Morgunblaðið - 25.11.2021, Síða 36
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. NÓVEMBER 2021
Trönuhrauni 8 – 565 2885 | Bíldshöfða 9 – 517 3900 | stod.is
Bakbelti
í miklu úrvali
Við veitum þér stuðning
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Alþjóðlega leiklistarhátíðin Lókal
hefst á morgun, 26. nóvember, og
stendur yfir til 6. desember með
fjölda viðburða. Sérstök áhersla er
lögð á verk í
vinnslu og verkin
sem sýnd eru allt
frá því að vera
fyrstu drög yfir í
að vera fullkláruð
verk sem þegar
hafa verið sýnd.
Á vef
hátíðarinnar,
lokal.is, kemur
fram að á henni
sé fagnað sýningum sem eru litlar að
umfangi og einkennast af listrænni
leit.
Frestað fram í janúar
Eva Rún Snorradóttir, listrænn
stjórnandi Lókal, segir að upp-
haflega hafi hátíðin átt að hefjast í
dag, 25. nóvember, með sýningunni
Engar flatkökur í erfidrykkjunni en
henni hafi verið frestað fram í jan-
úar. Annað kvöld verði því fyrsta
sýning hátíðarinnar í Tjarnarbíói,
En mig langar ekki í börn – verk í
vinnslu.
„Þetta er vettvangur fyrir fram-
úrstefnusviðslist og tilraunasviðslist
í Reykjavík og við erum með sjö ís-
lensk verk sem eru ný. Sum eru
ennþá í vinnslu og sum er verið að
frumsýna og þetta eru ýmist opin
rannsóknarferli eða fyrstu skissur.
Við erum með „human specific“ verk
þar sem einungis sex manns komast
að í einu og svo erum við með eins
konar „happening“ sem gerist heima
hjá listakonunni,“ segir Eva um há-
tíðina og bætir við að ein erlend sýn-
ing sé á dagskránni en eina hafi
þurft að afbóka vegna Covid.
Á dagskránni er A Thousand
Ways, sýning heimsþekkts leikhóps,
600 Highwaymen, sem er í raun
þátttökuverk. „Það eru einungis
tveir áhorfendur í einu á þessari
sýningu sem er óvænt stefnumót
ókunnugra á miðju leiksviði. Það eru
takmarkaðir miðar í boði og engin
áhugamanneskja um sviðslist ætti að
láta þetta fram hjá sér fara,“ segir
Eva. „Svo erum við með handrita-
smiðju og útgáfu, erum að gefa út
bók í ár, rit sem við köllum Syrpu
sýnisrits sviðshandrita og þar eru
handrit og handritabrot af text úr
handritum sviðslistaverka sem eru
ýmist Excel-skjöl eða teikningar eða
hefðbundið handrit,“ segir Eva og
verður sú bók til sölu í Tjarnarbíói og
mögulega víðar.
Sögurhingur með konum
En mig langar ekki í börn – verk í
vinnslu er, eins og nafnið ber með
sér, verk í vinnslu. „Þetta er rann-
sóknarverk með konum sem hafa
kosið að eignast ekki börn,“ segir
Eva og er beðin um að útskýra betur
hvers konar sýning sé þarna á ferð-
inni. „Þetta kallast söguhringur og
þá eru konurnar með og áhorfendur
sitja í hring með þeim. Við erum með
alls konar form á þessari hátíð,“ seg-
ir Eva.
Og talandi um alls konar form þá
er á dagskrá verk sem er símaver.
„Alla hátíðina verður hægt að
hringja í eitt símanúmer og hlusta á
þrjú örverk í vinnslu eftir þrjá lista-
menn. Eins og þegar þú hringir í
banka,“ segir Eva um þetta forvitni-
lega verk. Það sé eitt þeirra sem
spruttu upp úr ástandinu í kórónu-
veirufaraldrinum.
Önnur nálgun
Eva segir um verk hátíðarinnar að
þau séu öðruvísi upplifanir en geng-
ur og gerist í leikhúsi og fáir komist
að. En þarf fólk þá að hafa brenn-
andi áhuga á leiklist sem listformi til
að njóta þess sem er í boði? „Nei, ég
myndi einmitt ekki segja það, þetta
er margt þannig að verið er að rann-
saka eitthvert málefni og fólk þarf
bara að vera opið og leitandi. Við
komum bara öðruvísi að miðlinum,“
svarar Eva.
Lókal er ekki þematengd hátíð en
Eva segir að þó sé að þessu sinni
ákveðið þema, þ.e. handrit, út af
fyrrnefndri útgáfu og handrita-
smiðju sem staðið er fyrir. „Og sam-
starfsaðilar okkar eru Miðstöð ís-
lenskra bókmennta, Bókmennta-
borgin og Borgarbókasafnið og svo
er Símaverið líka áhersla á handrit.
Svo erum við bara það lítið samfélag
að við pikkum bara upp og styðjum
það sem er í gangi hverju sinni hjá
listamönnum í sviðslistasenunni,“
bætir Eva við.
