Fræðaþing landbúnaðarins - mar. 2011, Síða 175
MÁLSTOFA C – HEIMAFENGINN BAGGI | 175
Er aukinn heyfengur í smárablöndum á kostnað fóðurgæða?
Erla Sturludóttir1, Áslaug Helgadóttir1 og Caroline Brophy2
1Landbúnaðarháskóla Íslands ,2National University of Ireland Maynooth
Inngangur
Rannsóknir hafa sýnt að lífræðilegur fjölbreytileiki getur aukið þjónustu vistkerfa
(Hooper et al., 2005) svo sem aukið uppskeru í graslendi (Cardinale et al., 2007;
Hector et al., 1999; Kirwan et al., 2007). Í samantekt Cardinale et al. (2007) kom í
ljós að í langflestum tilvikum hefur fengist meiri uppskera þegar tegundum er blandað
saman borið saman við meðaluppskeru í hreinrækt (overyielding) og í fáum tilvikum
hafa blöndur jafnvel gefið meiri uppskeru en uppskerumesta hreinræktin
(transgressive overyielding). Með því að rækta blöndur má nýta betur næringarefni í
jarðvegi, sólarljós og vatn vegna þess að tegundirnar nýta auðlindirnar með
mismunandi hætti bæði í tíma og rúmi. Belgjurtir binda nitur í samvinnu við bakteríur
og koma þannig með nitur inn í kerfið sem aðrar tegundir geta nýtt sér og geta þannig
aukið uppskeru (Spehn et al., 2002) og minnkað þörf á tilbúnum áburði.
Þekkt er að með aukinni uppskeru eykst NDF og meltanleiki fóðursins minnkar
(Jóhannes Sveinbjörnsson, Þórdís A. Kristjánsdóttir, & Tryggvi Eiríksson, 2008;
Pelletier et al., 2008) svo ekki er alltaf ávinningur af aukinni uppskeru. Hægt er að
bæta gæði fóðurs með því að rækta belgjurtir með grastegundum (Sleugh, Moore,
George, & Brummer, 2000) sem gæti bætt upp lakari fóðurgæði grastegunda þegar
uppskera eykst.
Lagðar voru út tilraunir í N-Evrópu og Kanada á vegum COST 852 verkefnisins,
Fóðurkerfi með belgjurtum við fjölbreyttar aðstæður, til að rannsaka hvort blöndur
nokkurra uppskerumikilla gras- og smárategunda gæfu meiri heyfeng en hreinræktir
þessara tegunda og hvaða áhrif það hefði á gæði fóðursins.
Efni og aðferðir
Tilraunaskipulag
Fjórum tegundum, vallarfoxgrasi, vallarsveifgrasi, rauðsmára og hvítsmára var sáð í
reiti á sex stöðum í N-Evrópu og Kanada (1. tafla). Tilraunaskipulagið var svo kallað
simplex skipulag (Cornell, 2002; Kirwan, et al., 2007). Hver tegund var ræktuð í
hreinrækt og var þeim síðan blandað saman þannig að úr urðu 11 blöndur þar sem
sáðhlutfall tegundanna var mismunandi. Í fjórum blöndum var ein tegund ríkjandi
med 70% sáðhlutfall og hinar tegundirnar með 10% hver, í sex blöndum voru tvær
tegundir ríkjandi með 40% hver og hinar tvær með 10% og í einni blöndu var
sáðhlutfall tegundanna jafnt. Þetta gerði 15 reiti sem sáð var í með því sáðmagni fyrir
hverja tegund sem mælt var með á hverjum stað. Reitirnir 15 voru síðan endurteknir
með 60% af fullu sáðmagni og urðu reitirnir því samtals 30 á hverjum stað. Til að
meta heyfeng voru reitirnir slegnir tvisvar eða þrisvar yfir sumartímann í þrjú ár.
Uppskera þurrefnis í hverjum reit var mæld og sýni tekin til að athuga
tegundasamsetningu og fóðurgæði.
Athugun á fóðurgæðum var gerð á fjórum af þessum sex stöðum (1. tafla). Gerðar
voru tvenns konar mælingar á magni trefja; ADF (acid detergent fibre), sem segir til