Morgunblaðið - 21.09.2021, Blaðsíða 14
14
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 21. SEPTEMBER 2021
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Stundum er
sagt að
furðu stutt
sé í sandkassann
þegar þjóðir tak-
ast á yfir landa-
mæri og jafnvel
yfir mun lengri
veg. Nýjasta dæmið sem skók
alþjóðlega samvinnu teygir sig
yfir liðlega hálfa jarðarkringl-
una.
Þar er um að ræða nýjan
varnarsaming á milli Banda-
ríkjanna, Bretlands og Ástr-
alíu. Og þar sem þar var um
varnarsamning að ræða, að
hverjum beindist hann þá?
Svarið er ekki einfalt. Væri
það einfalt væri svarið að
sjálfsögðu Kína. En eftir að
leynd hvarf af varnarsamn-
ingnum varð ekki betur séð en
að það væri vopnabróðir Breta
og Bandaríkjanna í Atlants-
hafsbandalaginu sem væri í
mesta uppnáminu.
Það er alkunna að þegar upp
kemst um víðtæka njósna-
starfsemi, oftast á milli „aust-
ur og vestur“, þá eru fyrstu
viðbrögð til að sýna reiði sína
og stórlega móðgun að kalla
sendiherra sinn heim frá
meintum sökudólg í njósna-
málinu. En nú brá svo við að
það var Frakkland sem tók
upp þykkjuna, og hún reyndist
engin smásmíði. Emmanuel
Macron, forseti Frakklands,
sýndi að honum og Frakklandi
hefði verið stórlega misboðið.
Hann fordæmdi hinn nýja
varnarsamning, AUKUS, og
sparaði sig hvergi. Og næst
kom svo hin hefðbundna dipló-
matíska refsiaðgerð: Sendi-
herrar Frakklands í Ástralíu
og Bandaríkjunum voru kall-
aðir heim til Frakklands til
skrafs og ráðagerða við for-
seta sinn.
Í upphafi kom hin franska
þykkja ýmsum í opna skjöldu.
Þeir höfðu fyrir fram talið
augljóst að ergelsis vegna hins
nýja varnarsamnings myndi
fyrst og fremst verða vart frá
Kína. Erfitt var að skynja án
skýringa að varnarsamningur
þessara þriggja þjóða gæti
beinst að Frakklandi. Flestum
þótti blasa við að hann væri
kominn til vegna sívaxandi
umsvifa Kína á hernaðarsvið-
inu. Með þau hefur alls ekki
verið pukrað af hálfu stjórn-
valda í Peking. Skemmst er að
minnast ræðu forseta Kína í
tilefni af 100 ára afmæli
Kommúnistaflokks Kína. Þar
glitti hvergi í minnimáttar-
kennd þegar talað var í nafni
fjölmennasta ríkis veraldar og
mannfrekasta landhers henn-
ar.
Á undanförnum árum hefur
uppbygging flotans sem og
manngerðar eyjar Kínverja
talað sínu máli og fyrri skýr-
ingar á því, til
hvers væri í þær
ráðist, hafa hvergi
staðist.
Nú fer ekki
lengur á milli mála
að þær „eyjar“ eru
útfærðar aðgerðir
og hluti af hernaðarstefnu
Kína og útþenslu hennar í suð-
austurátt. Nágrönnum Kína,
svo sem í Víetnam og Filipps-
eyjum, er ekki rótt vegna
þessa og þótt Ástralía liggi
fjær þá gætir óróleika óneit-
anlega einnig þar. Í hinum
nýja varnarsamningi er m.a.
lagður grundvöllur að aukinni
viðveru Bandaríkjahers í
Ástralíu, þótt í smáum stíl sé,
og kaupum landsins á kjarn-
orkuknúnum kafbátum (en án
kjarnorkuvopna) framleiddum
í Bandaríkjunum. Og þá er
komið að hinum raunverulegu
ástæðum þess að forseti
Frakklands stökk upp á nef
sér. Það er ekki varnarsamn-
ingurinn á milli landanna
þriggja sem fer svo illa í
Frakkland. Það er afleiðingin
af samningnum sem valda-
menn í París líta á sem alvar-
lega ögrun við Frakkland og
sig. Það er viðskiptahluti
samningsins upp á marga tugi
milljarða evra.
Frakkar segja að fyrir hafi
legið að samningur yrði gerð-
ur við Frakkland um smíði
kafbátanna. Þar hafi verið
rætt um dísilkafbáta, en ekki
kjarnorkukafbáta, en slíkir þó
ekki verið útilokaðir. Vina-
þjóðirnar þrjár og þar af tveir
helstu máttarstólpar Nató
hafi haldið samningagerðinni
leyndri fyrir bandalagsþjóð-
inni Frakklandi þar til fáein-
um klukkutímum áður en hún
var upplýst opinberlega.
