Morgunblaðið - 17.07.2021, Side 37
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Dýrið, fyrsta kvikmynd Valdimars
Jóhannssonar í fullri lengd, var val-
in í keppnisflokkinn Un certain reg-
ard á kvikmyndahátíðinni í Cannes
sem nú stendur yfir og hefur mynd-
in vakið þó nokkra athygli og
dreifingarsamningum verið landað.
Valdimar og fleiri úr tökuliði
myndarinnar voru viðstaddir frum-
sýningu hennar á miðvikudaginn og
segir leikstjórinn viðtökur bíógesta
hafa verið mjög góðar. Þetta er
fyrsta ferð Valdimars til Cannes og
segir hann mikinn heiður að vera
boðið á hátíðina og sérstaklega í ár
þar sem óvenjumargir hafi reynt að
komast í þennan keppnisflokk með
kvikmyndir sínar.
„Við erum öll bara mjög þakklát
fyrir þetta,“ segir Valdimar og á þar
við sig og aðra sem komu að gerð
myndarinnar, en handritið skrifaði
hann með Sjón og með aðalhlutverk
fara sænska leikkonan Noomi Ra-
pace, Hilmir Snær Guðnason, Björn
Hlynur Haraldsson og Ingvar E.
Sigurðsson. Valdimar segir þau
Hilmi og Noomi hafa veitt honum
mikinn stuðning og hjálp við tök-
urnar sem hafi reynst ómetanlegt.
Í mörgum deildum
Valdimar hefur verið viðloðandi
kvikmyndabransann í um 20 ár og
hefur þar sinnt ólíkum störfum. „Ég
er búinn að vinna í mjög mörgum
deildum. Ég hef verið í ljósadeild,
„grippi“, leikmynd og „special eff-
ects“,“ telur Valdimar upp og eins
og sjá má á vefsíðunni Internet
Movie Database hefur hann komið
að fjölda verkefna. Þeirra á meðal
eru tvær stuttmyndir sem hann
leikstýrði, Harmsaga og Dögun.
Valdimar stundaði nám við Kvik-
myndaskóla Íslands og síðar kvik-
myndaskóla hins kunna, ungverska
leikstjóra Béla Tarr í Sarajevo, Film
Factory, en Tarr er einn meðfram-
leiðenda Dýrsins. Valdimar segir
skóla Tarr hafa verið frábæran og
kennarar í honum þekkt fólk úr
kvikmyndageiranum, til að mynda
skoska leikkonan Tilda Swinton.
„Þessi skóli var settur upp þannig
að kennararnir komu kannski í viku
og nemendur voru með þeim allan
daginn og líka á kvöldin. Þetta var
svolítið öðruvísi og maður sá að það
voru allir að vinna með ólíkum
hætti,“ segir Valdimar um hið
óhefðbundna fyrirkomulag kennsl-
unnar. Tarr hafi enda lagt áherslu á
þessa fjölbreytni og að hægt væri að
fara ólíkar og margar leiðir í kvik-
myndalistinni.
Valdimar segir það hafa hjálpað
mikið til við fjármögnun Dýrsins að
hafa Tarr sem meðframleiðanda og
ekki hefur heldur sakað að vera með
kvikmyndastjörnuna Rapace í burð-
arhlutverki. „Hún hefur aldrei unnið
með svona litlu tökuliði,“ segir Vald-
imar kíminn um Rapace sem talar
lýtalausa íslensku enda ólst hún upp
hér á landi með móður sinni og ís-
lenskum stjúpföður.
Varúð, spilliefni!
Manneskjur er fáar í myndinni en
þeim mun fleiri dýr og svo vera sem
birtist á bænum. Vera þessi er
blanda af barni og lambi, eins og
enski titillinn Lamb gefur til kynna.
Líklega hefði verið betra fyrir þá
sem ætla að sjá myndina að vita það
ekki en erlendir miðlar hafa þegar
leyst frá skjóðunni. Valdimar segir
skemmtilegustu bíóupplifunina að
vita sem minnst um myndina, líkt og
frumsýningargestir í Cannes.
En um hvað er myndin, í mjög
stuttu máli og án þess að skemma
frekar fyrir upplifuninni? „Dýrið er
mynd sem fjallar um sauðfjárbænd-
ur, Maríu og Ingvar, sem búa á
frekar afskekktum bæ. Einn daginn
kemur óvænt vera inn í líf þeirra,“
svarar Valdimar, stutt og laggott.
