Morgunblaðið - 03.05.2021, Qupperneq 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 3. MAÍ 2021
Sumarbústaðurinn
2007-bólan fór ekki fram hjá okkur
frekar en öðrum. Þrátt fyrir tak-
markaðan efnahag tókum við þátt í
þenslufylliríinu. Við keyptum okkur
nýjan Benz-jeppa á erlendum lánum
og svo gamlan sumarbústað í Húsa-
felli, líka á lánum hjá Frjálsa fjár-
festingarbankanum af öllum fjár-
málafyrirtækjum.
Já, við tókum full-
an þátt í þessu.
Bústaðurinn
sem við keyptum
var gamall og
hafði þjónað hlut-
verki sínu sem
verkalýðsbú-
staður fyrir
stéttarfélag á
landsbyggðinni.
Hann hafði látið á sjá svo að það
þurfti að taka til hendinni. Þetta var
skemmtilegt verkefni og mér fannst
að við ættum skilið að komast út á
land eins og aðrir. Það var ótrúlegt
en stundum keyrðum við fram og til
baka í bústaðinn á einum og sama
deginum, því við stunduðum vinnu í
Reykjavík. Þarna var ég stundum
einn og gerði þá ekkert nema að
drekka og velta mér upp úr eymd
minni, ég át líka ótæpilega og var
orðinn yfir 90 kg að þyngd sem var
mér ekki eðlislægt. Þetta var ótrú-
legt líf hjá manni sem var ekki orðinn
30 ára gamall.
Í bústaðnum fór gamall vinur að
heimsækja mig, vinurinn sem sat á
öxlinni og sagði mér að lífið væri
einskis virði og það væri ekkert eftir
annað en að binda enda á það. Ég
hugleiddi oft að fara upp á jökulinn
og láta mig hverfa eða kasta mér í
jökulána sem rann þar hjá. Ég hugs-
aði líka um að fara upp á Kaldadal og
binda enda á allt þar þannig að eng-
inn vissi neitt. Mér fannst ég vera
kominn í vonlausa stöðu, feitur,
lyfjaður, búinn að brenna allar brýr
að baki mér hvað vini og fjölskyldu
varðaði og sambandið við Lárus
komið í ógöngur. Um leið sannfærði
ég sjálfan mig um að þetta væri
kannski ekki allt mér að kenna því
það væru allir svo vondir við mig. Ég
var sem sagt kominn í mikla sjálfs-
vorkunn og sjálfsniðurrif – og óregl-
an var komin á yfirsnúning.
Eitt skiptið sumarið 2008, þegar
ég var í þessu hugarástandi, kom dá-
lítið fyrir. Ég fór í göngu síðla kvölds
eins og ég gerði oft og Lárus beið
heima í bústað á meðan að dunda sér
eitthvað. Ég var í miklu tilfinninga-
uppnámi þetta kvöldið. Ég hafði
ákveðið að ganga að Hraunfossum
og Barnafossi sem voru ekki langt
frá. Þegar þangað kom tók ég
ákvörðun um að hér væri komið að
því, ég myndi ekki geta beðið lengur,
ég ætlaði mér að binda enda á lífið.
Ég stóð lengi við fossana og horfði
niður. Eftir hverju ert þú að bíða?
hugsaði ég allan tímann, eftir hverju
ert þú að bíða? Í þann mund sem
doðinn kom yfir mig og ég var að
fara að kasta mér fram af bjarginu
niður í ána þá kom bíll keyrandi. Ég
rankaði við mér og leit til hliðar og
kom þá auga á eldri hjón. Þetta voru
túristar. Mér varð litið til konunnar
og fór að hugsa um ömmu mína ein-
hverra hluta vegna. Um leið fann ég
að ég gat þetta ekki, þetta var ekki
ég.
Ég lagðist niður í mölina og gaf
mér augnablik til að hugsa um líf
mitt. Hvað er að gerast hjá mér?
