Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.03.2021, Page 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.03.2021, Page 13
tíu ár. Það var æðislegur skóli að vera í kórnum hjá Þorgerði og við ferðuðumst um allan heim,“ segir hún. „Svo vorum við nokkur eitt sinn að búa til hljómsveit fyrir sönglagakeppni í MH. Þá voru Dr. Gunni og Þór Eldon í dómnefndinni. Þeir komu til mín á eftir og spurðu mig hvort ég vildi vera með í nýju hljómsveitinni þeirra, sem var þá nafnlaus. Ég var einhverja mánuði að æfa lögin og að leika mér með þeim en nafnið Unun kom svo síðar,“ segir Kristín sem átti að vera aðalsöngkona hljómsveitarinnar. „Upptökurnar gengu kannski ekki nógu vel og þeir vildu fá annars konar söngkonu. Í milli- tíðinni heyrðu þeir í Heiðu og sáu þá að hún myndi passa betur.“ Varstu þá rekin úr hljómsveitinni? „Já, ég var rekin úr hljómsveitinni. Ég fékk símtal frá Dr. Gunna. Ég hélt ég væri á leið í upptökur, en var samt á sama tíma búin að skrá mig í jarðeðlisfræðina. Ég var ekki það ákveðin í að verða poppstjarna að ég ætlaði að bregða út af því plani að fara í jarðeðlisfræðina. Það var alltaf mín stefna.“ En varst spæld? „Já, auðvitað. Þetta var mikil höfnun,“ segir hún og brosir að þessari gömlu minningu. Þrír synir í þremur löndum Kristín hélt ótrauð upp í Háskóla Íslands þar sem hún kláraði jarðeðlisfræðina og fékk svo vinnu á Veðurstofunni. Þar lágu leiðir þeirra Pálma Erlendssonar saman, en hann er jarð- fræðingur og sjálfmenntaður tæknimaður og vinnur í dag hjá Neyðarlínunni. Ástin kviknaði, enda áttu þau margt sameiginlegt; bæði jarð- fræðina og tónlist, en Pálmi lærði gítarleik og er liðtækur á fjölmörg hljóðfæri. Í dag eiga þau þrjá syni á aldrinum níu til tvítugs og fyrir átti Pálmi eina dóttur. Hjónin fluttu til Svíþjóðar, þá með einn son, og bjuggu þar í sjö ár. Þar fæddist þeim annar sonur. „Ég fór í fimm ára doktorsnám og fór svo að vinna þar og átti þar líka barn. Ég hef eignast eitt barn í hverju landi sem ég hef búið í; eitt á Íslandi, eitt í Svíþjóð og eitt í Austurríki.“ Doktorsritgerð Kristínar fjallaði um jarð- skjálftavirkni og lágtíðniskjálfta í Kötlu. „Ég var að rannsaka Kötluskjálfta og einnig jarðskjálftavirkni á Suðurlandi. Á þessu tíma- bili var mikil virkni í Kötlu, sérstaklega frá 2002, og þetta voru skrítnir skjálftar. Ég setti fram tvær megintilgátur; annars vegar að virknin væri vegna eldstöðvarinnar Kötlu og hins vegar vegna veðurtengdra þátta þar sem jökullinn lék hlutverk. Við skiljum betur núna að ástæða skjálftanna var í raun hægt skrið á óstöðugri hlíð í vesturhluta Mýrdalsjökuls. Hlíðin hefur smám saman húrrað niður og þá verða til lágtíðniskjálftar.“ Er Katla ekkert að fara að gjósa? „Nei. En það er orðið mjög langt síðan síð- ast; síðasta gos var 1918. Það er búið að vera óvenjulangt goshlé en við sjáum engin merki um að hún sé að fara að gjósa.“ Eftir námið í Svíþjóð fór Kristín að vinna fyrir sænska jarðskjálftamælinganetið og seg- ir að þegar þeirri vinnu lauk hafi hjónin ekki langað heim alveg strax, enda hrunið í al- gleymingi. „Maðurinn minn fékk þá frábæra vinnu í Vín, hjá stofnun sem tilheyrir Sameinuðu þjóð- unum og fylgist með kjarnorkuvopnatilraun- um. Það er gert með jarðskjálftamælum sem eru staðsettir úti um allan heim og hann fékk því að ferðast mikið. Hann vann við að halda mælunum gangandi, en við notum jarð- skjálftamæla og fleira til að hlusta eftir því hvort einhver hafi verið að sprengja,“ segir hún. „Þetta er mjög mikilvægt eftirlit því um leið og þessu var komið á, hættu flestir að prófa og þróa kjarnorkuvopn,“ segir Kristín sem sat ekki auðum höndum í Vínarborg en þar bjó fjölskyldan í tæp fjögur ár. Hún stundaði sína rannsóknarvinnu og þar kom einnig þriðji son- urinn í heiminn. „Á þessum tíma fékk ég nýdoktorastyrk í Dublin og flaug stundum á milli landanna og fór einnig til Úganda vegna rannsókna,“ segir hún og segir að þá hafi gos á Íslandi haft áhrif á hennar plön. „Það var frekar fyndið að við bjuggum í Austurríki þegar Eyjafjallajökull gaus og flug- inu mínu til Úganda var ítrekað frestað vegna gossins.