Fréttablaðið - 01.12.2022, Blaðsíða 28

Fréttablaðið - 01.12.2022, Blaðsíða 28
Lilja Alfreðsdóttir segir árangur í íslenskri kvikmyndagerð byggjast á ein- stöku hæfileikafólki í greininni hér á landi. MYND/AÐSEND Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða afhent í Hörpu 10. desember næstkomandi. FRÉTTABLAÐIÐ/VALGARÐ Evrópsku kvikmyndaverð- launin verða afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu laugardaginn 10. desember næstkomandi. Fréttablaðið ræddi við Lilju D. Alfreðs- dóttur, menningar- og við- skiptaráðherra, í tilefni af því að Reykjavík er gestgjafi afhendingarinnar í ár. olafur@frettabladid.is Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Vilhjálmur Hjálmarsson, þáverandi menntamálaráðherra, fékk frumvarp sitt um stofnun Kvikmyndasjóðs samþykkt á Alþingi árið 1978. Fleiri merkileg skref í kvikmyndasögu landsins voru stigin sama ár því að þá var Kvikmyndasafni Íslands einnig komið á laggirnar og fyrsta kvik- myndahátíðin var sömuleiðis haldin í Reykjavík í tengslum við Listahátíð. Tilkoma Kvikmyndasjóðs mark- aði þáttaskil fyrir kvikmyndagerð í landinu en á fyrsta starfsári sínu hafði sjóðurinn úr að spila 30 milljónum gamalla króna. Meðal fyrstu mynda sem hlutu styrk úr sjóðnum voru kvikmyndirnar Land og synir í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar og Óðal feðranna í leikstjórn Hrafns Gunnlaugs- sonar. „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með vexti íslenskrar kvik- myndagerðar undanfarna áratugi. Kvikmyndir eru orðnar samofnar íslenskri þjóðarsál og menningu og erlendis finnst fólki í raun ótrúleg þau afköst sem eru í íslenskri kvikmyndagerð. Málsmetandi fólk trúir varla að við séum aðeins tæp- lega 400.000 manns þegar það lítur á umsvif kvikmyndagerðar hér á landi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Leiðarljós til ársins 2030 kynnt Árið 2020 kynnti Lilja fyrstu heildstæðu kvikmyndastefnuna fyrir Ísland, Kvikmyndastefna til ársins 2030 – Listgrein á tíma- mótum. Í henni eru ýmis markmið og fjölþættar aðgerðir til þess að efla umgjörð kvikmyndagerðar hér á landi, til að mynda í mennta- málum, betri samkeppnisstöðu, aukinni sjálfbærni og markvissu alþjóðlegu kynningarstarfi. Spurð um hvort mikil þörf hafi verið á slíkri í stefnu í ljósi velgengni greinarinnar fyrir segir Lilja að kvikmyndagerð hérlendis hafi verið á ákveðnum tímamótum. „Á undanförnum ára- tugum hefur fjölmörgum fræjum verið sáð, og sum þeirra blómstrað mjög fallega. Hins vegar til þess að sjá blómahafið allt springa út þarf að vökva það með markvissum og skipulögðum hætti. Kvikmynda- stefnan er leikplanið okkar í þeirri vinnu, aðgerðirnar sem ráðast þarf í til þess að kvikmyndagerð verði burðug list- og atvinnugrein, sprottin úr íslenskum veruleika, sem stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð og fangar athygli kvikmyndaunnenda ekki bara hér heima heldur um allan heim.“ Aðgerðum hrint í framkvæmd En hverju hefur verið áorkað frá því að stefnan var kynnt til leiks fyrir tveimur árum? Lilja kveðst mjög ánægð með þann árangur sem náðst hefur í að hrinda stefnunni í framkvæmd og segir hún stjórnvöld í raun vera vel á undan áætlun. „Frá því að við kynntum stefnuna árið 2020 höfum við hrint veigamiklum aðgerðum í framkvæmd. Má þar nefna aukin framlög til sérhæfðrar kvikmyndamenntunar á fram- haldsskólastigi, fyrstu kvikmynda- deild á háskólastigi var loksins komið á laggirnar við Listaháskóla Íslands, unnið hefur verið að laga- breytingum sem heimila stofnun nýs fjárfestingarsjóðs sjónvarps- efnis, tæpur milljarður var settur sem tímabundin innspýting í Kvikmyndasjóð í tengslum við heimsfaraldurinn og endur- greiðsluhlutfall vegna framleiðslu- kostnaðar í kvikmyndagerð hér á landi hækkað úr 25 í 35 prósent.