Morgunblaðið - 17.01.2022, Page 10
SVIÐSLJÓS
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Sterkir hverfiskjarnar með versl-
unum og aðstæður til samveru til
dæmis á kaffihúsum eða í félags-
aðstöðu. Blöndun íbúða og atvinnu-
húsnæðis, fjölgun íbúða og bættar
tengingar milli svæða. Umferðarör-
yggi og aðgerðir gegn umferðar-
hávaða og mengun frá bílum. Þessi
atriði og mörg fleiri eru í deiglunni í
nýju hverfisskipulagi fyrir Breið-
holtshverfi í Reykjavík sem sam-
þykkt var nýlega. Vistvæn og
heilsueflandi svæði eru inntak
skipulagsins, sem varð til eftir sam-
ráð við íbúa sem hófst fyrir sjö ár-
um.
Blönduð byggð í nýrri
og breyttri Mjódd
„Mér finnst útkoman góð og ég er
spennt fyrir framhaldinu,“ segir
Sara Björg Sigurðardóttir, formað-
ur íbúaráðs Breiðholts, í samtali við
Morgunblaðið. Búið er að sam-
þykkja hverfiskipulagið en á fyrri
stigum var haft ítarlegt samráð við
íbúa vegna skipulagsvinnunnar og
hugmynda leitað.
Í krafti skipulagsins eru ýmis
spennandi verkefni komin á hug-
myndastig. Til stendur að reistur
verði leikskóli með aðkomu við
göngugötu við Drafnarfell sem og
við Völvufell. Þar verða byggðar
námsmannaíbúðir og sérbýli á
grænum þróunarlóðum. Ásýnd
Austurbergs og Gerðubergs mun
taka stakkaskiptum og á þeim slóð-
um verður hugsanlega reist fim-
leika- og danshús.
Við Arnarbakka er fyrirhuguð
uppbygging 90 íbúða, náms-
mannaíbúða sem og almennra íbúða
sem og þjónusturýmis á jarðhæð.
Að auki er gert ráð fyrir gróður-
húsum og matjurtagörðum. Í Selja-
hverfi er þróunarreitur nærþjón-
ustu við Rangársel, bætt íþrótta-
aðstaða í Vetrargarði austast í
hverfinu og svo er mikil uppbygging
á ÍR-svæðinu. Í nýrri og breyttri
Mjódd verður blönduð byggð, þjón-
ustu- og atvinnuhúsnæðis nærri við-
komustað borgarlínu, sem er
væntanleg árið 2026.
Umgjörð fyrir heilbrigðara líf
Sara Björg væntir þess að fyrstu
framkvæmdir skv. hverfisskipulag-
inu verði efling hverfis- og þjón-
ustukjarnana við Arnarbakka og
Völvufell. Með því að efla kjarna
innan hverfishluta og styrkja
byggðina í kring með blöndun íbúða
og atvinnuhúsnæðis gefist íbúum
kostur á að skilja bílinn eftir heima
og sækja þjónustu hjólandi eða
gangandi í skóla, leikskóla, mat-
vörubúðir, tómstundastarf, sund-
laugina eða gróin græn svæði.
„Fimmtán mínútna hverfið verð-
ur til með minni umferð, meiri loft-
gæðum og meira öryggi fyrir gang-
andi og hjólandi. Umgjörð er
sköpuð fyrir heilbrigðara líf,“ segir
Sara Björg.
Í alþjóðlegt samfélag 21. aldar
Í Breiðholtshverfi búa um 22 þús-
und manns og liðlega fjórðungur
íbúanna er af erlendu bergi brotinn.
Það fólk býr mikið til dæmis í
Bakkahverfi Neðra-Breiðholts og í
Efra-Breiðholtinu í Fellum og Hól-
um. Þriðji hluti byggðarinnar er
Seljahverfi, þar sem sérbýlishús eru
áberandi.
