Morgunblaðið - 19.05.2022, Síða 47
Þegar ég horfi til baka og skoða
gamlar myndir af okkur saman
skín bæði gagnkvæmt traust og
vinátta úr andlitunum. Vinátta
sem hefur þróast og þroskast með
árunum yfir í einstakt samband
sem einkenndist af hreinskiptnum
og góðum samskiptum. Við gátum
alltaf talað um allt milli himins og
jarðar hvort sem það voru stóð-
hestar eða stjórnmál, það voru öll
umræðuefni heimsins undir.
Stundum sammála og stundum
ekki. Það er í raun ekki svo langt
síðan ég áttaði mig á því hvað öll
þessi samtöl og þessar samveru-
stundir hafa mótað mig og gert
mig að þeirri manneskju sem ég
er. Flestar þessar minningar og
samverustundir sem við áttum
saman voru í hesthúsinu eða á
hestbaki. Með þér steig ég mín
allra fyrstu skref í hestamennsku
og var hvorki stór né gömul. Fyrst
um sinn í taumi en fljótlega gafstu
mér tækifæri til að prófa mig
áfram og eflast sem reiðmann. Ég
man eftir stoltinu sem ég fylltist
við að fá að prófa nýja og meiri
hesta og þeirri tilfinningu að ég
væri fullfær um að ráða við verk-
efnið. Aldrei fann ég fyrir óöryggi
eða hræðslu af því ég vissi að þú
varst með mér. 5 ára mér fannst
ég algjörlega ósigrandi og ég gat
ekki ímyndað mér neina hesta
sem ég ekki gæti riðið. Það er
ómetanlegt að finna að einhver
hafi óbilandi trú á manni eins og
þú hafðir á mér og með það í far-
teskinu eru manni allir vegir fær-
ir. Þín hvatning og stuðningur hef-
ur oft fleytt mér langt.
Það má segja að það hafi verið
táknrænt að eftir erfiðan og lang-
an vetur þar sem heilsu þinni
hrakaði smátt og smátt kom svo
vorið með sólargeislum og fugl-
söng og sótti þig.
Vorið var einmitt besti tíminn
sem við áttum saman. Þá voru
hestarnir komnir í betra form og
við gátum farið í lengri reiðtúra og
áð við lækinn. Þar kenndir þú mér
að þekkja fuglana og leita eftir
hreiðrum. Í öllum hestaferðunum
þar sem þú sýndir mér hvernig
væri best að lesa landið, finna
bestu leiðirnar og finna réttu vöð-
in yfir árnar. Þú smitaðir mig
snemma af því að bera virðingu
fyrir bæði náttúrunni og dýrum og
að þekkja mikilvægi þess menn-
ingararfs sem færist á milli kyn-
slóða með hvoru tveggja.
Þó að það sé erfitt að kveðja þá
get ég ekki annað en verið þakklát
fyrir allar þær dýrmætu og góðu
minningar með við höfum skapað
saman. Þeim gleymi ég aldrei.
Einskis gæti ég óskað minni dóttur
heitar en að eiga afa sem leiðir hana
í gegnum lífið eins og þú leiddir
mig, það eru mikil forréttindi.
Elsku afi, takk fyrir allt. Ég
veit þú bíður mín með hlýjan faðm
þegar við hittumst næst.
Freyja.
Minningarnar koma upp í hug-
ann nú þegar Ásgeir frændi er all-
ur, föðurbróðir okkar og vinur í
áratugi.
Bernskuminningarnar eru frá
Herjólfsgötunni hjá ömmu og afa
og fjölskyldum systkinanna,
pabba, Nínu, Sirrý og Geira, jóla-
og fjölskylduveislur. Ásgeir glæsi-
legur ungur maður með Mæju
sinni og og ungum börnum,
Simma, Gumma, Þóru og síðan
Ágeiri. Seinna urðu fjölskylduboð-
in á heimilum pabba og systkina
hans og var alltaf spenningur að
mæta í Hrauntunguna til Mæju og
Geira, glæsilegt heimili þeirra
hjóna. Þarna fann maður strax að
Ásgeir hugsaði vel um fjölskyldu
sína, einbeittur í sínu starfi og
kominn með sitt eigið trésmíða-
verkstæði á Eiríksgötunni, mjór
er mikils vísir, trésmíðaverkstæð-
ið varð að húsgagnaverksmiðju.
