Morgunblaðið - 16.02.2021, Qupperneq 13
Ford hefur ákveðið að framleiða
nýjan rafdrifinn smábíl sem stefnt
verður á alla heimsins bílamarkaði.
Verður hann byggður upp af
MEB-eininga undirvagni Volks-
wagen.
Þetta verður fyrsti fjölda-
framleiddi litli rafbíllinn frá Ford
og þar sem bílsmiðjan í Köln fram-
leiðir nú Fiesta er viðbúið að smíði
hans verði lögð niður þegar MEB-
undirvagninn kemur til skjalanna
að fullu.
Búist er við að bílar með bruna-
vél hverfi af færiböndum smiðj-
unnar í síðasta lagi 2024.
Vandræði leggjast nú á rafbíla-
samstarf VW og Ford vegna dóms
yfir kóreska rafgeymasmiðnum SK
Innovation, sem féll nýverið í
Bandaríkjunum. Keppinauturinn
LG Chem, sem er bandarískt fyrir-
tæki, sakaði SKI um iðnaðarnjósnir
og vann málið. Getur það haft í för
með sér 10 ára innflutningsbann.
Bæði VE og Ford höfðu átt í
samstarfi við SKI sem reisir nú
verksmiðju til framleiðslu raf-
geyma fyrir rafbíla. Vegna dóms-
ins þarf SKI að bíða í fjögur ár
með að smíða rafhlöður fyrir Ford
og er biðin tvö ár fyrir Volks-
wagen.
agas@mbl.is
Ford Fiesta hverfur líklega senn úr framleiðslu. Hann víkur fyrir rafbíl.
Dauðadómur yfir Fiesta
12 | MORGUNBLAÐIÐ
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Þ
að getur verið varasamt að
slá viðhaldi og viðgerðum
bifreiða á frest og kann
m.a. að valda því að
skemmdir smiti út frá sér. Þetta
segir Hjalti Guðmundsson, fram-
kvæmdastjóri bifreiðaverkstæðisins
PG Startþjónustan á Viðarhöfða.
Ládeyða er yfir atvinnulífinu og
víða er þröngt í búi og segir Hjalti
að þegar þannig árar hætti sumum
til að láta bílaviðgerðir mæta af-
gangi. „Eðlilega hefur fólk áhyggjur
af ástandinu og vill spara pening ef
það getur. Er þá kannski annar eða
þriðji bíllinn á heimilinu látinn bíða
viðgerðar ef bilun kemur upp og
reynt að komast af án hans þangað
til ástandið lagast.“
Leiðir til dýrari viðgerða
Hjalti segir óhætt að láta bilaða
bíla standa en hins vegar sé vara-
samt að halda áfram að nota bíl sem
greinilega þarf á viðgerð eða við-
haldi að halda. „Ef t.d. rafgeym-
irinn er orðinn slappur og fólk
frestar því að skipta honum út fyrir
nýjan þá eykst álagið á alternator-
inn (þ.e. riðstraumsrafalinn) og
stútar honum á endanum. Algengt
verð á nýjum rafgeymi er á bilinu
16-20.000 kr. en alternator kostar í
kringum 45-50 þúsund, og þarf vita-
skuld að kaupa nýjan rafgeymi þeg-
ar skemmdum alternatornum er
skipt út.“
Annað dæmi af svipuðum toga er
ef fólk dregur að skipta um bremsu-
klossa. „Þegar klossarnir hafa eyðst
upp fara neistar að skjótast frá
bremsunum enda nuddast járn utan
í járn. Neistarnir þyrlast út frá
dekkinu og eyðileggja lakkið á bíln-
um og felgurnar,“ segir Hjalti og
bætir við að ekki eigi að fara
framhjá neinum þegar kominn er
tími á að kíkja á bremsurnar. „Í
flestum nýrri bílum kemur upp við-
vörunarljós en í eldri bílum eru
bremsurnar hannaðar þannig að
stálpinni í bremsuklossanum byrjar
að naga í bremsudiskinn þegar slit-
ið er orðið mikið og heyrist þá ískur
þegar bremsað er.“
Reglulegar hjólastillingar hafa
líka mikið að segja með slit á dekkj-
um og álag á drifbúnaði. „Í Banda-
ríkjunum er það þumalputtaregla
að jafnvægisstilla hjólin á 10.000
mílna fresti. Það kemur í veg fyrir
að fólk sitji uppi með misslitin dekk
og tryggir að bíllinn sé rásfastur og
góður í keyrslu. Ef bíllinn er ekki
rétt stilltur og t.d. útskeifur að
framan, þá veldur það líka strax
meira álagi á spindilkúlur, stýris-
enda og fóðringar enda verið að
toga allan hjólabúnaðinn út á við
þegar ekið er í beinni línu.“
Eins og skoðun hjá tannlækni
Þegar kostnaðurinn við heimsókn
á bifreiðaverkstæði er settur í sam-
hengi við annan rekstrarkostnað
ökutækis sést að ekki er um mikil
útgjöld að ræða. Hjalti segir al-
gengt að tímagjald á verkstæði sé
um 15.000 kr. og megi reikna með
að taki um 1,5 til 2 tíma að yfirfara
bílinn. „Og með því að hugsa vel um
ökutækið er fólk vonandi að forðast
dýrari viðgerðir og losna við það
umstang og kostnað sem fylgir
óvæntum bilunum. Þá er ekki nokk-
ur vafi að það hjálpar mjög við end-
ursölu ef þjónustubókin endur-
speglar að bíllinn eigi sér góða
sögu.“
Nýlegum bílum fylgir yfirleitt
ábyrgð að því tilskildu að farið sé
með þá í reglulegar þjónustuskoð-
anir á verkstæði seljanda. Umboðin
halda vel utan um viðskiptavini sína
og gæta þess jafnan að minna á
þegar tími er kominn á skoðun.