Hvers vegna missi ég svona stjórn á
öllu? hugsaði ég og ákvað að halda til
baka. Á leiðinni í bústaðinn hugsaði
ég um lífið og tilveruna. Þetta var
bjart kvöld í júnímánuði og það var
heitt, öll náttúran var að lifna við eft-
ir veturinn. Ég mætti upp í bústað og
lét eins og ekkert væri. Ég þagði og
lét eins og ég væri bara of drukkinn,
sem var jú líka reyndin.
Hús andanna
Síðla árs 2007 var komið að tíma-
mótum hjá foreldrum mínum. Þau
voru komin fast að sjötugu og faðir
minn hafði greinst með krabbamein.
Húsið góða á Langholtsveginum var
orðið of stórt fyrir þau og komið að
viðhaldi sem þau réðu ekki við. Þau
höfðu ákveðið að tímabært væri að
minnka við sig og festu kaup á nýrri
íbúð. Það gekk hins vegar illa að
selja og í marga mánuði gerðist ekk-
ert. Það styttist óðfluga í afhendingu
nýju íbúðarinnar og allt útlit var fyr-
ir að þau sætu uppi með báðar fast-
eignirnar. Þetta hvíldi á þeim og í
meðvirkni minni datt mér það snjall-
ræði í hug að við Lárus myndum
kaupa Langholtsveginn af þeim.
Íbúðin okkar í Stigahlíð var mun
söluvænni, enda tókst okkur að selja
hana hratt og með miklum hagnaði,
þökk sé fasteignabólunni sem þá var
í hámarki. Þetta auðveldaði okkur
vitaskuld kaupin.
Margir höfðu orð á því við okkur
að þetta væri ekki góð fjárfesting.
Langholtsvegurinn væri gamaldags
og óspennandi gata. Húsin þar væru
mörg hver byggð af vanefnum og alls
ekki fýsileg. Þá kallaði húsið sjálft á
viðhald. Ég var samt ótrúlega
spenntur fyrir þessu, enda kallaði
garðurinn á mig eins og hann hafði
svo oft gert. Hann var nú kominn í
órækt, enda höfðu foreldrar mínir
hvorki þrek né getu til þess að sinna
honum sem skyldi. Ég sé núna að
meðvirkni mín lék líka stóra rullu í
þessari ákvörðun. Ég gat gengið í
augun á foreldrum mínum með
þessu, verið stóri og sterki sonurinn
sem kom þeim til bjargar. Lárus var
aftur á móti ekki spenntur fyrir þess-
ari fjárfestingu. Hann var samt tilbú-
inn til þess að líta á þetta sem skref
upp á við, mögulegan stökkpall fyrir
okkur upp í draumaeinbýlishúsið
seinna meir. Á þessum tíma var sam-
band okkar mjög brothætt. Ég var
enn á fullu í neyslu og meðvirkni lék
okkur báða grátt. Ég hamaðist kvöld
og nætur við að mála og koma húsinu
í þokklegt stand fyrir flutninginn.
Við fluttum svo vorið 2008, korteri
fyrir hrun. Óveðursskýin voru byrj-
uð að hrannast upp í efnahagslífinu
en við vorum bjartsýnir þrátt fyrir
allt.
Þegar við höfðum komið okkur
fyrir hófst ég handa í garðinum. Ég
tók upp gömul beð og kom öllu í
stand. Saman stungum við upp
gamla matjurtagarðinn sem var
undirlagður rótum hárra trjáa. Það
var erfiðisvinna, enda höfðum við
ekki önnur verkfæri en gömul hand-
verkfæri, fjögurra álna fork og gaml-
ar rótarklippur. En þetta var gefandi
og skemmtilegt. Enn á ný var komið
fólk í húsið til að rækta matjurtir.
Við vorum kannski ekki þessi hefð-
bundna fjölskylda en í okkar huga
vorum við þó fjölskylda. Um leið og
ég byrjaði að vinna í garðinn mínum
gamla náði ég ákveðinni hugarró.
Þetta var ástand sem ég þekkti frá
því að ég var krakki og notaði garð-
inn til að græða, sjá eitthvað dafna í
huga sem var fullur af gremju, reiði
og ótta.
Barnið var aftur komið í kunnug-
legt umhverfi sem það hafði ótaloft
áður farið í til að gleyma sér.