„Það besta við Breiðholt er þró-
unin sem tekið hefur hverfið inn í al-
þjóðlegt samfélag 21. aldar. Hverfið
hefur gerbreyst frá því ég æfði sund
í Breiðholtslaug sem barn. Máttur
nærsamfélagsins er mikill, nálægð
fólks er mikil í gegnum börnin á
göngum leikskólans, á viðburðum í
grunnskólanum, úti á íþróttavelli
eða í sundlauginni. Einstök sam-
vinna og eining hefur verið í mörg
ár innan foreldrafélaga grunnskól-
anna í hverfinu og íþróttafélaganna.
Velvild til hverfisins sést kannski
best í hverfishátíðum tengdum 17.
júní þar sem íbúar, foreldra- og
íþróttafélög hafa tekið höndum sam-
an til að gleðja fólkinu í hverfinu,“
segir Sara og að lokum:
Íbúar bjóða alla
velkomna í hverfið sitt
„Þetta segir mér að íbúum er
annt um hverfið sitt, vilja breiða út
faðminn og bjóða öll velkomin.
Þarna birtist styrkur nærsam-
félagsins í sinni fegurstu mynd.
Breiðholtið er að mínu mati eitt best
heppnaða hverfi borgarinnar. Mér
hefur alltaf fundist það umvefja
hvern hverfishluta á sinn einstaka
hátt. Svo er það náttúrperlan El-
liðaárdalur, með þéttriðnu stíga-
kerfi. Sannkölluð útivistarparadís í
miðri höfuðborg, þar sem hægt er
að sjá stökkvandi laxa og fjölbreytta
fuglafánu. Slíkt sé ekki í mörgum
höfuðborgum heimsins, ef þá nokk-
urri. Hvað varðar almennings-
samgöngur þá eru Breiðhyltingar
líka mjög heppnir að hafa Mjóddina
í hverfinu. Sérstaklega þegar borg-
arlínan kemur, þá verður alger um-
breyting fyrir íbúa hverfisins að
komast á milli staða og hverfa og
skilja bílinn eftir heima.“
Hverfiskjarnar og vistvæn svæði
- Breiðholtinu verður breytt - Hverfisskipulag samþykkt - Heilsuefling og umferðaröryggi eru
áherslumál - Þjónustan í nærsamfélaginu - Fimmtán mínútna hverfið - Sérbýli á grænum reitum
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Íbúaráð Styrkur nærsamfélagsins í sinni fegurstu mynd. Breiðholtið er að
mínu mati eitt best heppnaða hverfi borgarinnar, segir Sara Björg.
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Flugsýn Horft yfir Hólahverfið. Í Breiðholtshverfinu öllu búa um 22 þúsund
manns og liðlega fjórðungur þess stóra hóps fólks er af erlendum uppruna.
10 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 17. JANÚAR 2022
Arnar Pétursson, frjálsíþróttamað-
ur úr Breiðabliki, og Tinna Sif
Teitsdóttir, fimleikakona úr
Gerplu, voru á dögunum valin
íþróttakarl og íþróttakona Kópa-
vogs fyrir árið 2021. Valinu var lýst
á íþróttahátíð Kópavogs hvar þau
fengu farandbikar og eignarbikar,
jafnframt því sem Ármann Kr.
Ólafsson bæjarstjóri afhenti þeim
hvoru um sig 200 þúsund króna
ávísun í viðurkenningarskyni frá
Kópavogsbæ.
Arnar og Tinna Sif voru valin úr
hópi 46 íþróttamanna sem fengu
viðurkenningu íþróttaráðs eftir til-
nefningar frá íþróttafélögunum í
Kópavogi.
Ástríða fyrir íþróttinni
Á árinu 2021 vann Arnar alls níu
Íslandsmeistaratitla. Þetta gerði
hann í mismunandi greinum allt frá
1.500 metra hlaupi innanhúss og
upp í heilt maraþon úti. Hann sigr-
aði einnig í 800 m hlaupi á Reykja-
vík International Games 2021. Arn-
ar hefur samtals orðið 45 sinnum
Íslandsmeistari í langhlaupum á
löngum ferli sínum. Arnar var val-
inn frjálsíþróttakarl ársins 2021 hjá
Breiðabliki jafnframt því að vera
útnefndur götuhlaupari ársins af
Frjálsíþróttasambandi Íslands.
