Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - May 2016, Page 22

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - May 2016, Page 22
22 Siglfirðingablaðið þar sum árin. Ungt og bjartsýnt fólk hafði flykkst til bæjarins og líklega var meðalaldurinn í bænum á þessum tíma mun lægri en víðast hvar annars staðar á landinu. Þessir risastóru árgangar hurfu síðan að mestu leyti á braut. Allir voru allt í einu að flytja suður, foreldrar þeirra fluttu líka suður og atvinnan var líka á leið suður. Starfsemi litla safnaðarins við Hverfisgötuna fór líka ört minnkandi um og upp úr 1950 þegar meðlimir safnaðarins fluttust flestir suður. Samkomuhúsið var selt árið 1962 og kaupandinn var maður í næsta húsi sem vildi hýsa bílinn sinn innan dyra yfir veturinn. Ragnar Sveinsson sem bjó þá að Hverfisgötu 8, var tengdasonur Þórðar á vélaverkstæði SR sem byggði það glæsilega hús. Hann rauf helgidóminn að ofan verðu, opnaði þar vegg og setti á hann bílskúrshurð. Árin á eftir varð húsið nýtt sem bílageymsla Ragga og nokkurra annarra. Kannski hafa Aðventistar rétt eins og svo margir aðrir beðið þess að síldin kæmi aftur, bærinn öðlaðist sína fyrri reisn, fólkið kæmi aftur heim og safnaðarstarfið hæfist á ný. Ég veit ekki, en þá hefur vonin um það sennilega slokknað endanlega árið 1970 þegar söfnuðurinn á Siglufirði var formlega lagður niður. Ég kom nokkrum sinnum þarna inn á sjöunda áratugnum þegar ég var lítill gutti á Brekkunni og sá tvenna ólíka tíma mætast þar innan dyra þó ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu síðar. Þróin eða laugin sem notuð var til skírnar eða niðurdýfinga sóknarbarnanna og verkfæri upp við vegg, gamlir kirkjubekkir og smurning á gólfi, kvistótti panellinn á veggjunum málaður daufum litum og brotnar og skítugar rúður í gluggum. Súrrealískt sambland þess sem áður hafði verið og þess sem tók síðan við. Þegar Raggi og Erla flytja suður ásamt börnum sínum eins og svo margir höfðu gert á undan þeim, kaupir Jónas Björns Hverfisgötu 8 og Aðventistakirkjan fylgir með í pakkanum. Jónas notaði húsið á sama hátt og fyrri eigandi hafði gert, en það var rifið upp úr 1980. Nú er þarna malbikað bílastæði og ekkert minnir á það sem einu sinni var og hét. Leikvöllur og miðpunktur alls Á mínum uppvaxtarárum gegndi kirkjuhúsið þó allt öðru hlutverki en rakið er hér að framan. Ef leikir okkar krakkanna á Brekkunni fóru ekki fram uppi í fjalli, niðri á bryggjum eða suður á öskuhaugum, var Aðventistakirkjan miðdepill leikja okkar og kennslustaður lífsleikninnar sem í þá daga hafði ekki öðlast þann virðulega sess að vera orðið sérstakt fag sem kennt er í skólum. Á hlýjum og björtum sumarkvöldum varð oft fjölmennt þarna og ýmsir leikir iðkaðir sem sumir hverjir eru um það bil að falla í gleymsku. „Salt og brauð“ fyrir Jónu, Steina, Sigrúnu eða Kristjönu einn, tveir og þrír, heyrðist stundum kallað frá kirkjutröppunum, týpýskur „feluleikur“ og „nafnabolti“ eða „nafnagáta“. Hvernig var það nú aftur. Jú, ég þarf aðeins að rifja þetta upp. Einn stjórnaði og hinir stóðu í röð. Sá sem stjórnaði var með lítinn bolta og var búinn að ákveða eitthvert mannsnafn. Hann eða hún kastaði boltanum til fyrsta manns og sagði t.d. karlmannsnafn sem byrjar á Þ. Viðkomandi giskaði þá á eitthvert nafn og ef það var ekki rétt í fyrstu umferð, var bætt við næsta staf, t.d. o. Þá var komið Þo. Mjög líklega kom r, næst á eftir. Þorsteinn, Þorgeir, Þorgrímur... Auðvitað var oft reynt að hafa eitthvert flókið nafn, en áfram var haldið þangað til nafnið var komið. Mig minnir að stjórnandinn hafi hent frá sér boltanum og sá sem gat rétta nafnið þurfti síðan að ná honum, henda í stjórnandann og hitta hann til að ná stjórninni. Þetta var vinsæll leikur og góð stafsetningarkennsla. Það var hún Jóna Möller sem rifjaði þennan leik upp fyrir mig. „Yfir“ var þó líklega vinsælasti leikurinn, enda hentaði húsið alveg sérlega vel til iðkunar hans. Það var svo hæfilega hátt, þakið passlega bratt og ágæt aðstaða beggja megin. Hópnum var skipt í tvö lið, yngri krakkarnir voru gjarnan fyrir ofan, en þeir eldri og stærri fyrir neðan. Bolta var kastað yfir mæninn og kallað YFIR. Þá átti að grípa hann hinum megin, hlaupa fyrir annað hvort hornið og reyna að hitta einhvern í mótliðinu. Við það fækkaði smátt og smátt í liðunum þar til sigurvegarinn stóð einn eftir. Ég man að einu sinni átti Nonni Sæm sem bjó þá í sama húsi og ég, leið fram hjá og við báðum hann að kasta fyrir okkur. Nonni var einstaklega stór og kraftmikill maður. Hann tók glottandi við boltanum, tók vel á og við sáum hann fljúga af stað áleiðis til skýjanna. Fyrstu viðbrögð hinum megin var löng þögn, en svo kom hópurinn niður fyrir og spurði í forundran; „hver kastaði eiginlega, boltinn er einhvers staðar uppi á Hávegi“. Brekkuguttar, líklegast sumarið 1966. Frá vinstri: Heiðar Elíasar, Birgir Óla (Geirs), Skúli Jóhannesson, Hemmi Jónasar, tveir óþekktir, Guðni (aftan), Jói (framan) Jóhannessynir, Raggi Ragg, Óli Kára og Kobbi Kára

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.