Morgunblaðið - 24.11.2021, Page 24
24 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. NÓVEMBER 2021
Nú finnur þú
það sem þú
leitar að á
FINNA.is
Í BERG Contemporary-galleríinu á
Klapparstíg 16 hefur verið opnuð
sýning á fjölbreytilegum grafík-
verkum eftir Dieter Roth (1930-
1998). Dieter var einn áhrifamesti
myndlistarmaður Evrópu á seinni
hluta 20. aldar. Hann bjó til marg-
breytileg verk í ólíka miðla, ekki ein-
ungis grafíkverk, teikningar, mál-
verk, skúlptúra og bækur, heldur
einnig innsetningar, hljóð-, mynd-
bands- og ljósmyndaverk. Dieter er
hvað þekktastur fyrir verk sín úr líf-
rænum efnum, aðallega niður-
brjótanlegum matvælum á borð við
súkkulaði, ost og sykur.
Að þessu sinni eru sýnd valin
grafíkverk sem Dieter Roth gerði á
árunum 1966 til 1995, sum í sam-
starfi við aðra kunna listamenn, eins
og Richard Hamilton (1922-2011) og
Arnulf Rainer (f. 1929). Dieter Roth
gerði alls 524 grafíkverk á ferli sín-
um og eru mörg hver einstök prent –
ekki í upplagi – með margs konar
prentaðferðum. Sýningin er opin
þriðjudaga til föstudaga kl. 11-17, og
laugardaga kl. 13-17.
Grafík eftir Dieter í BERG
Ljósmynd/BERG Contemporary
Fjölbreytileg Frá sýningunni með grafíkverkum eftir Dieter Roth.
- Margbreytileg
og einstök verk
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Efni bókarinnar byrjaði að kvikna
þegar ég var í námi fyrir tæpum ára-
tug. Þá fékk ég hugmynd að því að
gera hljóðfæri sem innblásin væru af
hurdy-gurdy í þeim skilningi að vera
handknúið og styðjast við hjólbúnað
til að strjúka strengina,“ segir Berg-
lind María Tómasdóttir um bókina
Tvísöngur sem hún hefur sent frá
sér. Í forgrunni bókar eru uppdikt-
aðar tónlistarhefðir sem tengjast
hljóðfærunum sem Berglind María
hefur skapað og lýsir hún verkefn-
inu öðrum þræði sem langvarandi
gjörning um menningararfleifð,
tengingar tónlistar og þjóðernis,
hefða og uppruna. „Mig hafði lengi
langað til að gera þessum rann-
sóknum mínum og vangaveltum skil
með áþreifanlegri hætti auk þess
sem mér fannst mikilvægt að gera
að nokkru upp þann farangur sem
felst í klassískri tónlistarmenntun,
sem í eðli sínu er mjög formfastur og
býður ekki endilega upp á persónu-
legar raddir.“
Hvað er satt og hvað logið?
Bókin byggist á samtali tveggja
persóna sem deila líkama Berg-
lindar Maríu. Þetta eru annars veg-
ar doktor BMT (sem er skamm-
stöfun fyrir Berglind María Tómas-
dóttir) og hin veraldarvana Rock-
river Mary. „Það má í ákveðnum
skilningi sjá þær sem nokkurs konar
hliðarsjálf mín þar sem Rockriver
Mary er villtari týpa og meira blátt
áfram meðan BMT er mun varkárari
týpa, stífari og bældari. Þær eru
þannig báðar tvær ýktari útgáfur af
mér,“ segir Berglind María og bend-
ir á að bókin innihaldi samtal þeirra
um tónlist og hefðir, hvað sé satt og
hvað logið og ræða hljóðfærin hrokk
og lokk. „Hrokkur er hljóðfæri sem
samanstendur af tveggja strengja
gítar sem festur er á viðarplötu og
afturparti krakkareiðhjóls sem einn-
ig er festur á plötuna,“ segir Berg-
lind María sem útfærði hljóðfærið á
námsárum sínum í Bandaríkjunum.
„Lokkur er settur saman úr lang-
spili og rokk, sem hvort tveggja er
fest á ferkantað sófaborð,“ segir
Berglind María, en hljóðfærið smíð-
aði fiðlusmiðurinn Jón Marinó Jóns-
son.
