Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.07.2021, Síða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.7. 2021
alltaf eftir tækifærinu til að nota það og það
kom núna.“
Áklæðið úr íslensku laxaroði
Fleira bíður síns tíma á verkstæðinu, svo sem
tvöfaldur afturgluggi úr Chevrolet, árgerð
1932. „Ég veit ekki hvort ég næ nokkurn tíma
að nota hann,“ segir Steini.
Basl var að finna olíu- og hitamæla en Steini
hafði á endanum uppi á þeim hjá framleiðanda
í Ástralíu. „Þeir sögðust geta smíðað þá fyrir
mig og það tæki þrjá mánuði og ég yrði að
borga fyrirfram. Það gekk allt saman eftir.“
Fleira er óhefðbundið. Þannig er áklæðið úr
íslensku laxaroði frá Sauðárkróki sem Sig-
urjón Kristensen bólstraði.
Steini segir suma hafa furðað sig á því að
hann hafi ráðist í að gera upp Pacer. Til séu
merkilegri bílar. „Menn hafa sagt við mig að
þeir myndu aldrei setja tíma og pening í að
gera upp svona bíl en þar er ég þeim innilega
ósammála. Ég gæti tekið Mustang í staðinn en
þeir eru allir eins. Sumir vilja bara þetta og
alls ekki hitt en ég er ekki vandlátur þegar
kemur að bílum; vil allar sortir, svo lengi sem
stykkið er fallegt.“
Sagan af því hvernig Steini eignaðist gamla
Pacerinn sinn er kostuleg. „Ég sá bílinn bara í
akstri og elti hann heim og keypti á staðnum.
Mér fannst þetta einstakt stykki og hann bara
greip mig.“
– Og hvernig varð eigandanum við?
„Það var mesta furða hvað hann tók þessu
vel. Ég þurfti ekki mikið að ganga á eftir hon-
um. „Nú, líst þér svona vel á hann?“ sagði
hann bara og við gengum til samninga.“
Hann brosir.
Steini átti bílinn í nokkur ár en á endanum
var ekið á hann með þeim afleiðingum að hann
eyðilagðist. „Tóta var á honum, ég var úti á
sjó. Við sáum bæði mikið eftir honum.“
Ólst upp í bílum
– Ertu fæddur með bíladellu, Steini?
„Já, það má eiginlega segja það. Pabbi var
vegavinnuverkstjóri vestur í Grundarfirði og
ég ólst upp í bílum. Ég var alltaf með körl-
unum. Ég er rafvirki lærður og vann við það í
þónokkuð mörg ár, meðal annars á Lagarfossi
gamla. Þegar ég hætti á sjónum fór ég að leita
mér að einhverju að gera og lenti í bílaraf-
magni í Reykjavík. Eftir það varð ekki aftur
snúið. Ég opnaði verkstæði. Fyrst uppi á
Höfða en síðustu þrjátíu árin tæp hef ég verið
hérna í Kópavogi.“
Fyrsti bíllinn sem hann gerði upp var Kadi-
lakk Eldorado, árgerð 1968. „Hann var ónýtur
þegar ég eignaðist hann; eins og allir mínir
bílar. Ég fann hann á geymslustæði í Hafn-
arfirði; komst að því hver átti hann og sá var
svo almennilegur að gefa mér bílinn. Ég hef
ekki tölu á þeim bílum sem ég hef gert upp síð-
an fyrir sjálfan mig og aðra. Það er aldrei frið-
ur, alltaf einhver að biðja mig að gera þetta og
gera hitt. Ég er þakklátur fyrir það allt, smátt
sem stórt, enda hef ég ofboðslega gaman af
þessu. Sumt er bara smá lagfæringar og annað
alveg frá grind.“
– Þær hljóta að vera ófáar klukkustundirnar
sem þú hefur varið í þetta áhugamál?
„Uss, minnstu ekki á það. Ég hef enga tölu á
þeim. Lengst af var ég hérna öll kvöld eftir
vinnu og allar helgar. Það er aðeins minna
núna eftir að ég fór að reskjast. Ég hef ekki
sama úthaldið lengur. En maður er alltaf ein-
hvern djöfulinn að pota.“
– Hvað segir frúin við þessu?
„O, hún veit hvað ég hef gaman af þessu.“
Hann brosir.
Að breyta ónýtu í nýtt
– Hvað er skemmtilegast við þetta?
