Morgunblaðið - 01.03.2021, Side 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 1. MARS 2021
er hún leit hvítvoðunginn augum
úti í Eyjum fyrir 77 árum. Spurð
um merkingu orðsins var fátt um
svör og enn þann dag er málið
óleyst sem í sjálfu sér er hið besta
mál því litlaus væri tilveran ef við
hefðum svör við öllu. En sum
sagt, þetta var tilurð gælunafn-
sins Snolla og með fullri virðingu
fyrir Árnanafninu þá var og er
nóg til af Árnum í landinu en að-
eins eitt eintak af Snolla og það
eðaleintak.
Við Snolli vorum systkinasynir
og fyrstu kynni mín af honum
munu hafa verið upp úr miðri síð-
ustu öld. Þá tíðkaðist sá siður í
landinu að börn voru send til sum-
ardvalar í sveit en þá var frændi
kominn til Grundarfjarðar. Ekki
sluppum við frændur undan þess-
ari hefð, ég var sendur í sveitar-
félög ekki mjög fjarri höfuðstaðn-
um, væntanlega til að lágmarka
fyrirhöfn af stroki og ekki dugði
minna en að senda Snolla landið á
enda alla leið á Langanesið með
strandferðaskipi með viðkomu í
Reykjavík. Nú eru strandsigling-
ar illu heilli löngu aflagðar og
þess í stað var þjóðvegakerfinu
kerfisbundið splundrað sem var
létt verk og löðurmannlegt enda
lagt einungis í aðra áttina. Á
þessu ferðalagi sínu í sveitina
gisti Snolli einatt á heimili for-
eldra minna. Þá var nú hátíð í bæ
og við 10 ára guttarnir máluðum
bæinn rauðan, þræddum flestar
sjoppur borgarinnar þar sem að-
alrétturinn var Lindubuff og kók
með lakkrísröri. Bíóin voru heiðr-
uð með nærveru okkar og Roy
Rogers og Tarzan aðalhetjurnar
og auðvitað reynt að svindla sér
inn á myndir bannaðar innan 12.
Allt þetta í boði Snolla sem hafði
ríflegan farareyri í langt og
strangt ferðalag til sveitardvalar.
Ekki fara sögur af fjárreiðum
Snolla í sveitinni eftir borgarsoll-
inn.
Þeir feðgar Bói og Snolli voru
nauðalíkir í fasi og framkomu,
frábærilega skemmtilegir og til
allrar hamingju varð þeim ekki
fótaskortur á minnimáttarkennd-
inni. Snolli var vel lesinn og hygg
ég að hann hafi lesið allar Íslend-
ingasögurnar og flestar oftar en
einu sinni. Hitti hann suður á
Spáni fyrir nokkrum árum við
lestur Njálu. Nóbelsskáldið var í
uppáhaldi og Bjartur kallinn hans
maður. Sennilega væri Bjartur í
Sumarhúsum sjálfstæðismaður
væri hann meðal okkar í dag og
þá áhugaverð spurning hvort að-
ild okkar að ESB væri honum
þekkileg að ekki sé talað um
kvótakerfið. Fyrir skömmu tók-
um við frændi tal saman og rædd-
um m.a. sögupersónuna Bjart í
Sumarhúsum sem margur hefur
sterkar skoðanir á, einkum nú í
seinni tíð þar sem allt skal vera
nýmóðins og gömul og góð gildi
úti í kuldanum. „Þeir mættu vera
fleiri Bjartarnir í þessu landi,“
sagði frændi og glotti kalt. Þar
þekkti ég minn mann.
Við Margrét, Ágústa og fjöl-
skylda sendum Þórunni, börnum
og ástvinum öllum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Kannski eigum við Snolli eftir
að fá okkur Lindubuff og kók með
lakkrísröri, ég býð og bíð.
Vertu kært kvaddur og Höfuð-
smiðnum falin.
Ólafur Ágúst Þorsteinsson.
