Heilbrigðisskýrslur - 01.12.1990, Síða 94
á mataræði íslendinga þar sem öll fæða til heimilisins var tíunduð, þar með
talin hver fituögn. Það var prófessor Júlíus Sigurjónsson, sem stjórnaði þeirri
könnun en Manneldisráð íslands var einmitt stofnað í tengslum við þessar
framkvæmdir.
Þegar niðurstöður þessara tveggja kannana eru bornar saman kemur að
sjálfsögðu í ljós, að fæði íslendinga hefur um margt gjörbreyst, nánast
umturnast á hálfri öld. Neysla grænmetis og ávaxta hefur margfaldast og sömu
sögu er að segja um ótal fæðutegundir, svo sem kökur, kex, sælgæti og sæta
drykki. Hins vegar er mun minna borðað af kjötfitu en áður, meira að segja svo,
að fita úr kjöti vegur tiltölulega lítið í heildarneyslu mörlandans. Samt sem áður
er fituneyslan í heild meiri nú en árið 1939 og eins og sjá má hefur aukningin
orðið mest í sveitum og þéttbýli við sjávarsíðuna en minni á höfuðborgarsvæðinu
og öðrum verslunarstöðum.
Eru þetta ekki einfaldlega mistök í útreikningum kann einhver að spyrja.
Hvaðan kemur eiginlega þessi fita, sem á að hafa bæst við matinn? Niðurstöður
nýju könnunarinnar veita einmitt svör við þessum spurningum. Þar kemur
glöggt í ljós að nánast helmingur þeirrar fitu sem nútíma íslendingar borða
kemur úr smjöri, smörlíki og olíum, það er að segja alls konar feiti sem notuð er
við matargerð og sælgætisgerð, í bakstur, sósur, á brauð, kex og með mat. Fita úr
ostum og mjólkurvörum er einnig töluverð og meiri en fyrir stríð, en kjötfitan
ein hefur minnkað.
Það vekur athygli, að fáein sáraeinföld atriði ráða að miklu leyti fituneyslu
Islendinga samkvæmt könnuninni. Sú hversdagslega athöfn að smyrja brauðið
sitt virðist afdrifaríkust hvað þetta varðar. Þeir sem smyrja þykku lagi af smjöri
eða smörlíki á brauð og kex borða feitasta fæðið og fá hvorki meira né minna en
48% orkunnar úr fitu að jafnaði. Hinir sem smyrja þunnt fá aðeins 35% orku úr
fitu að jafnaði. Smurningin vegur þetta þungt, einfaldlega vegna þess að flestir
borða brauð og kex ekki aðeins daglega heldur oft á dag. Þegar allt kemur til alls
er það grár hversdagsleikinn sem skiptir mestu máli fyrir hollustuna, jafnvel
meira máli en fituríkar krásir sem eru tiltölulega sjaldan á borðum.
A sama hátt hafa feiti og sósur með hversdagsmat meiri áhrif á daglega
fituneyslu en sælkerasósur á stórhátíðum. Sérstaklega er áberandi að margir
virðast nota feiti eða kokkteilsósu í þvílíku magni með algengum hversdagsmat,
að annars hollur matur nánast drukknar í fitu.
Könnun Heilbrigðisráðuneytisins sýnir glöggt að íslenskt mataræði býr yfir
mörgum góðum kostum. Fæði flestra landsmanna er bætiefnaríkt og með
afbrigðum próteinríkt enda borða íslendingar meiri fisk en nokkur önnur
Evrópuþjóð nema ef vera skyldi Færeyingar. Einnig kemur skýrt í ljós að þótt
fitan sé mikil að öllum jafnaði, borða margir landsmenn tiltölulega fitulítið
fæði.
92