Tinna Sif Teitsdóttir varð
Evrópumeistari í hópfimleikum
kvenna með íslenska landsliðinu í
desember sl. „Þar var hún mikil-
vægur hlekkur í úrslitakeppninni
er hún skilaði flottum umferðum á
dýnustökki og var með frábærar
gólfæfingar,“ segir í tilkynningu.
Hún er uppalin Gerplukona sem
hóf ferilinn í áhaldafimleikum og
náði að vinna til fjölda Íslands- og
bikarmeistaratitla í þeirri grein.
Flokkur ársins 2021 var kjörinn
meistaraflokkur Breiðabliks í
knattspyrnu kvenna. Liðið varð
bikarmeistari í knattspyrnu á árinu
og náði einnig að komast í riðla-
keppni Meistaradeildar kvenna.
Fimleikakona og karl í frjálsum
- Arnar og Tinna Sif valin íþróttafólk ársins í Kópavogi
Ljósmynd/Kópavogsbær
Afreksfólk Tinna Sif Teitsdóttir og
Arnar Pétursson eru í fremstu röð.
Mannlífið í Breiðholti endur-
speglar stefnu og strauma al-
þjóðasamfélagsins. „Við erum svo
heppin að fá þennan fjölbreytta
hóp fólks til að setjast að í hverf-
inu og taka þátt í samfélaginu,“
segir Sara Björg. Þar minnir hún á
að í verslunuum í hverfiskjarna við
Lóuhóla sé til dæmis hægt að
finna sýrlensk sápustykki, krydd,
hunang, baunir og fleira slíkt mat-
arkyns frá Mið-Austurlöndum,
heimareykt beikon, kæfu og steik-
ur í Póllandi og ávexti frá Afríku.
„Sú dýnamík sem fjölbreytt
íbúasamsetning skapar, það er
frumbyggja í bland við fólk af er-
lendum uppruna, hefur með öðru
kannski ýtt undir ákall um upp-
byggingu og breytingar innan
hverfiskjarna sem margir eru
komnir á tíma. Hugsunin er meðal
annars að einfalda líf borgarbúa
með komandi kynslóðir í huga,“
segir Sara Björg.
Áherslur borgarinnar í skóla- og
velferðarmálum segir Sara Björg
að taki eðlilega mið af samsetn-
ingu íbúa í hverju hverfi. Félags-
legar áskoranir og verkefni þeim
tengd finnist alls staðar þar sem
fólk býr. Borgin hafi frá árinu 2015
í raun lyft grettistaki í málefnum
barna með annað móðurmál. Sér-
stakur hópur sinni því að byggja
brú milli fjöltyngdra barna, for-
eldra þeirra og skólanna. Samhliða
taki börnin þátt í frístundastarfi
frá sínum fyrsta degi í sínum
heimaskóla og geti byrjað að
mynda vinatengsl frá byrjun skóla-
göngu. Nýsamþykkt menntastefna
borgarinnar opnar á nýjar leiðir í
kennslu og nýsköpun, líkt og farn-
ar séu í Fellaskóla.
„Markmiðið er að nemendum
bjóðist framúrskarandi menntun,
þeir nái góðum árangri þannig að
þeir geti látið drauma sína ræt-
ast,“ segir Sara Björg.
Krafturinn felst í fjölbreytni
HVERFISSKIPULAGIÐ EINFALDI LÍF BREIÐHOLTSBÚA
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Veisla Framandi réttir kynntir á fjölmenningarhátíð sem var í Breiðholtsskóla fyrir
nokkrum misserum. Ekki er ofsagt að hverfið hafi um margt alþjóðlegt yfirbragð.
Nú finnur þú
það sem þú
leitar að á
FINNA.is