Skessuhorn


Skessuhorn - 30.06.2021, Page 27

Skessuhorn - 30.06.2021, Page 27
27MiðVikuDAGur 26. MAí 2021 Vísnahorn Arnmundur Gíslason hét maður sem einhverjir eldri Akurnesingar muna vafalaust eftir. Afi Eddu Heiðrúnar og Arn- mundar Bachmann. Á sínum yngri árum gaf hann út ljóðabókina „Breyttir litir“ og sendi Morgunblaðinu eintak til umsagnar. Heldur varð umsögnin á neikvæðari nótum en Arn- mundur hefur trúlega vonað og allavega held ég að hann hafi farið frekar dult með kveð- skap sinn eftir þetta. Hugsanlegt þó að hann hafi birt einhvern kveðskap undir dulnefni og ef einhver vissi deili þar á væri gaman að frétta af því. Eftir hann eru þó vísur sem enginn þarf að skammast sín fyrir. Ekki þori ég að fullyrða að þær séu allar í umræddri bók en allavega tvær þær fyrstu: Oft með þröng er sæla sótt, sífellt breytist hagur, þar sem ekki þekkist nótt þar er enginn dagur. Þig nær hleður ama á atvik skeð til baga hugsa meðfram þú skalt þá til þinna gleðidaga. Þó Arnmundur næði því ekki að kallast þekktur hagyrðingur er ég satt að segja í vafa um að margir á mínum aldri hafi sloppið við að læra þessa vísu sem var skrifuð í flestallar minningabækur í mínum uppvexti: Mín af hjarta ósk sú er að á lífsins vegi lán og farsæld fylgi þér fram að hinsta degi. Þessa vísu mun hann upphaflega hafa ort til systur sinnar en til bróður síns þessa: Bægist frá þér böl og stríð, blómgist æ þinn hagur, öll þín verði ævitíð eins og sumardagur. Arnmundur var uppalinn í sárri fátækt norður á Langanesströnd og einn af æsku- vinum hans var Magnús Stefánsson sem síðar orti og var þekktur undir skáldanafninu Örn Arnarson. Arnmundur fór ungur í Verslunar- skólann og varð meðal annars um tíma kaup- félagsstjóri á Akranesi en lengst af ævinnar vann hann þó almenna verkamannavinnu. í tilefni af útkomu bókar Arnmundar og þeirra dóma sem kvæðin fengu í Morgunblaðinu orti Örn Arnarson kvæðið „Æruprís“ og blandaði þar inní ýmislegri þjóðfélagsádeilu sem hon- um var þörf að koma frá sér en hefur stundum verið misskilið sem níð um Arnmund. Það tel ég þó fjarri lagi en hér kemur brot úr þessu kvæði: Fór hann nú í fræðaleitir, fluglæs varð á skrift og prent enda barst það út um sveitir að enginn gæti honum meira kennt því hann kynni allt sem er og heitir ensku, dönsku og fótamennt. Hugði að komast hærra og sunnar heimaskítinn af sér þvo. Þar sem visku biðu brunnar beint til Víkur fór hann svo. Kærleikslögmál kaupmennskunnar kunni eftir vetur tvo. Safnaði reynslu, vilja, viti, von og ást í stóran sá, bjó til úr því breytta liti bað menn svo að líta á. Mér er sagt í Mogga þyti mesti fítonsandi þá. Kveiktu ljós hjá leðurblöku, láttu templar dæma vín, sýndu heimskum hnyttna stöku, hentu perlum fyrir svín, bjóddu hundi heila köku, honum Mogga kvæðin þín. Ætli það sé ekki rétt að gæta hófs hér sem víðar og fara ekki nánar ofan í kvæði Arnar né ævisögu Arnmundar enda ég ekki heppilegasti maður í hvorugt verkið. Gott að hafa í huga vísu indriða á Skjaldfönn um hófsemina: Það er sumir halda hóf og hefja á loft með sanni öðrum þykir aðför gróf sem engum hæfir manni. Sumum hefur leiðst að bíða eftir hlýindun- um núna í vor en þau koma. Spurningin er bara hvenær. Eitt vorið fyrir nokkru heyrði Grétar á Hávarsstöðum í skólabróður sínum sem var farinn að finna fyrir hlýnun andrúms- loftsins: Eftir stríð og andstreymi ótal hríðardaga úti í blíðu á brókinni