Scott Morrison, forsætis-
ráðherra Ástralíu, segir hins
vegar að hann hafi sjálfur ver-
ið búinn að gefa þessa niður-
stöðu til kynna á fundi með
Macron, forseta Frakklands,
fyrir þremur mánuðum eða
svo. Macron leynir því ekki að
hann telji Boris Johnson hafa
leitast við að leika á sig í öllum
aðdraganda þessa máls. Þegar
frönsk yfirvöld voru spurð
hvers vegna forsetinn hefði
ekki kallað sendiherra sinn
heim frá London, eins og hina
tvo, mátti ráða af svari
franska utanríkisráðherrans
að þar var úthugsuð diplómat-
ísk aðgerð á ferðinni til að nið-
urlægja Boris og stjórn hans
alveg sérstaklega. Ráð-
herrann sagði að óþarft hefði
verið að kalla sendiherrann í
London heim, því augljóst
væri að breska stjórnin hefði
verið algjör litli bróðir í hinni
neikvæðu aðgerð, leikbrúða í
höndum Bandaríkjanna eins
og jafnan áður.
Fróðlegt hefur verið
að fylgjast með van-
stilltum viðbrögðum
frá París vegna nýs
varnarsamnings}
Stórbokkamóðgun
S
em mennta- og menningarmála-
ráðherra á Íslandi hef ég mikinn
áhuga á aukinni tækninotkun, bæði
í skólum og samfélaginu í heild. Fá-
ar þjóðir slá Íslendingum við varð-
andi fjölda nettenginga, samfélagsmiðlanotkun
eða fjölda snjalltækja á mann.
Samskipti við snjalltæki gerast í auknum
mæli með tali, í stað hins skrifaða orðs. Tækin
kunna hins vegar ekki íslensku og því óttumst
við afdrif tungumálsins okkar. Það hefur varð-
veist nær óbreytt í þúsund ár og er kjarninn í
menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar.
Góð og alhliða móðurmálsþekking er mikil-
væg fyrir persónulegan þroska barna, mennt-
un þeirra og hæfni til að móta hugsanir sínar og
hugmyndir. Með aukinni snjalltækjanotkun
eykst því þörfin á að tækin skilji móðurmálið
okkar.
Við höfum unnið okkar heimavinnu. Íslensk stjórnvöld
hafa leitt saman vísindamenn, frumkvöðla og einkafyr-
irtæki í umfangsmiklum og metnaðarfullum verkefnum
sem miða að því að efla máltækni hér á landi. Til dæmis
eru mörg hundruð klukkustundir af talmálsupptökum að-
gengilegar fyrir þá sem vilja þróa íslenskar snjalltækja-
raddir. Þúsundir klukkustunda af hljóðdæmum eru einnig
fáanlegar sem má nota til að kenna tækjunum íslensku.
Nú leitum við þinnar aðstoðar við að varðveita menning-
ararfleifð Íslands, sem tungumálið okkar geymir. Ég bið
Apple að leggja okkur lið með því að bæta íslensku við
radd-, texta- og tungumálasafn sinna stýri-
kerfa – svo við getum talað við tækin ykkar á
móðurmáli okkar, varðveitt menningar-
arfleifðina áfram og stuðlað að betri skilningi í
tengdum heimi.“
Svohljóðandi bréf á ensku sendi ég til for-
stjóra tæknirisans Apple í gær. Eins og text-
inn ber með sér er tilgangurinn að leita liðsinn-
is stærsta og öflugasta fyrirtækis í heimi við
varðveislu íslenskunnar. Við væntum góðra
viðbragða, enda sýnir reynslan að dropinn hol-
ar steininn og á okkur er hlustað. Þar nægir að
nefna viðbrögð Disney við hvatningu okkar um
aukna textun og talsetningu á íslensku á
streymisveitunni Disney+ á liðnum vetri. Sú
viðleitni hefur nú þegar birst í betri þjónustu
við íslensk börn og aðra notendur streymis-
veitunnar.
Aukin færni Íslendinga í öðrum tungumálum – sér-
staklega ensku – er jákvæð og skapar margvísleg tæki-
færi. Það á ekki síst við um börn og ungmenni. Ensku-
kunnáttan eflir þau, en samtímis ógnar alþjóðavæðing
enskunnar menningarlegri fjölbreytni og nýsköpun. Án
tungumáls verða hugmyndir ekki til og ef allir tala sama
tungumálið er hugmyndaauðgi stefnt í voða og framförum
til lengri tíma.
Það eiga ekki allir að vera eins og við treystum á liðsinni
þeirra stærstu í baráttunni fyrir framtíð íslenskunnar.
Lilja Dögg
Alfreðsdóttir
Pistill
Kæri Tim Cook
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
VIÐTAL
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
D
ÝR – Dýraþjónusta
Reykjavíkur tók til starfa
í maí í vor. Málefnum
sem tengjast dýrum og
dýrahaldi í borginni, öðru en búfjár-
haldi, var þá komið undir einn hatt.
