Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - May 2016, Page 9
9Siglfirðingablaðið
sem við bjuggum þangað til núna í
desember þegar við fluttum aftur
til Kristianstad. Þetta er sannkallað
flökkulíf sem maður lifir og maður
veit aldrei hvert leiðin liggur næst.
Sannkallað ævintýri og maður kemur
vonandi heim einn daginn nokkrum
tungumálum ríkari.
Lífið og tilveran
Við fjölskyldan höfum það alveg
ótrúlega gott hér í Svíþjóð og erum
miklir aðdáendur Svía og Svíþjóðar.
Hér í Kristianstad búa margir
Íslendingar og til að toppa allt var
Bjarni Mark bróðir minn að flytja
hingað líka og ætlar að spila með
fótboltaliði bæjarins. Ég er einmitt
sjúkraþjálfari hjá fótboltaliðinu sem
heitir því skemmtilega nafni KFC,
en ég vinn einnig á stofu hérna í
bænum. Óli spilar svo handbolta með
IFK Kristianstad en handboltaliðið
er einmitt stærsta áhugamál allra
bæjarbúa og hér er slegist um alla
5000 miðana sem eru í boði á hvern
leik. Allir mæta í appelsínugulu svo
stemningin er alveg ótrúleg. Það er
ákveðin upplifun að mæta á leiki
hér og ég hef ekki upplifað svona
stemningu áður á handboltaleik.Ólína
er svo byrjuð í fjórða leikskólanum
með þriðja tungumálið, og hún er
aðeins 3ja ára! Sem betur fer eru
börn fljót að tileinka sér nýja hluti
og þurfa oft ekki tungumálið til að
eiga samskipti. Núna svarar hún á
þýsku þegar hún er ávörpuð á sænsku.
Við höfum alltaf lagt mikla áherslu
á íslenskuna hjá henni og finnst
mikilvægt að hún nái góðum tökum
á henni, enda er alltaf planið að koma
“heim” einn daginn.
Framtíðarplön
Eins og staðan er núna erum
við ekki á heimleið í bráð og ef allt
gengur vel og heilsan er í lagi gætum
við alveg átt 10 ár eftir erlendis.
Planið núna er að vera í Svíþjóð
í allavega eitt ár í viðbót, ef ekki
tvö, en maður veit reyndar aldrei í
þessum handboltaheimi. Okkur líður
mjög vel hér og í raun langar okkur
ekki heim strax. Það er ótrúlega
þroskandi og skemmtilegt að prófa
að búa erlendis, kynnast öðruvísi
menningu og læra ný tungumál.
Auðvitað saknar maður samt
fjölskyldunnar og vinanna. Ég þakka
bara fyrir nútímasamskiptatækni og
hvað foreldrar mínir eru duglegir að
heimsækja okkur.
Heim – í fjörðinn fagra
Ég gæti alveg hugsað mér að flytja
til Siglufjarðar og sérstaklega þegar
æskuvinirnir eru að flykkjast aftur
heim í fjörðinn fagra. Ég myndi alveg
vilja að börnin mín upplifðu að alast
upp á svona stað, en ætli þau verði
ekki bara send í sveit til ömmu og afa!
Mér þykir alltaf vænt um Siglufjörð og
mér finnst ekkert betra en að koma
heim til mömmu og pabba í frí. Margir
úr stórfjölskyldunni, amma og afi, búa
líka ennþá á Siglufirði og margar af
æskuvinkonunum eru fluttar heim
aftur svo það gerir þetta ennþá betra.
Það hefur hjálpað mér í gegnum
lífið, bæði í skóla og vinnu, að hafa
alist upp við frelsið og sjálfstæðið sem
maður hafði sem barn. Maður lærði
líka að vinna og að vera dugleg enda
hef ég oft heyrt að fólk utan af landi
er eftirsótt í vinnu.
Uppbyggingin sem hefur verið á
Siglufirði síðustu ár er alveg frábær
og gleður mig mjög að fylgjast með
þessari þróun. Ég segi stolt frá
heimabænum mínum hvar sem ég
er og hvet alla til þess að heimsækja
fallegasta stað í heimi. Ég get líka
sagt það að ég er stoltur Siglfirðingur
og vinir mínir gera oft grín að því
hvað ég er með mikið af myndum af
Siglufirði uppi á vegg hjá mér. Það þarf
náttúrulega ekki að taka það fram, við
komum jú frá nafla alheimsins!