Morgunblaðið - 08.10.2022, Síða 14
14 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. OKTÓBER 2022
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Sem drengur heyrði ég stundum
frásagnir um þessi svikamál, þar
sem tugir manna voru flegnir alveg
inn að skyrtu og haft af þeim mikið
fé. Fólk vildi þó ekki mikið um þessi
mál tala, svo mikil skömm fannst
mörgum fylgja því að hafa látið
ginnast af fagurgala og fláttskap
óvandaðra manna. Margt í þessu
máli hljómar líka kunnuglega í nú-
tímanum,“ segir Jón M. Ívarsson
sagnfræðingur.
Veitull og ríkmannlegur
Á dögunum sendi Jón frá sér bók-
ina Í skugga Gaulverjabæjar þar
sem segir af fjársvikamálum í lág-
sveitum Flóans í Árnessýslu á fyrstu
árum 20. aldar. Þannig var að árið
1909 settist að í Gaulverjabæ, sem
er kirkjujörð og höfuðból, maður að
nafni Jón Magnússon frá Miðhúsum
í Biskupstungum. Hann hafði í
Reykjavík reynt fyrir sér, meðal
annars í fasteignaviðskiptum og
fleiru. Eystra kom fljótt í ljós að nýi
bóndinn var „veitull og vildi halda
sig ríkmannlega“ eins og Jón M. Ív-
arsson lýsir í bók sinni.
Jón Magnússon hóf búskap í
Gaulverjabæ, flutti þaðan eftir fá ár
og hafði þá selt húsakost jarðarinnar
með tilstyrk Sparisjóðs Árnessýslu
til bónda austur á Síðu. Sá reisti sér
hurðarás um öxl með kaupunum og
varð frá að hverfa, svo Jón náði jörð-
inni aftur og hagnaðist vel á flétt-
unni.
Heimsóttu og veittu vel
Þegar þarna var komið sögu voru
til fylgilags við Jón mættir tveir for-
hertir fantar, þeir Björn Gíslason
frá Húsey á Héraði og Erasmus
Gíslason, austan af Síðu í Vestur-
Skaftafellssýslu, báðir menn á
miðjum aldri. Þríeyki þetta lét mjög
að sér kveða á árunum 1910-1915 og
í raun má segja að þeir hafi skilið
eftir sig sviðna jörð. „Þeir fundu út
hvaða bændur væru þokkalega fjáð-
ir, heimsóttu þá og veittu vel. Svo
voru dregnir fram pappírar og
mönnum kynnt góð viðskipti. Þeir
þyrftu aðeins að skrifa nafn sitt á
blað og áhættan væri engin. Ölvaðir
létu ýmsir til leiðast en aðrir voru
einfaldlega bláeygir og trúðu því
ekki að neitt misjafnt byggi að
baki,“ segir Jón M. Ívarsson.
Sveitir skildar eftir í sárum
Gamli Gaulverjabæjarhreppurinn
er neðst í Flóanum, liggur að hafi í
suðri og Þjórsá í austri. Á því herr-
ans ári 1910 voru 44 jarðir í sveitinni
í byggð og Jóni M. Ívarssyni telst
svo til að á nokkrum misserum hafi
þremenningarnir unnið á á sitt band
tíu bændur í sveitinni. Gangurinn
var jafnan sá að menn glöptust til að
skrifa upp á víxla og skuldabréf sem
Björnungar, eins og þríeykið var
kallað, notaði meðal annars til að slá
lán til fasteignakaupa í Reykjavík.
Svo voru lánin látin falla og þá
gengu fjármálastofnanir á Eyrar-
bakka og í Reykjavík að bændunum
sem gjarnan voru á 2. eða 3. veð-
rétti. Uppáskriftir í góðri trú urðu
að mönnum að falli.
„Úr Gaulverjabæjarhreppi eru
dæmin minnst tíu. Svo fóru Björn-
ungar víða um sýsluna, svo sem að
Stokkseyri, í Biskupstungur, Gríms-
nes, Grafning og í Vestur-Skafta-
fellssýslu. Öllum brögðum var beitt
og sveitir skildar eftir í sárum,“ seg-
ir Jón M. Ívarsson. „Nokkur fórnar-
lömb þessara manna náðu styrk sín-
um að nýju eftir langa baráttu. Aðrir
þó ekki, jafnvel menn sem höfðu
verið í góðum efnum áður. Nú er
rúmlega öld liðin frá þessum atburð-
um og eðlilega eru allir sem þeim
tengdust horfnir af sviðinu. Ég tal-
aði hins vegar við marga afkom-
endur þeirra, sem þekktu málavexti
vel. Með þeim frásögnum og heim-
ildum úr dóms- og veðmálabókum
fékk ég skýra mynd af málavöxt-
um.“
Spilaborg hrundi
Svo fór að lokum að spilaborg
Björnunga féll. Dómsmál risu hvar-
vetna sem Björnungar sluppu raun-
ar vel frá. En árið 1915 gerðu bænd-
ur í Gaulverjabæjarhreppi uppreisn
gegn Birni Gíslasyni og hröktu hann
á brott í nafni laganna, með liðsinni
Dags Brynjúlfssonar hreppstjóra.
