Fræðaþing landbúnaðarins - mar. 2011, Síða 287
MÁLSTOFA F – VATNALÍF | 287
Mun meira var af stærri bleikjum sem veiddust með fyrirdrætti en í lagnet. Möskvar
neta eru veljandi fyrir fiskstærð og hefur hver möskvastærð ákveðna valkúrfu fyrir
fisklengdir. Hér er því væntanlega dæmi um val veiðarfæra að ræða en möskvar neta
eru mjög veljandi veiðarfæri (Jensen 1984, Finstad o.fl. 2000). Það hversu mikið
meira var að stórri bleikju í veiðunum gefur til kynna að meira hafi verið af stærri og
eldri bleikju í Mývatni á þessum tíma en á síðari árum. Það bendir til þess að
veiðihlutfall (hlutfall þess sem veitt er úr stofni) hefur verið lægra á þessum tíma.
Veiðihlutfall er mjög hátt í Mývatni eða um 80% af veiðanlegum stofni í vetrarveiði
en þá eru notuð net með 43mm möskvastærð (Guðni Guðbergsson 2004).
Niðurstöður bakreikninga á lengd bleikju úr veiði ofangreindra ára sýna hvernig
bleikja frá árunum 1941 og 1957, skar sig úr í lengd miðað við aldur gagnvart bleikju
úr veiði frá síðari árum. Bleikja veidd þessi ár var marktækt smærri eins árs, og hélst
sá stærðarmunur nokkurn veginn uns bleikjan náði 6 vetra aldri, en þá er orðið um fáa
fiska að ræða í sýnum. Þessi munur gæti stafað af því að á þessum árum var stofn
bleikju í vatninu mun stærri en síðar varð, og samkeppni um fæðu því meiri. Það má
minna á að eftir 1970 hefur stofn bleikju í Mývatni sveiflast um sífellt lægra meðaltal
og hefur ekki náð sambærilegri stærð og áður. Þar má undanskilja árið 1986 þegar yfir
40 þúsund silungar veiddust.
Munur á bakreiknaðri lengd veturgamalla bleikja á milli veiðiársins 1941 og seinni
ára er mikill, sérstaklega ef litið er til ársins 1990, en bilið varð ekki meira eftir því
sem bleikjan verður eldri. Með hærri aldri dregur saman í lengd jafnaldra fiska áranna
1941 og 1990. Það bendir til þess að þrátt fyrir færri fiska í vatninu heldur en árin
1941 og 1957, hafi síðar ekki verið meira framboð af æti á hvern einstakann fisk eftir
að þeir ná þessum aldri, og minna á árunum fyrir 1990. Það er í samræmi við
niðurstöður sem sýndu að holdastuðull bleikju versnar um haust 1987 og var ekki
kominn í fyrra horf fyrr en 1990 (Guðni Guðbergsson 1991, Guðni Guðbergsson
2004).
Einnig má benda á að ungbleikja, þ.e. allt upp í 3 vetra, fara stækkandi eftir því sem
nær dregur nútímanum, nema síðasta veiðiár sem skoðað var, 2007, en þá minnkar
lengd 1+ seiða aftur. Sá veiðistofn sem klakárgangar í veiði ársins 2007 kom úr
mældust mjög litlir. Það virðist því hafa farið saman á þessum árum lítill stofn og
minnkandi framboð fæðu fyrir smærri bleikju. Slíkir aðburður hafa áður komið fram í
Mývatni með dauða og hruni yngri árganga bæði árin 1988 og 1997 (Guðni
Guðbergsson 2004).
Niðurstöður á samanburði á vaxtarstuðlum milli jafngamalla bleikja frá mismunandi
veiðiárum ríma við það sem kemur fram hér að ofan í því að munur á lengd orsakast
af meiri vexti á fyrsta ári. Vöxtur á þriðja ári var þó hraðari árin 1941 og 1957 heldur
en 1990, en eins og kemur fram að ofan var vöxtur þeirra klakárganga sem komu úr
veiði árið 1990 ekki góður miðað við önnur ár. Það kemur á óvart að fjórðaársvöxtur
hafi verið marktækt meiri hjá bleikjum úr veiði árið 1941 heldur en 1957, þar sem
þessi ár fylgdust svo til að í lengd í flestum aldurshópum. Bleikja úr veiði ársins 1987
vex að jafnaði meira á fjórða ári heldur en bleikja veidd önnur ár. Þarna koma líklega
til hinar miklu sveiflur í lífríki vatnsins (Árni Einarsson o.fl. 2004).
Vert er að veita athygli vexti þeirrar bleikju sem veiddist árið 2007. Veturgömul seiði
úr þeim klakárgöngum sem eru í veiðinni þá voru eins og áður sagði að jafnaði minni
en frá því úr veiðinni 1987 og 1990, en vöxtur á fjórða ári var meiri en seiða úr