Morgunblaðið - 27.08.2022, Blaðsíða 18
18 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. ÁGÚST 2022
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Framfarir í flugi eru miklar og við
lifum á spennandi tímum,“ segir
Hjörleifur Jóhannesson flugstjóri hjá
Icelandair. „Sjaldan kemur eitthvað
sem talist getur bylting í vélum eða
tækni. Fremur er þetta stöðug fram-
vinda og vissulega er starf flugmanna
allt öðruvísi nú en áður. Leiðsögu-
tækni er sífellt betri og fullkomnari
og í dag er áhersluatriði að draga úr
eldneytisnotkun á flugi. Rafknúnar
flugvélar eru mögulega framtíðin.
Eftir tuttugu ár eða svo gæti ég trúað
að slíkar verði komnar og hugsanlega
ráðandi í innanlandsflugi okkar Ís-
lendinga.“
Algjörir trukkar
Hjörleifur Jóhannesson, sem er
fæddur árið 1961, er reynslubolti í
fluginu, sem allt síðan í æsku hefur
verið hans hálfa líf. Faðir hans, Jó-
hannes R. Snorrason, var einn af
frumkvöðlum flugs á Íslandi, hand-
hafi flugskírteinis nr. 5 og goðsögn í
lifandi lífi. Þetta umhverfi átti sinn
þátt í því að Hjörleifur lagði flugið
fyrir sig og byrjaði hjá Flugleiðum
árið 1987 í innanlandsfluginu á Fokk-
er F-27. Er í dag flugstjóri hjá Ice-
landair á Boeing 757, það er týpunum
200 og 300. Er einnig á breiðþotunum
Boeing 767–300, en í dag eru fjórar
og bráðum fimm slíkar í flotanum.
Slíkar taka alls 262 farþega, hafa
stórt fraktrými og eru aukinheldur
mjög langdrægar.
„Boeing 767-300 eru ótrúlegar
flugvélar; algjörir trukkar,“ segir
Hjörleifur og brosir. Flugið er honum
sýnilega sönn ástríða. Blaðamaður
settist niður með Hjörleifi og sam-
talið fór á flug.
Alltaf hægt að lenda
Sjómenn hafa greint frá því, meðal
annars í samtölum hér í Morgun-
blaðinu, að öfgar í veðráttu hafi sjald-
an verið meiri en á síðastliðnum ár-
um. Í ferðum fraktskipta yfir
Norður-Atlantshafið sé þungur sjór
og háar öldur sem gerir siglingar oft
vandasamar. Hjörleifur segir að í
30.000 til 40.000 fetum, sem er algeng
hæð í millilandsflugi, að séu veðr-
áttan önnur en á jörðu niðri. Menn
finni því ekki svo mjög fyrir sveiflum
sem að framan er lýst. Hins vegar
komi oftar nú en áður stormar á
Keflavíkurflugvelli svo bíða þurfi
klukkustundum saman áður en hægt
sé að leggja vélum að landgöngubrú.
„Flugvélum er ekki hægt að leggja
að rönum eða stigum fari vindstyrkur
yfir 25 metra á sekúndu. Síðustu árin
hefur hins vegar stundum hent að
vindur fer í meira en 40 metra. Þá er
ekkert annað að gera en bíða uns
lægir, jafnvel í einhverjar klukku-
stundir. Þó er nánast alltaf hægt að
lenda í Keflavík, óháð vindstyrk, séu
bremsuskilyrði á flugbrautum í lagi,“
segir Hjörleifur. Í fluginu segir hann
menn finna lítið fyrir lofslagsbreyt-
ingum því vélarnar eru aldrei svo
þungar, til dæmis í flugi út frá Evr-
ópu, að hitastig takmarki afkastagetu
hreyfla.
Við Vötnin miklu
„Auðvitað er 40 gráðu hiti í Þýska-
landi – eins kom fyrir nokkru og var
langvarandi – nokkuð sem getur haft
áhrif. Dregið getur úr afkastagetu
hreyfla á þann hátt að vélar skynja
sig í meiri hæð en raunin er. Samt
höfum við ekki lent í neinu slíku,“
segir Hjörleifur og heldur áfram:
„Oft eru krappir vindar yfir Græn-
landi og veðráttan þar síbreytileg. Og
þrátt fyrir að hafa flogið þarna yfir
óteljandi sinnum sér maður alltaf
eitthvað nýtt. Í flugi til og frá Banda-
ríkjunum, það er til miðríkjanna og á
vesturströndina, er farið þvert yfir
jökulinn sem breytist sífellt. Þegar er
komið er inn yfir Kanada er flogið svo
klukkustundum skiptir yfir óbyggðir.