“ Rannsakar óróa á Íslandi Eftir heimkomuna frá Vín árið 2013 fékk Krist- ín stöðu á Veðurstofunni sem eldfjalla- og jarð- skjálftafræðingur og starfar hún einnig sem hópstjóri í náttúruváreftirliti. „Ég er yfir hópi sem tekur náttúruvárvaktir með veðurfræðingum. Þar er fylgst með alls kyns náttúruvá, meðal annars jarðskjálfta- virkni og vatnsföllum og svo gera þau ýmislegt annað, eins og að lesa í útvarpi og framkvæma veðurathuganir. Við nýtum starfsmennina mjög vel,“ segir hún og brosir. Kristín er einnig í vísindaráði Almanna- varna. „Veðurstofan hefur það hlutverk að vara við og miðla upplýsingum um náttúruvá og þá er eðlilegt að ég taki þátt í því starfi. Þar kemur mín sérþekking inn,“ segir Kristín sem hefur sjaldan haft meira að gera en nú. Hvernig var venjulegur dagur í vinnunni, áð- ur en allt fór á hvolf? „Ég er bæði til taks sem sérfræðingur sem hægt er að leita til og einnig alltaf að túlka virkni sem er stöðugt í gangi, en það er mjög mikil jarðskjálftavirkni á Íslandi. Ég sé um að hópurinn minn sé með þau tól og tæki sem þarf til. Þau þurfa góð verkfæri til að sinna sínu starfi,“ segir Kristín. „Svo er ég líka að leiða rannsóknarverkefni en ég fékk styrk fyrir þremur árum fyrir verk- efni sem heitir IS-noise. Það er Evrópuverk- efni sem ég vinn með innlendum og erlendum vísindamönnum og þar erum við að horfa fram á veginn og nýta nýjustu aðferðafræði til að bæta náttúruvárvöktun á Íslandi. Við erum að kanna aðferð til að fylgjast með eldfjöllum og skoða forboða jarðskjálfta og fleira,“ segir hún. „Ég var líka að fá 110 milljóna króna styrk frá Rannís núna í janúar til að leiða öndvegis- verkefni sem hefst í vor og mun standa yfir í þrjú ár. Við ætlum að rannsaka óróa á Íslandi og þróa aðferðir til að greina, staðsetja, flokka og skrá jarðskjálftaóróa. Það hefur engum fjöl- miðli tekist að grafa þetta upp núna síðustu daga varðandi mig; fókusinn hefur verið á hvar gleraugun mín voru keypt eða hvaða hljóm- sveit ég var í fyrir 25 árum,“ segir hún og hlær. „Þarna fékk ég pening til að ráða til mín þrjá nýdoktora þannig að þetta er mjög spennandi. Svo er ég mjög stolt af stúdentaverkefni sem ég stýrði síðasta sumar, en ég var með frábæra nemendur sem skrifuðu fyrir okkur hugbúnað sem birtir jarðskjálftagögn á hentugan hátt fyrir náttúruváreftirlit. Verkefnið var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands,“ seg- ir hún og segir þetta forrit geta nýst við eld- fjallaeftirlit hvar sem er í heiminum. Einstakar jarðhræringar Það er ekki hægt að sitja á móti helsta eld- fjalla- og jarðskjálftafræðingi landsins án þess að forvitnast um hvað sé í gangi á Reykjanes- inu. Við byrjum á að rifja upp jarðskjálftana sem hristu Grindavík hressilega í fyrra. Voru þeir einhvers konar fyrirboði skjálft- anna núna? „Það var mjög merkilegt því það var þá í allra fyrsta skipti sem við sjáum kvikuinnskot á Reykjanesskaganum. Það sem er að gerast núna er að við erum með lóðréttan kvikugang í Fagradalsfjalli sem er eins og blað. Það sem var að gerast í Grindavík var meira eins og lak; það lá