Morgunblaðið - 25.01.2021, Blaðsíða 11
FRÉTTIR 11Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 25. JANÚAR 2021
Dekton er mjög slitsterkt og rispuþolið borðplötuefni.
Dekton þolir mikinn hita. Það má setja heita potta og pönnur
beint á steininn án þess að eiga það á hættu að skemma hann.
Blettaþolið SýruþoliðHögg- og
rispuþolið
Viðarhöfða 1, 110 Reykjavík | Sími 566 7878 | rein.is
HÁTT
HITAÞOL
Aron Þórður Albertsson
aronthordur@mbl.is
Ævar Þór Benediktsson, betur
þekktur sem Ævar vísindamaður,
hefur verið skipaður sendiherra
UNICEF á Íslandi, fyrstur Íslend-
inga. Hlutverk sendiherra er að
styðja við baráttu samtakanna fyrir
réttindum barna um allan heim.
„Þetta er mikill heiður og ég mun
gera mitt allra besta til að standa
undir nafni sem sendiherra UNI-
CEF á Íslandi,“ sagði Ævar sem tók
formlega við hlutverkinu við athöfn
á skrifstofu UNICEF í gær, á al-
þjóðadegi menntunar. Ævar skrifaði
þar undir samning þessa efnis til
tveggja ára.
Sendiherrar UNICEF eru fyrst
og síðast valdir vegna þeirrar virð-
ingar sem þau njóta og þeirrar
mannúðar sem þau sýna í lífi og
starfi. Bætist Ævar þar í hóp sendi-
herra landsnefnda UNICEF um all-
an heim, þ. á m. eru söngkonan
Pink, uppistandarinn Eddie Izzard
og söngkonan Selena Gomez.
„Það er mikil ánægja að staðfesta
Ævar Þór Benediktsson sem fyrsta
sendiherra UNICEF á Íslandi.
Hann er einstaklega vel að nafnbót-
inni kominn enda hefur hann helgað
feril sinn börnum, með öllum sínum
fjölbreyttu hæfileikum,“ segir Birna
Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri
UNICEF á Íslandi.
„Við höfum notið farsæls sam-
starfs við hann um langa hríð og því
byggjum við þetta nýja skref á góð-
um grunni. Ævar Þór er góð fyrir-
mynd sem nær jafnt til barna og
fullorðinna og við hlökkum til þess
að vinna markvisst með honum að
réttindum barna.“
Fyrsti sendiherra
UNICEF á Íslandi
Ævar berst fyrir réttindum barna
Morgunblaðið/Íris
Sendiherra „Þetta er mikill heið-
ur,“ sagði Ævar Þór við athöfnina.
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Talsverðar breytingar hafa að undanförnu
verið gerðar á fyrirkomulagi forvarna gegn
krabbameini hjá konum. Skimanir fyrir
krabbameinum í brjóstum voru um áramót
fluttar frá Leitarstöð Krabbameinsfélags Ís-
lands til Landspítala og skimanir fyrir meini
í leghálsi til heilsugæslunnar. Þá verður nú
sá háttur hafður á að leghálssýni fara úr
landi til rannsóknar, þó vísindaleg þekking,
kunnátta og tækjabúnaður sem þarf sé til
staðar hér á landi.
Tafir á greiningu tekinna sýna
„Að sýni úr leghálsstroki séu nú send til
útlanda í greiningu finnst okkur óskilj-
anlegt,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, fram-
kvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
„Í desember fékk Landspítalinn tæki til
veirugreininga sem gerir greiningarnar enn
skilvirkari en hingað til. Hvers vegna á ekki
að nýta þann búnað skiljum við ekki. Raunar
hafa orðið ýmsar tafir á greiningum. Sýni
sem voru tekin á leitarstöðinni og hjá sér-
fræðingum á stofum í nóvember síðast-
liðnum og fóru til heilsugæslunnar hafa ekki
verið rannsökuð enn. Þar ræður að samn-
ingar við rannsóknarstofu í Danmörku sem
annast á verkefnið eru ekki í höfn. Þó lá fyr-
ir í október sl. að um 2.000 sýni biðu nýrrar
rannsóknarstofu þegar hún tæki við.“
Halla segir þá ráðstöfun að leghálssýni
verði framvegis greind erlendis óheppilega
fyrir margra hluta sakir. Lífeinda- og
meinafræðingar á Leitarstöð hafi sinnt
þessu starfi lengi og nú sé hætta á að þeirra
dýrmæta þekking og reynsla glatast til
frambúðar. Fáheyrt sé að flytja sérhæfða
heilbrigðisþjónustu úr landi.