Fyrst byggði hann í Auðbrekk-
unni, síðan á Skemmuveginum.
Að lokum byggði hann glæsilega
og fullkomna verksmiðju í Bæjar-
lindinni þar sem fjölskyldufyrir-
tæki hans starfar enn 66 árum eft-
ir að starfsemin hófst á
Eiríksgötunni.
Þeir bræður Ásgeir og pabbi
voru ágætis vinir og studdu hvor
annan, pabbi byggingarmeistar-
inn sem aðstoðaði litla bróður hér
á árum áður við byggingu
húsanna í Hrauntungunni, Auð-
brekkunni og Skemmuveginum.
Seinna þegar pabbi hrasaði á lífs-
leiðinni voru Ásgeir og Mæja hon-
um stoð og stytta, kærar þakkir,
elsku frændi.
Við erum strax farnir að sakna
samverustundanna sem við áttum
í gegnum árin með Geira, aðallega
í Bæjarlindinni þar sem málin
voru rædd í kjölinn, skipst á skoð-
unum, pólitík, fyrirtækjarekstur,
fjölskyldumál og annað sem snert-
ir lífið og tilveruna. Menn oft á tíð-
um með sterkar skoðanir, stríðni
inn á milli, kannski hækkaður
rómurinn en alltaf voru kveðju-
stundirnar hlýjar.
Það er með virðingu, hlýju og
góðum minningum sem við bræð-
ur kveðjum elskulegan frænda,
hvíl í friði.
Viðar Halldórsson
Jón Rúnar Halldórsson.
Að hafa fengið að alast upp í
Hrauntungunni í Kópavogi á
seinni hluta síðustu aldar finnst
mér í dag hafa verið forréttindi.
Kópavogurinn var að byggjast
upp og í götunni voru ungir for-
eldrar með mörg börn. Gatan iðaði
af lífi og í hverju húsi var einhver
til að leika við. Í húsi númer 18 við
Hrauntunguna bjó frábær fjöl-
skylda og dóttirin á því heimili
varð fljótlega mín besta vinkona.
En það var ekki bara það, milli
hjónanna sem þar bjuggu, þeirra
Ásgeirs og Mæju, og foreldra
minna myndaðist góð vinátta þar
sem hestamennskan tengdi þau
saman. Við vorum öll félagar í
Hestamannafélaginu Gusti þar
sem við flest gegndum einhverj-
um embættum og bárum hag fé-
lagsins fyrir brjósti.
Hesthús þeirra hjóna í Gusti
var eins og félagsmiðstöð. Þar var
alltaf glatt á hjalla og ekki
skemmdi nú fyrir að þar var
gjarnan heimsins besta hjóna-
bandssæla á borðum sem Mæja
galdraði fram af alkunnri snilld.
Þangað var maður alltaf velkom-
inn og þangað var gott að koma.
Ásgeir var höfðinginn í húsinu.
Hann átti mjög góða og fallega
hesta og unun var að sjá hvað þeir
voru alltaf vel hirtir. Snyrti-
mennska var honum í blóð borin
og birtist hún víða.
Á þessum árum var mikið og
fjörugt félagslíf í Gusti og flestar
konur sem upplifðu að dansa við
Ásgeir gleyma því ekki. Hann var
afbragðs dansari og söngvari og
hafði unun af slíkri list.
Ég minnist einnig margra ferða
á hestamannamót um landið þvert
og endilangt og þá var Ásgeir
hrókur alls fagnaðar. Hestaferðir
um landið okkar fagra geymi ég
einnig í minningakistunni hvort
sem ég var með í eigin persónu
eða fékk af þeim ógleymanlegar,
vel kryddaðar sögur.