Nú þegar við kveðjum Árna M.
Emilsson er ástæða til þess að
minnast hans. Árni var tryggur
vinum sínum og uppruna. Þau
óteljandi samtöl sem við Árni átt-
um enduðu oft á því að hann lagði
áherslu á mál sitt með því að vitna
í Njálu eða Eyrbyggju sem hann
hafði dálæti á. Ævisaga séra Árna
á Stórahrauni eftir Þórberg var
líka í uppáhaldi sem og skáld-
verkið Kristnihald undir Jökli þar
sem finna mátti líkingu við
skrautlega framvindu samtímans.
Kynni okkar Árna hófust þegar
ég var í Skógaskóla og hann kom
þangað með hópi fyrrverandi
nemenda. Hann var mikill
íþróttagarpur og vakti mikla að-
dáun þegar hann fór heljarstökk í
íþróttahúsinu. Þegar leiðir okkar
lágu saman á Skógum höfðum við
ekki hist. Samskipti á milli ung-
linga þorpanna á Snæfellsnesi
voru ekki mikil því Búlandshöfð-
inn var þar farartálmi uns vegur
var lagður yfir Þrælaskriðu.
Hann tók mér vel þegar við hitt-
umst á Skógum og sagði við mig
að Snæfellingar ættu hvorki að
vera feimnir né hlédrægir.
„Stattu á þínu,“ sagði þessi víg-
reifi ungi maður til þess að efla
unglinginn.
Upp frá þessum kynnum okk-
ar skapaðist vinátta sem leiddi til
stöðugra samskipta og samráðs.
Árni var aðsópsmikill á vettvangi
félagsmála á Snæfellsnesi. Til
hans var leitað vegna starfa í
þágu samfélagsins. Hann var
sveitarstjóri í Grundarfirði og sat
í stjórnum og ráðum og beitti sér
mjög í þágu Snæfellinga. Hann
kom að mörgum framfaramálum
svo sem varanlegri gatnagerð í
þorpunum á Snæfellsnesi sem
unnin var með einstöku sam-
komulagi sveitarstjórnanna og
stuðningi vinar okkar Guðjóns
Yngva Stefánssonar fram-
kvæmdastjóra SSV en þeir Árni
unnu mikið saman. Eftir að Árni
flutti til Garðabæjar var hann
fljótlega kominn á kaf í málefni
þess samfélags og lagði fram
krafta sína. En hugur hans var
samt allur við starfið í bankanum.
Ég varð þess ríkulega var úr
ýmsum áttum að hann þótti ein-
stakur bankamaður hvort sem
hann stýrði útibúi Búnaðarbank-
ans í Grundarfirði eða starfaði í
aðalstöðvum Landsbankans sem
hann gerði við starfslok árið
2010. Fyrri störf Árna nýttust
honum vel þegar hann hóf störf
sem útibússtjóri og hann hafði
einstaka tilfinningu fyrir þörfum
viðskiptavina bankans. Þegar
Árni var hættur störfum í bank-
anum var leitað til hans að rit-
stýra verkinu Ísland – atvinnu-
hættir og menning 2010. Fékk
hann mig með sér í þetta verkefni
og við nutum þess báðir.
Eins og fyrr er getið þá var
Árni mikill áhugamaður um bók-
menntir og sagnfræði, en það
áhugamál sem hann naut hvað
mest og best var skákin. Árni var
lánsamur að kynnast sinni góðu
konu Þórunni í Skógaskóla þegar
þau voru unglingar. Þrátt fyrir að
þau Árni og Þórunn flyttu frá
Grundarfirði í Garðabæinn voru
ræturnar sterkar við Eyrarsveit-
ina sem sást best á því er þau
reistu fallegt frístundahús við
Grundarfjörðinn þaðan sem
Kirkjufellið blasir við í allri sinni
dýrð. Þangað leitaði fjölskyldan
og þar tóku þau á móti vinum og
ættingjum. Við Hallgerður þökk-
um vináttu og samverustundir
liðinna ára og vottum Þórunni og
fjölskyldunni innilega samúð á
kveðjustundu.