lárétt. Og þegar slíkar syllur myndast, eins og það er kallað, er erfiðara fyrir efni að koma upp og þá er líklegra að það nái að vaxa lengi án þess að verði gos. Það er því líklegra að við fáum eldgos núna heldur en þá,“ segir Kristín og nefnir að langt sé síðan síðast gaus á svæðinu. „Þarna var mikil goshrina sem gekk yfir á 9. til 13. öld en þarna eru líka mörg hraun sem eru mikið eldri,“ segir hún. „Mestu skiptir að átta sig á hvar kvika kem- ur upp og hvar ekki,“ segir hún og segir þessar jarðhræringar sem nú ganga yfir alveg ein- stakar í sögunni. „Við þekkjum ekki jarðskjálftasöguna mjög langt aftur en þetta virðist vera einstakt. Við þurfum að leita mjög langt aftur til að sjá eld- gos í Fagradalsfjalli. Hraunin þar eru mörg þúsund ára gömul. Þetta var kannski ekki stað- urinn sem fólk bjóst við að færi að gjósa á,“ segir hún og útskýrir það betur. „Gangurinn myndaðist frá Keili en svo var eins og hann færðist og stækkaði til suðurs og mestu lætin undanfarna daga hafa verið þarna syðst og því þykir líklegast, ef það verður gos, að það verði þar.“ Spenna og óvissa Hvernig mælið þið virknina? „Við gerum margar ólíkar mælingar. Auk hefðbundinna jarðeðlisfræðilegra mælinga á jarðskjálftum og aflögun yfirborðs erum við með vefmyndavélar og hitamyndavélar og er- um í raun að nota myndavél sem er hönnuð til að fylgjast með eldsvoða. Svo er verið að skoða hvort myndist sprungur á yfirborði og er það gert að mestu með flugi og drónum. Við höfum þurft að fara aðeins inn á svæðið til að setja upp jarðskjálftamæla og GPS-mæla, sem mæla færslur á yfirborði. Þetta er mjög snúið því þarna ertu ekki að stinga neinu í samband. Það þarf þá að setja upp rafmagnsframleiðslu á staðnum; sólarrafhlöður og oftast líka vind- rellu og svo þarf að koma upp fjarskiptum þannig að gögnin séu send í nær rauntíma til okkar.“ Kristín segir að þessi lóðrétti kvikugangur, sem er nú á kílómetra dýpi, sjáist ekki sem hiti á myndum heldur er notast við gervitungl til að skoða hvernig yfirborðið færist til á þessum stað. „Jörðin fer í sundur í kringum kvikugang- inn, þar sem hann er að troða sér upp. Og þeg- ar það gerist verða jarðskjálftar,“ segir hún og útskýrir að kílómetri niður á kviku teljist ekki mikið. „Það þarf svo lítið til að brjóta það sem er efst. Við vitum ekki hvað kvikan gæti tekið langan tíma í að komast upp á yfirborðið; það fer eftir kvikuinnflæðinu og þrýstingi. Við vit- um ekki hvort að gýs eða ekki, en á meðan þetta er í gangi aukast alltaf líkurnar. Það er töluverð óvissa um hvort gangurinn vaxi eitt- hvað meira og svo hversu mikið kæmi upp úr honum,“ segir hún og nefnir gosið í Holuhrauni sem dæmi. „Þar kom gos upp, eftir svakaleg átök, og varði í fjóra klukkutíma. Ég hugsaði, er þetta allt og sumt? En svo leið einn dagur og þá fór aftur að gjósa og eldgosið stóð yfir í hálft ár. Ef það gýs núna er langlíklegast að það standi yfir í daga eða vikur. Þetta er allt miklu minna í sniðum, en það er óvissa.“ Er möguleiki að það sjatni í þessu og að það gjósi ekki næstu hundrað árin? „Algjörlega, það er alveg möguleiki.“ Gasmengun til Reykjavíkur Kristín útskýrir að miðað við stöðuna nú, ef móðir náttúra ákveður að jörðin opnist með til- heyrandi látum, þá verði það hættulaust hraungos sem ætti ekki að koma nálægt byggð. „Það eru einhverjar líkur á að það fari niður á Suðurstrandarveg.