besta


Bæjarins besta - 22.08.2001, Blaðsíða 9

Bæjarins besta - 22.08.2001, Blaðsíða 9
MIÐVIKUDAGUR 22. ÁGÚST 2001 9 Undirbúningur þegar hafinn fyrir Landsmót UMFÍ á norðanverðum Vestfjörðum sumarið 2004 Spannar allt svæðið frá Þingeyri til Súðavíkur og Bolungarvíkur – rætt við Magnús Reyni Guðmundsson, formann undirbúningsnefndar, um fyrstu skrefin á langri leið Landsmót Ungmennafé- lags Íslands er fjölmennasta íþróttamót sem haldið er á Íslandi. Fjöldi keppenda hefur verið allt að 2.000 á seinni árum en þeir sem koma og fylgjast með eru að jafnaði á bilinu 12.000 til 20.000. Mótin hafa stundum verið nefnd hinir íslensku Ólympíuleikar. Næsta mót verður haldið sumarið 2004 á norðan- verðum Vestfjörðum en það hefur aldrei áður verið hald- ið í fjórðungnum. Miðað við fjölda keppenda og áhorfenda má telja ljóst að mótinu fylgi ýmis sóknar- færi fyrir það hérað þar sem það er haldið. Fyrst var Landsmót UMFÍ haldið árið 1909 en síðan 1940 hefur það oftast verið haldið þriðja hvert ár. Á Landsmótum er keppt í fjölmörgum greinum hefð- bundinna íþrótta auk ým- issa starfsíþrótta. Margt á eftir að breytast Magnús Reyni Guð- mundsson þarf naumast að kynna fyrir a.m.k. Ísfirð- ingum enda hefur hann komið víða við og meðal annars var hann bæjarritari á Ísafirði um tveggja ára- tuga skeið. Fyrir nokkru var hann fenginn til að gegna formennsku í undirbún- ingsnefnd Landsmótsins 2004. „Já, ég hef fallist á að leggja mitt af mörkum við undirbúning þessa verkefn- is“, segir Magnús Reynir. „Nefndin er skipuð tveimur fulltrúum frá Héraðssam- bandi Vestfirðinga (HSV) og tveimur frá Ungmenna- félagi Bolungarvíkur. Það eru þessir tveir aðilar sem fengu mótið til sín og bera því ábyrgð á mótshaldinu. Auk þess eiga Súðvíkingar aðild að nefndinni en þeir hafa starfað undir merkjum Héraðssambands Vestfirð- inga. Í nefndinni er einnig fulltrúi frá Ungmennafélagi Íslands og bæjarsjóði Ísa- fjarðarbæjar. Síðan getur verið að þarna komi inn fulltrúar frá Bolungarvík- urkaupstað og Súðavíkur- hreppi. Héraðssamband Vestfirð- inga spannar svæðið frá Þingeyri til Súðavíkur og Bolungarvíkur og þetta svæði allt ætlum við okkur að virkja. En þetta er allt saman á frumstigi og margt á enn eftir að skýrast. Ég vil taka það fram að þessar hug- myndir sem ég segi frá hér eru frumhugmyndir og enginn endanlegur sannleikur. Margt á eflaust eftir að breytast mik- ið “ Landsmót 2001 Landsmót 2001 var haldið á Egilsstöðum í sumar og stóðu Vestfirðingar sig þar áberandi vel. Magnús Reynir fór ásamt öðrum nefndar- mönnum á mótið til að kynna sér undirbúninginn og fram- kvæmdina. „Mótið á Egilsstöðum var mjög glæsilegt og ljóst var að þar hefur verið vel staðið að undirbúningi. Það er ekki spurning að við getum tekið mótshaldarana þar til fyrir- myndar í sambandi við undir- búning mótsins 2004. Við fór- um austur til að geta fylgst með hvernig þetta fer fram og til að spjalla við þá sem störf- uðu að undirbúningi. Við verðum að leita víða í smiðju til að geta gert þetta eins og til er ætlast.“ Mikill fjöldi fólks fylgir slíkum mótum. „Á Landsmót- inu á Egilsstöðum voru eitt- hvað um 1.500 keppendur, sem var nokkru færra en á mótinu þar á undan þannig að við getum búist við á bilinu 1.500-2.000 keppendum. Svo eru auðvitað margir sem fylgja keppendunum þannig að það eru mörg þúsund manns sem koma á svona mót.“ Sundlaug og leikvangur Margt þarf að framkvæma hér vestra til að geta haldið landsmót svo vel sé. „Já, það sem þarf að gera er óhemju- mikið“, segir Magnús. „Þar eru fyrst og fremst tveir þættir sem við þurfum að leysa ef af þessu mótshaldi á að geta orðið. Það er annars vegar gerð 25 metra sundlaugar og hins vegar bygging leikvangs með allri þeirri aðstöðu sem er nauðsynleg fyrir frjálsar íþróttir.