Grímuskylda er á öllum sýningum
en aðeins krafist niðurstöðu úr hrað-
prófi á viðburði þar sem gestir eru
fleiri en 50 en þeir eru í Tjarnarbíói.
Frekari upplýsingar má finna á
lokal.is.
Framúrstefna og tilraunir
- Leiklistarhátíðin Lókal hefst á morgun með rannsóknarverkinu En mig lang-
ar ekki í börn – verk í vinnslu - Allt frá drögum yfir í fullkláruð verk á dagskrá
Hringekja Kynningarmynd fyrir En mig langar ekki í börn – verk í vinnslu eftir Írisi S. Skúladóttur.
Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
Eva Rún
Snorradóttir
Meðal myndverka sem verða boðin
upp á árlegu jólaperluuppboði Gall-
erís Foldar má nefna fágæt verk
eftir Guðmund Thorsteinsson –
Mugg og Ásgrím Jónsson, auk
verka sem voru á fyrstu sýningu
sem sett var upp á Kjarvalsstöðum.
Verkin sem boðin eru upp eru til
sýnis í húsakynnum gallerísins á
Rauðarárstíg til 29. nóvember en
þá lýkur uppboðinu sem er á vefn-
um uppbod.is.
Í tilkynningu frá Galleríi Fold
segir að um jólin sé „venja að bjóða
upp á úrval af því allra besta sem
finnst í húsi hverju og er Fold upp-
boðshús þar engin undantekning“.
Þá er greint frá því að meðal verka
verði boðin upp nokkur eftir
Jóhannes S. Kjarval. „Tvö þeirra
voru á frægri yfirlitssýningu Kjar-
vals árið 1973, var það opnunarsýn-
ingin í húsi sem þá kallaðist einfald-
lega Myndlistarhúsið á Miklatúni
og hlaut síðar nafnið Kjarvalsstað-
ir. Fjörutíu þúsund manns sóttu
sýninguna. Verkin af sýningunni
sem boðin verða upp eru hið fallega
Portrett af Karítas og Þingvalla-
mynd, falleg landslagsmynd með
kúbísku ívafi. Auk þess eru tvö olíu-
verk á uppboðinu, lítið abstrakt-
verk í kúbískum stíl og mynd af
verum í vatni og svo tvær teikn-
ingar, hausamynd og landslag.“
Af verkum frumherjanna sem
boðin verða upp má nefna litla olíu-
mynd sem Ásgrímur Jónsson mál-
aði í Kaupmannahöfn árið 1901,
óvenjustórt verk eftir Þórarin B.
Þorláksson og fágæta blómaupp-
stillingu eftir Mugg. Þá er boðin
upp blómauppstilling eftir Kristínu
Jónsdóttur, Reykjavíkurmynd eftir
Jón Stefánsson, tvö verk eftir
Gunnlaug Scheving sem sýna eitt
hans vinsælasta mótív, sjómenn að
taka inn hákarl, og mynd af mjalta-
konu eftir Jóhann Briem.
Úrval abstraktverka er á upp-
boðinu, m.a. eftir Karl Kvaran,
Nínu Tryggvadóttur, Svavar
Guðnason og Kristján Davíðsson,
Braga Ásgeirsson og Valtý Péturs-
son. Þá eru boðin upp verk eftir Al-
freð Flóka, Óla G., Gerði Helgadótt-
ur og marga fleiri.
Kyrralífsmynd Blómauppstilling eftir
Mugg er á jólaperluuppboði Gallerís Foldar.
Fjölbreytileg verk eftir frumherjana,
abstraktmeistara og fleiri á jólauppboði
Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds
hlaut í vikunni tvær tilnefningar til
bandarísku Grammy-verðlaunanna
sem eru ein þau þekktustu í heimi og
eru þetta hans fyrstu tilnefningar til
þeirra. Ólafur er tilnefndur fyrir lög
af plötu sinni Some kind of peace
sem kom út í fyrrahaust, annars
vegar í flokki raf- og danstónlistar
fyrir lagið „Loom“ sem hann vann
með breska tónlistarmanninum
Bonobo, og hins vegar „The Bottom
Line“ sem er tilnefnt fyrir bestu út-
setningu fyrir hljóðfæri og söng.
„Eftir að hafa náð mér af mesta
spennufallinu er mér efst í huga
þakklæti til samferðafólks míns því
enginn er eyland. Þetta er í fyrsta
sinn sem ég fæ tilnefningur til
Grammy-verðlauna og það er mér
ótrúlegur heiður. Ég lagði ómælda
orku og ást í some kind of peace og
óneitanlega gaman að fá svona
viðurkenningu fyrir,“ er haft eftir
Ólafi í tilkynningu.
Verðlaunin verða afhent í lok jan-
úar á næsta ári. Ólafur hefur áður
hlotið virt verðlaun, hlaut Bafta fyrir
tónlist sína við þættina Broadchurch
og nýverið tilnefningu til Emmy-
verðlauna fyrir tónlist sína við þætt-
ina Defending Jacob.
Friðsæll Ólafur á umslagi plötu
sinnar Some kind of peace.
Tilnefndur
til Grammy-
verðlauna
- Ólafur hlýtur
tvær tilnefningar