Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.03.2021, Side 19
„Maður byrjar oftast í rallýkrossi og fer svo
í rall,“ útskýrir Ólafía.
Sigurður skellir á eldhúsborðið möppu með
alls kyns töflum, tölum og undarlegum merk-
ingum.
„Ef þú ætlar að vera aðstoðarökumaður verð-
urðu að vera með allt þetta á hreinu. Þetta er
eins og tónlistarnótur; þú þarft að geta lesið úr
þessu á réttum tímum. Réttur hljómur á réttum
stað svo lagið hljómi rétt,“ segir Sigurður.
Er mikið gagn að aðstoðarökumanni? spyr
blaðamaður og veit greinilega lítið sem ekkert
um sportið.
Þau svara hvert í kapp við annað: „Já! Þú
mátt ekki keppa án hans,“ segir Ólafía.
„Þú átt ekki möguleika án þess að vera með
góðan „co-driver“,“ segir Sigurður.
„Ef þú klúðrar einhverju er tapið þér að
kenna. En ef þið sigrið fær ökumaðurinn heið-
urinn,“ segir Elsa og brosir.
„Þú lest nóturnar, vinstri fimm í hægri
þrjá …,“ segir Sigurður og blaðamaður kinkar
kolli eins og hann skilji þetta allt.
„Það er allur gangur á því hvernig fólk býr
til nóturnar. Ég er til dæmis með enskar nót-
ur. Það er svo ég geti keppt erlendis,“ segir
Gunnar og sýnir blaðamanni nánar þessi
óskiljanlegu tákn og tölur.
Draumurinn að keppa erlendis
Gunnar segist stefna á að ná lengra í íþrótt-
inni.
„Mitt markmið er að verða nokkrum sinnum
Íslandsmeistari og keppa síðan úti. Það er
stóri draumurinn,“ segir Gunnar sem stundar
nám í grafískri miðlun meðfram íþróttinni sem
tekur allan hans tíma. Hann stendur sig vel í
náminu og segir það hjálpa sér í ralli.
„Ég get hannað útlit bílsins,“ segir Gunnar
og Elsa bætir við:
„Hann hefur nú gert það frá byrjun, hefur
alltaf hannað útlit bílanna. Hann gerir það eins
og þeir gera úti; atvinnumennirnir.“
Undirbúningur skilar árangri
En þú Elsa, ertu hætt í ralli?
„Ég er ekki hætt en hef ekki keppt síðan
2014,“ segir hún og nefnir að nánast öll fjöl-
skyldan hafi verið í þjónustu hjá Gunnari, en
hver ökumaður þarf heilt þjónustulið með sér í
keppnum.
„Fjölskyldan stendur við bakið á Gunnari,“
segir hún og segir Ólafíu hafa verið í þjónustu
hjá Gunnari um nokkurt skeið.
Sjálf hefur hún verið það sem kallast „medi-
cal officer“ og hefur einnig tekið dómaranám-
skeið hjá FÍA.
„Það er hægt að vera í sportinu þótt maður
sé ekki inni í bíl,“ segir hún.
„Ég keppti í sautján ár,“ segir Sigurður og
segir að Elsa hafi byrjað hjá sér sem aðstoðar-
ökumaður fimmtán ára.
„Hún fór í ruglið og hætti í skóla,“ segir Sig-
urður og barnabarnið Ólafía skellihlær.
„Ég fór ekki í ruglið! Jú, ég hætti í skóla og
fór að vinna,“ segir Elsa en þess má geta að
síðar hélt hún áfram í skóla og er hún í dag
hjúkrunarfræðingur með með meistarapróf í
velferðarþjónustu og opinberri stjórnsýslu.
„Móðurarmurinn er fólk úr Bústaðahverf-
inu,“ segir afinn og á það víst að útskýra hvers
vegna dóttir hans hætti í skóla á sínum tíma.
„Nei pabbi! Það er af því ég er með athyglis-
brest og er lesblind!“
Þau hlæja dátt við eldhúsborðið.
„Ég reddaði henni vinnu hjá Úlfari á Þrem-
ur Frökkum og svo kom hún með mér í rall.
Þar lærði hún merkilega lexíu: því betur sem
þú undirbýrð þig, því betri árangri náum við.