Sturla Böðvarsson.
„Það syrtir að, er sumir
kveðja.“ Þessi fleygu orð Davíðs
Stefánssonar koma í hugann líkt
og ljóðskáldið lýsir í líkindamáli,
þegar horft er á fölnandi brá, sem
áður brosti svo bjart. Og þannig
verður mörgum innanbrjósts við
hinstu kveðju Árna Magnúsar
Emilssonar; aldrei fremur en
þegar menn verða að kveðja fullir
orku og atgervis eftir snarpa bar-
áttu við illvíg veikindi eins og við
átti um hann.
Ég naut þeirrar gæfu að vera
samferða honum stóran hluta
ævinnar, fyrst sem góðir félagar
og síðar nánir vinir. Mér er í
fersku minni, þegar leiðir okkar
lágu fyrst saman á aðalfundi
Samtaka sveitarfélaga á Vestur-
landi fyrir fjórum áratugum síð-
an. Í kvöldverðarboði samtak-
anna réð lánið því að mér var
skipað til sætis með glaðbeittum
Snæfellingum. Þar á meðal var
Árni, hrókur alls fagnaðar – þá
sem endranær. Fasið var vin-
gjarnlegt, hann var kátur og
glaður að upplagi, brosti með
augunum og raunar andlitinu
öllu, og með fáum var jafngaman
að skemmta sér og hlæja.
Ljóst var að hugur Árna hefur
mótast mjög af uppvaxtarárun-
um á Þórshöfn og í Grundarfirði.
Það heyrðist best, þegar hann
lýsti æsku- og unglingsárunum,
þá kom glöggt í ljós, hvernig
þessi sonur sjávarbyggðanna var
samgróinn þessu öllu: landinu,
lífinu, sögunni og fólkinu. Hann
bjó að einstöku sagnaminni og
var úrtökufróður, ekki síst um at-
vinnusöguna og stjórnmál liðinn-
ar aldar. Þessi góða blanda gerði
Árna að samræðusnillingi, sem
menn sóttust eftir að kynnast,
enda gat hann með hnyttnum til-
svörum snúið gráum degi í gleði-
stund. Húmor hans var græsku-
laus og í brjósti hans var hjarta,
sem jafnan sló með þeim, sem
ranglæti voru beittir. Þannig
sagði hann sjálfur að væri hjarta-
lag góðra frjálslyndra íhalds-
manna.
Sumir menn eru þeirrar gerð-
ar að vera hvort tveggja í senn at-
hafnamenn á veraldlega vísu og
trúir andans menn, merkisberar
tveggja oft að því er virðist ólíkra
heima. Þannig hefur Árni Emils-
son gjarnan komið mér fyrir
sjónir; einbeittur hugsjónamaður
kaldrar rökhyggju, þegar það á
við, en samtímis hjartahlýr og
margfróður um menn og málefni,
víðlesinn og vellesinn í sögum
jafnt sem ljóðum og auk þess sér-
stakur áhugamaður um myndlist
og skák. Hann var fjölmenntaður
maður í þess orðs fyllstu merk-
ingu, átti gott safn góðra bóka,
minnugur mjög og hafði firna-
gaman af að segja góðar sögur.
Mörgum molum laumaði hann að
mér og á góðum stundum reyndi
ég að launa líkum líkt eftir bestu
getu. Þótt í mörgu hallaði á lét
hann þó aldrei á neinu bera.
Margt, sem á milli fór í löngum
samtölum, mun seint gleymast.
Ekki verður séð hvað komið get-
ur í stað þeirra stunda.