Ásgeir og Mæja áttu unaðsreit í
Borgarfirðinum þar sem ættir
Mæju lágu. Þangað var gott að
koma. Hjónin hreiðruðu um sig af
miklum myndarskap og smekk-
legheitum svo eftir var tekið og
þar naut fjölskyldan öll góðra
samverustunda í fögru umhverfi.
Það er skrítin tilhugsun að vita
að nú eru foreldrar okkar vin-
kvennanna öll horfin í Sumarland-
ið. Þóra mín var mikil pabbastelpa
og tengingin milli þeirra mjög
sterk. Ásgeir eignaðist líka góðan
vin í Valda tengdasyni sínum og
brölluðu þeir margt saman. Það
var líka fallegt að sjá sambandið
milli dætra Þóru og Valda og afa
þeirra. Þar ríkti svo greinilega
mikil væntumþykja og virðing.
Elsku Simmi, Gummi, Þóra,
Geiri og fjölskyldan öll. Við Har-
aldur vottum ykkur okkar innileg-
ustu samúð og þökkum góðum
dreng fyrir vinskap og góðar
minningar.
Góða ferð elsku Ásgeir, við biðj-
um að heilsa í Sumarlandið.
Anna Rós Bergsdóttir.
upp gömlu góðu dagana og lýsti
gömlum staðháttum fyrir okkur.
Hún yfirgaf Öxnadalinn fljót-
lega eftir dauða móður sinnar og
horfði á Hraun og drangana fjar-
lægjast þar sem hún ók í burtu.
Þessi kafli ævinnar varð eftir en
var þó alltaf á sínum stað. Þess
vegna einbeitti hún sér þeim mun
meir að gleðinni og náungakær-
leik þegar hún hóf nýtt líf inni á
Akureyri.
Strax barn að aldri dáði ég
mjög þessa fallegu Töntu mína.
Símameyna glöðu. Hún var bæði
smart og glæsileg og vakti alls
staðar aðdáun. Ég ætlaði aldeilis
að verða eins og hún. Hún var
mjög sjálfstæð, viljasterk og
hvers manns hugljúfi. Naut frels-
is sem talsímavörður á símstöð-
inni og var ógift fram á miðjan
aldur. Rödd hennar var þekkt
landshornanna á milli. „Lilla á
símanum“. Það vissu allir hver
það var.
Símastúlkurnar fóru gjarnan í
góðu veðri í bústað í Vaglaskógi á
vegum Símans. Það kom fyrir að
hún tók mig með til að hressa
barnið við, þetta sérlundaða og
ómannblendna barn. Þarna fann
ég, mitt í glaðværð þessara ungu
símakvenna, einstaka tengingu
við náttúruna, naut verndar og
sérstæðrar birtu skógarins.
Hljóðheimur hans var magnaðri
en ég hafði áður kynnst. Þetta
var upplifun og lærdómur sem
hefur nært mig alla tíð síðan.
Fyrir það er ég Töntu óend-
anlega þakklát.
Kristín Jóhannesdóttir.
Bognar aldrei brotnar í
bylnum stóra seinast.
(St. G. St.)
Þessar ljóðlínur komu upp í
hugann við andlát vinkonu minn-
ar Jóhönnu Elíasar eða Lillu eins
og hún var alltaf kölluð.
Ég sá hana fyrst í veislu hjá
frændfólki hennar fyrir margt
löngu og varð bókstaflega heilluð
af þessari flottu konu sem sagði
svo skemmtilega frá ferðum sín-
um til útlanda, hafði nýverið farið
til Ítalíu og alla leið til Róma-
borgar. Mig langaði svo til að
verða vinkona þessarar heims-
konu, en hvernig mátti það verða,
ég nýfermdur stelpugopi og hafði
bara einu sinni komið til Reykja-
víkur! En svo liðu árin og við
Lilla urðum vinkonur og fórum
meira að segja saman til útlanda
og margar ferðir innanlands.
