Fræðaþing landbúnaðarins - Mar 2011, Page 412
| FRÆÐAÞING LANDBÚNAÐARINS 8, 2011412
hlutfalli innlendra afurða af neyslu landsmanna.
Jákvæð afstaða almennings, sterk staða og tækifæri í umhverfismálum, heilnæmi
afurða og framleiðsluaðstæðna skapa sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað.
Hugmyndafræðileg endurnýjun lókalismans og pólitískur meðbyr í ljósi hnattrænna
aðstæðna er mikilvægt tækifæri fyrir íslenskan landbúnað til að dýpka þann stuðning
sem hann þegar nýtur meðal neytenda. Virkjun jákvæðra samlegðaráhrifa lókalisma
rótgróins bændasamfélags og þeirra strauma sem felast í hinum nýja matvæla
lókalisma gæti falið í sér endurnýjun krafta þeirra sem þegar búa í íslenskum
landbúnaði. Það er ekki sjálfgefið hvort eða sjálfbærri þróun lókalismi
stuðlar að. Þess vegna er mikilvægt að greina þætti lókalismans í viðhorfum og
framtíðarsýn þeirra sem stunda landbúnað.
Pólitískt og félagslegt eðli þekkingar er eitt af helstu viðfangsefnum félagsvísindanna
síðustu þrjá áratugina. Rannsóknir á því sviði hafa m.a. fengist við viðhorf og tílkun á
sjálfbærri þróun í landbúnaði í tengslum við lókalisma og staðbundna
matvælaframleiðslu (Tovey, 2008).Umtalsverður áhugi hefur verið á endurvakningu
lókalismans og endurreisn staðbundinna matvælakerfa meðal félagsvísindafólks.
Fjöldi erlendra greina og rannsókna liggur fyrir á sviðinu (m.a. DuPuis og Goodman,
2005, Guthman, 2008, Tovey, 2008) en hér á landi hefur slík umfjöllun verið af
tiltölulega skornum skammti. Þessir höfundar benda á að innan lókalismans rúmast
fjölbreytni í viðhorfum, og jafnvel mótsagnir. Mikilvægt er að vera vakandi yfir
slíkum mótsögnum svo að þær hamli ekki umbótaafli stefnunnar. Rannsóknin mun
skoða íslenskar aðstæður í samhengi við áðurnefndar rannsóknir (erlenda
kenningastrauma og rannsóknir) og leita eftir viðhorfum bænda sjálfra í þeim tilgangi.
Dæmi um þekkingarpólitískar víddir landbúnaðar er sá núningur sem á sér stað á milli
lífrænna búskaparaðferða og „hefðbundinna“. Af sviði landbúnaðarvísindanna fer
tvennum sögum af því hvort að lífrænar aðferðir séu sjálfbærari eða feli í sér minna
álag á vistkerfi og umhverfi borið saman við hefðbundinn landbúnað. Kirchmann o.fl.
(2008) telja t.a.m. að áhrif heimspekilegra viðhorfa til náttúrunnar í lífrænum
landbúnaði grafi undan vísindalegum stoðum aðferðanna og þar með sjálfbærni þeirra.
Saga hreyfingarinnar er óumræðanlega tengd hugmyndum umhverfisvernd og, auk
samfélagslegra og siðferðilegra markmiða, miðast staðlar og vinnuaðferðir við að
valda ekki skaða í umhverfi og dýraríki. Nýleg rannsókn ítrekaði mikilvægi lífrænna
aðferða í umhverfislegu tilliti á forsendum „sterkari umhverfisvitundar” meðal bænda
sem viðhafa lífrænar búskaparaðferðir (Kings og Ilbery, 2010). Slíkar staðhæfingar
vekja upp spurningar um það hvernig menn skilja samband sitt við umhverfið og
ennfremur af hverju „sterk umhverfisvitund” helgast. Einnig er fróðlegt að kanna
samhljóm á milli bænda sem stunda hefðbundinn og lífrænan búskap. Eru þar skörp
skil? Ríkir e.t.v. flæði á milli þessara aðgreindu búskaparhátta? Rannsóknin mun bera
saman lókalisma eins og hann birtist í viðhorfum bænda í hefðbundnum búskap miðað
við viðhorf þeirra sem viðhafa lífrænar aðferðir og varpa þannig ljósi á samhljóm
og/eða misræmi í nálgun.
Lífrænn landbúnaður er sannarlega ekki eina dæmið um mismunandi þekkingarkerfi
eða víddir landbúnaðarins. Margar af þeim spurningum sem landbúnaðurinn stendur
frammi fyrir og gegna lykilhlutverki fyrir þróun á sviðinu hafa sterka pólitíska vísun.
Spurningar eins og: Hvað stendur helst í vegi fyrir því að brauðfæða megi jarðarbúa,