Árni var röggsamur sveitar-
stjóri í Grundarfirði og atkvæða-
mikill á vettvangi sveitarfélaga á
Vesturlandi um árabil. Fjölskyld-
an flutti í Garðabæ árið 1986,
þegar Árni tók við útibúi Búnað-
arbankans í bænum. Hann var
fljótt kallaður til verka fyrir bæj-
arfélagið, fús til þess að leggja
lið. Í hverju góðu máli munaði
miklu um liðveislu hans. Árni sat
í nefndum á vegum bæjarins og
veitti formennsku í byggingar-
nefnd Fjölbrautaskólans í Garða-
bæ, sem ásamt þáverandi skóla-
meistara, Þorsteini
Þorsteinssyni, stóð fyrir og fylgdi
eftir byggingu þessa glæsilega
skóla. Hann var lengi vel í trún-
aðarsveit sjálfstæðismanna í
Garðabæ og á kjördæmisvísu og
lagði þar ávallt gott eitt til mála.
Þegar mikið lá við, var Árni jafn-
an kallaður til, enda var hann vel
tengdur utan sem innan bæjar,
ráðagóður, hreinskiptinn og öll-
um heill. Það er vissulega ómet-
anlegt að eiga slíka að í ölduróti
stjórnmálanna.
Nú er komið að leiðarlokum.
Þín verður sárt saknað kæri vin-
ur. Heimurinn verður annar –
raunar allt annar. Við Hallveig og
fjölskyldan þökkum ómetanlega
viðkynningu og einlæga vináttu.
Innilegar samúðarkveðjur send-
um við ykkur kæra Þórunn, Orri,
Arna og Ágústa Rós, barnabörn-
um og öðrum ættingjum. Minn-
ingin um gott og farsælt æviskeið
mun lengi lifa.
Ingimundur Sigurpálsson
Við Árni Emilsson sátum aldr-
ei saman í stjórn Skáksambands
Íslands (SÍ). Hann hætti sama ár
og ég kom inn í stjórnina, árið
1992. Sem ungur maður fylgdist
ég með Árna Emilssyni með mik-
illi virðingu þótt ég þekkti hann
lítið sem ekkert.
Ég man vel eftir honum á aðal-
fundum SÍ. Einu sinni óskaði
hann eftir að tillögu, sem honum
þótti heimskuleg, yrði vísað út í
ystu myrkur. Fundarstjóri vildi
ekki samþykkja það sem frávís-
unartillögu. Ég man ekki hvað
málið snerist efnislega um eða
hver niðurstaðan varð en Árni
hafði örugglega rétt fyrir sér!
Árni kom inn í stjórn SÍ árið
1989 og setti þegar svip sinn á
stjórnina. Hann var lykilmaður í
byggingarnefnd SÍ og á aðal-
fundinum 1992, árið sem hann
hætti, flutti hann skilaboð um
byggingarstyrk frá ríkisstjórn
Íslands, upp á 15 milljónir króna,
sem skipti um sköpum um að SÍ
eignaðist veglegt húsnæði.
Skákþing Íslands var haldið í
Grundarfirði árið 1986. Árni var
þá útibússtjóri Búnaðarbankans
og beitti sér fyrir mótshaldinu.
Mótið var eitt það sterkasta í sög-
unni og vakti þar 14 ára skák-
maður, Hannes Hlífar Stefáns-
son, mikla athygli fyrir góða
frammistöðu.
Sjálfur kynntist ég Árna fyrst
af alvöru þegar við unnum saman
í Búnaðarbankanum og síðar
Landsbankanum. Þá urðum við
góðir kunningjar og stundum leit
ég við á skrifstofu Árna til að
spjalla um heima og geyma. Þó
mest um skák sem Árna var mjög
hugleikin. Í Landsbankanum,
þar sem Árni var útibússtjóri úti-
búsins í Austurstræti, átti hann
frumkvæði að afar vel heppnuð-
um viðburði sem hét Friðriksmót
Landsbankans og var haldið í úti-
búinu. Fyrsta mótið var haldið
árið 2004. Mótið varð ómissandi
hluti af jólahaldi skákmanna og
er enn.
