Morgunblaðið - 27.02.2021, Page 34
34 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. FEBRÚAR 2021
✝ Lárus HaukurBenediktsson
fæddist í Bolung-
arvík 27. júní 1949.
Hann lést á Heil-
brigðisstofnun
Vestfjarða 17. febr-
úar 2021.
Foreldrar hans
voru Benedikt
Vagn Guðmunds-
son, f. 1915, d. 1971
og Fjóla Magnús-
dóttir, f. 1921, d. 1970.
Systkini Lárusar eru: Ingi-
gerður, f. 1939, d. 1960, Kristín,
f. 1941, d. 2016, Bára, f. 1942,
Ingunn, f. 1944, d. 1944, Har-
aldur, f. 1946, Víðir, f. 1948, Jó-
hanna, f. 1952, Ásrún, f. 1954, d.
1975, Benedikt, f.
1956.
Eiginkona Lár-
usar er Hólmfríður
Guðjónsdóttir, f.
1950, er heimili
þeirra á Holtabrún
17, Bolungarvík.
Börn þeirra eru:
María Friðgerður
Lárusdóttir, f.
1971, í sambúð með
Ragnari Aroni
Árnasyni og eiga þau 2 dætur.
Ásrún Lárusdóttir, f. 1975, og
á hún einn son.
Lárus verður jarðsunginn í
kyrrþey frá Hólskirkju í Bol-
ungarvík 27. febrúar 2021
klukkan 14.
Elsku pabbi minn, hér sit ég
útgrátin og skrifa minningarorð
um þig, hvernig er hægt að
skrifa um þig í fáum orðum? Ég
dýrkaði þig og dáði, þú varst
mér allt, fyrirmynd, hetjan mín
og vinur. Alltaf varstu til staðar
fyrir mig, hversu lítið eða mikið
það var.
Hjartað á mér er í þúsund
molum og ég get ekki lýst með
orðum hversu sárt ég sakna þín
og hversu mikið ég elska þig.
Þetta er allt svo óraunverulegt
ennþá og ég bíð eftir að þú
komir heim og farir að gantast í
okkur öllum. Með þessum orð-
um kveð ég þig með trega en ég
veit að þú átt eftir að vaka yfir
okkur. Allar minningarnar
geymi ég í hjarta mér uns við
hittumst aftur.
Ástar- og saknaðarkveðja,
Ásrún.
Elsku pabbi minn. Hvað mér
þykir sárt að þurfa að vera að
kveðja þig. Það verður stórt
skarð í lífi okkar allra því þú
ert ekki lengur hér hjá okkur.
Ég minnist góðra tíma allt frá
því ég var lítil í Bolungarvík og
lífið var eitthvað svo auðvelt.
Við ferðuðumst mikið um landið
og fórum í útilegur með nán-
ustu fjölskyldu og Ölfusborgir
voru svona eins og annað heim-
ili okkar á sumrin. Sem betur
fer vorum við dugleg að taka
myndir á þessum tíma og við
getum skoðað þær og rifjað
upp. Við héldum svo þessum
ferðalögum áfram eftir að ég
var komin með fjölskyldu því
oft og tíðum fórum við öll sam-
an í bústað eða til útlanda. Þú
reyndist okkur alltaf svo vel,
leiðbeindir okkur og hjálpaðir í
gegnum lífið.
Alltaf varstu boðinn og búinn
að hjálpa okkur að dytta að
heimilinu og þá var gott að hafa
mann eins og þig í verkinu því
þú kunnir allt. Þegar barna-
börnin komu var nú aldeilis gef-
ið í.
Það sem þið mamma dýrk-
uðuð þau og dáðuð og létuð allt
eftir þeim. Garðurinn þinn var
eins og skemmtigarður í útlönd-
um á sumrin. Þá var byrjað að
setja út alls kyns tæki fyrir
barnabörnin. Það voru ófáar
gistinæturnar í ömmu og afa
húsi og þá varstu duglegur að
semja sögur bæði af þér og þar
sem börnin voru í aðalhlutverki
og minnast þau þeirra nú í dag.
Alltaf var stutt í glensið og
gamanið, allt fram á seinasta
dag brostir þú fallega brosinu
þínu.
