Morgunblaðið - 31.12.2021, Blaðsíða 34
34 STJÓRNMÁL
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 31. DESEMBER 2021
Á
úthallandi vetri árið 1939 þóttu horfur í dýrtíðarmálum
ískyggilegar og hætta á nýrri styrjöld blasti við. Þetta
varð til þess að þrír stærstu flokkar Alþingis mynduðu
svokallaða Þjóðstjórn.
Stjórnin fékk þetta rismikla nafn þótt nýjum sameinuðum
flokki lengst til vinstri á Alþingi væri haldið utan við hana.
Þegar Steinn Steinarr orti sig frá spádómum um hrun „vissra
þjóða og landa“ í Nýju kvæði um stríðið lét hann þessa athuga-
semd fylgja með í lokin:
„En samt er ég viss um eitt, það er það,
að Þjóðstjórnin okkar tapar sínu stríði.“
Sami grundvöllur
Mörg rök mæltu með samstöðu þjóðarinnar á hættutímum.
Vandi Þjóðstjórnarinnar var aftur á móti sá að þrír stærstu
flokkar þingsins voru of ólíkir til að koma sér saman um stefnu. Í
reynd áorkaði Þjóðstjórnin fáu öðru en því að ýta erfiðum
ákvörðunum á undan sér.
Eftir rúm tvö ár sömdu flokkarnir þrír um að endurreisa
stjórnina. Forsætisráðherrann var fáorður en kjarnyrtur þegar
hann lýsti nýjum málefnagrundvelli:
„Alþingi ákveði ekki ágreiningsmálin nú … Stjórnin reyni að
ná samkomulagi um ágreiningsmálin fyrir næsta þing …“
Þremur mánuðum seinna var nýtt þing komið saman og Þjóð-
stjórnin heyrði sögunni til.
Ástæðan fyrir því að ég rifja upp söguna um endurreisn Þjóð-
stjórnarinnar er sú að málefnagrundvöllurinn er efnislega sá
sami og núverandi ríkisstjórn kynnti fyrir skömmu.
Þjóðstjórnin sagði að vísu það sem hún gat sagt í sex máls-
greinum en núverandi ríkisstjórn teygir sama lopa yfir á sextíu
blaðsíður.
Skaðlegasti munurinn
Þessar tvær stjórnir eiga það líka sameiginlegt að hafa náð
saman um þá einu kerfisbreytingu að fjölga ráðherrum og ráðu-
neytum.
Núverandi ríkisstjórn þriggja stærstu flokka Alþingis er hins
vegar ólík Þjóðstjórninni. Hún vann sitt stríð í kosningum á liðnu
hausti.
Hún er líka ólík henni um annað: Þjóðstjórnarflokkarnir slitu
samstarfinu af því að þeir vildu ekki bera ábyrgð á að ýta málum,
sem ekki var samstaða um, á undan sér.
Núverandi stjórnarflokkar hafa hins vegar ákveðið að sitja út
annað kjörtímabil. Alveg óháð því hvort þeir ná saman um þau
ágreiningsefni sem þeir sjálfir frestuðu á síðasta kjörtímabili. Og
náðu heldur ekki saman um þrátt fyrir löng samtöl um nýjan
stjórnarsáttmála.
Þessi frestunarárátta getur orðið skaðlegasti munurinn á
þessum tveimur stjórnum.
Meirihluti á þingi
Þegar faraldurinn skall á myndaðist raunverulegt
þjóðstjórnarandrúmsloft á Alþingi um hvort tveggja; sóttvarnir
og lántökur ríkissjóðs. Allir flokkar vildu brúa bilið fyrir fyrir-
tæki og heimili.
Varðandi önnur stærstu mál á síðasta kjörtímabili kom kyrr-
staðan ekki svo mikið að sök. Ríkissjóður var þá nýbúinn að fá
nokkur hundruð milljarða króna frá erlendum kröfuhöfum og
ferðaþjónustan sá fyrir blússandi hagvöxt.
Nú eru aðstæður aðrar. Það er ekki unnt að ýta ákvörðunum
um öll stóru málin á undan sér í heilt kjörtímabil til viðbótar. Þá
rekur okkur af leið.
Einhverjir kunna að spyrja: En var það ekki einmitt þetta sem
þjóðin kaus? Málefnalega er ég því ósammála.
Eftir síðustu kosningar er að minni hyggju meirihluti fyrir
flestum þeim stóru málum sem mikilvægast er að taka ákvarð-
anir um. Vandinn er að jaðrarnir lengst til hægri og vinstri hafa
hvor um sig neitunarvald við ríkisstjórnarborðið. Á meðan hreyf-
ist ekkert. Hinn svonefndi miðjuflokkur beitir sér síðan lítið, svo
lengi sem hann fær sína ráðherrastóla.
Raunverulegar málamiðlanir
Að ýta öllum ágreiningsmálum á undan sér gengur ekki upp
lengur.
Stjórnarflokkarnir verða því að gera raunverulegar málamiðl-
anir sín á milli til þess að Ísland hafi skýra stefnu og viti eftir
hvaða striki á að sigla. Einn flokkur gefur þá eftir prinsippmál á
einu sviði gegn því að fá framgengt prinsippmáli á öðru sviði.
Það er í þessu ljósi sem ég set hér fram tillögu til málamiðl-
unar fyrir ríkisstjórnina á tveimur sviðum þar sem jaðarflokkar
hennar hafa ekki komið sér saman. En meirihluti á Alþingi er
ótvíræður.
