Borgfirðingabók - 01.12.2009, Qupperneq 12
12 Borgfirðingabók 2009
Guðrún var fædd á Englandi í Lundarreykjadal, en foreldrar
hennar bjuggu víðar, á Írafelli og Vindási í Kjós, í Krýsuvík og á
Vífilsstöðum áður en þau fluttust að Efstabæ í Skorradal árið 1880.
Hún var því alls ekki bundin sömu torfunni öll uppvaxtarárin, enda
fullorðin þegar hún flyst að Efstabæ þó að ættin sé kennd við þann
bæ. Hún þekkti vel til í Reykjavík og hafði verið eitthvað á heimili
Torfa prentara Þorgrímssonar (1828-1893) og konu hans Sigríðar
Þorgrímsdóttur. Minntist hún þess stundum.
Þær systur, dætur Sigurðar Vigfússonar, voru taldar vel að sér til
handanna.Útsaumur með fínu handbragði sem til er eftir Guðrúnu frá
yngri árum sýnir að hún hefur lært til hannyrða, og ágætlega kunni
hún til verka við að breyta ull í fat. Af bóklegri uppfræðslu hennar
fara ekki sögur. En hún hefur haft aðgang að bókum á æskuheimili
sínu og verið flugnæm því að margt kunni hún utanað í bundnu máli
fram á elliár, þar á meðal löng andleg kvæði eftir Hallgrím Pétursson.
Henni virtist lítið förlast minni með aldrinum, hafði á hraðbergi vísur,
þulur og skrýtna kviðlinga sem hæfðu ýmsu tilefni. Bréf sem hún
skrifaði Ingibjörgu systur sinni þóttu skemmtileg.
Guðrún var ekki margmál um barnæsku sína eða nánustu
skyldmenni, en þó duldist ekki að hún dáði mjög Sigurð föður sinn,
og eins minntist hún Jóns eldra, bróður síns, með mikilli virðingu.
En stundum sagði hún sögur af atferli og tilsvörum sérkennilegra
manna sem hún þekkti til í æsku eins og Björns á Þverfelli og Bjarna
á Vatnshorni. Ekki varð þess vart að hún hefði áhuga á ættfræði.
Guðrún var komin á sjötugsaldur þegar við Ása systir fórum að
kynnast henni.
Í endurminningunni sjáum við hana fyrir okkur sitjandi á rúmi sínu
að tæja, kemba, spinna, tvinna eða prjóna. Henni féll aldrei verk úr
hendi – í bókstaflegri merkingu. Innanstokks fékkst hún þegar hér var
komið sögu nær eingöngu við tóskap og skógerð, nær aldrei matseld.
Þó strokkaði hún yfirleitt, eða að minnsta kosti tók af strokknum og
gekk frá smjörinu. Í rauninni var hún hneigðust fyrir útiverk þó að hún
væri fyrir aldurs sakir hætt að stunda þau að staðaldri. Þó fór hún út á
tún – og jafnvel engjar – með hrífuna þegar mikið lá við, alveg fram
á níræðisaldur. Hún var líkamlega afar vel á sig komin, grannvaxin,
bein í baki og létt á fæti, enda með afbrigðum heilsuhraust fram undir
það síðasta. Það helsta sem amaði að henni var að hún átti á köflum
bágt með svefn og sat þá stundum uppi um nætur með prjónana.Hún