Morgunblaðið - 02.01.2021, Side 68

Morgunblaðið - 02.01.2021, Side 68
68 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 2.1. 2021 „Þetta er framúrskarandi verk sem verður ekki á nokkurn hátt afgreitt sem „bara glæpa- saga“,“ sagði Kolbrún Bergþórsdóttir um Furðustrandir, skáldsögu Arnaldar Indriða- sonar í Morgunblaðinu fyrir áratug. Í þessari setningu kjarnast ákveðin hugsun sem loðað hefur við glæpasagnaformið síðustu áratugi – að þær séu „bara“ glæpasögur, eiginlega ekki alvöru bækur og alls ekki alvöru bókmenntir. Arnaldur Indriðason ruddi brautina fyrir ís- lenskar glæpasögur, því þó hann hafi ekki ver- ið sá fyrsti sem tók að rita slíkar vöktu Synir duftsins, fyrsta skáldsaga hans, slíka hrifningu lesenda þegar hún kom út að aðrir höfundar fylgdu í kjölfarið. Fyrir þessi jól komu svo út fjórtán íslenskar skáldsögur sem flokka má sem glæpasögur, þó það geti stundum verið snúið að greina á milli. Bráðvel hefur gengið að selja íslenskar glæpasögur erlendis, sem sjá má á því til að mynda að bækur Arnaldar hafa selst í um fimmtán milljónum eintaka, þar af ríflega hálfri milljón hér á landi, og fyrir stuttu bárust fréttir af því að tvær milljónir eintaka hefðu selst af bókum Ragnar Jónassonar. Ytra eru bækurnar markaðssettar sem norrænar rökk- ursögur, „Nordic noir“, og þá vísað í að þær lýsa gjarna skuggahliðum velferðarríkisins, því hvernig gallaðir og breyskir lögreglumenn glíma við þá sem utanveltu hafa orðið í sam- félaginu. Og svo ramma höfundar bækurnar inn með steinsteypu eða landslagi, því oft er umhverfið snar þáttur í þræðinum. Sú mynd sem heimurinn hefur af norrænu rökkursögunum er frá Svíum komin, nema hvað, þá helst úr bókum Henning Mankells og tvíeykisins Maj Sjöwall og Per Wahlöö sem skrifuðu frægan bókaflokk um lögreglufor- ingjann Martin Beck á áttunda áratugnum. Því er það rifjað upp hér að Sjöwall, sem lést fyrr á þessu ári, lét þau orð falla í viðtali við bandaríska dagblaðið Wall Street Journal fyr- ir rétt rúmum áratug að tilgangur þeirra Wahlöö og hennar með skrifunum hafi verið að lýsa sænsku samfélagi og gagnrýna það sem þeim þótti fara miður. Í heimsókn hingað til lands fyrir mörgum árum sagði Mankell að glæpasagan væri elsta bókmenntaform í heimi og lykillinn að langlífi glæpasögunnar, og vinsældum hennar allt fram á okkar daga, liggur kannski einmitt í því sem Sjöwall sagði, því að þær lýsa sam- félaginu, stundum því sem var en oftast því sem er, spegla það eins og Hamlet Danaprins lýsir því: að sjónleiksins eðli og ætlunarverk sé að „sýna náttúrunni sjálfa hana eins og í skuggsjá“. Samtímans skuggsjá Fimmtán íslenskar glæpasögur komu út á þessu ári, bækur eftir Arnald Indriðason, Ár- mann Jakobsson, Evu Björg Ægisdóttur, Fritz Má Jörgensson, Guðmund S. Brynjólfs- son, Guðrúnu Guðlaugsdóttur, Ingva Þór Kor- máksson, Jónínu Leósdóttur, Katrínu Júl- íusdóttur, Láru Óskarsdóttur, Lilju Sigurðardóttur, Ragnar Jónasson, Stefán Mána, Stellu Blómkvist og Yrsu Sigurð- ardóttur. Líklega voru þær fleiri og kannski finnst einhverjum sem þessi eða hin bókin sé ekki glæpasaga. Hirðum ekki um það. Í bókum er glímt við ýmislega glæpi og uppákomur; barnsrán, eiturlyfjaneyslu, hór- dómsbrot, mafíustarfsemi, barnaníð, kynferð- islega misbeitingu, banvæna græðgi, sið- blindu, eitraða karlmennsku, gjaldeyrissvik, og svo má telja. Saman gefa þær býsna góða mynd af íslensku samfélagi, eða kannski held- ur hluta af íslensku samfélagi því þorrinn hef- ur gaman af að lesa um glæpi, en stundar þá síður, í það minnsta ekki svo alvarlega glæpi að gæti orðið að söguþræði í norrænni rökkursögu. Já, og svo eru það öll morðin, þau eru býsna ósannfærandi í eins friðsömu sam- félagi og við tilheyrum, enda myndi enginn vilja búa á Akranesi, ef bækur