Það var gaman að heyra þig
segja sögur frá æsku þinni og
það er alveg ljóst að hænsnah-
irðirinn var mikill prakkari.
Hænsnasögurnar voru nú
margar, einn daginn þegar þú
áttir að safna eggjunum þá
varstu nú ekki alveg í stuði
þannig að þú ákvaðst að kasta
nokkrum steinum inni í
hænsnakofanum þannig að
hænurnar urðu hræddar. Þá
var frí hjá þér alla vega í þrjá
daga eftir það. Einnig fórstu
með þær upp á þak á hænsna-
kofanum og kastaðir þeim upp í
loftið og varst að reyna að láta
þær fljúga en þær lentu oft í
ánni sem var fyrir neðan húsið
ykkar. Það sem mér fannst
mjög merkilegt í þínum upp-
vexti var að þið mamma skyld-
uð hafa búið í sama húsi frá
unga aldri. Einnig fannst mér
mjög gaman að heyra af því að
þú hafir safnað kopar úr fjör-
unni og að koparinn var svo
notaður til að kaupa ferming-
arfötin þín. Ég á eftir að sakna
þín, gleðinnar þinnar og bross-
ins þíns. Ég ætla að enda þetta
á ljóði sem ég samdi fyrir þig á
60 ára afmælinu þínu. Ég elska
þig pabbi minn.
Lárus Haukur heitir hann
hár og grannur enn.
Sem hænsnahirðir ungur vann
og fékk sína timburmenn.
Fríða kom í líf hans fljótt
í sama húsi bjó.
Saman í skólann gengu hljótt
í hríðarbyl og snjó.
Lögin hljómuðu alla daga
og Fríða fylgdist með.
Þannig byrjaði þessi saga
hann var sko ekkert peð.
Ekki blómstraði ástin strax
þau áttu ekki leið.
Eitthvað var um rex og pax
en það var bara smá skeið.
Síðan komu gríslar tveir
sem breyttu öllu saman.
Frelsið var því ekki meir
en þeim var alveg sama.
Sumrin voru undirlögð
í ferðalög og gaman.
Ýmis sagan var þar sögð
og gott að vera saman.
Barnabörnin komu þá
og glöddu gömul hjón.
Ekkert um þau vanhaga má
þau eru þeim yndisleg sjón.
Þín
María.
Á fallegu haustkvöldi það
herrans ár 1987 hringdi ungur
maður dyrabjöllunni á Holta-
brún 17 í Bolungarvík til að
spyrja eftir Maríu. Ungi mað-
urinn var 17 ára og er sá sem
ritar þennan texta 33 árum síð-
ar.
Kjarkurinn sem ég hafði
safnað til þess að banka upp á
hjá verðandi kærustu fauk eins
og laufblað í vindi þegar hurðin
opnast og gríðarstór maður
með blautt hár og í baðslopp
stendur í dyragættinni. Ein-
hvern veginn horfandi mest á
þröskuldinn tókst mér að stama
hvort María væri heima en svo
reyndist ekki vera. Vonsvikinn
gekk ég á braut en taldi mig
sleppa vel því þessi maður var
með stærstu hendur sem ég
hafði séð og eins gott að ég
héldi mig á mottunni.
Seinna meir varð mér ljóst
að ótti minn var ástæðulaus,
risinn Lalli Ben var blíður og
vænn.
Með árunum rann upp fyrir
mér að eitt það stærsta við
Lalla var gott hjarta sem ein-
hvern veginn gerði stóru hend-
urnar agnarsmáar í saman-
burði. Lalli var ekki bara faðir
Maríu konunnar minnar heldur
minn annar faðir og einn besti
vinur. Hann lifði fyrir börnin
sín og barnabörn sem voru
ávallt í fyrsta sæti og hann
mátti ekkert aumt sjá. Gamall
vinur minn komst vel að orði
þar sem hann sagði Lalla einn
besta mann sem hann hafði
kynnist því Lalli tók öllum sem
jafningjum. Þannig var Lárus
Haukur vinur minn, fyrirmynd-
arfaðir og -afi. Ávallt tilbúinn
að hjálpa til og aðstoða eftir
mætti. Stutt í grín og glens
jafnvel undir það síðasta í lok
erfiðra veikinda sem virtust
aldrei gefa honum möguleika á
sigri, þetta ár sem þau stóðu
þótt hart væri barist. Það er
sárt að missa Lalla, eins og
hluti af manni hefði verið rifinn
úr án þess að maður fengi neitt
við ráðið.