En það var sitthvað meira á kreiki
í húsinu. Ef til vill hrófluðum við Lár-
us við einhverju þegar við tókum upp
matjurtagarðinn því fleira fór á stjá.
Eitthvert kvöldið fór ég í samkvæmi
á vegum skattstofunnar og á meðan
var Lárus einn heima. Í miðri veisl-
unni hringdi Lárus í uppnámi. Hann
sagðist verða að sækja mig og að
hann gæti ekki verið einn heima.
Mér brá auðvitað og skildi hvorki
upp né niður. Þegar hann kom var
hann miður sín en ég vildi fá skýr
svör um hvað hefði komið fyrir.
Hann sagði mér að hann hefði farið í
sturtu skömmu eftir að ég fór í sam-
kvæmið. Í sturtunni heyrir hann að
það er kveikt á græjunum niðri í
stofu og spiluð tónlist frekar hátt.
Hann hugsaði með sér að partíið
hefði verið leiðinlegt og ég hlyti að
vera kominn heim. Hann vefur hand-
klæði utan um sig og fer niður. Á
Langholtsveginum er stofan inn af
skála og tvær leiðir þar á milli, þann-
ig að maður sér inn í stofuna á tveim-
ur stöðum úr skálanum. Þegar Lárus
kemur niður í skálann verður hann
ekki var við mig og renna á hann
tvær grímur. Hann kallar þá á mig:
Sævar. Þá slokknar á græjunum.
Það var enginn í húsinu nema
hann.
Eftir þetta hringdi ég í gamla vin-
konu mína og bað hana um að koma
heim til að leita skýringar á þessu
öllu, enda sér hún lengra en nef
hennar nær. Hún sagði mér að sonur
gömlu hjónanna sem byggðu húsið
hefði vitjað æskuheimilisins. Þau
hjónin voru fallin frá og því eflaust
eitthvað sem var í húsinu. Það var
beðið fyrir honum og hann beðinn
um að fara, enda ekkert lengur í hús-
inu honum tengt. En hann virtist
ekki vilja fara, eitthvað hélt aftur af
honum. Ég ákvað að setja mig í sam-
band við systur hans sem var búsett í
Svíþjóð og spyrjast fyrir um hann og
fjölskylduna. Að lokum komst ég í
samband við barnabarn, drenginn
sem hafði fæðst eftir voveiflegt and-
lát sonarins. Eftir það var ákveðið að
dóttir þeirra hjóna kæmi í heimsókn
og hún myndi ræða við mig á þeirra
gamla æskuheimili.
Og skömmu síðar kom hún.
Það var mjög sérstakt að hitta
hana, eins og við værum á einhvern
hátt tengd. Ég sagði henni alla sólar-
söguna og hún sagði mér sína sögu
og sögu fjölskyldunnar sem hafði
reist húsið, sögu foreldra sinna og
bróður. Það fylgdi þessum fundi
ákveðinn léttir og í reynd uppgjör
fyrir hana og eflaust bróður hennar.
Húsið var hús hins liðna, hús and-
anna sem tengdust því, og þetta var
uppgjör um líf og dauða, þroska,
sigra og ósigra. Við heyrðum aldrei
aftur í henni né urðum varir við neitt
í húsinu eftir þetta. Ég fékk þó þau
skilaboð frá vinkonu minni að ég ætti
að varðveita húsið og gera það sem
ég gæti til að viðhalda heiðri þess því
þetta væri ekki bara hús heldur
heimili minninga. Ég skildi þessi
skilaboð vel. Mitt síðasta verk með
dóttur þeirra hjóna var að skoða
garðinn sem allir virtust hafa átt þátt
í að rækta og geymdi ljúfsárar minn-
ingar, trega, sorg og huggun. […]
Sjálfsvorkunn og sjálfsniðurrif
Bókarkafli | Í bókinni
Barnið í garðinum
eftir þá Sævar Þór
Jónsson og Lárus
Sigurð Lárusson er
rakin saga Sævars,
átakanleg saga manns
sem tekst að snúa erf-
iðum uppvexti upp í
þroska og kærleika.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Upprisa Sævar Þór Jónsson sigraðist á áföllum fortíðarinnar með því að horfast í augu við þau.