„Í tengslum við bæði hljóðfærin
hef ég verið að leika mér að því að
kanna ímyndir og erkitýpur sem og
tónlist sem félagslegt fyrirbæri.
Þegar ég bjó til hrokkinn fór ég að
leika mér að því að búa til ímyndaða
tilbúna hefð sem þróast hefði meðal
íslenskra innflytjenda í S-Kaliforníu.
Mér fannst svo merkilegt að skoða
hefð sem fyrirbæri, því allar hefðir
eru í eðli sínu tilbúningur og pólitík.
Það eru valdastrúktúrar sem ráða
því hverju er hampað sem hefð og
hverju ekki, auk þess sem hefðir
tengjast oft ákveðnum söknuði,“
segir Berglind María og tekur fram
að hún sé í bókinni líka að vinna með
það hvernig konur eru ósýnilegar í
sögunni. „Eftir að ég flutti heim tók
ég upp þráðinn og langaði til að gera
annað hljóðfæri sem væri meira
raunverulega gamaldags,“ segir
Berglind María og vísar þar til
lokksins sem hún sér fyrir sér að
rekja megi til Íslendingabyggða í
Winnipeg. „Samhliða bókinni kemur
út tónlist fyrir lokk á geisladiski og
hljóðsnældu, og stafrænum veitum,“
segir Berglind María og rifjar upp
að tónlistina hafi hún frumflutt á
Listahátíð í Reykjavík 2015 þegar
hún frumsýndi lokkinn. Geisladisk-
urinn, sem kemur út á vegum þýsku
útgáfunnar Backlash Music, inni-
heldur verk fyrir lokk eftir Karólínu
Eiríksdóttur, Lilju Maríu Ásmunds-
dóttur, Þórunni Grétu Sigurðar-
dóttur og mig,“ segir Berglind
María, sem í tengslum við bókina
sendir einnig frá sér hljóðsnældu
með því sem hún kallar hljóðbréf (e.
Reworks).
Nostalgískur tónn
„Ég sendi níu tónskáldum möppu
með alls konar hljóðum úr lokknum
og örfá úr hrokknum líka. Hver og
einn bjó til verk upp úr þessum
hljóðum,“ segir Berglind María, en
tónskáldin eru auk hennar sjálfrar
þau Bergrún Snæbjörnsdóttir, Clint
McCallum, Elín Gunnlaugsdóttir,
Erik DeLuca, Hafdís Bjarnadóttir,
Kurt Uenala, Lilja María Ásmunds-
dóttir, Rachel Beetz og Þóranna
Björnsdóttir. „Hljóðsnældan fæst í
áþreifanlegu formi auk þess sem
hún er aðgengileg á Bandcamp-
síðunni minni og Spotify,“ segir
Berglind María og bætir því við að í
raun megi líta svo á að öll þau
formöt tónlistar sem notuð séu í dag
séu orðin úrelt. Vísar hún þar jafnt
til hljóðsnældunnar og vínilplöt-
unnar. „Stór meirihluti fólks hlustar
bara á tónlist á netinu. Það er nos-
talgískur tónn í bókinni og því fannst
mér vel við hæfi að gefa tónlistina
líka út á kassettu,“ segir Berglind
María og bendir á að hljóðsnældan
sé það form tónlistar sem hún
kynntist fyrst og bauð upp á mikla
sköpun í formi „mixtape“ eða
blandspólu. „Á Vimeo-síðunni minni
má síðan sjá kvikmyndina mína sem
nefnist Uppruni hlutanna og var enn
ein birtingarmynd verkefnisins,“
segir Berglind María og lýsir mynd-
inni sem „videóesseyja um hljóð,
minni og sjálfsmyndir“. Myndin var
sýnd í Norræna húsinu fyrr á árinu
sem hluti sýningarinnar Í síkvikri
mótun: vitund og náttúra.
Eftir samferða tónskáld
Af framangreindu má ljóst vera að
Berglind María vinnur sem flautu-
leikari og tónskáld þvert á miðla.