Ýmis kurl áttu þá eftir að koma til
grafar í málum þessum, og eitt af því
var gjaldþrot hins öfluga Sparisjóðs
Árnessýslu.
„Sagan af Björnungum og fórn-
arlömbum þeirra var þögguð niður.
Björn slapp í raun ótrúlega vel frá
þessum málum, svo slægur var hann
og gerði allt lögfræðilega rétt – en
afar siðlaust. Skrif Jónasar frá
Hriflu í Skinfaxa á þessum tíma
urðu þó til að upplýsa málin að
nokkru. Um miðja 20. öldina kom
svo út skáldsaga Ragnheiðar Jóns-
dóttur, Í skugga Glæsibæjar, þar
sem mál þessi eru reifuð. Sú bók
hreyfði við málum og fer mjög nærri
veruleikanum, enda þótt Ragnheið-
ur hafi vissulega fengið skammir
fyrir skrifin,“ segir Jón M. Ívarsson
sem telur Gaulverjabæjarmálin, eins
og þau voru kölluð, enduróma í ýms-
um viðskiptum síðari tíma sem af-
hjúpuðust í hruninu haustið 2008.
Ívar og Markús
Þess má geta að einn af þeim, sem
Björnungar léku hve harðast, var
Ívar Ívarsson frá Vorsabæjar-
hjáleigu. Vegna uppáskrifta féllu á
hann ábyrgðir og þungar skuldir;
vandi sem hann sá ekki út úr. Tók
hann því líf sitt árið 1909. Að Ívari
látnum tók Markús bróðir hans að
sér að greiða skuldirnar eins og náð-
ist á nokkrum árum. Markús var þá
kominn til vaxandi umsvifa í Reykja-
vík og stofnaði árið 1922 vélsmiðjuna
Héðin. Jafnhliða því var Markús
listaverkasafnari. Minnast má að um
sl. helgi voru í smiðju Héðins í Hafn-
arfirði sýnd málverk eftir ýmsa
frumherja íslenskrar myndlistar,
verk sem Markús keypti og voru síð-
ar gefin Listasafni Íslands.
Höfundurinn gefur sjálfur út bók-
ina Í skugga Gaulverjabæjar. Þá er
bókin aðeins seld hjá höfundi – sem
er með netfangið jonmivars@gmail-
.com og síma 861 6678.
Menn sviknir og flegnir að skyrtu
- Fjárkúgun og prettir í Flóa í upphafi 20. aldar - Gaulverjabæjarmál í heimildariti eftir Jón M.
Ívarsson - Björnungar sluppu vel - Fagurgali og fláttskapur - Endurómar við nútímann og hrunið
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Flóinn Gaulverjabær á 21. öldinni. Hér höfðust Björnungar við, kortlögðu
svæðið og heimsóttu þá sem mest áttu undir sér veraldlega. Margir létu
glepjast með undirskriftum og þurftu að gjalda fyrir afar dýru verði.
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Söguritari Öllum brögðum var beitt og sveitir skildar eftir sárum, segir Jón
M. Ívarsson um Gaulverjabæjarmálin sem skóku Flóann fyrir rúmri öld.
Efnt verður til samstöðu við Al-
þingishúsið í hádeginu í dag, á milli
kl. 12 og 13, til þess að krefjast þess
að Julian Assange, stofnandi Wiki-
leaks, verði þegar í stað látinn laus
úr fangelsi í Bretlandi og að fallið
verði frá því að framselja hann til
Bandaríkjanna. Þar yrðu honum
birtar ákærur sem varða fangelsis-
vist til æviloka, segir í tilkynningu
frá aðstandendum viðburðarins.
Á sama tíma og safnast er saman
fyrir framan Alþingishúsið er efnt
til sams konar fundar við breska
þingið í London. „Með þessu móti
eru þingmenn þar og hér hvattir til
að beita sér fyrir því að látið verði
af ofsóknum á hendur Julian Ass-
ange og Wikileaks,“ segir m.a. í til-
kynningunni.
Samstaða í dag til stuðnings Assange
Smáratorgi 1, 201 Kóp., s. 588 6090, vl@verkfaeralagerinn.is
Verkfæralagerinn
Ennþá meira úrval af
listavörum
Listverslun.is
Mán.-fös. kl. 9-18, lau. kl. 10-17, sun. kl. 12-16
Nauthóll
MINNINGARSTUND
Alþjóðlegur dagur tileinkaður missi
á meðgöngu og barnsmissi.
15. OKTÓBER 2022 KL 14:00
Verður líka streymt á Facebook
gleymmereistyrktarfelag