Lilla var höfðingi heim að sækja
og naut þess að hafa gesti og
veita vel í mat og drykk, enda
gestkvæmt á heimili hennar. Það
var ótrúlegt hvað hún var dugleg
að sjá um sig þrátt fyrir mikil
veikindi.
Að lokum vil ég þakka fyrir að
hafa fengið að kynnast þessari
skemmtilegu og góðu konu sem
lífgaði svo sannarlega upp á til-
veruna.
Margrét Rögnvaldsdóttir.
Ég var 14 ára á leiðinni til Ak-
ureyrar til þess að spila og æfa í
nokkra daga. Lilla hafði boðið
mér að vera hjá sér. Með smá-
vegis kvíðahnút í maganum
mætti ég í Höfðahlíðina þar sem
mér var tekið opnum örmum og
þarna eignaðist ég eina af mínum
bestu vinkonum og fyrirmynd-
um. Þrátt fyrir 57 ára aldursmun
gátum við spjallað endalaust um
allt og ekkert. Þegar ég var við
nám í Menntaskólanum á Akur-
eyri var ég reglulega boðin í mat
til Lillu. Hún sótti mig á bílnum
sínum sem ég kallaði konfektmol-
ann og við hossuðumst um götur
bæjarins. Ég reyndi að endur-
gjalda matarboðin eftir að ég var
komin með aðstöðu til og bauð í
ofsoðið pasta eða gúmmíkennt
gúllas sem alltaf var það besta
sem Lilla hafði smakkað. Bíóferð
okkar á rómantíska gamanmynd
er eftirminnileg, ekki myndin
sjálf, heldur sú staðreynd að við
sváfum báðar stóran part mynd-
arinnar og hlógum svo að því að
vita lítið sem ekkert um sögu-
þráðinn þegar heim var haldið.
Lilla tengdist okkur sterkum
fjölskylduböndum, bæði mér,
Hjalta og börnunum okkar en
líka mömmu, pabba, bræðrum
mínum og fjölskyldunni allri.
Hún gaf mikið af sér og hafði svo
fallega lífssýn að fólk dróst að
henni. Eftir að ég flutti síðar aft-
ur til Akureyrar eftir námsár er-
lendis og eignaðist mína eigin
fjölskyldu hittumst við oft og
reglulega. Heimsóknir þar sem
við skáluðum í sérríi, hittumst í
mat eða skruppum á snyrtistofu
eru dýrmætar minningar.
Lilla var jákvæð, hvetjandi og
lífsglöð. Hún kunni að njóta og
lifði í núinu. Hún var einstakur
persónuleiki sem við erum afar
þakklát fyrir að hafa fengið að
hafa í okkar lífi.
Hvíl í friði, elsku vinkona.
Takk fyrir allt.
Þín
Lára Sóley og fjölskylda.
Í dag kveðjum við með söknuði
elsku Lillu vinkonu okkar, eða
Jóhönnu Rannveigu Elíasdóttir
eins og hún hét fullu nafni. Hún
var fædd á Hrauni í Öxnadal en
fluttist þaðan til Akureyrar barn
að aldri ásamt föður sínum og
bróður eftir að móðir hennar dó á
besta aldri. Þrátt fyrir áföll var
Lilla glaðlynd og naut sín vel í
góðra vina hópi. Hennar starfs-
ævi var lengst af hjá Símanum,
eða í um 40 ár. Þessa tíma minnt-
ist hún með mikilli gleði og eign-
aðist í gegnum starfið marga
góða vini.
Lilla giftist Vigni Ársælssyni,
föðurbróður Jóa, en hann lést 20.
maí 1979.
