Feykir - 15.12.2021, Blaðsíða 18
18 48/2021
Við óskum lesendum Feykis
og landsmönnum öllum
gleðilegra jóla
og góðs nýs árs
Nokkur orð á aðventu 2021
AÐSENT | Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Kæri lesandi.
Nú þegar líður að jólum þá
kvikna svo margar minningar
tengdar þessum göldrótta
árstíma þegar sólin dregur sig
í hlé og gefur myrkrinu eftir
sviðið að mestu. Á síðari tím-
um hafa orðið til minningar
sem margar tengjast löngum
setum í þinghúsinu við
Austurvöll. Það er alltaf
eitthvað hátíðlegt við störfin
í þinghúsinu á þessum tíma
og orðaskak þingmanna á
einhvern hátt innilegra og
blíðara þótt hart sé oft tekist á.
Árið 2021 kveður nú brátt.
Það hefur tekið á fyrir okkur
flest en faraldurinn hefur breytt
lífi okkar um stund. Það er
þó ánægjulegt að betur hefur
gengið en við áætluðum að
koma hjólum atvinnulífsins af
stað þrátt fyrir ýmsar brekkur.
Það er alltaf ánægjulegt
að taka þátt í kosningum til
Alþingis. Kosningabaráttunni
fylgja ferðalög um allt land
þar sem ég hef notið þess að
hitta fólk sem hefur brennandi
áhuga á samfélaginu okkar og
sterkar skoðanir á því hvert
það stefnir og hvaða leiðir séu
ákjósanlegastar. Ég er virkilega
þakklátur fyrir þann stuðning
sem við í Framsókn fengum um
land allt.
Framtíðin er spennandi
þótt mörg krefjandi verkefni
séu framundan. Í stjórnarsátt-
málanum eru loftslagsmálin
áberandi enda er loftslagsváin
það verkefni sem brýnast er í
heiminum í dag og næstu ár
og áratugi. Fólk hefur áhyggjur
og á það sérstaklega við um
unga fólkið sem sér framtíð
sinni ógnað. Heiminum verður
ekki bjargað með því að hafa
áhyggjur. Óttinn getur haft
lamandi áhrif. Þess vegna er
sá tónn sem sleginn er í nýjum
stjórnarsáttmála tónn vonar
og bjartsýni. Við ætlum að
nýta þær einstöku aðstæður
sem við búum við á Íslandi,
þá þekkingu sem við höfum á
endurnýjanlegum orkugjöfum
og þann kraft sem býr í fólki
og atvinnulífi til að leysa þau
verkefni sem að okkur snúa og
gefa öðrum verkfæri til að draga
úr notkun jarðefnaeldsneytis.
Við leggjum áherslu á að orku-
skiptin eru sameiginlegir hags-
munir og að þeim verði náð með
jöfnuði og réttlæti að leiðarljósi.
Ég hef þá bjargföstu trú að
næstu ár verði okkur gjöful
á Íslandi. Tækifærin eru víða
og ekki síst á landsbyggðinni
þar sem þekking og reynsla af
höfuðatvinnuvegunum er mest.
Nýr dráttarbátur er nýkominn í
skagfirska höfn og fyrir dyrum
stendur uppbygging hafnar-
innar svo eitthvað sé nefnt.
Í stjórnarsáttmálanum er
sleginn nýr tónn þegar kemur að
uppbyggingu atvinnutækifæra
hringinn í kringum landið. Það
á einnig við um hið opinbera
en síðustu fjögur árin hefur
hugmyndin um störf án
staðsetningar náð miklu flugi
enda mikilvægur þáttur í því að
gefa fólki aukna möguleika á því
að velja sér hvar það vill búa. Í
stjórnarsáttmálanum segir að
„til að styðja við byggðaþróun
og valfrelsi í búsetu verði störf
hjá ríkinu ekki staðbundin
nema eðli starfsins krefjist
þess sérstaklega.“ Þessi orð
marka að mörgu leyti tímamót
í viðhorfi til starfa hjá ríkinu.
Ekki er talað um störf án
staðsetningar sem sérstakt atriði
heldur er hugsuninni snúið við:
sérstaklega þarf að rökstyðja að
störf séu staðbundin. Þetta er
stórt mál. Einnig ætlum við að
styðja við klasasamstarf hins
opinbera og einkaaðila til að búa
til starfsaðstöðu á lykilstöðum á
landinu en fyrsta verkefnið af
þessu tagi er að hefjast á Selfossi.
Lesandi góður, ég vona að
aðventan verði þér góð og að
þú njótir jólahátíðarinnar með
þínum nánustu.
Sigurður Ingi Jóhannsson,
formaður Framsóknar og
innviðaráðherra.
Stillt upp fyrir myndatöku með eyjarnar fögru í baksýn. AÐSEND MYND
VÉLAVERKSTÆÐI
Molduxar