Hjalti segir mikilvægt að halda
þessu áfram þegar bíll er ekki leng-
ur í ábyrgð og jafn brýnt að heim-
sækja bifvélavirkjann til að sinna
fyrirbyggjandi viðhaldi og það er að
heimsækja tannlækninn reglulega
til að koma auga á holur. „Þetta
ætti að gera að minnsta kosti einu
sinni á ári, og oftar en það ef bílinn
er keyrður meira en 15.000 km ár-
lega. Hefur þetta mikið að segja
með það að bíllinn endist lengi.“
Fyrirbyggjandi viðhald
sparar fólki peninga
Góð regla er að láta
fagmann yfirfara heim-
ilisbílinn a.m.k. árlega.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sölvi Guðmundarson og Hjalti Guðmundsson á verkstæðinu. Gott viðhald ætti að auðvelda endursölu.
Þó að PG Startþjónusta sinni öll-
um almennum bílaviðgerðum er
fyrirtækið sérhæft í störturum
og alternatorum. Hjalti segir að
þessir hlutar bílvélarinnar láti
mest á sjá þegar snjór, salt og
slabb er á götum en tiltölulega
mildur vetur á suðvesturhorn-
inu hafi þýtt að lítið hafi verið
um bilaða alternatora og start-
ara að undanförnu.
Þróunin hjá framleiðendum
hefur því miður verið þannig að
startarar og alternatorar endast
ekki jafnvel og þeir gerðu áður
og segir Hjalti að skýringin sé
líklegast sú að meira er notað af
endurunnu stáli og áli við fram-
leiðsluna sem gerir þessa parta
viðkvæmari fyrir tæringu. „Er
t.d. ekki langt síðan við fengum
til okkar alternator úr rútu sem
var eins og hálfs árs gömul en
tæringin var eins og í 20 ára
vörubíl.“
Til að alternatorar og start-
arar endist betur segir Hjalti að
m.a. verði að gæta að þeim hlíf-
um sem eru undir bílnum. „Oft-
ast eru þessar hlífar úr plasti og
eiga það til að brotna. Sumir
einfaldlega henda hlífunum,
setja ekki nýja í staðinn og
hugsa svo ekki meira um það,
en á meðan eiga alls konar
óhreinindi greiða leið að vél-
inni.“
Hér hjálpar vitaskuld að kíkja
með bílinn í skoðun með reglu-
legu millibili og koma auga á
merki um vandamál í uppsigl-
ingu. „Og það getur líka hjálpað
að þrífa vélarrúmið öðru hvoru
en þá er vissara að láta gera það
á bónstöð þar sem menn kunna
til verka enda mikið af raf-
magns- og tölvubúnaði undir
húddinu á bílum í dag og ekki
sama hvernig hann er spúl-
aður.“
Komi bilun upp í alternator
eða startara er oft hægt að gera
við íhlutinn ferkar en að kaupa
nýjan. „Getur munað helmingi á
kostnaði við að gera við í stað
þess að kaupa nýjan en tveggja
ára ábyrgð fylgir þess háttar
viðgerðum.“
Þarf ekki
alltaf að
kaupa nýtt
Rúmlega helmingur breskra bíl-
stjóra (55%) hefur látið undan
holdlegri fýsn sinni með lífs-
förunaut sínum í bílnum. Hlut-
fallið hækkar í 61% ef aðeins
karlar eru spurðir. Tíundi hver
sagði fyrirspyrjanda ekki koma
það við.
Hins vegar skýtur það nokkuð
skökku við að fimmti hver Breti
(22%) kveðst unna fararskjóta
sínum meir en makanum. Og
fjórði hver Breti segist verja
meiri peningum í dekur við bíl-
inn en makann.
Í könnun sem gerð var á veg-
um Auto Trader, stærstu staf-
rænu netsölu nýrra sem notaðra
bíla, kom fram að mest allra
Breta glaðnaði fýsn íbúa borg-
arinnar Sunderland þegar í bíl-
inn var komið. Hvorki fleiri né
færri en 80% þeirra sögðust hafa
unnið holdlegar dáðir þar.
Á hinum enda skalans í þess-
um efnum urðu bílstjórar í borg-
inni Cardiff í Wales en aðeins
37% þeirra hafði hlaupið kyn-
ferðislegt kapp í kinn í bíl sín-
um.
Halda mætti að Bretar ættu í
ástarsambandi, allavega plat-
ónsku, við bíla sína. Tveir af
hverjum þremur sögðust elska
vélina í bíl sínum og næstum
þriðji hver (29%) kvaðst dá bíl
sinn vegna stærðarinnar. Róm-
antíkin er ekki alveg dauð meðal
bílstjóra því 27% sögðust gefa
bílnum gælunafn. Það skyggir
svo annars á allt saman að 18%
bílstjóranna sögðust frekar skilja
við makann en selja bíl sinn.
Í könnuninni var reynt að
draga fram hvort bílar teldust
misjafnlega kynþokkafullir hjá
breskum almenningi. Svo reynd-
ist vera og þótti Aston Martin
DBS Superleggera standa þar
öðrum framar, en tíu kynþokka-
fyllstu bílarnir í augum Breta eru
þessir:
Aston Martin DBS Superleggera
Jaguar F-Type
Aston Martin DB4
De Tomaso P72
Ferrai 812 Superfast
Bugatti Chiron
Ford Mustang 390 GT
Chevrolet Corvette
Mercedes-Benz S-Class Coupe
Mercedes-Benz SL300 Gullwing
agas@mbl.is
Kynþokkafullir bílar
örva holdlegar fýsnir
Rúmlega helmingur játar að hafa örvast kynferðislega í bílnum.