Allra heimsókna okkar í
Höfðahlíðina minnumst við með
gleði og þakklæti, hvort sem var
að Jói fékk að gista hjá þeim
hjónum, þegar hann ungur var að
hefja sína togarasjómennsku hjá
ÚA, eða síðar þegar við fengum
inni hjá Lillu fyrir dóttur okkar
Láru Sóleyju er hún aðeins ung-
lingur fór að spila með Sinfóníu-
hljómsveit Norðurlands. Frá
þessum tíma varð Lilla ein af fjöl-
skyldunni og tók þátt í okkar
gleði- og sorgarstundum. Við
minnumst Lillu ásamt börnum
okkar, tengdabörnum og barna-
börnum fyrir vináttu og tryggð
og allar skemmtilegu samveru-
stundirnar sem við áttum með
henni á Akureyri og Húsavík.
Með ástarþökk ertu kvödd í hinsta
sinni hér
og hlýhug allra vannstu er fengu að
kynnast þér.
Þín blessuð minning vakir og býr í
vinahjörtum
á brautir okkar stráðir þú, yl og
geislum björtum.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Kær kveðja,
Hulda og Jóhann.
✝
Jóhanna Elías-
dóttir, fyrrver-
andi talsímavarð-
stjóri á Akureyri
fæddist 22. janúar
1925 á Hrauni í
Öxnadal. Hún lést
3. maí 2022.
Foreldrar henn-
ar voru Róslín
Berghildur Jó-
hannesdóttir, f. á
Hrauni í Öxnadal
24. febrúar 1897, d. 28. janúar
1935, og Elías Tómasson, bóndi
á Hrauni í Öxnadal og síðar
bankafulltrúi á Akureyri, f. á
Steinsstöðum í Öxnadal 3. apríl
1894, d. 8. sept-
ember 1971.
Bróðir hennar
var Jóhannes Elí-
asson, lögmaður
og síðar banka-
stjóri, f. á Hrauni í
Öxnadal 19. maí
1920, d. 17. mars
1975.
Jóhanna var gift
Vigni Ársælssyni,
sölufulltrúa, f. 23.
febrúar 1924, d. 20. maí 1979.
Þau voru barnlaus.
Útförin fer fram frá Ak-
ureyrarkirkju í dag, 19. maí
2022, klukkan 13.
Elsku Lilla.
Takk fyrir alla þína hlýju og
umvefjandi framkomu okkur til
handa alla tíð.
Pabbi átti góða daga með þér,
fyrir það erum við ævinlega
þakklát.
Hvíl í friði.
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)
Ársæll og Ásdís Vignisbörn
og fjölskyldur.
Tanta frænka mín var ávallt
höfðingi heim að sækja. Enda bjó
hún í Höfðahlíð á Akureyri. Það
var alltaf gríðarlega gott að koma
í heimsókn til hennar norður,
enda var meiri gestgjafa erfitt að
finna. Það var heitt á könnunni
frá morgni til kvölds og fyrir utan
það náði hún alltaf að taka til
margrétta máltíð við hvaða tilefni
sem er og skipti þá litlu hvort
maður hefði nýborðað. „Þú hefur
ekkert borðað“ sagði hún reglu-
lega þegar maður skoraðist und-
an ábót sem dugði oftast lítið.
Hún var vinmörg, elskaði að
hitta fólk, fá heimsóknir og var
einstök stemningsmanneskja.
Það var því auðvitað erfitt fyrir
hana þegar takmarkanir voru
settar á samkomur. En við vorum
dugleg að tala saman í síma, ég
og gamli talsímavörðurinn. Við
gátum talað lengi saman um allt
og ekkert. En alltaf eitthvað um
veðrið. Ég hef verið mjög meðvit-
aður um veðuraðstæður á Akur-
eyri um langt skeið. Það sem ein-
kenndi hana kannski helst í
þessum samtölum var hversu
einlæglega hún samgladdist öðr-
um. Henni fannst alltaf jafngam-
an þegar ég sagði henni frá áætl-
unum um veislur eða ferðalög
sem voru fram undan. Hún
stimplaði þetta allt inn og rifjaði
upp síðar og spurði mann betur
út í plönin.