“ Vegna landsmótsins var á Egilsstöðum byggður mjög glæsilegur leikvangur sem nefndur er Vilhjálmsvöllur eft- ir Austfirðingnum Vilhjálmi Einarssyni sem fékk silfur- verðlaun á Ólympíuleikunum 1956. Byggt var við íþrótta- húsið og nýtt gólfefni lagt. Miklar framkvæmdir áttu sér stað við frjálsíþróttavöllinn. Áhorfendasvæði voru endur- byggð og byggt var vallarhús sem hýsir stjórnstöð og tíma- tökubúnað auk búningsað- stöðu fyrir keppendur. Mestar hafa þó fram- kvæmdirnar verið við hlaupa- brautirnar. Völlurinn hefur nú sex tartanlagðar hlaupabrautir og eru fjórar þeirra upphitaðar. Þetta er væntanlega svipað því sem Vestfirðingar vilja gera. En hvar er hægt að koma fyrir slíkum mannvirkjum, svo ekki sé talað um sundlaug? Horft til Tungudals „Við höfum, nokkrir í nefndinni og aðrir aðstand- endur þessa mótshalds, séð það fyrir okkur að þetta gæti rúmast mjög vel og orðið mjög glæsilegt frammi í Tungudal. Þar yrði gerður leikvangur og sundlaugar- svæði en þetta myndi síðan styrkja ferðaþjónustu og upp- byggingu svæðisins sem úti- vistarsvæðis. Til dæmis yrði sólbaðsaðstaða og ýmsilegt fleira í kringum þetta. En það er annað sem mælir með Tungudalnum. Þar getum við sjálfsagt fengið ódýra orku. Við vitum að það er heitt vatn í Tungudal, þótt það hafi ekki ennþá fundist, og Orku- búið hefur lýst því yfir að áfram verði haldið að reyna að finna það. Svo erum við einnig með orku frá sorp- brennslustöðinni Funa sem gæti nýst þarna allt árið. Það er ljóst að íþróttasvæðið á Torfnesi er alltof lítið til að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til þessa móts þann- ig að það verður að byggja upp framtíðarsvæði og við höfum þar staðnæmst við Tungudalinn.“ Er þetta mögulegt? Talsverðar rökræður hafa farið fram hér vestra hvort þetta sé í raun og veru mögu- legt. Efasemdir hafa verið uppi um fjárhagslega burði og aðra getu svæðisins til að takast á við þetta verkefni. „Við getum þetta með góð- um vilja“, segir Magnús Reynir. „Það er ljóst að ríkis- sjóður mun taka þátt í upp- byggingu mannvirkja eins og hann gerði fyrir síðustu lands- mót í Borgarnesi og á Egils- stöðum. Ísafjarðarbær hefur lýst yfir vilja sínum að koma að málinu. Ef sveitarfélögin og aðrir hér heima eru tilbúnir, þá getum við byggt upp fram- tíðarsvæði fyrir okkar unga fólk. Þetta er tækifæri sem við ættum að grípa, tækifæri sem býðst ef til vill ekki aftur. Ísafjarðarbær er eina sveit- arfélagið sem kemur inn í þetta verkefni með það fyrir augum að leggja í þetta fé ásamt ríkissjóði. Bolungar- víkurkaupstaður hefur ekki fallist á að leggja fram peninga og ekki heldur Súðavíkur- hreppur. Þetta kemur því til með að mæða mest á Ísafjarð- arbæ þannig að það er eðlilegt að mesta uppbyggingin sem nauðsynleg er sérstaklega vegna mótsins fari fram hér. Það eru að vísu ágæt íþrótta- svæði hérna í nágrenni við okkur sem myndu þá standa undir ýmsum öðrum greinum, til dæmis knattspyrnu, þar sem við horfum til Bolungar- víkur.“ Jákvætt fyrir svæðið „Þetta er spennandi verk- efni og það er nauðsynlegt að gera eitthvað til að bæta ímynd svæðisins og fá fram jákvæðar raddir og umræðu heima í héraði. Nóg er nú að gert í sambandi við hnignun at- vinnulífsins án þess að þetta tækifæri verði látið fram hjá fara. Þarna er keppt í ótal keppnisgreinum, til dæmis í öllum boltagreinum, sundi – við áttum einmitt mjög gott sundlið á Egilsstöðum – frjáls- íþróttum og mörgum öðrum greinum. Þá má nefna að oft kemur landsmótshaldari með nýj- ar greinar inn á mótið. Það er hugmynd okkar að kynna sérstöðu okkar hér vestra og bjóða upp á keppni í sjósportgreinum, til dæmis kajakróðri sem er mjög vin- sæll um þessar mundir.“ Fulltrúar ríkisins jákvæðir „Þetta er geysimikið verkefni sem þarfnast mik- ils undirbúnings. Mótið verður haldið eftir þrjú ár og strax þarf að byrja und- irbúninginn, ræða við sveit- arstjórnir um skipulagsmál og fjármál og svo auðvitað að leggjast á eitt til að fá fjármagn frá ríkinu sem geti staðið undir þessu að veru- legu leyti. Við vonum að hægt verði að ná endum saman í þessu og viljum gera þetta vel. Það er ljóst að þátttaka ríkisins skiptir sköpum í þessu verkefni. Fulltrúar ríkisins hafa verið mjög já- kvæðir í þeim frumviðræð- um sem hafa farið fram. Þótt þær séu ekki miklar, þá hafa menn átt persónuleg samtöl við ráðamenn og þeir hafa verið mjög já- kvæðir gagnvart þessu verkefni.“ 34.PM5 19.4.2017, 09:409

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.