Morgunblaðið - 02.01.2021, Síða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 2.1. 2021
Föður mínum fannst hann vera strandaglóp-
ur.
Hann hafði unnið með höndunum alla sína
ævi í byggingarvinnu. Þegar honum var sagt
að hann væri of gamall til að vinna varði
hann tímanum í miðstöð fyrir eldri borgara á
vegum borgarinnar. Hann spilaði janggi við
aðra aldraða karla, las á almenningsbókasafn-
inu og fór í gönguferðir í almenningsgarð-
inum í hverfinu. Þegar kórónuveiran breidd-
ist út var þessum stöðum lokað öllum í einu
og þar með hurfu allar leiðir til félagslegra
samskipta. Faðir minn var neyddur til að láta
veturinn líða bundinn við lítið herbergi þar
sem hann hafði búið í 20 ár inni á heimili son-
ar síns og tengdadóttur í Seoul, sagði fá orð á
færri fermetrum.
Í febrúar syrti í álinn vegna útbreiðslu
veirunnar í Daegu. Horfur voru óhugnan-
legar. Þegar smit barst inn á lokaðar deildir
sjúkrahúsa og hjúkrunarheimili og dauðs-
föllum fjölgaði hratt var ljóst að kórónuveiran
var farin að teygja arma sína í þá sem voru
viðkvæmastir fyrir í röðum okkar.
Faðir minn hafði þegar upplifað svo margt.
Hann fæddist árið 1940 undir lok hernáms
Japana. Hann var barn í Kóreustríðinu og
ungur maður á tíma miskunnarlausrar iðn-
væðingar sem hófst á sjöunda áratugnum og
miðaldra þegar landskjálftarnir sem fylgdu
innleiðingu lýðræðis gengu yfir. Hann var að-
eins tíu ára að aldri þegar liðsmaður komm-
únista myrti föður hans. Þótt hann væri sak-
laus borgari, taldi lögregla fyrir mistök að
samúð föður hans lægi hjá kommúnistum. Í
hvert skipti sem hann sagði okkur þessa sögu
byrjaði hann á að taka fram: „Afi ykkar dó
ómaklega.“ Eins og að vita það væri lykillinn
að öllu öðru.
Faðir minn var sekur talinn vegna tengsl-
anna og gat því ekki fylgt draumum sínum.
Hann vann víða í byggingarvinnu, en gat
aldrei ferðast sér til skemmtunar. Hann
drakk ekki, tók ekkert sem hann vann sér
ekki inn og stundaði aldrei fjárhættuspil.
Samt verðlaunaði lífið aldrei góða hegðun
hans. Einu sinni í vinnunni datt hann næstum
úr háhýsi, öðru sinni var honum vísað úr
landi þegar hann var að vinna í útlöndum
vegna þess að hann var ekki með rétta papp-
íra. Hann missti konu sína, móður mína, allt
of snemma vegna veikinda.
Fyrir nokkrum árum tókst föður mínum að
afla vitnisburðar frá nágrönnum og lögreglu-
mönnum um föður sinn og háði tímafreka
baráttu fyrir dómstólum til þess að andlát
föður hans yrði rannsakað og nafn hans
hreinsað og staðfest að hann hefði verið föð-
urlandsvinur. Það var ekki auðvelt, en þegar
það tókst var hann frá sér numinn af gleði
eins og hann hefði loksins fengið uppreisn
æru fyrir það erfiða líf sem hann hefði lifað.
En þegar hvergi má fara – ekki einu sinni í
þjóðarkirkjugarðinn í Seoul þar sem afi minn
var nýlega lagður til hvílu með sóma – hefur
föður mínum aldrei fundist hann vera jafn
einn. Honum var fyrirmunað að eyða ævi-
kvöldinu í sóttkví og hann fór að lengja eftir
fæðingarbæ sínum, þorpi skammt frá
Gvangju í suðvesturhluta landsins. Hann
hafði alltaf sagt við sjálfan sig að þangað
myndi hann snúa aftur einn góðan veðurdag
og nú hafði faraldurinn tekið ákvörðunina
fyrir hann. Ef fyrir honum lægi að láta dag-
ana líða í einveru, hvers vegna ekki að gera
það innan um uppáhaldshæðirnar sínar og
lækina?
