Strandapósturinn - 01.06.1971, Page 107
ur hefur gert, góðu eða vondu. En þetta er auðvitað bara mín skoð-
un. Og menn hafa ótal skoðanir. Ef til vill er bezt að hafa enga,
vera aðeins með eins opin augu og kostur er. Reyna að finna það,
sem allir leita mitt á milli dags og nætur, þegar hvorki er dagur né
nótt, heldur eilífð, kannski er það auðveldast, þegar miðnætursól-
in vaggar sér á bárunum.
ÞUNGUR HUGUR
Eyjar í Strandasýslu er mikil hlunnindajörð og gott að afla þar
matfanga, enda hafa búið þar gildir barndur er átt hafa gnægð
matar þó harðnaði árferði og fátæklingar sveltu.
Eftirfarandi saga á að hafa gerst í Móðurharðindunum.
Ríkur bóndi bjó á Eyjum er átti gnægð matfanga, en var bæði
nízkur og ágjarn. Einn vordag þegar varpið stóð sem hæst, kom
bláfátækur barnamaður að Eyjum og biður bónda að láta sig
hafa einhverja matbjörg fyrir börnin sín, en er bóndi veit, að hann
getur ekki greitt hið umbeðna vegna fátæktar, þá neitar hann fá-
tæka manninum og segist ekki láta neitt nema full greiðsla komi
fyrir.
Fátæki maðurinn gengur þá út á svokallað Hamranes, tekur of-
an hattkúfinn sinn og veifar honum í átt til varpeyjanna er lágu
þar skammt undan og voru þéttsetnar fugli. Þá brá svo við að
allur fugl flaug niður úr eyjunum og yfirgaf varpið, liðu mörg
ár þar til varpið varð jafnmikið og það hafði áður verið.
Jóhannes frá Asparvík.
105