“ Hvað með eiturgas? „Já, ef það verður eldgos þá verður mikil gasmengun nálægt upptökunum og því ekki ráðlagt að vera þar. Nýjustu upplýsingar benda þó til þess að þetta verði ekki jafn slæmt og við héldum fyrst. En í vissum vindáttum kæmi gasmengun til byggðarinnar í grennd og til Reykjavíkur, sem gæti verið óþægilegt fyrir fólk með undirliggjandi lungnasjúkdóma. Það gætu alveg komið dagar þar sem gasmengunin yrði óþægileg fyrir alla. Veðurstofan mun gefa út gasspá daglega, samhliða veðurfréttum,“ segir Kristín og segir Almannavarnir skoða að setja upp útsýnispall fyrir almenning þar sem hægt væri að tryggja öryggi allra, en ljóst er að eldgos á Reykjanesskaga mun laða að fólk. „En auðvitað eru eldgos hættuleg.“ Hefurðu séð mörg eldgos? „Já, nokkur. Ég hef séð eldgos á Stromboli sem er lítil eldfjallaeyja norður af Sikiley, en þar eru alltaf gos í gangi. Svo hef ég séð Etnu gjósa nokkrum sinnum. Þessir staðir eru í miklu uppáhaldi. Það er einmitt kröftugt gos í Etnu núna,“ segir hún. „Hér heima hef ég séð gosið í Holuhrauni, Gjálpargosið, Heklugos og Grímsvatnagos,“ segir Kristín sem missti af Eyjafjallajökli, enda í útlöndum að bíða eftir flugi! Fallegur bjarmi betri en skjálftar Óróapúls, það er orðið í dag! Hvað þýðir það nákvæmlega? Kristín skellir upp úr. „Þetta eru mjög margir, litlir jarðskjálftar sem eru það tíðir á sama stað að það rennur saman í stanslausan titring. Og þetta erum við búin að sjá nokkrum sinnum í þessari hrinu og er líklega til marks um hraðari framrás kviku- gangsins.“ Nú hafa dagarnir hjá þér verið viðburðaríkir undanfarnar vikur. En ertu búin að læra eitt- hvað nýtt? „Já, rosalega margt! Þetta er kallað snið- reksbelti sem gengur í gegnum Reykjanes- skagann og ég hef lært að skilja tímalínuna í atburðum og stærðina á þessum merkjum. Við erum líka alltaf að samtúlka gögnin og höfum séð mjög margt merkilegt, eins og áhugaverð- ar gasmælingar og samtúlkun á jarð- skjálftagögnum og líkönum af kvikugangi. Gikkskjálftar er kannski nýja orðið í vikunni,“ segir hún og hlær. „Gikkskjálftar eru afleiðingar af spennu- breytingum,“ segir hún og segir slíka örvaða virkni geta náð yfir stórt svæði, langt frá kvikuganginum. Ekkert bendir til að kvika sé á þeim stað þar sem gikkskjálftar verða. Ef það gýs ekki, halda jarðskjálftar bara áfram um ókomna tíð? „Nei, líklega ekki. Kvikugangurinn getur ekki stækkað endalaust, það eru takmörk fyrir því.“ Langar þig að fá gos? Kristín hugsar sig um. Hún veit ekki hvort það sé „rétt“ af vísindamanni að segjast vilja gos. En hún lætur vaða. „Ég held að það væri gaman að fá lítið mein- laust gos, já. Fólk er spennt fyrir því og þá hætta kannski jarðskjálftarnir. Við fáum þá í staðinn fallegan bjarma yfir Reykjanesskag- anum, er það ekki bara skemmtilegt?“ Jú, það finnst blaðamanni. Mikið vísindaspjall í gangi Síminn pípir og hringir hjá Kristínu en gos er ekki hafið, að minnsta kosti ekki áður en blaðið fór í prentun! Aðrir fjölmiðlar vilja líka ná tali af Kristínu og degi tekið að halla. Það er kom- inn tími til að slá botninn í skemmtilegt og fræðandi samtal. Kristín þarf líka að fara heim í kvöldmat með fjölskyldunni áður en hún mætir í fréttatíma um kvöldið til að svara spurningunni sem allir vilja fá svar við: „Verð- ur gos?“ Er mikið talað um vísindi á þínu heimili? Kristín þarf ekki að hugsa sig lengi um og svarar hlæjandi: „Já! Það er rosamikið talað um eldfjöll og jarðskjálfta. Líka um geimskot og ferðir til tunglsins og Mars. Það er mikið vísindaspjall í gangi heima hjá mér.“ ’ En í vissum vindáttum kæmi gasmengun til byggðarinnar í grennd og til Reykjavíkur sem gæti verið óþægilegt fyrir fólk með undirliggjandi lungnasjúkdóma. Það gætu alveg komið dagar þar sem gasmengunin yrði óþægileg fyrir alla. 14.3. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.