Í Bandaríkjunum er svo farið sunnan
við Vötnin miklu og hinar víðfeðmu
sléttur þar; Great Planes. Sé flogið til
Denver má svo alltaf reikna með
þrumuveðri í nágrenni Kletta-
fjallanna.“
Tölvan velur bestu leiðina
Á norðurhveli jarðar eru vestlægir
vindar ráðandi. Flug frá Bandaríkj-
unum til Íslands tekur því yfirleitt
skemmri tíma en þegar flogið er vest-
ur um haf. „Hér gildir eins og með
annað í tilverunni að mikilvægt er að
nýta sér alltaf meðvindinn,“ nefnir
Hjörleifur og segir að í fluginu haldist
umhverfissjónarmið, eldneytissparn-
aður og tækniþróun jafnan í hendur.
„Jafnan séu valdar stystu flugleið-
irnar eða flogið í þeirra hæð að
eyðsla verði sem minnst. Þarna mun-
ar um tölvur sem komu í þotur Ice-
landair fyrir nokkrum árum og taka
á móti rafrænum vindaspám. Hug-
búnaður tækjanna ber þá saman
þyngd vélar og afl við líklega vindátt
og -stefnu, mótstöðu í lofti, loftþrýst-
ing og fleira slíkt. Með þessu er besta
leið og hæð valin – og hver einasta
ferð og leggur rýnd eftir á til að læra
af.“
Mikilvægt að nýta meðvindinn
- Framfarir í flugi og þróunin er áhugaverð - Vestanvindar ráðandi á norðurhveli - Umhverfi,
eldneytissparnaður og tækni - Rafvélar hugsanlegar í innanlandsflugi - Hjörleifur á flugi í áratugi
Ljósmynd/Guðni Agnar Kristinsson
Flugstjóri Þrátt fyrir að hafa flogið þarna yfir óteljandi sinnum sér maður alltaf eitthvað nýtt, segir Hjörleifur. Hér
er hann í flugstjórnarklefanum á breiðþotu af gerðinni Boeing 767–300 og segir hana ótrúlega flugvél.
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Icelandair Stél á þotunum sem á síðustu mánuðum hafa hver af annari
fengið nýtt útlit samkvæmt stefnu- og áherslubreytingum hjá flugfélaginu.
Vegna eldgosa á Reykjanesskaga
hefur Icelandair gefið fyrirætlanir
um gerð flugvallar í Hvassahrauni
frá sér. Eftir stendur þá að milli-
landaflugið þarf varavöll sem nú er
í Reykjavík. Þann völl vilja margir
úr notkun og þá eru Egilsstaðir og
Akureyri til vara. Eru þó helst til of
langt frá SV-horninu svo aðra kosti
þarf að skoða.
„Faðir minn talaði oft fyrir því,
meðal annars í bókum sínum Skrif-
að í skýin, að útbúinn yrði flug-
völlur á Álftanesi við Bessastaði.
Auðvitað hefði slíkt verið frábært,
nema hvað nú er komin byggð á því
svæði og viðhorfin hafa breyst. Því
tel ég best að Reykjavíkurflug-
völlur fái að halda sér, en útbúa svo
öruggan varavöll á Sauðárkróki.
Þar er fyrir löng flugbraut, sem
þarf að styrkja, útbúa flughlöð,
byggja turn og flugstöð, koma upp
slökkviliði, tollafgreiðslu og fleiru,“
segir Hjörleifur og að síðustu:
„Í Skagafirði, frá Sauðárkróki og
fram til dala, er yfirleitt snjólétt og
skilyrði að því leyti góð. Yfirleitt er
veðráttan nyrðra öndvert við það
sem er hér fyrir sunnan sem er
kostur. Þá eru fjöll fjarri að-
flugslínu að Sauðárkróki, sem ég
mæli eindregið með eigi að skoða
varaflugvallarmál af alvöru.“
Skagafjörður Flugbrautin á Sauðárkróki er löng og aðflugsstefnur fjarri
fjöllum. Flugstöðin er lítið notuð og kannski þarf að reisa stærra hús.
Sauðárkrókur góð-
ur fyrir varaflugvöll