Orkunýting
Fyrra málið snýr að aðgerðum í loftslagsmálum. Þau eru
stærsta viðfangsefni næstu ára. Lítill ágreiningur er um þau
markmið sem fram koma í stjórnarsáttmálanum þótt metnaður
mætti vera meiri. En það er efast um árangurinn því ekkert
samkomulag er á milli stjórnarflokkanna um leiðir. Þar er engin
sannfærandi aðgerðaáætlun.
Umhverfis-, loftslags- og orkuráðherra sagði í fréttum Ríkis-
útvarpsins fyrir hátíðar að lausnin byggðist á samtali okkar
allra. Kosningarnar á liðnu hausti voru einmitt lýðræðislegur
vettvangur fyrir það samtal. Sumir gleymdu því. En mitt fram-
lag í það samtal er áfram þetta:
Til þess að vera forysturíki í orkuskiptum þurfum við að flytja
og framleiða meira rafmagn. Tryggja innviðina. Það þurfum við
líka að gera til þess að auka verðmætasköpun í margvíslegum
hugverkaiðnaði sem byggist á orkunotkun.
Þetta vilja allir. En það er ágreiningur um leiðir. Það er meiri-
hluti á Alþingi fyrir nauðsynlegum virkjunum til þess að ná
þessu tvíþætta markmiði. Í samræmi við rammaáætlun. En til
þess að hann geti orðið virkur þarf VG að falla frá stífri andstöðu
við öll ný skref.
Ákvarðanir um þetta þarf að taka á fyrri hluta næsta árs
þannig að unnt verði að áfangaskipta framkvæmdum til ársins
2030. Málþóf milli stjórnarflokkanna fram yfir mitt kjörtímabil
er of dýru verði keypt.
Nýting fiskistofna
Síðara málið lýtur að breytingum til að ná friði um stjórnkerfi
fiskveiða. Þar er komið að Sjálfstæðisflokknum að láta af and-
stöðu við allar breytingar í staðinn fyrir framgang í orkumálum.
Það er ríflegur þingmeirihluti fyrir tímabindingu veiðirétt-
arins, eðlilegu gjaldi fyrir einkarétt og nýjum reglum til þess að
auka gegnsæi, hindra of mikla samþjöppun og tryggja dreifðari
eignaraðild. Það má líka ætla drjúgan stuðning á þingi við mark-
aðsgjald fyrir veiðiheimildir en hátt í 90 prósent þjóðarinnar
styðja þá leið.
Ákvarðanir um þessar mikilvægu breytingar er unnt að taka á
vorþinginu samhliða ákvörðunum um nauðsynlega orkuöflun.
Frumvörpin eru til.
Viðreisn hefur flutt frumvörp um öll þessi efni. Svipað má
segja um Samfylkingu. Framsókn hefur kynnt frumvarp um
tímabindingu veiðiheimilda. Og Jón Gunnarsson innanríkis-
ráðherra hefur talað fyrir útfærðum tillögum um að setja ákveð-
inn hluta veiðiheimilda á markað. Þorgils Óttar Mathiesen, fyrr-
verandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, mælti
svo á dögunum fyrir svipaðri lausn og Viðreisn hefur kynnt.
Málamiðlun af þessu tagi er eina leiðin fyrir nýjan sjávar-
útvegsráðherra til að komast hjá því að skila sjávarútvegsráðu-
neytinu í sömu sporum og hún tók við því.
Málþóf
Við verðum að hafa hugfast að við stöndum ekki á byrjunar-
reit. Allt síðasta kjörtímabil var einn langur biðleikur á báðum
þessum sviðum.
Vitaskuld þarf að taka með sams konar hætti á miklu fleiri
málum. Ég nefni þessi tvö viðfangsefni vegna þess að mikilvægi
þeirra verður ekki dregið í efa og afdráttarlaus meirihluti er fyr-
ir lausnum af þessu tagi. Ef jaðarflokkarnir falla frá neitunar-
valdi sínu sem þeir hafa beitt óspart.
Stundum fer stjórnarandstaða í málþóf þegar ríkisstjórn býr
sjálfri sér tímaþröng með því að stefna öllum málum til af-
greiðslu á sama tíma. Það er ekki gott verklag. Hitt er þó enn
verra þegar ríkisstjórnarflokkar eru í málþófi við ríkisstjórnar-
borðið kjörtímabil eftir kjörtímabil. Það reynist þjóðinni dýr-
keypt.
Áramótaheit
Á síðasta kjörtímabili losnaði ekki um andstöðu við þriðja
orkupakkann í þingflokki sjálfstæðismanna fyrr en formenn Við-
reisnar og Samfylkingar skrifuðu forsætisráðherra bréf og buð-
ust til að tryggja framgang málsins. Það dæmi sýnir að óvenju-
legar en málefnalegar leiðir stjórnarandstöðu geta virkað vel.
Tillaga mín um málamiðlun fyrir ríkisstjórnarflokkana miðar
að því að leysa tvo mikilvæga hnúta á vorþinginu. Það yrði alvö-
ruskref fram á við. Sammæli um það væri gott áramótaheit.
Ég óska landsmönnum, til sjávar og sveita, farsældar og friðar
á komandi ári.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Málamiðlun fyrir stjórnarflokkana
„Vandinn er að jaðrarnir lengst til hægri og
vinstri hafa hvor um sig neitunarvald við
ríkisstjórnarborðið. Á meðan hreyfist ekkert.“