Börn og menning - 01.04.2003, Síða 39
Útlenskar bíómyndir
grunnskóla. Og ég er sannfærð um að ungt
fólk hefði mjög gaman af því að læra um
hvers vegna kvikmyndavélin hreyfist svona
eða hinsegin til að leggja áherslu á þetta
eða hitt í frásögn og væru áhugasöm um
myndbyggingu, áhrifshljóð eða ólík stílbrigði.
Kvikmyndasaga er líka mjög skemmtileg
námsgrein, sem þar að auki speglar
þjóðfélagsástand ólíkra heimshluta og víkkar
sjóndeildarhringinn. En því miðurfara íslensk
börn og unglingar á mis við þetta allt saman
og þess vegna mun meirihluti þeirra aldrei
læra að meta framandi eða óhefðbundnar
myndir. Meðan sú er raunin getum við
heldur ekki búist við að íslendingar geri
sér grein fyrir hve mikilvægt það er að
vernda eigin kvikmyndaarf ekkert síður en
bókmenntirnar. Og að það sé mikilvægt að
eiga gott kvikmyndasafn sem er aðgengilegt
fyrir almenning. Þetta helst allt í hendur og
það verður að byrja á byrjuninni með því að
kenna unga fólkinu kvikmyndalestur.
Paradísarbíóið
(Cinema Paradiso) Ítalía, 1988
Leikarar: Philippe Noiret, Salvatore Cascio,
Marco Leonardi, Jacques Perrin, Antonella
Attili, Pupella Maggio, Agnese Nano,
Leopoldo Trieste
Leikstjóri: Giuseppe Tornatore
Handrit: Giuseppe Tornatore
Kvikmyndataka: Blasco Giurato
Tónlist: Ennio Morricone
ftalska Paradísarbíóið (Cinema Paradiso) er
ein af uppáhalds kvikmyndunum mínum.
Hún er óður til kvikmyndarinnar og fjallar
ennfremur um vináttu í sínu fallegasta
birtingarformi. Leikstjórinn Giuseppe
Tornatore gerði myndina árið 1988. Hún
varð strax vinsæl meðal almennings og
fékk fljótlega fjölda viðurkenninga, m.a.
Óskarinn sem besta erlenda myndin og
gagnrýnandaverðlaunin í Cannes árið 1989.
Paradísarbíóið hefst á því að virtur leikstjóri,
Salvatore, fær fréttir um að vinur hans,
Alfredo, sé dáinn. Alfredo sýndi kvikmyndir
í Paradísarbíóinu sem stóð á fallegu torgi í
litla bænum sem hann ólst upp í á Sikiley.
Myndin er að mestu sögð í endurliti, þar
sem Salvatore rifjar upp æsku sína og
unglingsár undir verndarvæng Alfredo
bíóstjóra. Sagan einkennist af hlýju, ástríðu
og húmor sem er óborganlegur. Salvatore,
sem er kallaður Toto í æsku, elst upp einn
hjá móður sinni, syrgjandi stríðsekkju.
Eins og flestir í stríðshrjáðu þorpinu sækir
hann í að horfa á kvikmyndir til að gleyma
hörðum veruleikanum. í fyrstu er hann allt
of lítill til að sjá flestar myndirnar og oftar
en ekki svindlar hann til að komast á bíó.
Með tímanum myndast þó einstök vinátta
milli hans og sýningarmannsins Alfredo
sem kennir honum allt um kvikmyndir og
lífið sjálft. Eftir þvi sem sagan heldur áfram
fylgjumst við með Toto stækka, komast á
unglingsár og finna fyrstu ástina.
jaqwK l'*eprinc
fhilippc Noirot
CINIMA PAIiAHISO
cmsim rowxiMowí
Ógleymanleg atriði í Paradísarbíóinu eru
mörg en eitt af þeim allra þekktustu er þegar
þorpspresturinn er að ritskoða bíómyndirnar
og velja úr hvaða kossar eru of ástríðufullir til
að koma fyrir almenningssjónir. Annað atriði
sem er hjartnæmt og fallegt er þegar vinsælli
gamanmynd er varpað á vegg utandyra til að
allir þorpsbúar geti notið hennar. Rómantísk
birta umlykur allt og gleðin skín úr hverju
andliti. Um stund tekst fólkinu að gleyma
sorgum og fátækt.
Paradísarbíóið er falleg saga sem er líka
mikið fyrir augað og eyrað. Tónlist Ennio
Morricone eykur áhrifin. Hann hefur samið
tónlist við flestar gerðir kvikmynda, drama,
gamanmyndir, hryllingsmyndir, rómantískar
myndir, spennumyndir, listrænar myndir
og tilraunamyndir svo eitthvað sé nefnt
enda hafa fá kvikmyndatónskáld verið
jafn afkastamikil og hann. Morricone
hefur samið ódauðlega tónlist við tæplega
fjögur hundruð kvikmyndir og er enn
að. Með vinsælli verkum tónskáldsins er
tónlistin við Paradísarbíóið. Þar er hvert
stefið öðru fallegra og tónlistin skapar
frábæra stemmingu í mynd sem er óður
til kvikmyndarinnar sjálfrar fyrst og fremst.
Paradísarbíóið hæfir ekki mjög ungum
börnum en er fyrirtaks skemmtun fyrir eldri
börn og unglinga.