Vísindaleg rök þarf að útskýra
„Mikilvægast er þó að konur haldi
áfram að þekkjast boð og að mæta hvort
heldur sem er í brjósta- eða leghálsskimun.
Stjórnendur heilbrigðisþjónustu á Íslandi
þurfa að gera allt sem hægt er svo konur
missi ekki trúna á skimanir,“ segir Halla.
Bætir hún við að bregðast hafi þurft við og
endurheimta traust eftir að ljós kom í haust
að mistök voru gerð við greiningar á leg-
hálssýni, eins og sagt var frá í fjölmiðlum.
Mál þetta hafi verið mjög sársaukafullt fyrir
alla.
Hjá Leitarstöðinni var kappkostað að
ganga svo frá málum, þegar skimun á
brjóstum og leghálsi færðist yfir til heilsu-
gæslu, Landspítala og Embættis landlæknis,
að allt gengi snurðulaust fyrir sig. Starfsfólk
Krabbameinsfélagsins hafði hins vegar
ítrekað bent á að góðan tíma þyrfti til und-
irbúnings. „Svo virðist sem raunin sé að
stofnanirnar hafi haft of lítinn tíma til und-
irbúnings. Einnig að umfang verkefnisins
hafi verið vanmetið. Tafir hafa til dæmis
orðið á sendingum boðsbréfa sem aftur veld-
ur því að brjóstaskimun á nýju ári er varla
hafin. Við flutninginn var sömuleiðis gerð sú
breyting að hætta að boða 40-49 ára konur í
skimun, sem vakti eðlilegar spurningar og
efasemdir,“ segir Halla og heldur áfram:
„Þó vísindaleg rök geti legið að baki, þá
þarf að útskýra hvað að baki býr. Þó má
geta þess að gengið var gegn evrópskum
leiðbeiningum, þar sem mælt er með að
skimunaraldur sé 45 ár. Sú var einnig skoð-
un fagráðs um brjóstakrabbamein. Hvers
vegna þessum viðmiðum var ekki fylgt, þarf
að útskýra og rökstyðja betur, jafnvel þótt
heilbrigðisráðherra hafi frestað breytingum
um sinn, að minnsta kosti. Sömuleiðis voru
gerðar breytingar á rannsóknum legháls-
sýna sem og leghálsskimunum. Þá ráðstöfun
hefði þurft að kynna betur.“
Ristilskimun komist á dagskrá
Til framtíðar litið segir Halla að
Krabbameinsfélagið telji afar brýnt að
reglubundin ristilskimun komist á dagskrá.
Slík mein séu meðal þeirra algengustu á Ís-
landi, það er annað algengasta meinið hjá
körlum og þriðja algengasta meðal kvenna. Í
hverri viku deyi 1-2 af völdum þessa. Ísland
sé eftirbátur annarra Norðurlandaþjóða í
forvörnum þessum. Nú hafi heilbrigðisráðu-
neytið hins vegar tilkynnt að hefja skuli
skimanir á fyrrgreindu og unnið sé að fjár-
mögnun.
„Ristilskimun fyrir krabbameinum er
afar nauðsynlegt verkefni og brýnt fyrir
samfélagið allt,“ segir Halla sem bætir við
að verkefnin hjá Krabbameinsfélagi Íslands
séu í raun óþrjótandi. Félagið sinni meðal
annars forvörnum og haldi úti margvíslegri
upplýsingamiðlun á netinu og haldi úti víð-
tæku rannsóknarstarfi. Þá er ónefnd ráð-
gjafarþjónusta félagsins. Allt sé þetta mjög
þarft, því búast megi við 25% fjölgun
krabbameinstilfella á næstu 15 árum. Í dag
greinast um 1.700 manns á Íslandi með
krabbamein árlega. Árið 2019 voru á lífi
um 16.000 manns sem höfðu fengið krabba-
mein – og árið 2027 er reiknað með að
fjöldinn verði kominn í um 20.000 manns.
Breytingar á forvarnastarfi gegn krabbameini umdeildar og mikilvægt að bregðast við
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Konur mega ekki missa trú á skimanir
Halla Þorvaldsdóttir er úr Húnavatns-
sýslu, fædd árið 1970. Hún er sálfræð-
ingur að mennt og starfaði lengi sem slík
við Landspítalann.
Framkvæmdastjóri Sálfræðingafélags
Íslands um árabil en tók við starfi fram-
kvæmdastjóra Krabbameinsfélags Íslands
sumarið 2017.
Hver er hún?
Heilbrigði Verkefni Krabbameinsfélags
Íslands eru óþrjótandi og mikilvægt er
nú að búa sig undir fjölgun greindra
tilvika, segir Halla Þorvaldsdóttir.