Austurglugginn - 05.12.2019, Qupperneq 16
16 Fimmtudagur 5. desember AUSTUR · GLUGGINN
Þann 17. apríl vorið 1919 strandaði
breski togarinn Clyne Castle frá
Grimsby á Bakkafjöru í Öræfum.
Veður var gott og skipið strandaði
á flóði. Þrettán manna áhöfn
komst næstum þurrum fótum í
land. Skipsverjar voru fluttir til
Hafnar í Hornafirði og þaðan
sjóleiðis til Seyðisfjarðar. Komust
þeir að lokum heilir á höldnu til
síns heimalands. Björgunarskipið
Geir gerði tilraun til að ná skipinu
á flot en tókst ekki.
Skipsströnd voru algeng á
sandræmunni um sunnanvert
landið á meðan útlendir stunduðu
enn fiskveiðar við strendur landsins.
Öræfingar og Suðursveitingar töluðu
á árum áður um góð strönd og minna
góð strönd, eins og lesa má um í bók
Þórbergs Þórðarsonar, Í Suðursveit.
Það sem gerir strand Clyne Castle
sögulegter að bjartsýnir menn austur
á fjörðum keyptu skipið þar sem það
lá stráheilt í sandinum og töldu lítið
mál að koma því á flot. Það tókst þó
ekki. Flakið liggur ennþá í sandinum
og sú öld sem liðin er frá strandinu
hefur sett hrjúft mark á skipið.
Munaði litlu
Austfirðingarnir bjartsýnu sem
sáu tækifæri í að bjarga Clyne
Castle voru þeir Jóhann Hansson,
sem rak vélsmiðju á Seyðisfirði og
Valdór Bóasson, kaupmaður og
útgerðarmaður frá Hrúteyri við
Reyðarfjörð. Báðir heiðarlegir og
vel liðnir dugnaðar menn.
Á fimm ára tímabili, frá 1919-
1923, reyndu þeir í fjögur sumur
að ná skipin á flot. Samkvæmt
Morgunblaðinu 18. Janúar 2003
var ekkert aðhafst sumarið 1922,
en árið eftir munaði hársbreidd að
þeim félögum tækist ætlunarverk
sitt. Mogginn segir svo frá:
„Dráttarskip var komið á
staðinn. Allt var klárt, bara eftir að
kippa síðasta spölinn og þá myndi
Clyne Castle aftur kljúfa öldur
Atlantshafsins. Skipverjar voru
búnir að kveðja björgunarmenn
og veifa Öræfingum í síðasta sinn,
um stund að minnsta kosti að því
er þeir héldu. Búið var að koma út
akkeri og setja spilvír í það til að
hjálpa við dráttinn. Vélar skipsins
voru gangsettar og skrúfan fór að
snúast. Dráttarskipið fór að toga, en
á örlagastundu slitnaði spilvírinn,
flæktist í skrúfu togarans og allt var
unnið fyrir gýg. Clyne Castle bar
aftur upp í fjöru og hefur verið þar
síðan.“
Þegar hér var komið sögu voru
fjármunir björgunarmanna á þrotum.
Að auki höfðu hinar árangurslausu
tilraunir tekið sinn toll af andlegu
þreki og björgunarstarfinu var hætt.
Af dagbókum má sjá að ýmislegt
hjálpaðist að við að tefja framgang
björgunarinnar, en þó einkum veðrið,
sem var sérlega leiðinlegt sumarið
1923. Mörg dagsverk fóru í súginn
vegna roks og sjógangs. Afar líklegt
má telja að Clyne Castle hefði náðst
á flot ef veðurguðirnir hefðu verið
björguninni hliðhollari.