Efst í huga mér er þó þakk-
læti til hans fyrir að vera sá
sem hann var, faðir, afi og vin-
ur. Það sem hann gerði fyrir
okkur og börnin okkar er ómet-
anlegt og gleymist aldrei.
Elsku Lalli, við hittumst von-
andi aftur í einhverri mynd.
Minningin lifir þangað til.
Þinn vinur og tengdasonur,
Ragnar Aron Árnason.
Afi minn.
Nú hefur það því miður gerst
að vond frétt til manns berst.
Kær vinur er horfinn okkur frá
því lífsklukkan hans hætti að slá.
Rita vil ég niður hvað hann var mér
kær
afi minn góði sem guð nú fær.
Hann gerði svo mikið, hann gerði svo
margt
og því miður get ég ekki nefnt það
allt.
Að tala við hann var svo gaman
á þeim stundum sem við eyddum
saman.
Hann var svo góður, hann var svo
klár,
æ, hvað þessi söknuður er sár.
En eitt er þó víst
og það á við mig ekki síst
að ég sakna hans svo mikið,
ég sakna hans svo sárt,
hann var mér góður afi, það er klárt.
En alltaf í huga mínum verður hann
afi minn góði sem ég ann.
Í himnaríki fer hann nú
þar verður hann glaður, það er mín
trú.
Því þar getur hann vakað yfir okkur
dag og nótt
svo við getum sofið vært og rótt.
Hann mun ávallt okkur vernda
vináttu og hlýju mun hann okkur
senda.
Elsku afi, guð mun þig geyma
yfir okkur muntu sveima,
en eitt vil ég þó að þú vitir nú
minn allra besti afi, það varst þú.
(Katrín Ruth Þ.)
Kveðja, þín barnabörn,
Sara og Guðmundur.
Þetta er eitthvað svo óraun-
verulegt. Hann Lalli, Lárus
Haukur bróðir minn, er dáinn,
hann lést á Heilbrigðisstofnun
Vestfjarða á Ísafirði umvafinn
ástvinum sínum miðvikudaginn
17. febrúar síðastliðinn eftir
hetjulega baráttu við illvígan
sjúkdóm en hann varð að lokum
að játa sig sigraðan, aldrei
kvartaði hann í veikindum sín-
um, en við vorum að vona að
hann fengi sumarið.
Rúmt ár er á milli okkar
bræðra, ég sjötti hann sjöundi í
röðinni af 10 börnum foreldra
okkar og eins og gefur að skilja
þá lékum við okkur meira og
minna saman alla okkar æsku á
æskuslóðunum við Hólsána, í
fjörunni og á sandinum auk
þess að bera út Morgunblaðið
til fjölda ára.
Þegar það er haft í huga að
við kvæntumst mjög samrýnd-
um systrum, ég henni Bíbí
minni, Björgu Bjarneyju, og
hann henni Fríðu sinni, Hólm-
fríði, þá þarf engan að undra að
allt okkar líf yrði samofið fyrir
lífstíð, sunnudagar, afmælisdag-
ar, hátíðisdagar og sumarfrí.
Lalli, eins og hann var ávallt
kallaður, helgaði stóran hluta
lífs síns verkalýðsmálum í Bol-
ungarvík, var formaður Verka-
lýðs-og sjómannafélags Bolung-
arvíkur í áratugi auk setu í
stjórn og nefndum félagsins.
Lalli og Fríða voru mjög
samrýnd hjón sem gerðu flest
allt saman og var þá sama hvort
um var að ræða að mála úti eða
inni eða rækta garðinn sinn og
þá var Lalli einstakur fjöl-
skyldufaðir sem elskaði börn
sín og barnabörn skilyrðislaust.
Hann stofnaði saltfiskverkun,
vann við sjómennsku, beitningu,
loðnulöndun og hvað eina sem
tilheyrði sjónum og fiskverkun,
auk verslunarstarfa, eftirsóttur
starfskraftur enda vandvirkur
og samviskusamur.