„Að smíða og breyta ónýtu í nýtt. Þegar
maður ýtir bílunum loksins út þá brosir mað-
ur.“
– Kemur fyrir að þú færð til þín bíl og hugs-
ar: Þetta er ekki hægt?
„Nei, aldrei. Það er allt hægt.“
Viðskiptavinirnir treysta Steina líka upp til
hópa. „Það koma yfirleitt ekki séróskir frá eig-
endunum; þeir treysta mér bara fyrir þessu.
Margir hafa áhuga á sem upprunalegustu útliti
og það er í raun auðveldast fyrir mig og
minnsta vinnan. Maður sér það allt á myndum
og teikningum. Þegar þarf að breyta þarf hins
vegar að smíða og hugsa. Þá verður maður líka
að vanda sig; það er auðvelt að klúðra slíkri
vinnu á þann veg að bíllinn verði kjánalegur.
Það getur verið fín lína milli fegurðar og fárán-
leika.“
Steini hefur yndi af tilbrigðum við stefið og
líkja má honum við músíkant sem ekki les nót-
ur en spilar eins og engill eftir eyranu. „Ég fer
eftir minni tilfinningu og smekk og það tekur
yfirleitt lengstan tíma að sitja fyrir framan bíl-
inn og sjá hvað ég vil gera. Þetta er spuni. Ég
teikna ekki sjálfur og verð fyrir vikið að sjá
þetta fyrir mér áður en ég byrja að smíða.
Þegar ég hef ákveðið mig þarf ég eiginlega
aldrei að breyta.“
Horfir alltaf framan í einhvern
Sjálfur á hann sjö fornbíla. Þrjá Kadilakka,
eina Korvettu, einn Lincoln, eina Límósínu,
sem ekki er uppgerð, og svo Pacerinn. Hann
gaf Þórunni einn Kadilakk. „Ég geng ekki svo
langt að segja að hún sé með dellu en hún hef-
ur gaman af bílum og notar Kadilakkinn mis-
kunnarlaust, þó meira spari en hversdags. Um
daginn hringdu nokkrir krakkar sem við
þekkjum og báðu hana um að skutla sér niður í
bæ – sem Tóta gerði með glöðu geði.“
– Er mikið horft á ykkur þegar þið eruð á
rúntinum á þessum bílum?
„Ég er löngu hættur að horfa í kringum mig;
maður horfir alltaf framan í einhvern.“
Árni Sæberg fór í bíltúr með Steina á Pa-
cernum á dögunum og segir mikið hafa verið
horft, ekki síst konur.
„Það er liturinn,“ útskýrir Steini en hann
heitir kóral. Á móti honum er svo skuggagrár.
„Ég sá bíl í þessum kórallit árið 1956 og fannst
hann svo flottur að engu munaði að ég pissaði í
mig. Á því augnabliki ákvað ég að ég myndi
einhvern tíma eignast bíl í þessum lit. Samt er
ekkert varið í venjulegan bíl í þessum lit, hann
verður að vera sérstakur. Eins og Pacerinn.“
Ekkert ljótara en skítugur fornbíll
Börnin hafa ekki erft bíladelluna, að sögn
Steina. „Þeim finnst gaman að skoða bílana
þegar ég er búinn að gera þá upp og keyra þá
en áhuginn nær ekki lengra en það. Ég lánaði
syni mínum Corvettuna um helgina, hann var
að gifta sig. Það fást ekki betri brúðkaups-
bílar. Eins Kadilakkarnir; Tóta keyrir brúð-
hjón mikið í sínum.“
Lykilatriðið er viðhald og hreinlæti. „Ég
held bílunum mínum alltaf 100% hreinum.
Ljótasta sem ég sé er skítugur fornbíll. Maður
verður að sýna þessu virðingu eftir alla þessa
fyrirhöfn og vinnu.“
Spurður um uppáhaldstímabil sitt í bílasög-
unni er Steini fljótur til svars: „Skemmtileg-
asti tíminn var um og upp úr 1960. Þá eru
þetta almennilegar drossíur sem æðislega gott
Steini heldur hér á
ljósmynd af Pacer í
upprunalegri útgáfu.
Hreinlæti og snyrti-
mennska skiptir Steina
öllu máli, hvort sem
er að innan eða utan,
en ekkert ljótara en
skítugur fornbíll.
Hvert smáatriði er úthugsað og
sérsmíðað, yfirleitt af Steina sjálfum.
Mælarnir voru
sérsmíðaðir í
Ástralíu.
VIÐTAL