Berglind María stundaði nám í
flautuleik við Tónlistarskólann í
Reykjavík og Konunglega danska
konservatoríið áður en hún lauk
doktorsprófi í flutningi samtíma-
tónlistar frá Kaliforníuháskóla í San
Diego árið 2013. Hún er í dag pró-
fessor við Listaháskóla Íslands. Sem
flautuleikari hefur Berglind María
komið fram á tónleikum víðs vegar
um heiminn, nú síðast sem meðlimur
í flautuseptettnum viibra sem kemur
fram með Björk í tónleikhúsinu
Cornucopia. Hún hefur jafnframt
leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal
annars sem einleikari ásamt Sinfón-
íuhljómsveit Íslands undir stjórn
Vladimirs Ashkenazy. Verk Berg-
lindar Maríu hafa verið pöntuð og
flutt á vegum Flautusamtaka
Bandaríkjanna, Norrænna músík-
daga, Myrkra músíkdaga og
Listahátíðar í Reykjavík.
Á dögunum sendi Berglind María
frá sér plötuna Ethereality sem inni-
heldur verk fyrir flautu og elektró-
ník. „Verkin eru eftir tónskáld sem
ég hef verið samferða í námi og
starfi,“ segir Berglind María og
bendir á að elsta verkið sem jafn-
framt er titilverk plötunnar, Ether-
eality, samdi Anna Þorvaldsdóttir
árið 2011 þegar þær voru báðar
nemendur við Kaliforníuháskóla í
San Diego. „Þar voru líka við nám
Carolyn Chen og Clint McCallum
sem eiga verk á plötunni,“ segir
Berglind María, sem sjálf á eitt verk
á plötunni sem nefnist Bambaló.
„Það var samið að beiðni Banda-
rísku flautusamtakanna fyrir keppni
sem fór fram á vegum þeirra árið
2013. Loks eru verk eftir samstarfs-
félaga mína við Listháskóla Íslands,
Tryggva M. Baldvinsson, deildar-
forseta tónlistardeildar LHÍ, og
Lilju Maríu Ásmundsdóttur holl-
nema sem ég kynntist þegar hún
stundaði þar nám,“ segir Berglind
María og bendir á að öll verkin á
plötunni hafi verið samin fyrir hana
nema verk sem hún samdi og verk
Tryggva „sem hann samdi fyrir
ítalskan flautuleikara og fjallaleið-
sögumann árið 2015“.
Tónlistin rati til sinna
Platan hefur nú þegar fengið tvo
jákvæða dóma, annars vegar á tón-
listarbloggsíðunni 5against4.com og
hins vegar hjá Jeremy Shatan sem
skrifar á síðunni An Earful „Mér
þykir gott að vita að platan hafi rat-
að til hlustenda sem njóti hennar.
Markmið mitt er ekkert endilega að
platan rati sem víðast. Mikilvægara
er að hún rati til sinna. Það er gef-
andi að geta komið verkunum frá sér
á aðgengilegt form, því maður leikur
þau ekki mjög oft á tónleikunum,“
segir Berglind María, en þess má
geta að platan kemur aðeins út í
stafrænu formi.
„Upptökurnar hófust í Akranes-
vita, en þá var markmið mitt að taka
þau upp sem vídeó og koma þeim
þannig í dreifingu,“ segir Berglind
María, en Erlendur Sveinsson kvik-
myndagerðarmaður tók upp flutn-
inginn á verkunum eftir Berglindu
Maríu, Önnu, Chen og Tryggva.
„Þetta kom til af því að ég hafði
fengið styrk fyrir tónleikum sem
ekki gat orðið af vegna Covid,“ segir
Berglind María og rifjar upp að þó
hún hafi upphaflega hugsað verk-
efnið fyrst og fremst sem vídeó hafi
hljóðið verið tekið upp af fagmann-
inum Bergi Þórissyni. „Ég átti upp-
tökur af verki Lilju og Clint og
fannst því einboðið að gefa þetta út
sem heild,“ segir Berglind María og
tekur fram að það sé aldrei að vita
nema platan rati út á hljóðsnældu í
framhaldinu.
Ljósmynd/Frankie Martin
Strengir Berglind María Tómasdóttir með hrokkinn í eyðimörkinni. Handknúinn hjólbúnaður strýkur strengina.
Ljósmynd/Sigtryggur Ari Jóhannsson
Berglind María Tómasdóttir
„Báðar tvær ýktari útgáfur af mér“
- Berglind María Tómasdóttir sendir frá sér bókina Tvísöngur - Samtalsbók tveggja hliðarsjálfa
sem velta fyrir sér hefðum, tónlist, uppruna og menningararfleifð - Hljóðsnældan heillar sem form