DÝR heldur utan um málefni gælu-
dýra og villtra og hálfvilltra dýra
sem hafa lent í hremmingum. Þar á
meðal eru ómerkt gæludýr sem
lagst hafa út eða verið úthýst. DÝR
hefur aðstöðu í Fjölskyldu- og hús-
dýragarðinum í Laugardal. Þorkell
Heiðarsson deildarstjóri hefur um-
sjón með starfsemi DÝR og dýra-
garðshluta Fjölskyldu- og hús-
dýragarðsins.
„Hundaeftirlitið og málefni
katta eru komin til okkar líkt og
málefni villtra og hálfvilltra dýra og
dýra í neyð,“ sagði Þorkell. Með
hálfvilltum dýrum er átt við ómerkt
gæludýr eins og t.d. ketti og kan-
ínur. Þessi dýr hafa því verið húsdýr
eða eru afkomendur slíkra.
„Við sjáum líka um villt dýr sem
lent hafa í einhverjum hremmingum
innan borgarmarkanna, eins og
Húsdýragarðurinn hefur lengi gert.
Þetta eru t.d. dýr sem hafa slasast,
olíublautir fuglar og fleira.“
Búfjáreftirlit, forðagæsla og
annað sem viðkemur búfé er ekki
lengur á könnu sveitarfélaganna og
komið til Matvælastofnunar
(MAST). Fjallskil í borgarlandinu
heyra undir umhverfis- og skipu-
lagssvið borgarinnar og eins sinna
borgarstarfsmenn búfé sem gengur
laust þar sem það á ekki að vera.
Stöðugildi hundaeftirlitsmanns
var flutt til Fjölskyldu- og hús-
dýragarðsins við stofnun DÝR og
hluti úr stöðugildi vegna kattahalds.
„Hugmyndin var að bæta þjónustu
við dýraeigendur í borginni. Það
voru gerðar skipulagsbreytingar en
engin fjölgun varð á starfsfólki. Það
þótti skynsamlegt að sameina fólkið
sem vinnur allan daginn við dýr hjá
borginni og safna þekkingu á mála-
flokknum á einn stað. Þetta var áður
nokkuð dreift í borgarkerfinu,“
sagði Þorkell. Hann sagði að hug-
myndin að þessari skipan mála hefði
lengi verið rædd en ekki orðið af
henni fyrr en nú.
„Það hefur verið mikið að gera
hjá okkur. Í ágúst hafði Dýraþjón-
ustan tekið við um 650 samtölum í
þjónustusímanum 822 7820 fyrir ut-
an það sem kom í gegnum sam-
félagsmiðla, tölvupóst og netið. Við
höfum fengið ófá dýr til okkar sem
hafa fundist. Reynt er að finna eig-
endur merktra dýra. Við erum líka í
góðu samstarfi við ýmsa sem vinna
að því að finna dýrum heimili. Við
látum ekki farga dýrum nema aðrar
leiðir séu fullreyndar. Það hefur
ekki þurft að farga neinu eiganda-
lausu gæludýri frá því að við tókum
til starfa,“ sagði Þorkell.
Kvartað vegna ónæðis
Meirihluti málanna sem borist
hafa til DÝR í sumar hefur snúið að
hundum. Einkum er um að ræða
kvartanir vegna ónæðis og fer slík-
um málum fjölgandi. „Ein tilgátan
er sú að margir hafi fengið sér hund
í Covid-ástandinu. Þá var fólk mikið
heima og gat sinnt hundinum. Nú
dregur úr áhrifum faraldursins og
fólk er farið til vinnu utan heimilis-
ins en vinnur minna heima. Hund-
urinn er ekki vanur því að vera
einn og gerir vart við sig sem veld-
ur nágrönnunum ónæði,“ sagði Þor-
kell. Hann sagði vísbendingar um
að gæludýraeign hefði aukist
mikið í faraldrinum. Dæmi
um það voru fréttir um að
hvolpar og kettlingar
væru ófáanlegir á tíma-
bili.
Málefni dýra komin
undir einn hatt
Í drögum að nýrri samþykkt um
hundahald í Reykjavík segir að í
stað leyfisskyldu verði tekin
upp skráningarskylda og á
ábyrgð umráðamanns að skrá
hund með rafrænum hætti.
Umsjónarmaður þarf að stað-
festa við skráningu að hunda-
haldið sé í samræmi við fjöl-
eignarhús. Komi upp
ágreiningur um hundahald í
fjölbýli leysi íbúar úr ágreiningi
á grundvelli laga.
Með samþykktinni er hlut-
verk Dýraþjónustu Reykjavíkur
(DÝR) skilgreint, ábyrgð hennar
og verksvið og samspil DÝR
við Heilbrigðiseftirlit
Reykjavíkur.
Fulltrúar VG, Sam-
fylkingar, Pírata,
Sjálfstæðisflokks
og Miðflokks
samþykktu að
leggja drögin
fram.
Hundahald
í Reykjavík
BREYTINGAR Í BÍGERÐ
Þorkell
Heiðarsson
Morgunblaðið/G. Rúnar
Gæludýr Vísbendingar eru um að margir hafi fengið sér gæludýr í far-
aldrinum. Nú eru þau ein heima og það getur verið erfitt. Mynd úr safni.