Og ef við gerum mistök, þá getur það verið
dýrkeypt. Þannig lærði hún að undirbúningur
skilar árangri og hún lærði að vinna undir
álagi. Það er ekkert smá álag fyrir fimmtán
ára gamalt barn að passa að halda mér á veg-
inum,“ segir Sigurður og skellihlær.
Næsta rallýkrossstjarnan
Ólafía er sem fyrr segir að stíga sín fyrstu
skref í fjölskyldusportinu og mun læra hjá
Gunnari að vera ökumaður í rallýkrossi.
Ætlarðu að gera hana að næstu stjörnu?
„Það er stefnan,“ segir Gunnar og þau bæta
við að afinn muni líka koma til með að leið-
beina stúlkunni.
„Mér finnst þetta gaman. Maður finnur fyrir
adrenalíninu,“ segir Ólafía og hyggst keppa í
sumar. Hún er líka í íshokkí á veturna, í lúðra-
sveit og á málaranámskeiði.
Sigurður bætir við: „Svo erum við saman í
hljómsveit. Eiginlega svona jólahljómsveit; við
spilum jólalög í reggae-útgáfu. Ólafía spilar á
allt mögulegt en ég spila á bassa og trommur.“
Hvað finnst vinum þínum um að þú sért að
fara að keppa í rallýkrossi, Ólafía?
„Þeir trúa því ekki! Segja bara, ha? Þú ert
fimmtán ára!“ segir hún og brosir.
Hræddari í venjulegum bíl
Gunnar segir íþróttina ekki vera hættulega.
„Það er hættulegra að keyra út í búð. Í þess-
um bíl ertu með veltibúr í kringum þig, í eld-
varnargalla með hanska og hjálm. Og háls-
kraga. Svo eru starfsmenn allt í kringum
brautina. Mér finnst ég aldrei öruggari en í
rallbíl,“ segir Gunnar og Elsa tekur undir.
„Ég er bílhrædd og varð eiginlega hræddari
í venjulegum bíl eftir að hafa verið í rallbíl. Þá
finnst manni eitt bílbelti ekki mjög traustvekj-
andi,“ segir hún.
„Ég hef velt fimm sinnum, allt í keppni. Það
er aldrei gaman,“ segir Gunnar.
Hvernig var svo tilfinningin að hreppa Ís-
landsmeistaratitilinn?
„Ég var nú ekkert ánægður akkúrat þegar
ég vann af því ég klúðraði þeirri keppni. En ég
var kominn með ágætis forskot,“ segir Gunnar
og útskýrir að reiknaðar séu saman margar
viðureignir til að fá sigurvegara mótsins.
„Í þessari keppni var ég í fjórða sæti. En
endaði sem Íslandsmeistari.“
Að stækka rallfjölskylduna
Verður þú í þessu í allt sumar, Gunnar?
„Já, ég klára skólann og verð svo í þessu. Ég
verð að keppa og svo að þjálfa Ólafíu. Svo er ég
að sjá um bíl fyrir annan mann og þjálfa hann
líka, auk þriggja annarra sem ég er að þjálfa.
Þetta getur verið „business“, þótt hérna heima
sé þetta hobbí. Úti er þetta alvöru „business“
og mikill hagnaður í þessu. Mig langar að setja
á fót fyrirtæki fyrir fólk sem hefur ekki bílskúr
eða þarf hjálp við að komast inn í sportið. Eða
vill leigja af mér bíl.“
Mæðgurnar tala um að þetta sé mikið fjöl-
skyldusport og jafnvel geti verið erfitt að kom-
ast inn í sportið ef fólk þekkir engan. Þar gæti
Gunnar orðið að liði.
„Já, mig langar að stækka þessa fjölskyldu
og koma fleira fólki inn í sportið.“
’
Ef við gerum mistök, þá
getur það verið dýrkeypt.
Þannig lærði hún að undirbún-
ingur skilar árangri og hún
lærði að vinna undir álagi. Það
er ekkert smá álag fyrir fimm-
tán ára gamalt barn að passa
að halda mér á veginum.
Morgunblaðið/Ásdís
Afinn Sigurður Óli leggur unga fólkinu lífsreglurnar. Barnabarnið Ólafía og Íslandsmeistarinn Gunn-
ar Karl, bróðursonur hans, hlusta með athygli. Sigurður keppti í rallýkrossi og ralli í alls sautján ár.
14.3. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19