Bæjarins besta


Bæjarins besta - 17.09.1997, Blaðsíða 10

Bæjarins besta - 17.09.1997, Blaðsíða 10
10 MIÐVIKUDAGUR 17. SEPTEMBER 1997 una. Núna stendur yfir endurskipulagning á skipastól félagsins og við áætlum að þeirri vinnu ljúki fljótlega upp úr áramótunum. Á því sviði standa yfir umfangsmiklar breytingar.“ Einu þröskuldarnir heimatilbúnir „Við teljum að þegar kemur fram yfir áramótin verði komið það útlit á fyrirtækið sem menn sjá fyrir sér í dag. Þá fyrst held ég að menn geti farið að sýna verulega þann kraft sem ég er sannfærður um að býr í Básafelli. Fyrr en þá finnst mér ósanngjarnt að kveða upp dóma yfir þessu fyrirtæki. Ég bendi á, að í allri þeirri vinnu sem unnin hefur verið við endurskipu- lagningu á fjárhag þessa fyrirtækis hefur okkur alls staðar verið tekið mjög vel. Við virðumst alls staðar hafa fullt traust – nema kannski hjá þeim sem næst okkur standa. Ég segi það fyrir mig, að maður bjóst við því að margir þröskuldar yrðu á vegi okkar í þessari vinnu. En að einu þröskuldarnir sem við höfum rekið okkur á skuli vera heimatilbúnir – það er nokkuð sem við áttum ekki von á. Í allri þessari vinnu hefur það komið okkur mest á óvart.“ Einkennileg umræða – En jepparnir? „Sjálfur keyri ég ekki á jeppa. Reyndar sé ég alltaf eftir Pajeró-jeppanum sem ég átti. En mér hefur alltaf þótt það einkennilegt, þegar umræðan um atvinnulíf og þróun vestfirskra byggða er látin snúast um bifreiðaeign einstakra manna.“ Hugmyndirnar um að breyta húsnæði Norðurtangans í skólahúsnæði – Bæjarstjórnarmeirihlutinn og þínir eigin hagsmunir? „Við skulum koma að því. Í vetur kviknaði sú hugmynd að breyta Norðurtangahúsunum í skólahúsnæði. Ég held að ég fari rétt með það, að sú hugmynd hafi fyrst komið fram þegar Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt var að vinna að deiliskipulagi fyrir Eyrina. Hún kom hér í heimsókn og var að velta fyrir sér framtíð rekstrar hér í Norðurtanganum og hvort uppi væru óskir hjá okkur um aukið landrými fyrir reksturinn. Á þeim tímapunkti var nánast búið að taka ákvörðun um að leggja af þessa vinnslu hér. Í framhaldi af þeim tíðindum kviknaði sú hugmynd innan bæjarkerfisins að breyta þessu húsnæði í skólahúsnæði. Nokkrum mánuðum áður hafði fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar hafið vinnu við að fara yfir þá kosti sem fyrir hendi væru til þess að komið yrði á einsetningu grunnskólanna í Ísafjarðarbæ, sem við komumst ekki hjá frekar en önnur sveitarfélög. Þessi vinna fræðslunefndar hefur því miður ekki verið kynnt nægilega vel. Af einhverjum ástæðum hefur ekki tekist að koma því nægilega vel á framfæri í bæjarfélaginu, hversu viðamikið og gott starf fræðuslunefndin hefur unnið, og það er kannski það versta. En það var samdóma álit allra í fræðslunefnd, eftir að húsið hér hafði verið skoðað út frá þessu sjónarmiði, að það myndi henta mjög vel fyrir þessa starfsemi. Bæjarstjórn samþykkti á sínum tíma samhljóða þá stefnu- mótun fræðslunefndar, að kaupa skyldi húsnæði í nágrenni grunnskólans. Í öllu þessu ferli hefur verið mikil samstaða. Á síðustu metrunum virtist svo allt í einu koma upp einhver meiningarmunur, sem hafði ekki orðið vart við áður, og á endanum afgreiddi bæjarstjórn málið með þeirri ákvörðun sem öllum er kunnug, að draga til baka kauptilboð sitt í hús Norðurtangans og fara yfir þessi mál aftur. Í framhaldi af því hef ég sagt, að ég sæi engin rök fyrir því að kasta frá sér í einu vetfangi allri þeirri miklu vinnu sem fræðslunefnd hefur unnið ágreiningslaust í þessu máli. Ég lét orð falla á þá leið, að meirihluti bæjarstjórnar, sem færi að hlutunum með þeim hætti, væri enginn meirihluti. Síðan hafa menn farið yfir málin og ég trúi því að áfram verði haldið hinni faglegu vinnu, þ.e. að kanna þá kosti sem fyrir hendi eru. Núna hefur allt í einu komið inn í umræðuna að menn vilji byggja nýtt og þá er sjálfsagt að kanna þann möguleika.