Morgunblaðið - 22.12.2021, Qupperneq 33

Morgunblaðið - 22.12.2021, Qupperneq 33
MENNING 33 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 22. DESEMBER 2021 Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég var að ganga í gegnum skilnað og fór að skrifa um tilfinningarnar sem fylgja þessum náttúru- hamförum í lífinu sem skilnaður er án þess að ég væri að skrifa um minn skilnað,“ segir Eva Rún Snorradóttir um nýjustu bók sína sem nefnist Óskilamunir og hefur að geyma sögur um ástir sem finnast og tapast og hvernig sársauki mótar okkur. „Eftir að ég stóð í skilnaði fannst mér magnað hversu lítið var hægt finna af efni þar sem hægt er að komast í tæri við allar þessar gífur- legar tilfinningar sem fylgja skiln- aði. Mig langaði því til að fanga þessa sáru tóna,“ segir Eva Rún og tekur fram að sjálfri finnist sér gott að lesa efni þar sem hægt sé að kynna sér tilfinningar annars fólks og samsama sig líðan annarra. „Ég byrjaði því að skrifa ljóð. Á sama tíma var ég líka að skrifa litlar stuttar sögur, sem eru gjarnan inn- blásnar af einhverju sem ég upplifði í mínu lífi, sem ég tek svo lengra, rannsaka á einhvern hátt í skrif- unum. Í ferlinu rann þetta síðan allt saman,“ segir Eva Rún og rifjar upp að skilnaðurinn hafi fengið hana til að hugsa um aðra sára skilnaði í gegnum tíðina. Myndir skapa jarðtengingu „Ég mundi eftir og fór að skrifa um sára skilnaði við vini í æsku þeg- ar þeir fluttu í burtu og skilnaði við hugmyndir sem ég hafði. Ég fór að hugsa um það hvernig við erum óskilamunir í eigin lífi,“ segir Eva Rún og bendir á að með óskila- munum eigi hún við að eitthvað sé ekki á réttum stað. „En svo má auð- vitað spyrja sig hvað sé réttur stað- ur. Hvernig vitum við hvað er réttur staður?“ segir Eva Rún og tekur fram að það sé harmþrungið að upp- götva að staðurinn sem maður held- ur að sé sá rétti sé það ekki í reynd. „Og allt í einu ertu bara óskila- munur í eigin lífi. Og allt í einu viltu kannski vera óskilamunur í eigin lífi. Svo eru alls konar atburðir og til- finningar sem við gerum ekki upp sem verða eins konar óskilamunir innra með okkur. Það hefur verið mér hugleikið hvernig atvik eða sársauki sem við vinnum ekki með geta ómeðvitað farið að stjórna okk- ur,“ segir Eva Rún og tekur fram að hún sé, eins og margir aðrir, alin upp við að horfa ekki til baka og gráta ekki hið liðna heldur reyna frekar að gleyma erfiðum hlutum. „Oft undir þeim formerkjum að það sé tímsóun að velta sér upp úr hlut- unum. Ég var orðin rígfullorðin þeg- ar ég allt í einu áttaði mig á að allt sem ég hafði lært til huggunar reyndist bara mjög skaðlegt.“ Aðspurð segir Eva Rún það með ráðum gert að sögumanneskja bók- arinnar sé nafnlaus þar sem það gefi lesandanum tækifæri til að fara í sterkara tilfinningalegt ferðalag. Í bókinni er einnig flakkað fram og til baka í tíma og segist Eva Rún hafa hugsað bókina þannig að „um sé að ræða sömu sögumanneskjuna sem flakkar á milli ólíkra tímaskeiða og aðstæðna í lífi sínu,“ segir Eva Rún og áréttar að bókin sé mjög opin til túlkunar. „Það fór mikil vinna í að raða brotunum þannig upp að þau mynduðu sterka heild, enda er eng- inn beinn söguþráður í bókinni.“ Spurð um notkun sína á myndefni í bókinni segir Eva Rún að sér hafi fundist ljósmyndirnar bæta mikil- vægum tóni við sem setji mark sitt á heildina. „Mér fannst ljósmyndirnar skapa ákveðna jarðtengingu á móti húmornum sem birtist stundum í textanum,“ segir Eva Rún og bendir á að myndin af teipaða dyra- símanum tengist í sínum huga tíma- bundnu rofi. „Þegar þú ert að flytja á nýjan stað þar sem allt stendur autt meðan þú ert að mála og hefur teipað dyrasímann þannig að það er ekki hægt að nota hann.