Í október 2008 hrundi svo
bankaspilaborgin. Bankarnir
drógu mjög úr öllu markaðs-
starfi. Létu lítið fyrir sér fara.
Við Árni forðuðumst umræðuefn-
ið Friðriksmótið en þegar áætluð
dagsetning var farin nálgast óð-
fluga kíkti ég við á skrifstofu
Árna. „Hvað segirðu um Frið-
riksmótið – er ekki vonlaust að fá
samþykki fyrir því?“ Árni horfði
á mig í smástund og sagði svo
glottandi „Þá er best að spyrja
ekki!“
Mótið var haldið í desember
2008 og hefur verið haldið síðan –
skákmönnum til mikillar ánægju.
Meira að segja lifði mótið Covid
af og var haldið á netinu í fyrra.
Árni kíkti yfirleitt við á mótið eft-
ir að hann hætti í bankanum og
lék stundum fyrsta leikinn eða af-
henti verðlaun.
Árna verður saknað á Frið-
riksmótum framtíðar. Ég minnist
Árna af miklum hlýhug. Hann
átti mikinn þátt í uppbyggingu
skákhreyfingarinnar og því að
hún eignaðist sitt húsnæði. Án
hans væri ekkert Friðriksmót í
Landsbankanum. Honum verður
seint fullþakkað.
Ég votta aðstandendum hans
samúð mína. Skákhreyfingin hef-
ur misst góðan mann.
Gunnar Björnsson,
forseti Skáksambands Íslands.
Mér finnst ekki langt síðan
hringt var í mig og mér sögð þau
tíðindi að starfsfélagi minn og
góður vinur til fjölda ára, Árni M.
Emilsson, væri alvarlega veikur.
Engan veginn bjóst ég þó við að
svo stutt yrði á milli fregna um
veikindin og andláts þessa góða
vinar og hjálparhellu. Ég segi
hjálparhellu því eitt helsta ein-
kenni Árna var hjálpsemi og að-
stoð við fólk sem átti í vandræð-
um og þurfti á aðstoð að halda.
Við Árni kynntumst og hófum
fljótlega góðan vinskap, árið
1978, þegar ég og fjölskylda mín
fluttumst til Ólafsvíkur og ég tók
við starfi útibússtjóra Lands-
banka Íslands. Skömmu síðar tók
Árni við framkvæmdastjórn fisk-
vinnslufyrirtækisins Sæfangs í
Grundarfirði, hans heimabæ. Svo
varð að Árni kom með bankavið-
skipti fyrirtækisins til Lands-
bankans í Ólafsvík.
Nú, en svo þróuðust málin
þannig að ég flutti minn starfs-
vettvang aftur til Reykjavíkur í
ársbyrjun 1982 og var ráðinn til
að gegna starfi aðstoðarbanka-
stjóra Búnaðarbanka Íslands og
jafnframt starfi forstöðumanns
erlendra viðskipta Búnaðarbank-
ans. Fljótlega var ákveðið að
setja á stofn útibú Búnaðarbanka
Íslands í Grundarfirði. Hvorki
varð leitin að útibússtjóra löng né
ströng. Árni Emils var ráðinn.
Árið 1986 tók Árni við starfi úti-
bússtjóra Búnaðarbankans í
Garðabæ og árið 2002 tók hann
svo við starfi útibússtjóra aðal-
útibús hins nýsameinaða banka,
Kaupþings Búnaðarbanka. Ég
lét af störfum sem bankastjóri
KB banka í árslok 2004 og sama
ár hvarf Árni til starfa í Lands-
banka Íslands. Af allri þessari
upptalningu má sjá að samstarf
okkar Árna var bæði langt og
gott.
Ég minntist á það hér að fram-
an að eitt helsta einkenni Árna,
og kostur sem bankamanns, hefði
verið hjálpsemi við náungann.
Reyndar var það svo að yfirstjóra
bankans fannst á stundum helst
til ógætilega lánað. Ekki minnist
ég hins vegar að útlánatöp hafi
verið meiri þar sem Árni kom að
verki en annars staðar í bankan-
um.