“ Ekkert að óttast meðan unnið er með faglegum hætti „Á meðan menn eru í þessari faglegu vinnu er ekkert að óttast. Það eina sem ástæða getur verið til að óttast í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum sem að sveitarfélaginu snúa, er að menn geri sér ekki fulla grein fyrir fjárhagsstöðunni. Það vita allir sem vilja vita, að Ísafjarðarbær er mjög skuldsett sveitarfélag og menn verða að taka ákvarðanir í samræmi við það. Auðvitað væri gott að geta gert hina og þessa hluti, ef menn ættu nóg af peningum, en það er nú einu sinni upphaf og endir alls, að eiga fyrir hlutunum.“ Pólitískur styrkur minn ofmetinn „Hver svo sem niðurstaðan verður í þessu máli, þá vona ég bara að menn gleymi ekki hvernig við erum stödd fjárhagslega. En að ég sé að huga að eigin hagsmunum í þessu máli, þá er þess að geta, að jafnskjótt og það kom til tals að bærinn keypti þetta húsnæði, þá tók ég þá ákvörðun að koma hvergi nálægt afgreiðslu þess máls og enginn getur sagt um mig að ég hafi ekki staðið við það. Ég hef hvergi setið fundi þar sem þessi mál hafa verið rædd. Á hinn bóginn ber mér á endanum sem bæjarfulltrúi að axla mína ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins og hlýt að taka mínar ákvarðanir í samræmi við það. Það er því ekkert óeðlilegt að ég sem bæjarfulltrúi tjái mig um þessi mál, en ég hef ekki komið nálægt afgreiðslu þeirra á nokkurn hátt. Varðandi allt tal um það, sem maður hefur svo sem heyrt í bland við aðrar sögur, að þetta mál sé runnið undan mínum rifjum, þá vil ég nú segja, að þar er pólitískur styrkur minn ofmetinn.“ Ekki á leiðinni að sprengja meirihlutann – Þú hefur þá ekki verið að hugleiða það undanfarið, að sprengja meirihlutann... „Nei, vissulega ekki. Á meðan sá meirihluti sem nú er starfar á faglegum nótum, þá sé ég enga ástæðu til að vera að sprengja eitt eða neitt. Það samstarf sem við erum nú í hefur að mörgu leyti gengið mjög vel og það síðasta sem okkur vantar á þessu svæði er að fara að efna til einhverra pólitískra illinda. Við Ísfirðingar höfum fengið alveg fullan skammt af slíku á undanförnum árum. Ég sé engin efni til neinna pólitískra styrjalda um stjórn bæjarfélagsins.“ Spennandi verkefni bíða nýrrar bæjarstjórnar – Nú líður senn að nýjum kosningum til bæjarstjórnar. Hyggur þú á áframhaldandi setu í bæjarstjórn? „Þetta er spurning sem alls ekki er tímabært að svara í dag. Ég held að lengra verði að líða áður en ég tek ákvörðun um það. Ég leiddist út í þetta af hálfgerðri slysni á sínum tíma og er nú búinn að sitja í bæjarstjórn bráðum fjögur ár, allan tímann í meirihluta. Við höfum komið mjög mörgum málum í gegn, þó að sameining sveitarfélaganna standi þar auðvitað upp úr. En það er afar tímafrekt að sitja í sveitarstjórn og erfitt samhliða öðru tímafreku starfi. Hins vegar bíða spennandi verkefni við rekstur bæjarfélagsins á komandi árum. Sveitar- stjórnarmenn eiga t.d. eftir að sanna sig við rekstur grunn- skólanna. Það er verkefni sem verður mjög spennandi að fylgjast með á næstu árum. Bættir skólar hér á svæðinu verða að vera eitt af forgangsverkefnum Vestfirðinga. Þar þurfum við að sýna miklu meira frumkvæði en við höfum gert. Í fullri hreinskilni sagt hef ég enga ákvörðun tekið um það, hvort ég gef kost á mér áfram í bæjarstjórn.“ Prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum? – Nú hefur engin ákvörðun verið tekin um það í þínum flokki, hvort efnt verður til prófkjörs hér í Ísafjarðarbæ. Í Reykjavík hefur þegar verið ákveðið að viðhafa prófkjör. Hver er skoðun þín á þessu? „Mér finnst liggja í augum uppi að hér verði haldið prófkjör, þótt ekki hafi enn farið fram nein formleg umræða um það. Reyndar hef ég verið lítið hrifinn af prófkjörum gegnum tíðina, því að oft hafa þau skapað fleiri vandamál en þau hafa leyst. Málið en hins vegar það, að ekki hefur verið fundin nein leið sem fólki hugnast almennt betur. Aðstæðurnar voru reyndar mjög sérstakar fyrir kosningarnar í fyrravor, þegar sveitarfé- lögin voru sameinuð. Umræðan var þá í þeim anda, að menn vildu láta það fólk sem áður hafði verið kosið á hverjum stað halda starfinu áfram í sameinuðu sveitarfélagi. Niðurstaðan hjá okkur sjálfstæðismönnum varð einmitt sú, að hafa ekki prófkjör við þær aðstæður, heldur að stilla saman því fólki sem hafði unnið að sameiningunni. Hugað var að því sem alltaf hlýtur að vera sérlega mikilvægt við stofnun nýs sveitarfélags, að allir hlutar þess hefðu sína fulltrúa. Í heildina finnst mér hafa tekist ágætlega til við uppstillingu á listann hjá okkur. Nú er þetta hins vegar farið að slípast og sveitarfélagið orðið ein heild og vonandi hafa menn sýnt fram á það, að einstakir hlutar sveitarfélagsins þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af sinni stöðu. Þess vegna finnst mér eðlilegast að nú verði prófkjör um uppstillingu á lista.“ Bæjarstjórinn og stjórnarformennskan í Samherja – Í dálki Stakks í Bæjarins besta í síðustu viku kom fram gagnrýni á það, að bæjarstjórinn á Ísafirði skuli jafnframt vera stjórnarformaður í Samherja. Hvaða skoðun hefur þú á því máli? „Því er fljótsvarað. Ég hefði ekki gerst stjórnarformaður Samherja í sporum Kristjáns. Hann fékk hins vegar heimild til þess frá forystumönnum þeirra flokka sem standa að meirihluta bæjarstjórnar og hafði fullt traust þeirra. Ég taldi þetta óheppi- legt fyrir mann í hans stöðu. En þetta varð einfaldlega niður- staðan og við því er í sjálfu sér ekkert að gera. Ég hef ekki orðið var við það hingað til, að þetta hafi á nokkurn hátt komið niður á störfum hans sem bæjarstjóra. Og ég vil segja varðandi þau blaðaskrif, sem átt hafa sér stað undanfarið um meinta hagsmunaárekstra hans, að mér finnast þau ákaflega ómerkileg. Þeim hefur ekki fylgt hinn minnsti rökstuðningur um að þetta hafi skaðað starf hans sem bæjarstjóra á nokkurn hátt. Á meðan svo er ekki finnst mér ekki nokkur ástæða til að taka þetta mál upp. Mér finnst Kristján Þór hafa staðið sig ákaflega vel í sínu starfi sem bæjarstjóri og þetta einstaka mál breytir engu um það.“ Fólk með sjálfstæðar skoðanir – Er það rétt, að upp hafi komið á liðnum mánuðum og misserum nokkur alvarleg ágreiningsmál innan bæjarstjórnar- flokks Sjálfstæðisflokksins, þannig að við hafi legið að upp úr syði? „Ég hef vissulega ekki mikla reynslu í stjórnmálum, enda er þetta aðeins fjórða árið mitt í bæjarstjórn, þannig að ég hef ekki mikinn samanburð. Hitt leyndist engum sem sáu framboðslistann okkar fyrir síðustu kosningar, að þar var í efstu sætunum kröftugt fólk sem hefur verið þekkt fyrir flest annað en lítillæti eða undanslátt. Það hefur ekkert breyst. Í annan stað fylgja sameiningu sveitarfélaga mjög mörg álitamál. Það er alveg rétt að við höfum oft tekist á um hlutina, en ég hef aldrei orðið var við annað hingað til en að menn hafi getað sest niður og leyst vandamálin í fullu bróðerni. Hins vegar höfum við engan samanburð í þessum efnum í bæjarstjórninni núna. Sjálfstæðisflokkurinn er auk Funklistans eini flokkurinn sem á fleiri en einn bæjarfulltrúa. Því hljóta skoðanaskipti fimm bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vekja meiri athygli en eins manns tal annarra flokka. Ég verð að segja að mér finnst það nú frekar vera styrkur flokks að þar skuli geta hvesst á stundum og hef hreint ekkert við það að athuga“, segir Halldór Jónsson. Hlynur Þór Magnússon. „Kjaftasögur um náungann eru það auðveldasta sem hægt er að koma af stað hér. Við Básafellsmenn höfum ekki farið varhluta af því á undanförnum mánuðum,“ segir Halldór Jónsson.

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.