“ Leikrit um heimsfaraldur Innt eftir því hvort sér hafi þótt erfitt að skrifa bókina svarar Eva Rún því neitandi. „Sumir kaflarnir kölluðu vissulega á mikið kafferli sem gat verið erfitt. En á sama tíma var þetta nærandi ferli og skemmti- legt. Mesta vinnan fólst í því að koma þessu saman og finna réttu uppbygginguna,“ segir Eva Rún og tekur fram að hún sé markvisst að leika sér að mörkum skáldsögunnar, smásögunnar, ljóðsins, essayjunnar og sannsögunnar. „Brotin úr sviðs- listasenunni sem birtast í bókinni koma til dæmis úr mínu lífi, en er samt greint með tólum skáldskap- arins. Þannig er bókin fyrst og fremst skáldskapur og skrifuð með aðferðum skáldskaparins.“ Aðspurð hvernig sér líki að vera höfundur í miðju jólabókaflóði segist Eva Rún njóta þess að lesa upp. „En allt sem lýtur að því að kynna bók- ina sem vöru sem er til sölu í búðum finnst mér erfitt.“ Spurð hvort hún sé farin að leggja drög að næstu bók svarar Eva Rún því játandi og tekur fram að hún sé alltaf reglulega að punkta hjá sér hugmyndir í minnis- bók. „Síðustu vikur hef ég samt haft mjög lítinn tíma til að skrifa næstu bók vegna anna á öðrum víg- stöðvum,“ segir Eva Rún sem stýrði nýverið sviðslistahátíðinni Lókal og er á lokametrunum með nýtt leikrit sem hún hefur skrifað fyrir Borgar- leikhúsið og ráðgert er að setja upp á næsta leikári. „Þar er um að ræða upplifunar- og heimildarverk um alnæmisfaraldurinn í Reykjavík. Það hefur verið ótrúlega magnað að sökkva sér niður í þetta efni í miðjum heimsfaraldri, sem er auð- vitað allt öðruvísi, en hefur engu að síður vakið upp erfiðar tilfinningar hjá þeim sem upplifðu fyrri farald- urinn og tókust á við þöggun, hræðslu, smitskömm og sorg, sem tók langan tíma að vinna úr.“ Morgunblaðið/Unnur Karen Kaf „Sumir kaflarnir kölluðu vissulega á mikið kafferli sem gat verið erfitt. En á sama tíma var þetta nærandi ferli og skemmtilegt,“ segir Eva Rún. „Fanga þessa sáru tóna“ - Eva Rún Snorradóttir hefur sent frá sér bókina Óskilamunir - Hefur að geyma sögur um ástir sem finnast og tapast og hvernig sársauki mótar okkur Málverk eftir Jóhannes Kjarval af Fjölnis- mönnum, sem áður var í eigu Ragnars í Smára, var í fyrrakvöld selt á uppboði Gallerís Foldar fyrir 10,8 milljónir kr. með höfundar- réttar- og sölugjöldum. Verkið var metið á 8 til 10 milljónir kr. Mörg verkanna sem boðin voru upp fóru á yfirverði. Þar á meðal seldist málverk eftir Georg Guðna sem metið var á 3,2 milljónir kr. fyrir 5,7 milljónir. Verk eftir Egg- ert Pétursson á pappír sem metið var á 600 til 800 þúsund kr. var slegið hæstbjóðanda fyrir 1,2 millj- ónir kr. Þá fékkst einnig hátt verð fyrir verk þekktra einfara mynd- listarinnar; verk eftir Ísleif Kon- ráðsson sem metið var á 600 til 800 þúsund fór til að mynda fyrir meira en helmingi hærri upphæð. Nær 11 milljónir fyrir Fjölnismenn Fjölnismenn eftir Jóhannes Kjarval. Rokk- og blús- gítarleikarinn heimskunni Eric Clapton, sem er einn leigutaka Vatnsdalsár, bar sigur úr býtum í dómsmáli sem hann höfðaði gegn konu í Þýskalandi sem reyndi að selja geisladisk með sjónræningjaupptöku með leik Claptons á tónleikum. Samkvæmt Deutsche Welle sagði konan eig- inmann sinn heitinn hafa átt disk- inn sem hún ætlaði að selja á eBay fyrir tæplega 1.500 krónur. Fyrir dómi kvaðst konan ekki hafa áttað sig á því að um ólöglega upptöku væri að ræða sem bryti á höfund- arrétti listamannsins. Dómarinn sagði það ekki skipta máli að konan hefði ekki keypt diskinn sjálf og var hún dæmd til að greiða lögfræðikostnað beggja að- ila, um hálfa milljón króna. Reyni hún aftur að selja diskinn þarf hún að sitja inn í hálft ár eða greiða um 36 milljónir króna í sekt. Reyndi að selja ólöglega upptöku Eric Clapton

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.