Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.07.2021, Page 10
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.7. 2021
leiti. Til að þess að geta ratað á þennan hátt
þarf viðkomandi að búa yfir einhvers konar
korti svo hann viti hvar hann er í samanburði
við staðinn sem hann hyggst komast til. Í ofan-
álag þarf viðkomandi einnig einhvers konar
áttavita svo hann geti tekið rétta stefnu miðað
við kortið og haldið henni.
Sönn ratvísi er það sem Bucky þurfti til að
rata aftur til síns heima og hún væri þín eina
von ef þér yrði rænt, bundið fyrir augu þín og
þér komið fyrir á miðju hálendi Íslands og sagt
að rata heim, ef við gefum okkur að þú hafir
ekki komið á hálendið áður.
Í mörg ár hafa verið gerðar tilraunir ekki
ósvipaðar þessu ímyndaða ráni á ýmsum fugla-
tegundum. „Menn hafa til dæmis tekið skrofu
af hreiðri sínu í Bretlandi og fært hana yfir Atl-
antshafið til að sjá hvort hún rati heim,“ segir
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræð-
ingur hjá Nátturufræðistofnun Íslands. „Það
hafa þær gert og komið sér til baka í holuna
sína. Þetta sýnir að fuglarnir skynja hvar þeir
eru og búa yfir alveg ótrúlegri nákvæmni til
þess að leiðrétta villur.“
Ungfuglarnir rata ekki
Tilraunir hafa einnig verið gerðar á stara og
ýmsum öðrum spörfuglategundum, bæði full-
orðnum og ungfuglum. Fuglarnir eru þá veidd-
ir þegar þeir eru á leið sinni á milli vetrar- og
sumarstöðva. „Þeir eru svo færðir einhverja
400 kílómetra innan Evrópu. Fullorðnu fugl-
arnir geta leiðrétt stefnu sína og fundið réttu
leiðina heim en ungfuglarnir taka einungis
rétta stefnu miðað við árstíð en rata ekki inn á
sína réttu slóð eftir að hafa verið færðir,“ segir
Guðmundur.
Stefnan sem ungfuglarnir taka er bundin
árstíðum og hefur verið sýnt að hún er háð
segulsviðinu í kringum fuglana. Sést það vel á
því að fuglar taka sömu stefnu óháð því hvort
þeir eru í náttúrunni eða í búri inni á tilrauna-
stofu. Þessi stefna á að gera ungfuglunum
kleift að finna vetrarstöðvar sínar frá þeim
stað þar sem þeir klekjast úr eggi og breytist
eftir því sem líður á fartíma þeirra.
„Meginniðurstaða allra þessara tilrauna er
sú að stefnutakan eða áttunin erfist en síðan er
rötunin áunnin að einhverju leyti. Bæði bæta
fuglarnir túlkun sína á áttavitanum og læra að
yfirfæra þessar meðfæddu stefnur á önnur
náttúrufyrirbæri svo sem sól og stjörnur.“
Þó ungfuglarnir eigi almennt erfiðara með
að rata er það ekki svo að þeir fylgi ávallt þeim
eldri á ferðum sínum. „Það eru margar teg-
undir sem yfirgefa unga sína á fjarlægum
varpstöðum og ungarnir koma síðan af eigin
rammleik á vetrarstöðvarnar.“
Samspil ljós- og segulskynjunar
En hvernig ætli ungfuglarnir viti hvert þeir
eiga að fljúga og hvað læra þeir eldri af reynsl-
unni? Það virðist ekki alls kostar ljóst en ýms-
ar vísbendingar eru fyrir hendi. Rannsóknir
hafa sýnt að fuglar nota segulsvið við áttun en
einnig stjörnur, sólina og skautað ljós í himin-
hvolfunum. Notkun á ljósi í himinhvolfunum er
áunnin að sögn Guðmundar.