Myndin var tekin upp í Hörgárdal á
bæ sem heitir Flaga og hefur ekki
verið búið á lengi. Í myndinni er
staðurinn þó ónefndur og óstað-
settur en þó augljóslega á Íslandi.
Segir Valdimar leitina að rétta töku-
staðnum hafa verið langa en á end-
anum hafi hann þó fundið hinn full-
komna stað.
Veran var mesta áskorunin
Valdimar er spurður að því hver
hafi verið mesta áskorunin við gerð
myndarinnar, fyrir hann sem leik-
stjóra. „Ætli það hafi ekki verið að
búa til þessa veru. Við vorum með
margt flott fólk með okkur, Fredrik
Nord og Peter Hjort sem eru mjög
flottir effektamenn og svo unnum
við með fyrirtæki í Svíþjóð, The
Chimney Pot. Það held ég að hafi
valdið okkur mestum áhyggjum,
hvernig það kæmi út,“ svarar Valdi-
mar.
Hann segir myndina ekki falla
auðveldlega í ákveðinn flokk kvik-
mynda. „Það eru allir að flokka hana
á mismunandi hátt en fyrir okkur
hefur þetta alltaf verið listræn
mynd. Það er mjög mikið verið að
setja hana í alls konar flokka hérna
og maður hefur heyrt talað um horr-
or. Það eru alls konar útskýringar á
því hvar hún stendur og ég held að
fólk viti ekki hvar það eigi að stað-
setja hana.“
Hvað innblástur varðar við gerð
myndarinnar og undirbúning segir
Valdimar margar bækur og kvik-
myndir hafa haft áhrif en þó ekkert
eitt verk frekar en annað. „Við Sjón
gáfum okkur svo langan tíma í
þetta, unnum þetta á þægilegum
hraða,“ segir hann. Í upphafi ferlis-
ins hafi hann verið búinn að búa til
skissubók með alls konar myndum
og teikningum og óljósri sögu.
Framleiðendur myndarinnar,
Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nas-
sim, hafi þá kynnt hann fyrir Sjón
og þeir hist í kaffi. Hann hafi sýnt
Sjón þessar hugmyndir sínar og
þeir svo farið að hittast reglulega,
einu sinni til tvisvar í viku. Nokkr-
um árum síðar hafi þeir skrifað
„treatment“, þ.e. nákvæma lýsingu
á sögunni og eftir það hafi Sjón tek-
ið við og skrifað handritið að mynd-
inni.
Mikil virðing borin fyrir
kvikmyndinni sem listformi
–Það hefur verið mikill áhugi fyr-
ir þessari mynd í Cannes, eftir því
sem ég hef lesið og heyrt og þú hef-
ur verið mjög upptekinn við funda-
höld?
„Já, við erum búin að vera að
stanslaust frá því við komum,“ segir
Valdimar og á þar við þau Hrönn,
sem er eiginkona hans, og Söru sem
er stjúpdóttir hans. Þær eru fram-
leiðendur myndarinnar. „Ég held að
við séum búin að selja myndina til
dreifingar um alla Evrópu, Norður-
Ameríku og Japan,“ segir Valdimar.
„Við erum mjög hamingjusöm yfir
því að þessi mynd sé að fara í bíó og
að fólk um allan heim getið farið í
bíó að horfa á hana.“
En hvenær á að frumsýna Dýrið á
Íslandi? „Við stefnum á september,“
svarar Valdimar og að eftir Cannes
verði kvikmyndin sýnd víða um
lönd. „Við erum búin að fá ótrúlega
mörg boð um að sýna hana á alls
konar hátíðum sem við erum að
skoða. Þetta lítur vel út, held ég.“
Valdimar er að lokum spurður
hvort eitthvað hafi komið honum á
óvart við hátíðina í Cannes. „Það
sem mér finnst svo ótrúlega heill-
andi er hversu rosalega mikil virð-
ing er borin fyrir þessu listformi,
kvikmyndinni,“ svarar hann og þótt
kvikmyndastjörnur séu á hverju
götuhorni hafi honum þótt skemmti-
legast að hitta tökulið Dýrsins í
strandbænum fræga.