Strand og hrakningar
Fleira volk hlaust af björgunar-
tilraunum Austfirðinganna. Ísafold
birti frétt um málið 15. September
1919 undir fyrirsögninni Strand og
hrakningar. Þar segir meðal annars:
„…Það [Clyne Castle] var síðan
keypt af nokkrum Austfirðingum o-
fl., er hafa verið við strandið í sumar
við tilraunir að koma því á flot, sem
einnig hefir mistekist. Síðan hafa
þeir unnið úr því og flutt burt það,
er fémætt var. Þar með var einnig
vélasmiður Gissur Filíppsson héðan
úr Reykjavík. Fékk hann fyrir stuttu
lítinn mótorbát af Austfjörðum
[ Jenný 8 tonna mótorbátur í eigu
Valdórs Bóassonar], er var við
strandstaðinn, til þess að flytja
sig þaðan og út á Síðufjörur. Er
þangað kom vildu bátsmenn, sem
voru aðeins þrír, eigi setja hann á
land, þar sem þeir óttuðust að þeir
ef til vill kæmnst ekki út aftur. Fékk
hann þá hjá þeim bátkorn, er þeir
höfðu aftaní, til þess að fara einn í
upp í fjörurnar og skolaði honum
upp. Komst hann til bygða og er
nú kominn hingað. En það er af
mótorbátnum að segja, að hann
lenti í mestu hrakningum, því að á
skall stormur, er hann hélt austur,
og kom hann eigi fram. Um sama
leyti var hingað símað austan úr
Skaftafellssýslu, til sýslumanns
Gísla Sveinssonar alþingismanns,
að mannlaus mótorbátur væri
rekinn upp á Fossfjöru þar í
sýslunni, tómur en lítið skemdur.
Þótti þegar líklegt, að þetta væri
austanbáturinn, og skömmu seinna
fékk eigandi hans, Valdór Bóasson á
Reyðarfirði, fregn um það símleiðis,
að mennirnir væru komnir heilir á
húfi til Englands, höfðu komist af í
brezkan botnvörpung.“
Ekkert spurðist til skipverjanna
af Jenný í rúman mánuð, þrátt fyrir
loftskeyta- og símasamband milli
Íslands og Englands, og voru þeir
taldir af. Þeim var að vonum vel
fagnað þegar hið sanna kom í ljós.
Til minningar um strandið
Í ágúst síðastliðnum voru sett upp
tvö skilti við áningarstað vestan
og upp með Kvíá í Öræfum.
Annað skiltið er með kortum
af skipsströndum og raflýsingu
á bæjum í Öræfum, gert eftir
heimildum sem Kvískerjabræður
söfnuðu, og hitt með upplýsingum
um strand togarans Clyne Castle.
Það eru afkomendur Valdórs
Bóassonar sem standa að verkefninu
til minningar um hann og aðra
björgunarmenn. Einnig um þá
fjölmörgu sjómenn sem enduðu sína
síðustu sjóferð á miðunum suðaustur
af landinu.
Ólafía Herborg Jóhannsdóttir,
talsmaður verkefnisins, segir að
tilgangurinn með skiltunum
sé kannski ekki síst sá að gefa
afkomendum þeirra sem misst hafa
ættingja og forfeður í sjóslysum
tækifæri til að minnast þeirra á
fallegum stað.
Einstaklingar og fyrirtæki hafa
stutt við verkefnið. Kvískerjasjóður
veitti styrk upp á kr. 500.000 og
Menningamálanefnd Hornafjarðar
kr. 100.000. Fyrirtæki eru m.a.:
Fellabakarí í Fellum, Nettó
Hornafirði, Stuðlastál ehf.
Reykjanesbæ og VÖK Baths.
JE
Til minningar um strand
Jenný SU 327, 8 tonna mótorbátur í eigu Valdórs Bóassonar.
Kortið sem gert var eftir gögnum Kvískerjabræðra og sýnir hin ýmsu strönd sem orðið hafa í
Öræfasveit. Aðeins tvö flök eru sjáanleg og er Clyne Castle annað þeirra.
Clyne Castle í Bakkafjöru 1923, en þá munaði litlu að skipið næðist á flot.