Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2017, Síða 8
nema af því að við töldum stefnumálum
okkar betur borgið innan hans en utan.
Hvað myndir þú segja við ungt fólk
sem hefur efasemdir um þátttöku í
stjórnmálum og opinberri umræðu?
Fyrir fólk sem hefur áhuga á umhverfinu í
kringum sig liggur þátttaka í stjórnmálum
beint við. Sumir vilja vera í baklandinu,
aðrir í framlínunni, þar verður hver og
einn að finna sinn stað. Besta leiðin til að
tryggja að skoðanir þínar og baráttumál
komist á dagskrá er að halda þeim sjálf/
sjálfur/sjálft á lofti. Og þó að oft þurfi
að kyngja málamiðlunum þá er það
staðreynd að margt gott þokast áfram;
það eru mikil tækifæri til að koma hlutum
í verk á þingi.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á
stjórnmálum í sinni víðustu mynd,
samfélaginu og fólki almennt. Flestir
minna nánustu vina hafa lengi þóst vita
að ég myndi á endanum hella mér út í
slaginn. Og þeir höfðu rétt fyrir sér.
Þú hefur tjáð þig á þinginu um málefni
hinsegin eldri borgara. Hvernig er
staðan í þessum málaflokki og hvert vilt
þú sjá hann stefna? Hvernig myndir þú
vilja eldast sem hinsegin eldri borgari á
Íslandi?
Í grófum dráttum má kannski segja að
hinsegin eldri borgarar séu birtingarmynd
þess breytta veruleika sem við stöndum
frammi fyrir sem þjóðfélag þegar kemur
að málefnum eldri borgara. Það er fráleitt
að koma fram við eldra fólk eins og um
einsleitan hóp sé að ræða.
Við vitum að það vantar mikið upp á
fagþekkingu á málefnum eldra hinsegin
fólks, sem kom t.d. skýrt í ljós í nýlegri
starfsáætlun um málefni eldri borgara,
þar sem ekki var minnst einu orði á
hinsegin fólk. Ég bind miklar vonir við
samstarfshóp Samtakanna ‘78 um þessi
málefni og lofa að beita mér eins og ég
mögulega get fyrir úrbótum. Það er sárara
en tárum taki ef hinsegin fólk á erfitt
með að fóta sig, t.d. á öldrunarheimili,
vegna þess að þar skortir alla þekkingu
og skilning. Við þurfum að fylgja
réttindabaráttunni eftir alla ævina; það
er skelfileg tilhugsun ef eldra hinsegin
fólk telur sig eiga þann kost skástan að
fara aftur í felur. Ég er ekkert frábrugðin
öðrum að því leyti að ég vil fá að halda
í sjálfsákvörðunarrétt minn og eldast
eins og ég hef lifað. Stolt og á eigin
forsendum.
Þú ert menntuð í heimspeki, hagfræði
og með MBA-próf og hefur starfað m.a.
sem fréttamaður og framkvæmdastjóri.
Hvernig liggja þessir þræðir saman og
hvenær á þessu skeiði fórstu að gera þér
grein fyrir að þú laðaðist að konum?
Ég er hreinlega ekki viss um að það sé til
ákveðið svar við því hvernig þessir þræðir
liggja saman. Ég hef fjölbreytt áhugamál
og hef alltaf gert mér far um að uppfylla
einhverja þörf eða svala forvitni frekar en
að standa í einhverri framtíðarhönnun.
Kannski liggja þessir þræðir akkúrat
saman núna í þingmennskunni. Það er
allavega ljóst að flest það sem ég hef
fengist við í gegnum tíðina og sú þekking
og reynsla sem ég hef viðað að mér
gagnast mér þar.
Einfalda svarið við spurningunni um
hvenær ég gerði mér grein fyrir því að ég
laðaðist að kvenfólki er að það var þegar
ég varð ástfangin af núverandi konunni
minni, Ragnhildi Sverrisdóttur, veturinn
1993–1994. Við höfðum þá unnið saman
um nokkurra ára skeið sem blaðamenn á
Morgunblaðinu og héldum raunar áfram
að starfa þar saman einhver ár eftir að
samband okkar hófst.
Voru einhverjar lesbíur eða hommar
í þínu nánasta umhverfi sem voru
fyrirmyndir á tímabilinu þegar þú varst
að koma út?
Nei, ekki í allra nánasta umhverfi.
Ég þekkti reyndar lesbíur í stærri
kunningjahópnum. En það var þó frekar
þannig að ég vissi af hinsegin fólki en að
ég þekkti beinlínis til þess. Sýnileikinn
var nú fjarri því að vera jafnmikill fyrir
aldarfjórðungi og núna; gleðigangan
byrjaði t.d. ekki fyrr en 1999.
