Bæjarins besta


Bæjarins besta - 17.09.1997, Blaðsíða 8

Bæjarins besta - 17.09.1997, Blaðsíða 8
8 MIÐVIKUDAGUR 17. SEPTEMBER 1997 Halldór Jónsson í yfirheyrslu um Básafellsmál og bæjarmál Halldór Jónsson er vinnslustjóri hjá Básafelli hf. í Ísafjarðarbæ, en það fyrirtæki varð til í núverandi mynd á síðasta ári við sameiningu nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja á Ísafirði og Flateyri. Frá 1994 hefur Halldór jafnframt verið bæjarfulltrúi á Ísafirði og síðan í sameinuðum Ísafjarðarbæ, átt sæti í bæjarráði og verið formaður hafnarstjórnar. Árið 1980 var Halldór „í fyrsta stúdentahópi vinar míns Björns Teitssonar við Menntaskólann á Ísafirði“ eins og hann kemst að orði. Að loknu stúdentsprófi stundaði hann ýmis störf og lauk prófi sem útgerðartæknir árið 1986. Eftir það var hann skrifstofustjóri Frosta hf. í Súðavík 1986-1990 og framkvæmda- stjóri Meleyrar hf. á Hvammstanga 1990-1992. Þá varð hann útgerðarstjóri og síðan framkvæmdastjóri Rits hf. á Ísafirði uns það fyrirtæki rann inn í Básafell hf. á síðasta ári. Hann tók þá við starfi vinnslustjóra hjá Básafelli og hefur yfirumsjón með allri rækjuvinnslu fyrirtækisins. Á árunum 1991-1994 var Halldór formaður Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda. Á síðustu vikum, mánuðum og misserum hefur Halldór oft verið umtalaður og stundum umdeildur vegna starfa sinna í Básafelli og bæjarstjórn. Hann hefur unnið við sameiningu bæði fyrirtækja og sveit- arfélaga hér vestra á síðustu árum og hefur með þeim hætti tekið virkan þátt í þeirri nýsköpun og raunar umbyltingu sem hefur verið að eiga sér stað á norðanverðum Vestfjörðum á báðum þeim sviðum. En forsenda allrar þeirrar vinnu er einmitt sú, að menn hafi trú á framtíð Vestfjarða. Bæjarins besta heimsótti Halldór á skrifstofu hans á efstu hæð Norðurtangahússins við Sundstræti á Ísafirði, einmitt í því her- bergi þar sem skólasálfræð- ingi er ætl- að aðset- ur ef hugmyndir fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar um nýtingu hússins fyrir Grunnskóla Ísafjarðar ná fram að ganga. Þær hugmyndir voru á fundi bæjarstjórnar fyrir skemmstu settar í biðstöðu og nánari athugun og hefur það mál allt valdið töluverðum titringi innan bæjarfélagsins. Svo er um fleiri mál á þeim umbrotatíma sem Halldór hefur átt sæti í bæjarstjórn. Hvað hefur hann að segja um þátttöku sína í átökum, umbreytingum og uppbyggingu í vestfirsku samfélagi síðustu árin? „Síðustu þrjú til fjögur árin hafa vissulega verið mikil umbrotaár á norðanverðum Vestfjörðum“, segir Halldór. „Sameining sveitarfélaga og sameining fyrirtækja hafa verið lengi í umræðunni og ég hef kannski verið svo heppinn að lenda inni í þessari hringiðu miðri í báðum tilvikum.“ Sameining sveitarfélaganna „Sameining sveitarfélag- anna hefur að mörgu leyti tekist mjög vel. Auðvitað vita allir að gerð jarðganganna var forsenda hennar og margir voru hræddir um að Vestfirðingar ætluðu ekki að rækja skyldur sínar gagnvart þeirri framkvæmd. Sem betur fer tókst þó sveitar- stjórnarmönnum, á síðustu stundu, vil ég meina, að snúa bökum saman, að minnsta kosti á því svæði sem nú er Ísafjarðarbær, og gerðu þetta að mörgu leyti mjög skynsamlega. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að sameining þessara sveitarfélaga hefði ekki mátt gerast miklu seinna. Auðvitað heyrðust þær raddir hér á Ísafirði, að menn væru að fórna einhverri framtíð með því að taka misjafnlega skuldug sveitarfélög inn á sig, en ég held að allir hljóti að fallast á það í dag, að framtíð okkar hér í gamla Ísafjarðarkaupstað hefði ekki verið mikil án þessara byggða í kringum okkur. Ég vona því að þær áhyggjur séu nú horfnar og fólk sé orðið sannfært um að rétt hafi verið gert þegar sveitarfélögin voru sameinuð. Ástæða þess að þetta hefur tekist betur hér en sums staðar annars staðar, án þess að við séum að nefna nein nöfn í því sambandi, er sú að menn höfðu vit á því hér að vera ekki að gefa fólki neinar gyllivonir. Hér var farið mjög hreinskilnislega yfir stöðu sveitarfélaganna og hvað væri þar framundan, en voru ekki með nein yfirboð varðandi aukna þjónustu. Menn sögðu einfaldlega, að stærsti sigurinn yrði í því fólginn ef hægt yrði að halda því sem við höfðum. Kannski er ég ekki fyllilega dómbær, en mér finnst a.m.k. að sá tími sem liðinn er frá stofnun hins nýja Ísafjarðarbæjar hafi ekki leitt í ljós neina umtalsverða ósátt með sameiningu eins og sums staðar hefur komið fram.“

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.