Hann vissi að við myndum annaðhvort
mótmæla fyrirætlunum hans eða krefjast
þess að hjálpa þannig að hann fór á laun á
milli Seoul og Gvangju til að leita að litlu húsi
til að leigja og lét okkur ekki vita fyrr en
daginn eftir að hann flutti inn. Systkini mín –
tvær eldri systur og eldri bróðir – og ég vor-
um sárreið. Hvernig í ósköpunum ætti eldri
borgari í áhættuhópi, sem býr einn, að geta
virt félagslegar nálgunarreglur?
Við sem vorum vön að skemmta okkur á
netinu og fá hlutina senda með því að ýta á
hnapp gátum ekki skilið hvað einangrunin
hafði verið þungbær fyrir hann. Við vissum
ekki enn hvernig það er að vera gamall. Ekki
heldur hvernig það er að vera virtur vettugi
og vanræktur heima fyrir í nafni öryggis.
Við systkini mín drifum okkur í lest til
Gvangju til þess að sækja föður okkar aftur
til Seoul og sannfæra hann um öryggi þess að
vera í einangrun með fjölskyldunni. Lestin
var tóm. Þennan dag, 29. febrúar, höfðu
greinst 813 kórónuveirutilfelli til viðbótar,
hæsta talan frá því að fyrsta tilfellið var
skráð 20. janúar. Við vorum með grímurnar
fyrir vitum okkar hverja einustu sekúndu þá
tvo og hálfan tíma sem lestarferðin suður tók.
Við fundum föður okkar í húsinu sem hann
hafði leigt, en hann neitaði að fara með okk-
ur. Og þar sem húsið var of lítið til að við
gætum öll sofið þar vorum við nóttina á litlu
hóteli og fórum þar enn gegn tilmælum sótt-
varnayfirvalda um að halda sig heima og
forðast mannamót. Nánast tómt hótelið var
uggvekjandi. Systur mínar og ég fórum að
sofa fullar af áhyggjum út af þrákelkni föður
okkar að vilja vera um kyrrt.
Seint morguninn eftir fórum við með föður
mínum að leita að stað til að borða. Göturnar
í Gvangju virtust yfirgefnar. Við gengum
langan spöl án þess að finna opinn stað. Loks
komum við að útimarkaði nærri háskóla-
sjúkrahúsi.
„Þegar ég var 15,“ sagði faðir minn, „var
ég vanur að ganga alla leiðina á þennan
markað til að selja vatnsmelónur.“
Ég vissi lítið um barnæsku hans. Elsta
myndin sem ég hafði séð var af honum tví-
tugum, ábúðarmiklum á svip, rétt áður enn
hann hafði flutt upp eftir til Seoul. Hversu
mörg eru andlit lífsins? Í þreytulegum og ein-
manalegum svipunum á andliti hans nú sá ég
engin merki um þrautseiga drenginn sem
gekk tugi kílómetra til að selja melónur, eða
ákafa, unga manninn sem var að búa sig und-
ir að flytja til stórborgarinnar.
„Það var svo heitt og svo langt.“
Með þessum orðum sköruðust ólík andlit
hans. Hann hafði komist áfram af eigin
rammleik. Þetta voru rætur og stilkur sjálfs-
virðingar hans.
Systir hans hafði orðið eftir í heimabænum
til að rækta ferskjur. Í uppvextinum höfðum
við borðað ferskjurnar hennar, en það var
ólíklegt að við myndum njóta þeirra í ár. Áð-
ur en kórónuveirufaraldurinn hófst hafði hún
slasast illa á fæti og var enn að jafna sig á
sjúkrahúsi. Eftir því sem veiran hélt áfram
að breiðast út var hætt að leyfa heimsóknir á
sjúkrahúsum. Faðir minn virtist þegar vera
farinn að hafa áhyggjur af að hann myndi
aldrei sjá hana aftur.
Hann sagði okkur það sem sonur hennar
hefði sagt sér: „Hún heldur að allir hafi yfir-
gefið sig.“
Þegar ég hugsaði um allt fólkið í sömu
stöðu og föðursystir mín – farlama og sann-
fært um að það hefði verið yfirgefið á sjúkra-
stofu – sótti að mér óþægileg tilfinning. Þetta
var framtíðin. Lífið myndi gera okkur öll að
veikburða gömlu fólki.