Fyrstu bílana okkar áttum
við saman og ófáar ferðirnar
fórum við í útilegur og ferðalög
innanlands, erlendis og á sólar-
strendur og þar var hann sem
endranær hrókur alls fagnaðar,
með uppátækjum sínum og
töktum átti hann auðvelt með
að hrífa fólk með sér og fá fólk
til til að hlæja og hafa gaman.
Í veikindum sínum naut hann
dyggrar umönnunar Fríðu og
dætra sinna sem umvöfðu hann
af ást og kærleika og fyrir það
erum við systkini Lalla ævin-
lega þakklát.
Elsku Fríða, María, Ragnar,
Sara Dögg, Anna María, Ásrún
og Guðmundur Lárus, missir
ykkar er mikill, hann var góður
eiginmaður, faðir, afi og bróðir,
hans verður sárt saknað.
Við Bíbí sendum okkar inni-
legustu samúðarkveðjur og
biðjum algóðan Guð að styðja
ykkur í sorginni og söknuðinum
og ég vona að það sé til nóg af
heimatilbúnum ís í draumaland-
inu.
Blessuð sé minning Lalla
bróður.
Víðir Benediktsson
Björg Bjarney
Guðjónsdóttir.
Þegar ég skrifa þessi orð þá
eru nokkrir dagar þar til ég fer
til Bolungarvíkur. Ein af órjúf-
anlegum venjum mínum í gegn-
um árin þegar ég fór til Bolung-
arvíkur var að fara í heimsókn
til Fríðu og Lalla. Núna fer ég
vestur í jarðarförina hans Lalla
og ég trúi því bara ekki.
Það hafa alltaf verið mjög
sérstök og náin tengsl á milli
fjölskyldna okkar. Lalli var
bróðir pabba og hann var giftur
systur hennar mömmu, já
bræðurnir voru giftir systrun-
um. Þess vegna hefur alltaf ver-
ið mikill samgangur á milli okk-
ar fjölskyldna alveg frá því ég
man eftir mér. Lalli var alltaf
hress, alltaf að grínast og ég
var alltaf hlæjandi í kringum
hann. Mér leið líka alltaf vel
eftir heimsóknir til þeirra Fríðu
og Lalla og dætra þeirra, Maríu
og Ásrúnar, þar var mikill kær-
leikur og ást, já og mikið hlegið.
Við unnum líka saman á tíma-
bili, það var gott að vinna með
honum, hann var svo góður við
mig. Við áttum það líka bæði til
að vera svolítið utan við okkur,
rugla saman dagsetningum og
fleira og gátum þá oft hlegið
hvort að öðru út af því.
Lalli glímdi við erfið veikindi
síðasta árið. Ég hitti hann
stundum þegar hann kom suður
vegna þeirra og alltaf var hann
hress við mig og að grínast
þrátt fyrir sín alvarlegu veik-
indi.
Hann var líka alltaf svo
þakklátur fyrir hvern smá-
greiða sem ég gerði. Ég á eftir
að sakna hans mikið, hann var
svo yndislegur og góður maður.
Elsku Fríða, María og Ásrún,
ég finn svo til með ykkur. Ég
samhryggist ykkur af öllu mínu
hjarta. Megi Guð gefa ykkur
styrk í gegnum þessa erfiðleika.
Blessuð sé minning þín elsku
Lalli.
Fjóla Benný.
Þegar við kveðjum elskuleg-
an mág og svila okkar, koma
fyrst upp í hugann nokkur orð
úr Korintubréfi um kærleikann.
Kærleikurinn er langlyndur,
hann er góðviljaður. Kærleik-
urinn er ekki raupsamur og
hreykir sér ekki upp. Þannig
var Lalli, hann var maður kær-
leikans, alltaf búinn og boðinn
til að hjálpa öðrum og þeir voru
ófáir sem nutu velvilja hans og
aðstoðar. Þá miklaðist Lalli
aldrei af verkum sínum, þau
vann hann af óeigingirni og
þótti sjálfsagt.