er Björn í Hlíð á Skaga. jóhann kristjánsson frá Bugðustöðum hlakkaði líka til sumarsins og sumarfrísins: Sumarfríið fer ég í fagran týgja blakkinn nú er glýja glasa hlý. Gott að vígja hnakkinn. Hörð er reið en hófaknör hækkar greiður makkann, vel á skeiði festir för fram við heiðarslakkann. kannske við hæfi núna líka að rifja upp þessa snilldarvísu jóa: Hlægir mig að heyra grund hljóða undan járnum, alla mína ævistund uni ég á klárnum. í bók sem jónas frá Grjótheimi gaf út 1949 og nefnist Hendingar er eftirfarandi vísa og merkt árinu 1905 en hún var nokkuð á ferð- inni um tíma í lítilsháttar breyttri mynd og eignuð öðrum höfundi en ég sé enga ástæðu til að ætla annað en jónas sé hinn rétti höf- undur: Þótt ég virðist gleðigjarn og gangi á vegi hálum er ég saklaus eins og barn í öllum kvennamálum. Sumir hafa lag á að komast til nokkurra mannvirðinga og álits án þess að hafa endi- lega meira unnið til þess en aðrir en ekki end- ist það álit alltaf vel. Bjarni frá Gröf orti á sín- um tíma: Það fundið var fyrir löngu að flest er nú hægt að gylla, en ef menn verða miklir af öngu, mikið geymast þeir illa. kristján Guðjónsson Schram orti þegar honum líkaði ekki fyllilega athafnir stjórn- málamanna og er svo sem ekki einn um það hvorki fyrr né síðar: Mörgu er hægt að koma í kring og klóra sig úr vanda, þegar sál og sannfæring seld er hæstbjóðanda. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Safnaði reynslu, vilja, viti - von og ást í stóran sá Þrettánda Ólafsdalshátíðin í Gils- firði verður haldin laugardaginn 14. ágúst klukkan 11.00-17.00. Að sögn rögnvaldar Guðmundsson- ar, formanns Ólafsdalsfélagsins, er stefnt að skemmtilegri og fjöl- skylduvænni hátíð við allra hæfi, en dagskrá verður kynnt fljótlega. „Vegna mikilla framkvæmda Minjaverndar við endurreisn stað- arins mun sumaropnun Ólafs- dalsfélagsins ekki hefjast fyrr en sunnudaginn 25. júlí. Eftir það verður opið alla daga til 15. ágúst kl. 12.00-17.00. í boði verða létt- ar veitingar, sýningar og leiðsögn,“ segir rögnvaldur. Skemmtilegar gönguleiðir eru í Ólafsdal, meðal annars að nýlega fundnum víkingaaldarskála og öðr- um fornum byggingum sem Forn- leifastofnun íslands er að rann- saka. Þær eru í um tuttugu mínútna göngufjarlægð frá skólahúsinu. mm Ljósmyndasýningin Töfrar Vestur- lands hefur verið opnuð á Stálpa- stöðum í Skorradal. Að þessu sinni er það Emil Þór Sigurðsson ljós- myndari sem sýnir. Emil er fædd- ur í reykjavík 1953 og hefur ver- ið virkur ljósmyndari í rúm 40 ár við að mynda ísland. Fjórar ljós- myndabækur hafa verið gefnar út eftir hann. Emil hefur haldið sýn- ingar hér á landi og í Þýskalandi ásamt að kynna á síðustu árum ís- land víða í Þýskalandi í samstarfi við icelandair. Sýningin á Stálpastöðum verð- ur opin allan sólarhringinn fram á haust, eins og fyrri sýningar á þessu skemmtilega svæði í Skorradal. Enginn aðgangseyrir er á svæðið. Verkefnið naut styrks úr Sóknar- áætlun Vesturlands. mm Séð vestur yfir Ólafsdal úr Skálinni og út á Breiðafjörð. Sumaropnun 25. júlí en Ólafsdalshátíð um miðjan ágúst Horft yfir skólahúsin og framkvæmdasvæðið í Ólafsdal. Myndin var tekin 8. júní sl. Birna Lárusdóttir fræðir göngufólk um víkingaaldarskálann í Ólafsdal. Emil Þór Sigurðsson á Stálpastöðum. Töfrar Vesturlands er heiti ljósmyndasýningar á Stálpastöðum

x

Skessuhorn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.