Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.12.2022, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.12.2022, Blaðsíða 6
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.12.2022 VETTVANGUR Stöndum með ljósi og hlýju Jólin eru hátíð ljóssins enda marka þessir köldu og dimmu dagar á norðurhveli jarðar þau tímamót að sólin byrjar sína óhjákvæmilegu sigurgöngu, daginn fer að lengja og eftir að við þreyjum þorra og góu má gera sér vonir um að það fari líka að hlýna. Það er auðvitað engin tilviljun að við skreytum hús okkar með ljósum þessar dimmustu vikur ársins og gerum okkur glaðan dag með vinum og vandamönnum. Árið sem er að líða hefur verið býsna viðburðaríkt. Um síðustu áramót var íslenskt samfélag enn í klakaböndum heimsfaraldursins. Þrátt fyrir að okkur hafi tekist að bólusetja þjóðina með miklum árangri sumarið 2021 var ekki talið óhætt að opna samfélagið fyrr en nokkuð var liðið á þetta ár. En fögnuðurinn yfir þeim tímamótum hefur litast af nýju áhyggjuefni því örlögin höguðu því þannig að daginn eftir að tilkynnt var um afnám allra opinberra sóttvarnaaðgerða á Íslandi bárust hinar hrikalegu fréttir um innrás Rússlands í Úkraínu. Landvinn- ingastríð stórveldis gegn nágrannaríki sínu var hafið í Evrópu. Óskiljanlegt fólskuverk Innrás Rússa í Úkraínu er nánast óskiljanlegt fólskuverk, enda eru innlimunaráform Rússa í hróplegri andstöðu við mikilvægustu reglu alþjóðamála undanfarna áratugi – að landamærum ríkja verði ekki raskað með vopnavaldi. En á bak við innrásina eru ekki einungis stór- veldisdraumar Rússlandsforseta, heldur er innrásin og hugarfarið á bak við hana einnig birtingarmynd átaka sem hafa farið harðnandi á undanförnum árum. Rússlandsfor- seti er eins konar fyrirliði þeirra heimsleiðtoga sem hafa sagt mann- réttindum og frjálslyndum lífsgild- um stríð á hendur. Stjórnmálaöflum sem ala á tortryggni og fordómum hefur víða vaxið fiskur um hrygg, og sums staðar hafa leiðtogar haft lítt duldar stjörnur í augunum gagnvart Pútín og horft án vanþóknunar á hvernig hann hefur smám saman þrengt að frelsi og mannréttindum eigin þegna. En þeir sem ekki gerðu sér grein fyrir hversu hættulegur Pútín er ættu að gera það núna. Þeir sem horfa upp á hinn ógeðfellda stríðsrekstur hans í Úkraínu geta ekki skákað í skjóli vanþekkingar, enda hrannast sönnunargögn um stríðsglæpi og vísvitandi fólskuverk upp. En þó er ástæða til að óttast að þær efnahagslegu þrengingar sem stríðið hefur valdið, og þær fórnir sem mörg lönd í Evrópu hafa fært til að bregðast við, geti kynt undir óvönduðum og tækifæris- sinnuðum afturhaldsöflum. Sums staðar hefur tekist að afvegaleiða umræðuna þannig að lygar og afbakanir rússneskra stjórnvalda og taglhnýtinga þeirra hafa skotið rótum. Af þessum sökum er mikil- vægt að halda uppi vörnum fyrir þá heimsmynd lýðræðis, mann- réttinda og réttarríkis sem reynst hefur svo gifturík þeim þjóðum sem hennar njóta. Sem betur fer er mikil samstaða um þetta hér á landi og í mínum huga er eitt af því sem stendur upp úr á þessu ári hin eindregna pólitíska samstaða sem ríkt hefur um viðbrögð Íslands við innrás Rússa. Stjórnmálaflokk- arnir hafa allir stutt við einarða afstöðu ríkisstjórnarinnar, enda sjá flestir í hendi sér að mikilvægasta hagsmunamál okkar Íslendinga í utanríkismálum er að standa með bandalagsríkjum okkar gegn yfirgangi ríkja sem ekki virða landamæri og lögsögu nágranna- ríkja sinna. Þá blasir einnig við að bandalagsþjóðir okkar í Evrópu hafa fórnað miklu til að bregðast við innrás Rússa og við Íslendingar erum heppin að því leyti að gríðarleg hækkun húshitunarkostn- aðar og orku lend- ir mun mildilegar á okkur en þeim. En við leggjum okkur fram til að leggja okkar lóð á vogarskálar rétts málstaðar hvar sem við getum, með beinum framlögum, þátttöku í refsi- aðgerðum og pólitískum stuðningi. Málstaður ljóssins Þessi rétti málstaður er líka í einhverjum skilningi málstaður ljóssins gegn myrkrinu, hlýjunnar gegn kuldanum. Stríðsrekstur Pútíns hefur undanfarið snúist um að tortíma innviðum Úkraínu þannig að yfir kaldan veturinn verði ótryggt með rafmagn, hita og vatn. Selenskí forseti Úkraínu gerði þetta einmitt að umtalsefni í áhrifaríkri ræðu sinni fyrir banda- ríska þinginu í vikunni. Hann sagði að sums staðar yrði týra frá kert- um eina ljósið á úkraínskum heim- ilum yfir jólin. „En við munum ekki barma okkur. Við dæmum ekki eða berum okkur saman við þau sem eiga auðveldari daga,“ sagði hann og bætti við: „Við munum fagna jólum jafnvel þótt það sé ekkert rafmagn, því ljósið sem er trú á okkur sjálf verður ekki slökkt.“ Ljósið hefur hafið sigurgöngu sína á norðurhveli jarðar og þegar kemur að stöðu Íslands í heimin- um trúi ég því að við höfum tekið okkur skýra og hárrétta stöðu með hinum björtu gildum frjálsræðis, mannréttinda og réttarríkis, og ég trúi að heimsmynd sem byggist á þeim sé bæði eftirsóknarverð og sigurstrangleg. Ég óska lesendum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Úr ólíkum áttum Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir thordiskolbrun@althingi.is Sums staðar hefur tekist að afvegaleiða umræðuna þannig að lygar og afbakanir rússneskra stjórnvalda og taglhnýtinga þeirra hafa skotið rótum. Af þessum sökum er mik- ilvægt að halda uppi vörnum fyrir þá heims- mynd lýðræðis, mann- réttinda og réttarríkis sem reynst hefur svo gifturík þeim þjóðum sem hennar njóta. Fáðu meira út úr eigninni Greenkey sjálfvirknivæðir og hagræðir alla þætti í rekstri gististaða • Hótel og gistiheimili • Íbúðaklasar • Íbúðir • Sumarhús • Síma- þjónustuver og bakvakt • Þrif og þvottur Ármúli 21, Reykjavik • Sími 519 8989 • greenkey.is Alhliða rekstrarþjónusta fyrir gististaði

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.