Skiptir það máli að vera opinber lesbía á
þingi? Hvað finnst þér um þá fullyrðingu
að kynhneigð skipti ekki máli heldur
einungis einstaklingurinn og málefnin?
Sýnileiki skiptir gríðarlegu máli; hann er
frumforsenda upplýsingar og samræðu
og á honum hefur barátta Samtakanna ‘78
byggt frá upphafi. Ég upplifi ekki fordóma
af neinu tagi á þingi og greini ekki
hvort einhver blæbrigði sé að finna í því
hvernig samstarfsfólk mitt ávarpar mig
miðað við aðra. Það er frekar að fólk fagni
fjölbreytileikanum á meðal þingmanna.
Þingið á auðvitað að endurspegla
þjóðfélagið. Hérna áður fyrr var þingið
mjög langt frá því að endurspegla nokkuð
annað en miðaldra karlaklíku en núna
hefur orðið mikil breyting þar á. Ég er
stolt af því að vera einn liturinn í þeim
regnboga.
Kyn skiptir máli, kynhneigð skiptir máli,
kynvitund skiptir máli. Við eigum ekki
að ímynda okkur að það sem skilgreinir
einstaklinga á ákaflega persónulegan hátt
skipti engu máli. Við eigum hins vegar
að tryggja að fólki sé ekki mismunað á
grundvelli þessa munar. Við erum ólík en
höfum öll sama rétt.
Hefurðu þurft að taka þátt í
umræðum um málefni hinsegin
fólks; málefni sem jafnvel gætu
einungis snert við þér en ekki öðrum
þingmönnum? Hvernig tilfinning er
það?
Málefni hinsegin eldra fólks snertu
auðvitað við mér, þótt ég hafi ekki náð
þeim virðulega aldri að falla í þeirra
hóp. Núna í vor var svo samþykkt
þingsályktunartillaga Svandísar
Svavarsdóttur o.fl. um jafnræði í skráningu
foreldratengsla en sú tillaga er einfaldlega
liður í því að gera hinsegin foreldra
jafnsetta öðrum foreldrum. Ég rifjaði upp
af því tilefni að ég þurfti á sínum tíma að
gefa konu minni leyfi til að stjúpættleiða
dætur okkar svo hún teldist líka móðir
þeirra. Ég gerði mér grein fyrir að ég var
sú eina í þingsalnum sem hafði þessa
reynslu að baki; ég var glöð að geta deilt
henni og ég varð enn glaðari þegar þingið
samþykkti tillöguna einróma.
Þegar ég fæddi tvíburadætur okkar
Ragnhildar, Elísabetu og Margréti, árið
2001 vorum við í staðfestri samvist,
sem var eins og menn muna eins konar
hjónabandslíki samkynhneigðra á þeim
tíma. Þrátt fyrir það taldist Ragnhildur
ekki sjálfkrafa vera annað foreldrið. Ég
þurfti náðarsamlegast að veita henni leyfi
til þess að stjúpættleiða stelpurnar okkar.
Þessari stjúpættleiðingu fylgdu ítarleg
viðtöl hjá Barnavernd og heimsóknir
fulltrúa Barnaverndar heim til okkar til
þess að kanna hvort heimili konunnar
sem var að ættleiða væri í lagi. Þetta var
óneitanlega nokkuð sérstök upplifun,
enda var þetta sama heimili og ég bjó á
og dætur okkar tvær. Þetta var svolítið
undarlegt, vandræðalegt, stundum
fyndið, en á köflum óttalega nöturlegt.
Við þökkuðum oft okkar sæla, ég og
konan mín, fyrir að vera þó orðnar það
gamlar og reyndar að við gátum staðist
þetta án þess einfaldlega að finnast
þessar móttökur nærri því óbærilegar.
Ég ætla þó að taka fram, svo það sé
yfir allan vafa hafið, að starfsmenn
Barnaverndar voru ekkert nema
elskulegheitin. Þar á bæ þurftu menn
einfaldlega að takast á við þá staðreynd
að dætur okkar höfðu fæðst annarri
konunni af tveimur í staðfestri samvist
og enginn faðir var nefndur til sögunnar.
Barnaverndin hér í Reykjavík hafði ekki á
þeim tíma þurft að kljást við svonalagað
áður, enda voru lög sem heimiluðu
stjúpættleiðingar barna fólks í staðfestri
samvist aðeins ársgömul þegar þetta var.
Þar vorum við í fararbroddi, svo því sé til
haga haldið, en Ísland var annað landið í
heiminum á eftir Danmörku til að lögfesta
þann rétt.
8