Okkur tókst að finna einn opinn veitinga-
stað á markaðnum. Eftir morgunmatinn á
leið okkar að neðanjarðarlestinni fórum við
framhjá sjúkrahúsinu. Starfsmenn í fullum
hlífðarbúnaði voru að aðstoða fólk sem beið
eftir að vera prófað í skimunarmiðstöðunni,
sem komið hafði verið upp fyrir utan inn-
ganginn. Við höfðum séð í morgunfréttunum
að einhver á svæðinu hefði greinst jákvæður
og nú væri verið að skima alla sem komist
hefðu í tæri við þá manneskju. Við vorum á
nálum eftir að hafa séð skimunarmiðstöðina
og verið þetta nærri henni. Við vorum skelf-
ingu lostin af ótta við að missa föður okkar í
greipar veirunnar.
Við innganginn að neðanjarðarlestinni steig
faðir okkar í rúllustigann og tók þéttingsfast
um handriðið. Á lestinni greip hann um súlu
til að halda jafnvægi. Allt sem yngri mann-
eskja gat gert án þess að þurfa að styðja sig
var ógerningur fyrir hina öldruðu. Sama hvað
hann reyndi að vera varkár komst hann í
tæri við andardrátt og hendur mun fleira
fólks en við og var því mun berskjaldaðri fyr-
ir smiti.
Þannig stelur kórónuveiran hinum öldruðu
frá okkur. Þú gætir misst móður þína, sem er
með háan blóðþrýsting, ömmu þína, sem er
að glíma við sykursýki, eða systur þína, sem
er með viðvarandi heilsubrest. Tengsl okkar
við þetta fólk eru ástæðan fyrir því að við
þurfum að verja okkur fyrir vírusnum.
Á endanum var faðir minn í Gvangju fram í
júlí þegar heilsuleysi neyddi hann til að snúa
aftur til okkar. Síðan þá hefur hann fylgst
með fréttum af þróun bóluefna. Við sumar
fréttir birti yfir honum, en fréttir af því að
valdameiri ríki væru í samkeppni um að
„selja hrísgrjónin áður en uppskeran færi
fram“ – það er að kaupa bóluefni sem enn er
ekki til – urðu til þess að hann sagði: „Jafnvel
þótt þeir finni bóluefni, mun fólk eins og við
nokkurn tímann verða bólusett?“ Lýjandi fá-
tækt, mismunun og vonbrigði á æviárum
hans fengu hann til að segja þetta. Í hans lífi
var sama hvað „fólk eins og við“ lagði á sig,
laun erfiðis okkar voru of oft útilokun.
Nýlega horfði ég á heimildarmynd þar sem
fólk frá héraðinu Langbarðalandi á Ítalíu hélt
fjöldafund til að krefjast umbóta í heilbrigðis-
kerfinu. Fólk, sem hafði misst náinn aðstand-
anda, hélt á borða með áletruninni „La salute
è un diritto“ – „Heilsa er réttur“ – og reiðin
skein úr andlitum fólksins.
Heilsa er ekki bara á ábyrgð hvers og eins;
hún er félagslegt verðmæti, sem öflugt heil-
brigðiskerfi á að tryggja. Ég vildi að það
væri ekki frekari þörf á því að sannfæra
nokkurn mann um að heilbrigði samfélaga
okkar byggist á heilsu hvers og eins sem að
því stendur.
©2020 The New York Times Company og
Hye-young Pyun. Á vegum The New York Times
Licensing Group.
Ina Jang
Hvers vegna faðir minn flúði
þegar skellt var í lás í Seoul
Í febrúar varð Daegu í Suður-Kóreu vettvangur fyrsta fjöldasmits af kórónuveirunni utan Kína.
HYE-YOUNG PYUN
er höfundur skáldsagnanna „The Law of Lines“,
„City of Ash and Red“ og „The Hole“.
Við vissum ekki enn hvernig það er að
vera gamall. Ekki heldur hvernig það
er að vera virtur vettugi og vanræktur
heima fyrir í nafni öryggis.
TÍMAMÓT: ENGINN VILL VERA AFSKIPTUR OG VANRÆKTUR, EKKI EINU SINNI Í ÞÁGU ÖRYGGIS
’’