„Segulskynjun er sennilega meðfædd. Því
eru fuglarnir með einhverja grunnstefnu sem
þeir geta fylgt með hjálp innbyggðs áttavita,“
segir Guðmundur. Hvar þessi áttaviti er
geymdur er ekki vitað með vissu en vísinda-
menn hafa fundið magnetít, sem er segulmagn-
aður málmur, í höfði fugla. „Það er allavega
einhver áttaviti þarna og fuglarnir geta skynj-
að stefnur og endurtekið sig í því.“
Vísindamenn velta vöngum yfir því hvernig
segulskynjunin beinir fuglunum og öðrum dýr-
um sem hafa magnetít í líkama sínum á rétta
braut og eru ýmsar kenningar uppi um það.
„Það er vitað að ljós tengist þessu á einhvern
hátt. Í þoku að næturlagi virðast fuglarnir leita
uppi ljós, þeir fljúga jafnvel á vita og dragast
að skipum og olíuborpöllum á hafi úti. Senni-
lega af því að þeir nota ljósið til að lesa á átta-
vitann sinn.“
Tilraunir þar sem beint var rauðu ljósi að
fuglum sýndu að þeir urðu tímabundið átta-
villtir eftir það. Ljós hefur auðvitað engin áhrif
á virkni hefðbundinna áttavita svo um er að
ræða samspil ljós- og segulskynjunar.
Dæmi um mögulega notkun fuglanna á ljósi
er að nota skautað ljós til að átta sig á staðsetn-
ingu sólarinnar þegar skýjað er. „Þetta gerðu
víkingarnir sennilega á sjóferðum sínum hér á
öldum áður með silfurbergskristöllum og gátu
þannig staðsett sólina,“ segir Guðmundur.
Enn ein tegundin
Guðmundur hefur sjálfur gert tilraunir á áttun
dýra hér á Íslandi. Það gerði hann rétt fyrir
aldamótin með kollega sínum frá Svíþjóð. „Við
sýndum fram á það að sanderla sem vill fara í
norðvestur á vorin úti í náttúrinni tekur aðra
stefnu við aðstæður þar sem segulsviðinu hef-
ur verið breytt. Við tilraunaaðstæður er hægt
að snúa segulsviðinu 90 gráður og sanderlan
svaraði því með því að taka aðra stefnu en
samanburðarhópurinn,“ segir Guðmundur.
„Þetta var gaman því það staðfesti að enn ein
tegundin notar segulsvið jarðar til að rata.“
Annað sem Guðmundur hefur rannsakað
með kollegum sínum er hvaða leið tegundir
fugla sem yfirgefa Ísland fara á fartíma sínum
og bera það saman við hvaða aðferð þær nota
við áttun. „Við skoðuðum margæsir, rauð-
brystinga, sanderlur og tildrur til dæmis,“
segir hann. „Okkar niðurstaða var að fuglarnir
hagnýti sér fasta segulstefnu á langferðum
frekar en að ferðast eftir stórbaug.“
Kunnum ekki að rata lengur
Maðurinn, eins og önnur dýr, býr yfir ýmsum
innbyggðum eiginleikum sem gera honum
kleift að rata. Við getum nýtt okkur ýmis
kennileiti bæði á jörðu og á himni og fundið
hvaðan hljóð kemur og fært okkur nær því.
Margar sögur eru til af því hvernig frum-
byggjar hinna ýmsu heimsálfa hafa sýnt af sér
gífurlega hæfni við rötun. Í bók Michaels
Bonds, From Here to There: The Art and
Science of Finding and Losing Out Way, er því
lýst hvernig íbúar Pólýnesíu hófu siglingar á
kanóum milli eyjanna sem finna má á svæðinu
sem afmarkað er af Nýja-Sjálandi, Havaí og
Páskaeyju í Kyrrahafi. Til að komast leiðar
sinnar, sem oft var lengri en 400 kílómetrar,
þurftu siglingamennirnir að nýta sér mynstur
öldugangs, vindátt, útlit skýja, djúpsjávar-
strauma, hegðun fugla, lykt og gang sólar og
stjarna.