Evu Bjargar Ægisdóttur væru heimildarrit, nú eða á Siglu- firði, ef bækur Ragnars Jónassonar væru sannar sögur. Ýmsa glæpi, vissulega, en það hlýtur að vera ein helsta glíma glæpasagnasmiða hver glæp- urinn sé. Það þarf helst að vera morð, en hvað er á bak við morðið, hver myrti og, mikilvæg- ast af öllu: hvers vegna. Svo þegar það er kom- ið situr höfundurinn með krosslagða fingur (í óeiginlegri merkingu, væntanlega) og vonar að keppinautarnir detti ekki niður á það sama. Sem hlýtur að gerast ansi oft, til að mynda á þessu ári, þegar barnaníð og/eða kynferðisleg misbeiting kemur fyrir í fjórum bókum. Þeir sem eiga eftir að lesa reyfara ársins taki eftir að hér verður lítillega tæpt á sögu- þræði fjögurra glæpasagna; Þagnarmúrs, Næturskugga, Sykurs og Vetrarmeins, og því ráðlegt að lesa ekki lengra til að spilla ekki skemmtuninni. Í bók Arnaldar Indriðasonar, Þagnarmúr, finnst lík innmúrað í litlu rými í steinhúsi í Vest- urbænum. Smám saman kemst lesandinn að því hver átti svo illan endi, en málið tengist barnaníði. Saman við það fléttar Arnaldur svo annan söguþráð sem tengist einnig sögulegu barnaníði, sem á meðal annars rætur í eldri bók hans, og um tíma liggja þessi þræðir saman. Katrín Júlíusdóttir sendi frá sér sinn fyrsta reyfara, verðlaunabókina Sykur. Þar er barna- níð yfir og allt um kring, maður er myrtur og smám saman er flett ofan af ógeðfelldum fýsn- um hans og því hvernig hann hefur svalað þeim, hér á landi og erlendis. Þagnarmúr og Sykur eru gjörólíkar bækur að flestu leyti, en skarast þó skemmtilega hvað varðar barnaníðið, sem verður til þess að les- andinn hefur samúð með morðingjanum frek- ar en hinum myrta. Það er náttúrlega gam- alkunnug kúnst: Hver hefur ekki lesið bók um morð þar sem fórnarlambið er svo illa þokkað að nánast hver sem er hefði getað fargað því? Hinar tvær bækurnar sem ég vil nefna eru líka tengdar á sinn hátt, því þó þær séu ólíkar, eru þær ekki eins ólíkar og Þagnarmúr og Sykur, löggusögur sem gerast báðar í litlum bæ. Næturskuggar Evu Bjargar Ægisdóttur gerist þannig á Akranesi eins og flestar henn- ar bækur, þar sem Elma glímir við tvö andlát; annað morð, eins og kemur í ljós, en hitt ekki. Kynferðisleg misbeiting kemur við sögu, vel krydduð eitraðri karlmennsku. Vetrarmein Ragnars Jónassonar gerist einnig í smábæ, á Siglufirði, lögreglumaðurinn Ari leysir málin. Eins og getið er er varasamt að búa á þeim Siglufirði sem Ragnar segir frá því í bókinni eru þrjú mannslát. Tvö þeirra morð, en eitt mætti kalla afleiðingu sál- armorðs, byggist enda á kynferðislegri mis- beitingu. Sem rímar að vissu leyti við Sykur. Í þessum bókum, öllum glæpasögum ársins reyndar, er íslensku samfélagi lýst. Höfund- arnir hafa mismunandi mikla skáldagáfu, eins og gengur, og eru misskarpskyggnir á manns- sálina. Sumar bókanna eru yfirborðskenndar og ekkert í þeim nema glæpur eða glæpir, en í öðrum fáum við mynd af samtímanunm, sjáum okkur eins og í skuggsjá. Morgunblaðið/Eggert Ekki bara glæpasaga Glæpasögur eru góð afþreying og vinsæl, sem dæmin sanna, enda seljast íslenskar glæpasögur í milljónavís um allan heim. Mörgum þykir lítið til þeirra koma, en líta þá framhjá því að sumar þeirra eru raunsönn spegilmynd samfélagsins. ÁRNI MATTHÍASSON hefur starfað á Morgunblaðinu frá árinu 1981. Hann skrifar um tónlist, bókmenntir, tölvur og tækni og er nú netstjóri mbl.is. Það hlýtur að vera ein helsta glíma glæpasagnasmiða hver glæpurinn sé. Það þarf helst að vera morð, en hvað er á bak við morðið, hver myrti og hvers vegna. ÍSLENSKAR RÖKKURSÖGUR ERU SAMFÉLAGSSAGA ’’ Sem betur fer þarf íslenskt lög- reglulið ekki að glíma við ann- an eins fjölda morða og finna má í íslenskum glæpasögum.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.