Úr Dýrinu Hilmir Snær Guðnason og Noomi Rapace í kvikmyndinni Dýrið eða Lamb eins og hún heitir á ensku.
AFP
Í Cannes Hilmir Snær, Valdimar, Rapace og Björn Hlynur prúðbúin.
Af mönnum, dýrum og óvæntri veru
- Dýrið hefur vakið athygli í Cannes og samið hefur verið um dreifingu í Evrópu, Japan og Norður-
Ameríku - „Við erum öll bara mjög þakklát fyrir þetta,“ segir leikstjórinn um hinar góðu viðtökur
MENNING 37
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. JÚLÍ 2021
Jazz undir fjöllum, árleg djasshátíð
í Skógum undir Eyjafjöllum, verð-
ur haldin í sextánda sinn í dag, 17.
júlí.
Aðaltónleikar hátíðarinnar fara
fram í félagsheimilinu Fossbúð kl.
21 og kemur þá fram kvartett
söngkonunnar Stínu Ágústsdóttur
en hann skipa með henni þeir Agn-
ar Már Magnússon á Hammond-
orgel, Andrés Þór Gunnlaugsson á
gítar og Jóhann Hjörleifsson á
trommur. Í Skógakaffi verða tón-
leikar frá kl. 14 til 17 og verða þeir
óformlegri eða spunalota. Sig-
urður Flosason leikur á saxófón,
Snorri Sigurðarson á trompet,
Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar,
Agnar Már Magnússon á Hamm-
ond-orgel og Jóhann Hjörleifsson á
trommur. Þeir munu flytja fjöl-
breytta efnisskrá og Andrés og
Agnar munu líka leika lög af nýút-
kominni plötu þeirra Aldarfar.
Ókeypis er inn á þessa tónleika.
Aðgangur er ókeypis í Skógakaffi
en aðgangseyrir 2.900 kr. í Foss-
búð.
Djassað undir Eyjafjöllum í dag
Á aðaltónleikunum Stína Ágústsdóttir
söngkona kemur fram með kvartett.
Tónlistarhátíðin Englar og menn
hefst að nýju eftir árslangt hlé í
Strandarkirkju í Selvogi á morg-
un, sunnudag, með tónleikum sem
hefjast kl. 14.
Á þeim koma fram sunnlensku
einsöngvararnir María Sól Ingólfs-
dóttir sópran og Gunnlaugur
Bjarnason barítón og Einar Bjart-
ur Egilsson leikur með þeim á pí-
anó og harmóníum. Á efnisskrá
verða íslensk sönglög eftir Jórunni
Viðar, Sigfús Halldórsson og Meg-
as ásamt ljóðasöngvum eftir Franz
Schubert. Þessi lög eiga það sam-
eiginlegt að fjalla um líf fólks, til-
finningar þess og hugarheima á
einlægan og heillandi máta og
tóna þau vel við kirkjuna og henn-
ar einstöku sögu, eins og segir í
tilkynningu.
Hátíðin stendur yfir til 15. ágúst
og verða tónleikar haldnir 25. júlí,
8. og 15. ágúst.
Aðgangseyrir á tónleika er
3.000 krónur og er hátíðin styrkt
af Tónlistarsjóði Rannís og Sam-
bandi sunnlenskra sveitarfélaga.
Listrænn stjórnandi hátíð-
arinnar er, líkt og fyrri ár, Björg
Þórhallsdóttir.
Íslensk sönglög í upphafi hátíðar
Sönglög María Sól Ingólfsdóttir kemur
fram á tónleikum með Gunnlaugi Bjarna-
syni og Einari Bjarti Egilssyni á upphafs-
tónleikum Engla og manna í Strand-
arkirkju í Selvogi á morgun.
Þriðju tónleikar sumarsins í tón-
leikaröðinni Velkomin heim fara
fram á morgun, sunnudag, kl. 16
í Hörpuhorni í Hörpu. Jóna G.
Kolbrúnardóttir sópransöngkona
og Elena Postumi píanóleikari
halda langþráða ljóðatónleika
saman, segir í tilkynningu, þar
sem efnisskráin samanstendur af
ástríðufullum ljóðum ólíkra
landa. Þar á meðal verða ljóð eft-
ir Schubert, Debussy, Grieg og
Sibelius.
Langþráðir tón-
leikar í Hörpuhorni
Samstilltar Jóna og Elena leika í Hörpu.