“ Stuðlað að samkeppnishæfni Frá því að endurgreiðslukerfinu í kvikmyndagerð var komið á árið 2001 hafa ýmsar alþjóðlegar kvikmyndir verið teknar upp að hluta hér á landi. Upphaflega var endurgreiðsluhlutfallið 12 prósent en það hefur hækkað í áföngum og í vor fékk Lilja samþykkt frumvarp sitt um hækkun hlutfallsins í 35 prósent fyrir kvikmyndaverkefni að ákveðinni stærð, sem uppfylla ákveðin skilyrði. Spurð um hvort þessi hækkun hlutfallsins muni skila sér segir Lilja: „Við höfum séð stóraukin umsvif í kvikmyndagerð hérlendis frá því að endurgreiðslukerfið var innleitt í kvikmyndagerð. Kerfið hefur nýst íslenskri kvikmynda- gerð mjög vel og kemur til dæmis til viðbótar við beina styrki úr Kvikmyndasjóði. Þá hefur kerfið dregið að erlend kvikmyndaverk- efni sem hafa haft virkilega jákvæð margfeldisáhrif hér á landi, bæði á innlenda kvikmyndagerð í formi þekkingar og reynslu, betri inn- viða, aukins tengslanets og fleiri tækifæra fyrir íslenskt listafólk. En ekki síður fyrir ímynd Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og fyrir ferðaþjónustu. Með þessari breytingu er alþjóðleg samkeppnishæfni Íslands aukin í kvikmyndagerð og ég er sannfærð um að jákvæð víxl- verkun innlendrar og erlendrar kvikmyndagerðar verði enn meiri í kjölfarið. Áhrifa hækkunarinnar fór að gæta strax þegar tilkynnt var um stærsta kvikmyndaverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi, fjórðu þáttaröðina af True Dective, sem að langstærstum hluta er tekið upp hér á landi en umfang þess er áætlað milli 9–10 milljarðar króna og stór hópur Íslendinga starfar við verkefnið í mjög fjölbreyttum störfum.“ Innlend kvikmyndagerð Þegar Lilja er spurð sérstaklega út í stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar í heimi þar sem alþjóðleg sam- keppnishæfni um fólk og fjármuni fer harðnandi segir Lilja íslenska kvikmyndagerð vera jarðveginn sem allur þessi árangur spretti upp úr. „Án alls þess framúrskarandi fólks sem hefur helgað sig íslenskri kvikmyndagerð væri þessi iðnaður ekki neitt hér á landi. Á næstu árum munum við halda áfram að bæta umhverfi og starfs- skilyrði íslenskrar kvikmynda- gerðar, meðal annars fjármögnun innlendra verkefna. Fyrr í haust kynnti ég hugmyndir um svokall- að menningarframlag streymis- veitna sem felur í sér gjaldtöku af streymisveitum. Önnur Evrópu- lönd hafa verið að feta sig í þessa átt þar sem gjaldtakan af alþjóð- legum streymisveitum er nýtt til innlendrar kvikmynda- og sjón- varpsþáttagerðar. Ég tel eðlilegt að við Íslendingar fetum svipaða leið og er undirbúningsvinna við slíkt nú þegar hafin. Það er alveg skýrt í huga mér að þetta framlag eigi að nýta til þess að efla innlenda menningu sem skapar sjálfsmynd okkar sem þjóðar.“ Evrópski Óskarinn í Reykjavík Evrópsku kvikmyndaverðlaunin 2022 verða haldin í Hörpu þann 10. desember næstkomandi en hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu og varð Reykjavík fyrir valinu að þessu sinni. Ríki og borg halda hátíðina í samstarfi við Evrópsku kvik- mynda-akademíuna. Hátíðin laðar að sér fjölmarga erlenda gesti og ljóst er að hún stuðlar að öflugri kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Reykjavík sem áfanga- stað og tökustað fyrir kvikmyndir. Gert er ráð fyrir hátt í 1.200 gestum á verðlaunahátíðina sjálfa frá allri Evrópu auk þess sem von er á tvö hundruð erlendum blaðamönnum til Íslands. Lilja segist vera stolt af því að Reykjavík hafi verið valin sem vettvangur hátíðarinnar að þessu sinni en stuðningur við hátíðina er meðal annars í takt við Kvik- myndastefnu Íslands þar sem lögð er áhersla á miðlun og stuðning við viðburði sem þennan. „Þetta er í raun enn ein fjöðrin í hatt kvikmyndamenningar hér á landi. Það var ríkur vilji íslenskra stjórnvalda og Reykjavíkurborgar til að sækja um að halda hátíðina hér á landi. Svona stórt og marg- þætt verkefni vinnst ekki nema í góðu samstarfi við sterka sam- starfsaðila. Markmið okkar er að sýna fram á sérstöðu Íslands og leggja meðal annars áherslu á listir, sköpun, hugvit og grænar lausnir í kynningaráherslum. Þetta er geysilega spennandi tækifæri fyrir íslenska kvikmyndamenningu og kvikmyndageirann hér á landi og við munum nýta það vel,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. n Evrópski Óskarinn afhentur í Reykjavík Án alls þess fram- úrskarandi fólks sem hefur helgað sig íslenskri kvikmynda- gerð væri þessi iðnaður ekki neitt hér á landi. 8 kynningarblað 1. desember 2022 FIMMTUDAGURKVIKMYNDIR MÁNAÐARINS

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.