Vinnan - 01.02.1952, Síða 11
VERKFALL á togurunum
\ .
★ Tólf stunda hvíld á sólarhring á öllum veiðum.
★ Full verðlagsuppbót á kaup samkvœmt vísitölu.
★ Bœtt kjör á fiskveiðum í salt, einkum á fjarlœgum miðum.
VERKFALL hófst á togurunum 21. febrúar
eftir miklar en árangurslausar samningatilraunir.
Hlut eiga að verkfallinu hásetar, kyndarar, mat-
sveinar, bræðslumenn og bátsmenn á nær öllum
togaraflotanum, eða 35 skipum af 42, og með þeim
standa að því 7 verkalýðs- og sjómannafélög af 12,
er annast samninga fyrir togarasjómenn.
Félögin eru þessi: Sjómannafélag Reykjavíkur,
Sjómannafélag Hafnarfjarðar, Verkalýðs- og sjó-
mannafélag Keflavíkur, Verkalýðsfélag Patreks-
fjarðar, Sjómannafélag Isfirðinga, Verkamanna-
félagið Þróttur Siglufirði og Sjómannafélag Akur-
eyrar.
Félög þessi hafa bundizt samtökum í deilunni
og heitið því hvert öðru að ganga sameinuð að
samningaborðinu. Þau hafa kosið sér sameigin-
lega samninganefnd, er einnig fer með verkfalls-
stjórn. Skipa nefndina einn maður frá hverju
félagi auk eins fulltrúa frá miðstjórn Alþýðu-
sambandsins, og er hann formaður hennar.
Þessir menn eru í nefndinni: Jón Sigurðssoá,
framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, formaður,
Sigfús Bjarnason frá Sjómannafélagi Reykjavíkur,
Borgþór Sigfússon frá Sjómannafélagi Hafnar-
fjarðar, Ólafur Björnsson frá Verkalýðs- og Sjó-
mannafélagi Keflavíkur, Gunnlaugur Kristófers-
son frá Verkalýðsfélagi Patreksfjarðar, Marías Þ.
Guðmundsson frá Sjómannafélagi Isfirðinga,
Gunnar Jóhannsson frá Verkamannafélaginu
Þrótti á Siglufirði og Lorenz Halldórsson frá
Sjómannafélagi Akureyrar.
Kröfur sjómannanna eru í meginatriðum þrjár:
1) Tólf klukkustunda hvíld á sólarhring á
öllum veiðum.
2) Full verðlagsuppbót á allt kaup samkvæmt
vísitölu.
3) Bætt kjör á fiskveiðum í salt, einkum þegar
veitt er á fjarlægum miðum.
Þeim skipum, sem voru í veiðiför, þegar verk-
fallið hófst verður leyft að ljúka henni. En hvert
það skip, sem búa á til veiða, nú eftir að það er
hafið, verður stöðvað. Og þó svo fari, að einhverju
útgerðarfyrirtæki, sem hlut á í deilunni, takist
að brjóta verkfallið og senda skip á veiðar, mun
verða séð um það, að það fái ekki afgreiðslu í
erlendum höfnum, með því að leitað hefur verið
aðstoðar Alþjóðasambands frjálsra verkalýðs-
félaga, ICFTU, og Alþjóðasambands flutninga-
verkamanna, ITF í því skyni.
Þannig hyggjast sjómenn beita mætti sam-
takanna til að fá framgengt kröfum sínum, úr
því að togaraeigendur hafa ekki borið gæfu til
að skilja réttmæti þeirra og semja um þær án
þess að til vinnustöðvunar þyrfti að koma.
Sjómenn sækja fast að fá tólf stunda hvíld á
sólarhring á öllum veiðum samningsbundna. Og
fyrir því liggja góð og gild rök. Togaravinna er
áhlaupa erfiðisvinna, og heilsu og lífi sjómanna
er misboðið, njóti þeir ekki hæfilegrar hvíldar á
hverjum sólarhring. Þeir eiga auðvitað ekki að
vera ofurseldir vinnuþrælkun fremur en aðrir
menn. Krafan um tólf stunda hvíld togarasjó-
manna er því einvörðungu mannúðar- og rétt-
lætismál, sem ríkisvaldinu ber í rauninni að leiða
til farsælla lykta og samþykkja. En úr því að
það lætur það undir höfuð leggjast, er sjómönn-
um nauðugur einn kostur að knýja hana fram í
samningum.
Hvíldartíminn er í rauninni veigamesta ágrein-
ingsatriðið í þeirri deilu, sem nú stendur yfir
við útgerðarvaldið, og gegnir mikilli furðu, að
það skuli sjá sér hag í að láta koma til vinnu-
stöðvunar um það. Það væri ekki óeðlilegt, að
útgerðarmönnum snerist hugur í þessu efni, áður
en langt líður.
En málstað sjómannanna styðja verkalýðssam-
tökin og allir réttsýnir menn, hvar í stétt sem
þeir standa.
VINNAN T 1