En til að nýta sér þessa innbyggðu eigin-
leika þarf að læra á þá og með tilkomu betri og
betri hjálpartækja við rötun hvarf þörfin fyrir
það. Vegna þessa og tilkomu annarra þátta
eins og flutninga úr sveit í borg og samfélags-
breytinga misstum við stóran hluta hæfileika
okkar við rötun. Börn fá ekki að leika eins
lausum hala og og áður; árið 1971 fengu 94%
barna í Bretlandi að ferðast ein síns liðs annað
en til og frá skóla en árið 2010 hafði hlutfallið
farið niður í sjö prósent. Rannsóknir hafa sýnt
að rýmisminni barna og fullorðinna er mun
betra ef þau ferðast á milli staða sjálf og án
tækni eins og GPS.
Tvíeggjað sverð framfara
En hvaða áhrif hefur maðurinn haft á ferðir
annarra dýra? Skógareyðing, ljósmengun,
þurrkun votlendis, landbúnaður og auðvitað
loftslagsbreytingar hafa haft áhrif á fjölda
dýrategunda. Í hópi margra þeirra hefur
fækkað mikið.
Guðmundur segir að ákveðnar fuglateg-
undir hafi undanfarin ár breytt hreyfingu sinni
að því er varðar för sína á milli vetrar- og
sumarstöðva. „Það hafa bæði orðið breytingar
í dreifingu og hvað varðar tímasetningu á
komu fuglanna. Það er þá sérstaklega hvað
varðar þá sem fara miðlungslangar leiðir. Þeir
sem fara mjög langar leiðir geta ekki túlkað
veðurfarsbreytingar á áfangastað en þeir sem
fara styttri leiðir geta nýtt sér breytt tíðarfar.
Við höfum séð að fuglar eru að koma fyrr og
fyrr hingað til lands,“ segir hann en breyt-
ingar af þessu tagi sjást um heim allan.
En tækniframfarir mannsins hafa ekki að-
eins neikvæðar afleiðingar í för með sér og
hafa aðstæður til skrásetningar ferða dýra
breyst til betri vegar síðustu árin. „Það hafa
orðið miklar framfarir í því hvernig við fylgj-
umst með ferðum alls kyns dýra. Þú getur nú
kortlagt ferðir einstaklinga í hárri upplausn og
séð hvernig þeir bregðast við veðri og villum, í
stað þess að þurfa að áætla að einstaklingarnir
hljóti að haga sér eins og stofninn allur. Það er
hægt að fylgjast af mikilli nákvæmni með
þessum einstaklingum og það sést að þeir eru
að fara sömu leiðina ár eftir ár,“ segir Guð-
mundur og bætir við: „Þessi tæki eru alltaf að
minnka svo hægt er að fylgjast með smærri og
smærri dýrum.“
Eins og Kathryn Schulz skrifar í grein í
New Yorker frá því í apríl, sem var kveikjan að
þessari grein, þá eru tækifæri til að nýta
aukna vitneskju um ferðir dýra til að hjálpa
þeim að komast af í þeim heimi sem maðurinn
hefur skapað eftir sínu höfði.
AFP
Morgunblaðið/Hanna
’
Menn hafa til dæmis tekið
skrofu af hreiðri sínu í Bret-
landi og fært hana yfir Atlants-
hafið til að sjá hvort hún rati
heim. Það hafa þær gert og kom-
ið sér til baka í holuna sína.
Þetta sýnir að fuglarnir skynja
hvar þeir eru og búa yfir alveg
ótrúlegri nákvæmni til þess að
leiðrétta villur.
Þessi íslenski fjárhundur býr
eins og önnur dýr yfir tals-
vert meiri hæfileikum til
rötunar en meðalmaðurinn.
Lyktarskyn gæti leikið stórt
hlutverk meðal hunda þó
ekkert sé víst í þeim efnum.
Upprisa borga og síðar koma snjallsímans
hafa gert það að verkum að fólk getur
nánast algjörlega reitt sig á tæknina í
stað innbyggðra eiginleika til að rata.
DÝRARÍKIÐ