Sveitarstjórnarmál - 01.01.2018, Page 16
16
Vonir bundnar við Helguvík þótt
á ýmsu hafi gengið
Sveitarfélögin á svæðinu vinna saman í að
skipuleggja þessa framtíð, að sögn Kjartans,
og ekki aðeins þá sem tengist flugvellinum
og flugstöðinni heldur einnig öðrum verkefn-
um sem tengjast þessari starfsemi með
ýmsum óbeinum hætti. Þar á meðal er
hafnarsvæðið í Helguvík.
Kjartan segir að þótt á ýmsu hafi gengið
þar og allt hafi ekki orðið að veruleika eins
og að var stefnt séu bundnar vonir við frekari
uppbyggingu hafntengdrar starfsemi þar.
Stórt hafnarsvæði, sem er í svo mikilli nálægð
við alþjóðaflugvöll, geti boðið ýmsa
möguleika sem beri að skoða.
Hann segir mörg tækifæri á Reykjanesi.
„Náttúrufegurð er víða mikil og sérstæð –
nokkuð sem ferðamenn sækjast eftir.
Reykjanes Unesco Geopark hefur hlotið
alþjóðlega viðurkenningu sem einn af 100
sjálfbærustu stöðum í heiminum. Þar er
hægt að skoða jarðsöguna og margt fleira.
Við erum með ströndina, hraunið, jarð-
hitann og Bláa lónið í næsta nágrenni. Þegar
þetta er skoðað í samhengi þá eru tækifærin
mörg.“
Einhuga bæjarstjórn
Talið berst að bæjarstjórninni. Hún hefur
verið einhuga í að koma bæjarfélaginu á
réttan kjöl, að sögn Kjartans. „Sem betur fer
hafa bæjarfulltrúar borið gæfu til þess að
vinna saman að þeim málum. Bæjarfulltrúum
hefur tekist að vinna vel saman og það hefur
eiginlega ekki verið hægt að tala um meiri-
og minnihluta í því sambandi.“
Kjartan átti sjálfur sæti í bæjarstjórn á
árunum 1998 til 2006. „Þá vorum við að
vinna að einsetningu grunnskólans og mikil
vinna og orka fór í þau mál undir forystu
Ellerts Eiríkssonar, sem þá var bæjarstjóri og
Skúla Skúlasonar, forseta bæjarstjórnar. Eftir
það var hafist handa við umhverfismálin og
bærinn hefur gjörbreytt um svip á þeim tíma
sem liðinn er frá aldamótum. Ekkert af því
verður tekið frá okkur en það kostaði líka sitt
en við erum nú að vinna okkur út úr því.“
Reykjanesbær
Vetur í bæ gæti þessi mynd heitið og sýnir Reykjanesbæ í snjóalögum.
Horft yfir Innri-Njarðvík en þar fer nú fram mikil uppbygging vegna fjölgunar íbúa í Reykjanesbæ.