Árni hafði hins vegar mikinn
kost, sem hreint ekki var öllum
gefinn. Kosturinn var sá að hafa
hæfileika til að laða í viðskipti hjá
sér menn, konur og fyrirtæki,
sem áttu fé til að geyma á vöxtum
í banka. Í þá daga a.m.k. var það
talið nauðsynlegt að banki hefði
innlán til að standa að baki útlán-
um sínum. Allt átti það eftir að
breytast.
Auk þess sem hér að framan
segir um hjálpsemi við viðskipta-
vini bankans vil ég þakka Árna
sérstaklega fyrir hans góðvild og
hjálpsemi í minn garð og fjöl-
skyldu minnar, nú seinast fyrir
aðstoð hans í sambandi við veik-
indi konu minnar.
Kæra Þórunn, ég samhryggist
þér og fjölskyldu ykkar Árna
innilega vegna ótímabærs fráfalls
hans.
Guð veri með ykkur,
Sólon Rúnar Sigurðsson.
Kær vinur er fallinn frá. Árni
Magnús Emilsson var einstakur
öðlingur og traustur vinur. Ég
kynntist Árna fyrst upp úr 1970 á
vettvangi ungra sjálfstæðis-
manna. Þá var Árni sveitarstjóri í
Grundarfirði. Í sveitarstjórnar-
málum var hann öflugur forystu-
maður á Vesturlandi til margra
ára. Við urðum strax góðir vinir
og á þá vináttu bar aldrei skugga.
Alla tíð síðan vorum við í góðum
samskiptum og mörg samtöl höf-
um við átt þar sem málefni lands
og þjóðar voru brotin til mergjar.
Árni var forystumaður í öllum
þeim verkefnum sem hann starf-
aði við á sínum langa starfsferli.
Hann átti auðvelt með að leysa
flókin mál og leiða menn saman í
þeim fjölmörgu viðfangsefnum
sem hann tókst á við. Hann var
hollur og góður ráðgjafi.
Árni kom víða við á lífsleiðinni
og naut ávallt trausts og virðing-
ar í þeim störfum sem hann
gegndi. Allt frá fyrstu kynnum
okkar Árna á vettvangi ungra
sjálfstæðismanna hafa samveru-
stundir okkar verið margar. Frá-
sagnargáfa Árna var slík að við-
staddir hlustuðu vel þegar Árni
sagði sögur af mönnum og mál-
efnum. Þær frásagnir einkennd-
ust ósjaldan af glettni og já-
kvæðni. Hann kryddaði sögur
sínar með þeim hætti að þær
voru ógleymanlegar. Hann var í
raun einstakur sögumaður. Sam-
vera með þeim hjónum, Árna og
Þórunni, voru ávallt gleðistundir
og eftirminnilegar.
Árni var mikill félagsmála-
maður, öflugur þátttakandi í fé-
lags- og stjórnmálastarfi Sjálf-
stæðisflokksins, vinsæll og virtur
sveitarstjóri á Grundarfirði og
síðar í öðrum störfum sem hann
gegndi. Hann var heilsteyptur og
baráttuglaður í öllum þeim við-
fangsefnum sem hann tók sér
fyrir hendur á lífsleiðinni og átti
gott með að finna lausnir þegar
öll sund virtust lokuð. Það er
mikill sjónarsviptir af Árna.
Minningin um góðan dreng mun
lifa og ég er einstaklega þakklát-
ur fyrir að hafa átt hann að nán-
um vini í áratugi. Guð blessi
minningu hans.
Við Guðrún sendum Þórunni,
börnum og barnabörnum og öðr-
um aðstandendum okkar dýpstu
samúðarkveðjur.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Við vorum tólf sem útskrifuð-
umst vorið 1963 frá Íþróttakenn-
araskóla Íslands á Laugarvatni.