Fjölskyldur okkar hafa alla
tíð verið ákaflega nánar og
samhentar, samverustundir
ótalmargar, alltaf komið saman
á hátíðum og við aðra viðburði,
sem og hversdags. Samgangur
mikill milli barna okkar, syst-
urnar eru í sambandi nær dag-
lega og samskiptin við móður
þeirra og tengdamóður okkar
voru einstök. Lalli var ekki
maður sem tranaði sér fram, þó
hlóðust á hann félagsstörf ým-
iss konar og um langt skeið var
hann formaður Verkalýðs- og
sjómannafélags Bolungarvíkur,
á tímum mikilla breytinga. Þar
vóg kunnátta hans, velvilji og
þekking á málaflokknum þungt
og nutu margir leiðsagnar og
aðstoðar hans. Eignaðist hann
þar marga góða vini og víst er
að margir eiga honum mikið að
þakka.
Við hjónin þökkum allar sam-
verustundir sem voru einstakar,
ljúfar og skemmtilegar, oft var
lengi setið hversdags og málin
rædd. Þá ferðuðumst við mikið
saman bæði innanlands og utan
og eru allar þær ferðir ógleym-
anlegar. Einu má þó alls ekki
gleyma að nefna, en það var
leikarinn Lárus. Hann gat sett
sig í hin ótrúlegustu gervi,
hermt eftir og leikið, svo við
veltumst um af hlátri. Þá var
hann ómetanlegur er hann tók
hárbursta eða það sem hendi
var næst og notaði sem hljóð-
nema og tók Presley jafnt sem
Björgvin, sem og fjölmarga
fleiri.
Þau Fríða voru einstaklega
samhent og náin hjón sem sást
hvað best, þegar hún hjúkraði
honum heima allt fram að síð-
asta degi. Það verður erfitt að
hugsa sér lífið án Lalla, svo
stóran sess átti hann í lífsgöngu
okkar í hálfa öld, alltaf tilbúinn
að veita hjálparhönd, alltaf
tilbúinn að veita ráð og gefa af
sér.
Elsku Fríða, María, Ásrún og
fjölskyldur, megi Guð veita
ykkur styrk í sorg ykkar.
Guðjóna og Ólafur.
Það er skrýtin tilhugsun að
næst þegar við systur komum á
Holtabrún 17 verður Lalli ekki í
dyragættinni með brosið sitt
blíða. Lalli, eins og við köll-
uðum hann alltaf, var einstak-
lega góður maður, réttsýnn,
einlægur og æðrulaus. Hann
gat verið afar stríðinn en góð-
mennskan geislaði ávallt af hon-
um og kærleikurinn fyrir fólki.
Það var alltaf tekið vel á móti
okkur systrum á Holtabrúninni,
hvort heldur sem litlar stelpur
að skottast á milli heimila eða
sem fullorðnar konur að kíkja í
heimsókn. Það hefur tilheyrt
ferðum okkar í Víkina að kíkja
til Fríðu og Lalla og alltaf gott
og gaman að setjast niður með
þeim hjónum og spjalla um lífið
og tilveruna. Lalli var mjög
áhugasamur um líf okkar,
fylgdist vel með okkur systrum
en einnig fjölskyldu Bjargar og
var óspar á spurningar sem
okkur þótti afar vænt um.
Fríða og Lalli voru einstak-
lega samhent og skemmtileg
hjón sem var gaman að vera í
kringum. Á milli þeirra ríkti
mikill kærleikur og virðing sem
sást svo vel í veikindum Lalla
þar sem Fríða stóð sem klettur
við hlið hans allt til loka.
Þakklæti er efst í huga fyrir
dásamlegar minningar um ein-
stakan mann sem var stór hluti
af lífi okkar systra og verður
hans sárt saknað.
Hvíl í friði, elsku Lalli.
Björg María og
Magna Björk.
Lárus Haukur
Benediktsson
HINSTA KVEÐJA
Elsku afi minn.
Ég vildi þakka þér fyrir
allt.
Þú varst alltaf svo
skemmtilegur og fyndnasti
maður í heimi.
Þú varst alltaf svo ein-
stakur og alltaf svo góður.
Það var alltaf svo
skemmtilegt að gera allt
með þér og ég á óteljandi
góðar minningar með þér.
Þú varst besti afi í heimi.
Takk fyrir allar góðu
stundirnar.
Ég elska þig svo mikið
og mun aldrei gleyma þér.
Þitt kæra barnabarn,
Anna María.
Minningarkort á
hjartaheill.is
eða í síma 552 5744