Þrátt fyrir háan aldur hélt hún
alltaf gleðinni og jákvæðninni.
Hún kenndi mér það að lykillinn
að lífshamingjunni og lífsviljan-
um er jákvæðni, að horfa jákvætt
á hlutina sama hvernig viðrar.
Jóhannes Páll
Sigurðarson
Elsku Tanta frænka.
Nú ert þú komin í Sumarland-
ið, og er þá margs að minnast.
Ég minnist þess sérstaklega
þegar ég var lítil og fór með þér á
símstöðina þar sem þú vannst.
Skildi ekkert í öllum þessum
snúrum og tökkum sem þú varst
að vinna með og hvernig þú fórst
að því að vita hvert þessar snúrur
áttu að fara.
Það er erfitt að hugsa til þess
að þú sért ekki lengur á Akur-
eyri.
Við hittumst á hverju ári í
Höfðahlíðinni og eyddum tímum
saman.
Það var svo gaman að vera hjá
þér og fara með þér í ferðir. Þú
varst svo minnug á allt, vissir
nöfn á bæjum, jafnvel þeim sem
komnir voru í eyði.
Öll gömlu húsin á Akureyri
þekktir þú, mundir nöfnin á þeim
flestum og hverjir áttu heima þar
áður fyrr.
Við þökkum þér fyrir allar
góðu stundirnar sem við áttum
með þér og kveðjum með sökn-
uði.
Róslín og Birgir.
Jóhanna, eða Tanta eins og við
bróðurbörnin kölluðum hana, var
elskuð og dáð af öllum sem
kynntust henni.
Það var viðhorf sem skapaðist
einfaldlega af því að hún sjálf bjó
yfir takmarkalausum kærleik og
örlæti til allra. Slíkt skilar sér
alltaf til baka.
Á heimili hennar voru miklar
gestakomur og alltaf var heitt á
könnunni. Stundum, ef tilefni
þótti til, var sérríið dregið fram
og skálað „til lífs og gleði“. Það
voru kjörorð Töntu.
Hún náði 97 ára aldri og var
alltaf jafn glaðlynd og mann-
blendin. Stuttu fyrir andlátið sá
hún sig tilneydda til að flytja úr
íbúð sinni inn á öldrunarheimilið
Lögmannshlíð á Akureyri. Þar
höfðu menn ekki orðið vitni að
öðrum eins vinsældum og gesta-
komum og voru til hennar þann
tíma sem hún átti eftir.
Það var ekki augljóst að konu
með hennar erfiðu lífsreynslu
tækist að rækta þetta viðhorf lífs-
fagnaðar. Hún varð snemma sem
barn fyrir miklu áfalli þegar hún
missti móður sína. Hún fæddist á
Hrauni í Öxnadal í gamla torf-
bænum. Hún var fimm árum
yngri en bróðir hennar, Jóhann-
es. Þau voru bæði stolt af því að
hafa fæðst í sama herbergi og
Jónas Hallgrímsson.
Dag einn, þegar systkinin biðu
í eldhúsinu á meðan móðir þeirra
útbjó matarpakka fyrir heimilis-
fólk úti á engjum, féll Róslín,
móðir þeirra, skyndilega örend í
gólfið. Börnin gripu þá til þess
ráðs að skvetta framan í hana
vatni. Þetta höfðu þau heyrt að
væri gott ráð þegar liði yfir kon-
ur. Þegar fólk kom heim af engj-
um var allt á floti í eldhúsinu og
börnin í djúpu áfalli.
Þegar ég og sonur minn, Jó-
hannes Páll, fórum eitt sinn í ferð
með Töntu að Hrauni, sem var þá
komin yfir nírætt, trúði hún okkur
fyrir því að hún væri í fyrsta sinn
að treysta sér til að fara upp að
bænum. Það var henni mikilvægt
skref og hún naut þess að rifja
Jóhanna Rannveig
Elíasdóttir
MINNINGAR 47
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 19. MAÍ 2022