Þetta var hópur ungs fólks sem
kom víða að af landinu. Í dag
minnumst við eins úr hópnum,
okkar góða félaga Árna Emils-
sonar sem hefur allt frá haustinu
1962 átt svo stóran hlut í lífi okk-
ar samnemenda hans. Hans
miklu mannkostir og ljúfa nær-
vera hefur gert okkur að betri
manneskjum. Árni, eða Snolli,
eins og hann var jafnan kallaður,
vakti fljótt athygli okkar hinna og
þá einkum fyrir þrennt: Einstaka
jákvæðni, glaðlyndi og tilvitnanir
í Halldór Kiljan og þá sérstak-
lega Bjart í Sumarhúsum. Ef
eitthvað sérstakt kom upp á var
vitnað í Kiljan eða önnur stór-
skáld. Meira að segja tiltekt á
Timburvöllum gaf tilefni til góðra
tilvitnana.
Árni lagði mikið af mörkum í
námi og félagslífi skólans. Hann
var áhugamaður um skák og
þýddi lítið fyrir okkur hin að etja
kappi við hann við taflborðið.
Eins og flest okkar hafði Árni
lagt stund á íþróttir og fengum
við að kynnast keppnisskapi
hans. Hjá strákunum á heima-
vistinni var stöðugt verið að
keppa í hinu og þessu en frægust
var þó handstöðukeppnin. Kári
Árnason, fimleika- og knatt-
spyrnukappi frá Akureyri, hafði
oftast vinninginn en í síðustu
keppninni var Árni staðráðinn í
að sigra. Og það gerði hann svo
sannarlega – stóð keikur á hönd-
um lengur en nokkur annar. Eftir
góðan vetur á Laugarvatni þar
sem byggst hafði upp ákaflega
góð vinátta meðal allra í hópnum
hélt síðan hver til síns heima að
lokinni útskrift um vorið og und-
antekningarlaust hófu allir störf
við kennslu.
Þegar við kvöddumst þarna á
Laugarvatni áttum við varla von
á því að þessi hópur ætti eftir að
eiga samleið allt frá þessum sól-
ríka degi í júnímánuði 1963. Upp-
hafið var að stúlkurnar í hópnum
mynduðu saumaklúbb sem hefur
hist reglulega allt fram á þennan
dag og strákarnir í hópnum héldu
sambandi sín á milli. Fjölskyldur
mynduðust og makar bættust í
hópinn. Við vorum svo lánsöm að
kynnast Þórunni konu Árna
strax á Laugarvatni þar sem hún
stundaði nám við Húsmæðra-
skóla Suðurlands sama vetur.
Hápunktarnir í samskiptum
hópsins hafa ætíð verið afmælis-
ferðirnar sem hafa verið með
fimm eða tíu ára millibili. Síðasta
ferðin var á æskuslóðir Árna í
Grundarfirði og sá Árni um að
skipuleggja hana frá A til Ö. Er
óhætt að segja að þetta hafi verið
mikil ævintýraferð. Við gistum í
smáhýsum á Þórdísarstöðum en
þau eru örskammt frá þeim stað
þar sem Árni og Þórunn höfðu
byggt sér bústaðinn Sæból. Þar
tóku þau hjón höfðinglega á móti
okkur fyrsta kvöldið og daginn
eftir fengum við fróðlega kynn-
ingu á Grundarfirði og nágrenni
ásamt því að skoða þá frábæru
náttúru sem þar er að finna allt í
kringum jökulinn. Kærar þakkir
Árni og Þórunn.
Það er erfitt að þurfa að sætta
sig við að fá ekki að hitta Árna
aftur. Að spjalla um heima og
geima, finna hvað hann var víð-
lesinn og fróður um svo margt.
Við sendum Þórunni og fjöl-
skyldu þeirra Árna innilegustu
samúðarkveðjur.
Fyrir hönd útskriftarhóps frá
ÍKÍ 1963,
Helgi Hólm.
SJÁ SÍÐU 22